Hoppa yfir valmynd

A-445/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.

 

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 4. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-445/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með kæru, dags. 29. júní 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun utanríkisráðuneytisins frá 25. júní á beiðni um upplýsingar um heildargreiðslu til starfsmanns ráðuneytisins, [B], vegna tjóns sem hann og eiginkona hans urðu fyrir þegar búslóð þeirra var flutt til Bandaríkjanna vegna starfa [B] fyrir ráðuneytið.

 

Málsmeðferð

Kæran var send utanríkisráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2012. Athugasemdir ráðuneytisins bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 12. júlí. Með bréfinu fylgdi afrit skjals sem ber yfirskriftina „Tjónskvittun og fullnaðaruppgjör“, dags. 14. nóvember 2011. Af bréfi ráðuneytisins má ráða að þetta skjal lúti að beiðni kæranda. Synjun ráðuneytisins byggist á því að þar komi fram upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari í skilningi 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kæranda var kynnt umsögn ráðuneytisins og bárust nefndinni athugasemdir hans við hana með bréfi, dags. 19. júlí 2012.

 

Varamaður Trausta Fannars Valssonar, Símon Sigvaldason, tók sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.

 

Niðurstaða

1.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 20. apríl 2012, í máli A-416/2012 tók úrskurðarnefndin afstöðu til synjunar utanríkisráðuneytisins á að afhenda kæranda skrá yfir þá muni sem [B] og eiginkona hans fengu bætta, eftir að þeir eyðilögðust við flutninga til Bandaríkjanna árið 2011. Í úrskurðinum var ákvörðun ráðuneytisins staðfest. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að nefndin líti svo á að upplýsingar í yfirliti yfir einstaka muni sem tjón varð á og það samkomulag sem síðar var gert um bætur vegna tjónsins, varði bæði einkahagsmuni og fjárhagsmálefni starfsmannsins og eiginkonu hans og friðhelgi heimilis þeirra. Í úrskurðarorði var hins vegar aðeins tekin bein afstaða til aðgangs að lista yfir þá muni í búslóð starfsmannsins sem bættir voru, enda laut kæra þess máls einvörðungu að þeim upplýsingum.

 

2.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr., sbr. einnig 1. mgr. 10. gr. sömu laga. Stjórnvöldum er hins vegar, á grundvelli upplýsingalaga, ekki skylt að taka saman upplýsingar eða útbúa ný skjöl, að öðru leyti en því sem mælt er fyrir um í 7. gr. laganna.

 

Beiðni kæranda lýtur að upplýsingum um heildarkostnað vegna bóta á búslóð [B] og eiginkonu hans. Kærandi á ekki, á grundvelli upplýsingalaga, rétt á slíkum upplýsingum, nema að því leyti sem þær koma fram í fyrirliggjandi gagni hjá utanríkisráðuneytinu og varða tiltekið mál. Með vísan til þessa hefur utanríkisráðuneytið réttilega afmarkað beiðni kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga við það skjal þar sem samkomulag um fullnaðaruppgjör vegna tjónsins kemur fram. Jafnframt er kæru vegna synjunar á aðgangi að þeim upplýsingum sem þar er að finna réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar. Hvort kærandi getur á hinn bóginn átt rétt á að fá þessar upplýsingar, án þess að fá aðgang að skjalinu sjálfu, eða hvort ráðuneytið getur afhent slíkar upplýsingar, er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til.

 

3.

Í fyrri málslið 5. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um það hvenær rétt sé að halda upplýsingum leyndum vegna einkahagsmuna einstaklinga. Ýmsar af þeim upplýsingum sem varða einkahagi einstaklinga eru þess eðlis að almennt ber að telja sanngjarnt og eðlilegt að þær fari leynt í skilningi 1. málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Á það til dæmis við um þær upplýsingar sem skilgreindar eru sem viðkvæmar persónuupplýsingar í 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í ákveðnum tilvikum veltur það hins vegar á heildarmati á þeim upplýsingum sem um ræðir en í slíkum tilvikum verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi einstaklings eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja.

 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið ítarlega yfir það skjal sem utanríkisráðuneytið hefur synjað kæranda um aðgang að. Telur nefndin að upplýsingar sem fram koma í umræddu tjónsuppgjöri varði bæði einkahagsmuni og fjárhagsmálefni starfsmanns utanríkisráðuneytisins og eiginkonu hans og að sanngjarnt sé að þessar upplýsingar fari leynt, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Þar sem þessar upplýsingar eru meginefni skjalsins kemur ekki til álita að leggja fyrir ráðuneytið að afhenda hluta skjalsins með vísan til 7. gr. upplýsingalaga. 

 

Samkvæmt því er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að staðfesta beri synjun utanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.  

 Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun utanríkisráðuneytisins, dags. 25. júní 2012, að synja kæranda, [A], um aðgang að skjalinu „Tjónskvittun og fullnaðaruppgjör“, dags. 14. nóvember 2011.

 

 

 

 

 

Friðgeir Björnsson

varaformaður

 

 

 

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Símon Sigvaldason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta