Hoppa yfir valmynd

A-429/2012. Úrskurður frá 28. júní 2012

ÚRSKURÐUR

 

 Hinn 28. júní 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-429/2012.

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 23. maí 2011, kærði [A], drátt á svörum frá velferðarráðuneytinu vegna erindis til þess, dags. 12. maí sama ár, þar sem farið var fram á afrit af kaupsamningi milli ráðuneytisins og GlaxoSmithKline ehf. um kaup á Synflorix-bóluefni gegn pneumókokkum, svo og öllum undirliggjandi samningum varðandi málið.

Málsmeðferð

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti velferðarráðuneytinu framkomna kæru með bréfi, dags. 23.  maí 2011. Var athygli ráðuneytisins vakin á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga beri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða má ákvörðun um það hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum. Hefði beiðni kæranda ekki þegar verið afgreidd var því beint til ráðuneytisins að ákvörðun í málinu yrði tekin svo fljótt sem við yrði komið og hún birt kæranda og úrskurðarnefndinni eigi síðar en kl. 16.00 þann 30. maí. Kysi ráðuneytið að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té afrit þeirra, auk þess sem ráðuneytinu var þá gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæru málsins og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sömu tímamarka. Kæranda var sent afrit þessa bréfs.

Þann 26. maí 2011 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svar velferðarráðuneytisins. Þar kom fram að bréf hefði verið sent til kæranda þann 20. maí 2011 þar sem hann hefði verið upplýstur um að beiðni hans væri í vinnslu. Ráðuneytið hefði óskað álits þeirra aðila sem upplýsingarnar vörðuðu um aðgang að þeim. Var óskað frekari frests til þess að verða við erindi úrskurðarnefndarinnar frá 23. maí þar sem fyrirséð væri að svör hlutaðeigandi aðila myndu ekki berast ráðuneytinu fyrir 30. þess mánaðar.

Þann 6. júní 2011 ritaði úrskurðarnefndin velferðarráðuneytinu bréf þar sem þess var óskað að svör bærust nefndinni eigi síðar en 10. sama mánaðar.

Úrskurðarnefndinni barst þann 8. júní afrit af bréfi velferðarráðuneytisins til kæranda, dags. 6. sama mánaðar. Í því kemur fram að ráðuneytið hafi leitað álits landlæknis og Ríkiskaupa um birtingu umbeðinna gagna. Borist hefðu svör þeirra þess efnis að heimilt væri að veita afrit af umbeðnum gögnum. Hjálagt bréfinu fylgdi afrit af rammasamningi nr. 2860 um próteintengd bóluefni gegn pneumókokkum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi, undirritaður 28. apríl 2011.

Af þessu tilefni ritaði kærandi úrskurðarnefndinni bréf, dags. 20. júní 2011. Þar kemur fram að hann hafi fengið afrit nefnds rammasamnings, dags. 28. apríl 2011. Hins vegar hafi hann ekki fengið afrit af öðrum gögnum tengdum þessum samningi, eins og hann hafi óskað eftir í upphaflegri beiðni sinni.

Afrit af bréfi kæranda var sent velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 21. júní, og þess óskað að ráðuneytið tæki afstöðu til þess. Svar barst úrskurðarnefndinni, með bréfi dags. 27. sama mánaðar. Þar kom fram að ráðuneytið gæti ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda um afhendingu frekari gagna vegna umrædds samnings þar sem frekari gögn um málið væru ekki geymd í skjalasafni ráðuneytisins.

Í máli þessu liggja fyrir gögn um það að umrædd beiðni hafi einnig verið til meðferðar hjá landlæknisembættinu, og verið þar afgreidd af sóttvarnarlækni en hann starfar á vegum fyrrnefnds embættis, sbr. 4. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997. Með bréfi sóttvarnarlæknis til kæranda, dags. 29. júní 2011, var honum synjað um aðgang að frekari gögnum málsins. 

 

Niðurstaða

Kæra máls þessa beinist að velferðarráðuneytinu. Samkvæmt framangreindu hefur velferðarráðuneytið þegar afhent kæranda afrit af rammasamningi nr. 2860 um próteintengd bóluefni gegn pneumókokkum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi, undirritaðan 28. apríl 2011. Óumdeilt er að þessi samningur fellur undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum sem beint var til ráðuneytisins 12. maí 2011.

Af hálfu ráðuneytisins hefur einnig komið fram að það geti ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda um afhendingu frekari gagna vegna umrædds samnings þar sem frekari gögn um málið séu ekki geymd í skjalasafni ráðuneytisins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að rengja þessa fullyrðingu ráðuneytisins, en eins og fram er komið hefur annað stjórnvald, landlæknir, tekið beiðni kæranda að því leyti til meðferðar á grundvelli upplýsingalaga.

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera undir úrskurðarnefndina synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum eða afrit þeirra samkvæmt lögunum. Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006.

Af framangreindu leiðir að velferðarráðuneytið hefur afhent kæranda þau gögn sem fyrir liggja í skjalasafni þess og fallið geta undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Kæru þessari ber því að vísa frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

Kæru [A], dags. 23. maí 2011, á hendur velferðarráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Trausti Fannar Valsson
Formaður

 

  Sigurveig Jónsdóttir                                                          Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta