Hoppa yfir valmynd

A-416/2012. Úrskurður frá 20. apríl 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 20. apríl 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-416/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 9. janúar 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þá ákvörðun utanríkisráðuneytisins, dags. 5. janúar, að synja beiðni hans, dags. 19. desember 2011, um aðgang að skrá yfir þá muni sem [B] voru bættir eftir að þeir eyðilögðust við flutning til Bandaríkjanna árið 2011.

 

Í kæru kemur fram að aðeins sé beðið um skrá yfir þá muni sem bættir voru, að fjárhæðir í málinu hafi komið fram opinberlega og að fjárhagsstaða umræddra einstaklinga sé þannig kunn og að lokum að það geti aldrei orðið leynilegt hvernig opinberu fé sé varið.

 

Í bréfi utanríkisráðuneytisins þar sem beiðni kæranda er synjað kemur fram að umræddir einstaklingar hafi orðið fyrir altjóni þegar búslóð þeirra eyðilagðist í flutningum. Gögn þau sem beðið sé um séu til þess fallin að veita vísbendingar um eignir og fjárhagsstöðu tiltekinna einstaklinga umfram það sem fyrri málsliður 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 leyfi. Af því leiði að ráðuneytið telji sér skylt að takmarka aðgang að gögnunum.

 

 

Málsmeðferð

Kæran var send utanríkisráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2012, þar sem vísað er til 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. gr. laga nr. 83/2000, og kærða veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 25. janúar. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

 

Kærði svaraði kæru kæranda með bréfi, dags. 20. janúar. Með bréfinu fylgdi bréf lögmanns [B] og [C], sem og samantekt [B] yfir þá muni sem voru í gámnum þegar tjónið varð, auk ljósmynda, verðmats einstakra muna og heildarmats á tjóninu.

 

Er því í upphafi lýst að málið varði synjun um afhendingu gagna varðandi tjón sem hafi orðið á búslóð starfsmanns utanríkisráðuneytisins. Kemur fram að beiðnin lúti að gögnum um eigur starfsmannsins og eiginkonu hans sem verið var að flytja utan vegna starfa starfsmannsins við Sendiráð Íslands. Ráðuneytið hafi frá upphafi litið svo á að óheimilt sé að veita aðgang að gögnunum, enda sé um að ræða gögn er varði einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sbr. ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í bréfinu segir svo orðrétt:

 

„Í umbeðnum gögnum er að finna yfirlit yfir búslóðarmuni [B] og eiginkonu hans ásamt mati á verðmæti hvers hlutar og heildarvirði muna. Afhending gagnanna myndi því fela í sér upplýsingagjöf um eignir og fjárhagsstöðu umræddra einstaklinga, sem gæfi sterkar vísbendingar um heildareignir hjónanna. Auk þess feli gögnin í sér upplýsingar um einkamálefni hjónanna sem varða sérstaklega heimili þeirra.

 

Í tilefni af 2. tölulið í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar dags. 9. janúar sl. vill ráðuneytið taka fram að um heildarbætur til [B] og eiginkonu hans hefur ekki verið upplýst opinberlega né heldur um mat á verðmæti búslóðarinnar. Þær upplýsingar sem birst hafa um umfang tjónsins hafa byggt á tilgátum fjölmiðla með vísan til fjáraukalagabeiðni fjármálaráðuneytisins.“

 

Með bréfi, dags. 23. janúar, var kæranda kynnt umsögn utanríkisráðuneytisins vegna kærunnar. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar til 30. janúar.

 

Með bréfi, dags. 22. janúar, sem barst 24. janúar, bárust athugasemdir kæranda vegna málsins og er í þeim vísað til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ekki bárust frá kæranda athugasemdir við umsögn ráðuneytisins, dags. 20. janúar.

 

Með bréfi, dags. 20. mars, sendi úrskurðarnefndin utanríkisráðuneytinu bréf þar sem óskað var eftir því að send yrðu, í trúnaði, gögn um þá muni sem bættir voru vegna tjónsins og heildarbótafjárhæð, en með fyrra bréfi ráðuneytisins höfðu aðeins fylgt gögn sem stöfuðu frá [B], þ.e. listar og verðmat yfir þá muni sem í gáminum voru.

 

Með tölvupósti, dags. 29. mars, barst úrskurðarnefndinni frá utanríkisráðuneytinu undirrituð tjónskvittun og fullnaðaruppgjör utanríkisráðuneytisins annars vegar og [B] og [C] hins vegar, dags. 14. nóvember 2011. Í gagninu kemur fram að um er að ræða samkomulagsbætur og fullnaðargreiðslu, sem byggð er á fyrirliggjandi gögnum málsins.

 

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að skrá yfir þá muni sem [B] og eiginkonu hans voru bættir, eftir að þeir eyðilögðust við flutning til Bandaríkjanna árið 2011.

 

Meginregla upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum kemur fram í 3. gr. laganna. Sá upplýsingaréttur sem þar er kveðið á um sætir takmörkunum samkvæmt nánari fyrirmælum 4.-6. gr. upplýsingalaga. Í máli þessu reynir á hvort þær upplýsingar sem fram koma í umræddum gögnum teljist upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 5. gr. laganna.

 

Samkvæmt fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það myndi takmarka mjög upplýsingaréttinn ef allar upplýsingar sem snerta einkahagsmuni einstaklinga væru undanþegnar. Er þeirri stefnu fylgt að láta meginregluna um upplýsingarétt taka til slíkra upplýsinga, en með þeim takmörkunum sem gera verður m.a. til að tryggja friðhelgi einkalífs, sbr. 5. gr. Upplýsingarétturinn verður almennt ekki takmarkaður samkvæmt ákvæðinu nema að undangengnu mati stjórnvalds á því hvort hætta sé á að þeir hagsmunir, sem þar eru tilgreindir, skaðist ef upplýsingarnar eru veittar.

 

Í málinu liggur fyrir skrá [B] yfir þá muni sem voru í gámi þeim sem tjón varð á, sem og verðmat hans á umræddum munum og samantekt heildartjóns. Þá liggur fyrir fullnaðaruppgjör utanríkisráðuneytisins vegna tjónsins, þar sem fram kemur sú fjárhæð sem greidd var á grundvelli samkomulags vegna tjónsins. Fjárhæðin tekur mið af þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu um verðmat einstakra hluta og heildartjóni, en þar sem um samkomulagsbætur var að ræða liggur ekki fyrir frekari sundurliðun á þeirri fjárhæð sem greidd var vegna tjónsins, eða eiginlegur listi yfir þá muni sem bættir voru, eins og beiðni kæranda lýtur að. Af gögnum málsins er jafnframt ljóst að sú fjárhæð sem greidd var samkvæmt tjónskvittun er ekki sú sama og kemur fram í gögnum málsins að sé heildarmat [B] á tjóninu sem varð á búslóðinni, en fyrir liggur að einhverjum hlutum í búslóðinni var hægt að bjarga og nýta áfram.

 

Umræddur listi myndar heildaryfirlit yfir búslóð hjónanna, persónulega muni og annað sem tilheyrir heimili fólks. Listanum er skipt upp í tilgreinda flokka:

 

·         Listaverk

·         Húsgögn, húsbúnað og aðra muni

·         Föt, skartgripi og aðra muni

·         Útivistarfatnað og annan búnað

 

Úrskurðarnefnd lítur svo á að upplýsingar um þá muni sem tilgreindir eru í yfirliti starfsmanns Sendiráðs Íslands yfir búslóð hans og verðmat hans á einstökum munum, sem og það samkomulag sem síðar var gert um bætur vegna tjónsins, varði bæði einkahagsmuni og fjárhagsmálefni starfsmannsins og eiginkonu hans og friðhelgi heimilis þeirra. Upplýsingar um alla þá muni sem mynduðu búslóð viðkomandi aðila tengjast mjög náið persónu þeirra, persónulegum óskum og þörfum sem og heimili þeirra í heild, en friðhelgi heimilis er sérstaklega vernduð með 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

 

Markmiði upplýsingalaga um að almenningur geti fengið upplýsingar um ráðstöfun almannafjár getur í þessu tilviki ekki leitt til þess að gengið sé svo langt að heimila birtingu heildarupplýsinga um alla muni búslóðar einstaklinga, en eins og gögn málsins eru framsett kemur ekki til álita að heimila aðgang að hluta þeirra, enda hefur kærandi ekki óskað eftir því að fá upplýsingar um heildargreiðslu vegna tjónsins. Til að unnt yrði að verða við beiðni kæranda yrði að veita honum aðgang að heildarlista yfir búslóð viðkomandi aðila. Úrskurðarnefndin lítur hins vegar svo á, eins og áður segir, að í þessu tilviki sé um að ræða upplýsingar sem eðlilegt sé að leynt fari.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að staðfesta beri synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.

 

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun utanríkisráðuneytisins frá 5. janúar 2012 að synja kæranda, [A], um aðgang að lista yfir þá muni búslóðar starfsmanns utanríkisráðuneytisins sem bættir voru eftir vegna tjóns á þeim við flutning til Bandaríkjanna.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta