A-446/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.
ÚRSKURÐUR
Hinn 4. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-446/2012.
Kæruefni og málsatvik
Með kæru, dags. 2. júlí 2012, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál drátt á svörum landlæknis og velferðarráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að afriti af bréfi landlæknis til [B] læknis, þar sem staðfest hafi verið að mál kæranda væri enn til skoðunar.
Málsmeðferð
Kæran var send landlækni og velferðarráðuneytinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2012. Var athygli vakin á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga beri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða megi ákvörðun um það hvort það verði við beiðni um aðgang að gögnum.
Kærði, landlæknisembættið, svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 9. júlí, en í bréfinu segir orðrétt:
„[...]. Þar segir að [A] hafi kært afgreiðslu velferðarráðuneytisins og landlæknis á beiðni hans um aðgang að bréfi landlæknis til [B], læknis, þar sem staðfest sé að tiltekið mál sé enn til skoðunar. Í kærunni sé byggt á því að erindinu hafi ekki verið svarað.
Í málaskrá Embættis landlæknis er ekki skráð beiðni frá [A] um afhendingu afrits bréfs embættisins til [B]. Ekki verður því séð að neitt slíkt erindi sé óafgreitt hjá landlækni.“
Með bréfi, dags. 9. júlí, barst úrskurðarnefndinni afrit bréfs velferðarráðuneytisins til kæranda, en í bréfinu segir orðrétt:
„Vísað er til bréfs úrskurðarnefndar um upplýsingamál til velferðarráðuneytisins dags. 4. júlí sl. Í bréfinu er velferðarráðuneytinu kunngert um kæru þína til nefndarinnar vegna tafa við að veita þér aðgang að ákveðnum upplýsingum þ.e. bréfi því sem vísað er til í efnislínu. Hjálagt er afrit af umbeðnum upplýsingum. Velferðarráðuneytið biðst velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að veita þér áðurnefndan aðgang.“
Með bréfi, dags. 16. júlí, var kæranda kynnt svar velferðarráðuneytisins. Í bréfinu kom fram að teldi kærandi afgreiðslu ráðuneytisins fullnægjandi miðað við beiðni hans væri þess óskað að nefndin yrði upplýst um það eigi síðar en 23. júlí. Þá var kæranda veittur sami frestur til að koma á framfæri öðrum athugasemdum vegna kærunnar eða afgreiðslunnar. Erindið var ítrekað með bréfi 30. júlí. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Varamaður Trausta Fannars Valssonar, Símon Sigvaldason, tók sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.
Niðurstaða
Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun stjórnvalds á að veita aðgang að gögnum eða afrit þeirra samkvæmt lögunum. Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hefur embætti landlæknis aldrei borist beiðni um aðgang að því bréfi sem kæra máls þessa varðar. Þá liggur fyrir að velferðarráðuneytið hefur afhent kæranda þau gögn sem fyrir liggja í skjalasafni þess og falla undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Þar af leiðir að í þessu máli er synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum ekki til að dreifa og ber því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru [A], dags. 2. júlí 2012, á hendur Embætti landlæknis og velferðarráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Friðgeir Björnsson
varaformaður
Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason