B-438/2012. Úrskurður frá 20. júlí 2012.
ÚRSKURÐUR
Hinn 20. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. B-438/2012:
Málsatvik
Þann 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í máli nr. A-438/2012 í tilefni af kæru [A] vegna þeirrar ákvörðunar Hafnarfjarðarbæjar að synja beiðni kæranda um aðgang að: Í fyrsta lagi skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn 7. desember 2011, og í öðru lagi að yfirliti gagna varðandi endurfjármögnun lána Hafnarfjarðar hjá DEPFA ACS Bank.
Í úrskurðarorði úrskurðar nr. A-438/2012 segir svo: „Hafnarfjarðarbæ ber að afhenda kæranda afrit af skilmálaskjali, dags. 5. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar, DEPFA ACS Bank og FMS Wertmanagement, sem samþykkt var í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 7. desember 2011, með eftirtöldum útstrikunum:
1) Afmá skal hlutfall áætlaðra afborgana undir liðnum „Scheduled amortisation payments“ á bls. 2
2) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche A Margin“ á bls. 2.
3) Afmá skal hlutfall áætlaðrar afborgunar í neðanmálsgrein 2 á bls. 2.
4) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Tranche B Margin“ á bls. 3.
5) Afmá skal hlutfall vaxta undir liðnum „Default Interest“ á bls. 3.
Þeim þætti kærunnar er lýtur að aðgangi að lista yfir gögn varðandi endurfjármögnun tiltekinna lána Hafnarfjarðarbæjar er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa er vísað frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu.“
Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 9. júlí, krafðist [B] hrl. þess fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, að nefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-438/2012 svo unnt væri að höfða mál til ógildingar á úrskurðinum. Var í erindinu vísað til þess að fyrir dómi hygðist Hafnarfjarðarbær bera fyrir sig þær málsástæður og lagarök sem komu fram í umsögn bæjarins um kæruna, dags. 6. mars 2012. Bærinn vilji sýna fram á það fyrir dómi að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekki skýrt þau lagaákvæði sem um ræðir svo sem til megi ætlast, við þær aðstæður sem í málinu séu.
Þá eru einnig í erindinu gerðar athugasemdir við það að viðsemjendum Hafnarfjarðarbæjar hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta réttar síns fyrir nefndinni. Hafnarfjarðarbær telji það ekki fullnægjandi að afstaða viðsemjenda sinna liggi fyrir heldur eigi þeir að fá að rökstyðja hana. Telur bærinn að úr þessum annmarka málsmeðferðarinnar væri hægt að bæta fyrir dómi.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 10. júlí 2012 var [A], sem aðila að úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-438/2012, kynnt fram komin krafa frá Hafnarfjarðarbæ. Jafnframt var [A] gefið færi á að tjá sig um framkomna kröfu.
Andmæli [A] bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 12. júlí 2012. Í bréfinu segir m.a. svo: „Hafnarfjarðarbær hefur þegar fengið tækifæri til að koma fram með sitt sjónarmið, fyrst þegar ég bað um skilmálaskjalið og seinna með umsögn til úrskurðarnefndar. Hér virðist ekki vera ætlun bæjarins að koma fram með ný gögn, sem gætu varpað nýju ljósi á málið. Úrskurðarnefnd hefur þegar farið yfir öll gögn málsins, og komist að sjálfstæðri niðurstöðu.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið kröfur Hafnarfjarðarbæjar og [A] í máli þessu. Einnig hefur nefndin yfirfarið rök málsaðila og þau gögn sem málið lýtur að. Nefndin telur að í málinu liggi fyrir nægar upplýsingar til þess að hún geti tekið afstöðu til þess hvort lagaskilyrði séu til frestunar réttaráhrifa úrskurðar nr. A-438/2012.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál geti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en þremur dögum frá birtingu úrskurðar. Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst innan þessa frests.
Í athugasemdum við umrædda grein í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 50/1996 segir m.a. svo: „Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðum A-78/1999C, A-117/2001B, A-233/2006B, A-277/2008B og A-328B/2010 lagt til grundvallar að með 18. gr. upplýsingalaga hafi fyrst og fremst verið höfð í huga tilvik þar sem í húfi eru tiltölulega mikilvægir hagsmunir, ekki síst hagsmunir einkaaðila, sem gætu verið skertir með óbætanlegum hætti, ef veittur yrði aðgangur að gögnum með upplýsingum um þá, í andstöðu við ákvæði upplýsingalaga eins og þau kynnu síðar að verða skýrð af dómstólum.
Í úrskurði nefndarinnar í máli A-438/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að veita bæri aðgang að hluta skjalsins á þeim grundvelli að þar komi fram upplýsingar sem ekki verði séð að myndu valda samningsaðilum tjóni yrðu þær gerðar opinberar. Hins vegar var fallist á takmörkun á aðgangi að hluta skjalsins með vísan til 5. gr. upplýsinglaga.
Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar frá 5. júlí sl. Ber því að hafna kröfu Hafnarfjarðarbæjar þar að lútandi.
Úrskurðarorð
Kröfu Hafnarfjarðarbæjar, um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar í máli nr. A-438/2012, frá 5. júlí 2012, er hafnað.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson