Hoppa yfir valmynd

A-440/2012. Úrskurður frá 5. júlí 2012

ÚRSKURÐUR

Hinn 5. júlí 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-440/2012.

Kæruefni og málsatvik

Þann 10. maí 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun Tryggingastofnunar ríkisins (TR), dags. 4. apríl, á beiðni kæranda, dags. 21. mars, um aðgang að upplýsingum um fjölda örorkulífeyrisþega og skattskyldar tekjur frá TR í maí og nóvember á árunum 2008-2011, sundurliðað eftir tekjubili.

Í kærunni segir að kærandi telji synjunina efnislega ranga. Í fyrsta lagi eigi þau persónuverndarsjónarmið sem lagt sé upp með í synjun TR ekki við í málinu. Ekkert í beiðni kæranda feli í sér að beðið sé um persónugreinanleg eða einstaklingsbundin gögn.

Í öðru lagi mótmæli kærandi þeirri forsendu TR að til þess að mögulegt sé að afla þessara upplýsinga sé nauðsynlegt að fá upplýst samþykki einstaklinga. Slíkar reglur eigi ekki við í málinu.

Í þriðja lagi mótmælir kærandi því að umbeðin gögn falli ekki undir reglu 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Af upplýsingabeiðninni megi ráða að ekki sé óskað eftir nýjum gögnum, gögnin liggi fyrir. Sambærileg gögn hafi verið tiltæk og veitt áður.

Þá segir að kærandi telji synjunina ekki samræmast þeim grundvallarreglum sem gildi um upplýsingarétt.

Málsmeðferð

Kæran var send Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. maí og veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 21. maí. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

Kærði svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 23. maí. Þar kemur fram sú afstaða kærða að fyrirspurnin varði gögn sem Tryggingastofnun fái frá Ríkisskattstjóra um tekjur örorkulífeyrisþega. Gögnin séu fengin á grundvelli samþykkis lífeyrisþega sem veitt sé með undirskrift hans svo ákvarða megi rétt hans til lífeyris. Tekjuupplýsingarnar séu þannig notaðar til þess að reikna rétt hvers og eins lífeyrisþega en ekki til þess að samkeyra heildartekjur lífeyrisþega og flokka þær. Umrædd gögn séu því ekki fyrirliggjandi, heldur þyrfti stofnunin að vinna þau sérstaklega fyrir kæranda, en stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn vegna beiðni um aðgang að upplýsingum. Sé það því afstaða Tryggingastofnunar að ekki beri að afhenda umbeðnar upplýsingar. Mikil vinna og kostnaður fylgi því að útbúa umrædd skjöl en hér sé um að ræða samkeyrslu mismunandi gagna. Slík keyrsla yrði vandasöm og þung í tölvukerfum stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi sætt stórfelldum hagræðingarkröfum undanfarin ár sem m.a. hafi leitt til fækkunar starfsfólks og hægari þróunar í tölvubúnaði en æskilegt væri. Tryggingastofnun hafi því hvorki mannskap né þann búnað sem þurfi til að vinna upplýsingarnar. Með vísan til þessa telji stofnunin sér ekki fært að vinna umrædd gögn fyrir [A] og þar sem þau liggi ekki fyrir sé ennfremur ekki unnt að senda úrskurðarnefnd afrit þeirra.

Með bréfi, dags. 23. maí, var kæranda sent afrit umsagnar Tryggingastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina frekari athugasemdum vegna kærunnar til 1. júní. Með bréfi, dags. 30. maí, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda.

Í bréfinu er ítrekuð sú afstaða kæranda að gögnin sem um sé beðið liggi fyrir, séu tiltæk og hafi verið tiltæk áður. Þá segir að málið sé komið í þann farveg sem það sé nú í, vegna þess að kærði hafi breytt stjórnsýsluframkvæmd sinni. Grundvöllur þessarar framkvæmdabreytingar Tryggingastofnunar uppfylli ekki kröfur stjórnsýsluréttar um að allar ákvarðanir innan hennar skuli ávallt byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Þessi breyting valdi því að kærandi eigi erfiðara með að sinna sínu hlutverki sem málsvari lífeyrisþega og mótmæli kærandi því að hagræðingarkrafa Tryggingastofnunar geti haft áhrif á upplýsingarétt kæranda. Slíkan rétt sé ekki hægt að þrengja á grundvelli fjárhagslegra sjónarmiða. Þá hafi starfsmönnum Tryggingastofnunar verið ljóst frá upphafi að kærandi hafi verið tilbúinn til að taka þátt í þeim kostnaði sem komi til vegna gagnanna.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni [A] um aðgang að upplýsingum um fjölda örorkulífeyrisþega og skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun í maí og nóvember á árunum 2008-2011, sundurliðað eftir tilteknum tekjubilum. Synjun Tryggingastofnunar byggist á því að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni og að þau þurfi að vinna sérstaklega.

Í beiðni kæranda, dags. 21. maí, um afnot af gögnum Tryggingastofnunar ríkisins, kemur fram nákvæm lýsing á þeim gögnum sem beðið er um. Segir þar orðrétt: „Ekki er óskað eftir upplýsingum um einstakling eða persónugreinanlegum gögnum eða upplýsingum. Ekki er óskað eftir frumgögnum. Eingöngu er óskað eftir upplýsingum þ.e. um fjölda öryrkja með mánaðartekjur á ákveðnu tímabili.“

Af áskilnaði um að beiðni um aðgang að gögnum varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Þá leiðir einnig af 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, að stjórnvöldum er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr. laganna. Skýring úrskurðarnefndarinnar á þessum ákvæðum laganna er sú að réttur til upplýsinga taki einvörðungu til gagna sem fyrir liggi, þegar um þau sé beðið, en leggi ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn sem ekki eru fyrirliggjandi þegar eftir þeim sé leitað.

Af hálfu Tryggingastofnunar er fram komið að upplýsingar þær sem kærandi hefur beðið um liggi ekki fyrir hjá stofnuninni en til þess að svo mætti verða þyrfti að samkeyra gögn sem Tryggingastofnun hafi ekki séð sér fært að gera. Úrskurðarnefnd upplýsingamála telur ekki  ástæðu til þess að draga í efa réttmæti þessarar staðhæfingar. Það að sambærilegar upplýsingar kunni áður að hafa verið aðgengilegar hjá stjórnvaldinu getur ekki breytt niðurstöðu þessari, enda ljóst að beiðni kæranda uppfyllir ekki það skilyrði upplýsingalaga að upplýsingar sem beðið er um liggi fyrir þegar um þær er beðið. Þær virðast hins vegar liggja fyrir í ótilteknum fjölda mála. Ber af framangreindum ástæðum að staðfesta synjun Tryggingastofnunar um aðgang að upplýsingunum.

Úrskurðarorð

Staðfest er synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. apríl 2012, á beiðni [A] um upplýsingar um fjölda örorkulífeyrisþega og skattskyldar tekjur frá stofnuninni í maí og nóvember á árunum 2008-2011, sundurliðað eftir tekjubili.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                  Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta