A-447/2012. Úrskurður frá 4. október 2012.
ÚRSKURÐUR
Hinn 4. október 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-447/2012.
Kæruefni og málsatvik
Með kæru, dags. 12. júlí 2012, kærði [A] hrl., f.h. [B] hf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun Seðlabanka Íslands, dags. 5. og 20. júní, á að afhenda upplýsingar um það hverjir hefðu fengið senda tilkynningu á svokallaðri RSS-veitu bankans um húsleit Seðlabankans í húsakynnum [B] þann [...], sem og synjun á afhendingu lista yfir þá sem fengu þessa frétt senda með tölvupósti frá bankanum.
Samkvæmt gögnum málsins fór fram húsleit í húsakynnum [B] þann [...] að kröfu gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. Sama dag og húsleitin fór fram mun Seðlabankinn hafa sent út tilkynningu um málið til áskrifenda að svokölluðu „RSS-feed“ (RSS-veitu) bankans. Þá mun sama frétt einnig hafa verið send með tölvupósti á svokallaðan útsendingarlista frétta.
Þann 29. maí óskaði kærandi upplýsinga um það frá Seðlabankanum hverjir það hefðu verið sem fengu umrædda tilkynningu frá bankanum og hvernig hún hafi hljóðað. Svar Seðlabankans við beiðni um útsendingarlista frétta og fleira barst kæranda þann 5. júní 2012, en þar var upplýsingabeiðni hafnað að öðru leyti en því að afrit fréttarinnar kom fram í svarinu, bæði á íslensku og ensku.
Kærandi óskaði þann 11. júní 2012 aftur eftir aðgangi að lista yfir móttakendur vefsendinga RSS-veitu Seðlabanka Íslands. Í erindinu kemur fram að kærandi hafni því að Seðlabankinn geti ekki orðið við upplýsingabeiðninni. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi aflað séu vefsendingar efnisveitna, á borð við RSS-veitu til þeirra IP-talna sem eru áskrifendur veitunnar, vistaðar hjá þjónustuveitu og/eða hýsingaraðila. Samkvæmt því sé Seðlabankanum gerlegt að láta þær upplýsingar í té.
Í umræddu bréfi vísaði kærandi einnig til þess að í fyrra svarbréfi Seðlabankans hafi komið fram að ekki væri hægt að afhenda útsendingarlista frétta þar sem slíkir listar væru einungis teknir saman vegna útsendingar frétta og verði ekki notaðir í öðrum tilgangi. Af þessu leiði að slíkir listar hljóti að vera til, en Seðlabankinn hafni því að afhenda þá. Vísar kærandi sérstaklega til 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem fram komi að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Kærandi lýsir í því sambandi hagsmunum sínum af því að fá aðgang að umræddum upplýsingum
Svar Seðlabankans við þessu erindi barst kæranda með bréfi, dags. 20. júní 2012. Kröfu [B] var þar hafnað með þeim rökum að þagnarskylda hvíli á Seðlabankanum um allt það sem varði hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Þá tók bankinn fram að hann liti svo á að 9. gr. upplýsingalaga ætti ekki við þar sem upplýsingarnar væru ekki um aðilann sjálfan og að [B] hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá umræddar upplýsingar.
Málsmeðferð
Kæran var send Seðlabanka Íslands með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. júlí 2012, til athugasemda. Kærði svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. ágúst, en með bréfinu fylgdi listi yfir 541 tölvupóstfang án frekari upplýsinga.
Í athugasemdum Seðlabanka Íslands kemur fram að í kjölfar húsleitar Seðlabanka Íslands hjá [B] þann [...] hafi bankinn sent út fréttatilkynningu um málið sem hafi m.a. borist til notenda í gegnum RSS-efnisveitu (RSS-feed) bankans.
Segir svo orðrétt:
„Um RSS-efnisveitu
Í kjölfar kæru [B] hf. hefur Seðlabanki Íslands aflað sér frekari upplýsinga um RSS-efnisveitur og möguleika bankans á að verða við kröfum [B] hf. að einhverju eða öllu leyti. RSS-efnisveita er í stuttu máli samantekt á nýjum eða nýlegum upplýsingum á internetinu, t.d. fyrirsagnir frétta, hljóðupptökur, myndbandsupptökur, bloggfærslur o.fl., sem notendum verða aðgengilegar á sérstöku vefsvæði eða í þar til gerðu forriti. Upplýsingum sem berast í gegnum RSS-efnisveitu fylgir yfirleitt tilgreining á höfundi og tímasetningu útgáfu viðkomandi upplýsinga. Það að sækja upplýsingar í gegnum RSS-efnisveitu er að öllu leyti sambærilegt við að sækja upplýsingar á vefsíður, en í stað þess að sækja upplýsingar á fjölda vefsíða hefur notandi komið því svo fyrir, að upplýsingar verða honum aðgengilegar í forriti eða á sérstöku vefsvæði sem notandinn getur stillt upp í samræmi við sína notkun. Þegar vefnotendur kjósa að nýta sér RSS-efnisveitu þurfa þeir ekki að gefa upp neinar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, ekki frekar en þegar þeir sækja upplýsingar á aðrar vefsíður.
Seðlabanki Íslands hefur aldrei safnað persónugreindum eða persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við heimsóknir á vef bankans. Bankinn hefur því ekki upplýsingar um það hvaða IP tölur eru að heimsækja vefinn og því síður um það hvaða aðilar fá upplýsingar af honum í gegnum RSS-efnisveituna. Bankinn heldur enn fremur ekki tölfræði um það hvaðan notendur RSS-efnisveitu bankans koma, þ.e. frá hvaða landi þeir eru. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að bankanum er ómögulegt að verða við kröfum [B] hf., og einnig óskum nefndarinnar, eftir orðanna hljóðan, um afhendingu gagna varðandi RSS-efnisveituna. Það hvort þjónustuaðilar séu almennt að safna slíkum upplýsingum er bankanum ekki kunnugt um, en bankinn hefur einfaldlega engar forsendur til að ætla að svo sé, og getur heldur ekki svarað fyrir þá aðila.
Útsendingarlisti frétta
Að því er varðar útsendingarlista frétta vill Seðlabanki Íslands taka eftirfarandi fram í tengslum við efnisatriði í kæru [B] hf. og málsástæður kærunnar.
Í fyrsta lagi hvílir rík þagnarskylda á starfsmönnum Seðlabanka Íslands um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða til lögreglu eða skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Útsendingarlisti frétta eru upplýsingar sem varða málefni bankans og teljast því ekki til opinberra upplýsinga. Slíkar upplýsingar eru háðar þagnarskyldu nema úrskurður dómara eða lagaboð geri bankanum skylt að láta þær af hendi. Ljóst er að slíkt á ekki við í fyrirliggjandi máli.
Í öðru lagi áttar Seðlabanki Íslands sig ekki á tilvísun í kæru [B] hf. til 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en í ákvæðinu segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í ákvæðinu er þannig áskilnaður um að umbeðin gögn geymi upplýsingar um þann aðila sem eftir þeim óskar. Samkvæmt orðanna hljóðan er því ljóst að 1. mgr. 9. gr. laganna á eingöngu við þegar gögn hafa að geyma upplýsingar sem varða aðila sérstaklega. Útsendingarlisti frétta hefur ekki að geyma neinar upplýsingar um félagið og varðar það ekki sérstaklega. Sú staðreynd að ofangreind fréttatilkynning hafi snúið að málefnum félagsins hefur hér ekkert gildi enda hvorki deilt um efni hennar né form.
Ef úrskurðarnefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að 1. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1996 eigi við í fyrirliggjandi máli telur Seðlabanki Íslands allt að einu, að 3. mgr. sama ákvæðis takmarki heimildir til aðgangs að útsendingarlista frétta. Er það vegna þess sjónarmiðs, að aðgangur að gögnum skuli takmarkaður ef gögn hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með takmörkun þyngra. Seðlabanki Íslands telur að ganga verði út frá því sem vísu, að einhverjir eða allir þeir sem hafa skráð sig af eigin frumkvæði, og án nokkurrar aðkomu Seðlabanka Íslands, á útsendingarlista frétta, hafi ekki hugsað sér að upplýsingar um það yrðu veittar þriðja aðila. Þá má telja að persónuvernd hefði sitt hvað við það að athuga, ef slíkar upplýsingar væru látnar af hendi án heimildar hennar. Komi því til þess að úrskurðarnefndin telji einnig að 1. mgr. 9. gr. laganna eigi formlega séð við í máli þessu, telur Seðlabanki Íslands að 3. mgr. sömu greinar takmarki aðgang, þar eð hagsmunir þeirra aðila sem eru á útsendingarlista frétta vegi þyngra en hagsmunir félagsins af því að fá aðgang að umræddum lista.
Í þriðja lagi er ljóst að fjölmiðlar höfðu þegar birt fréttir um þær aðgerðir Seðlabanka Íslands sem mál þetta snýst um, þegar fréttatilkynning um málið var birt á vef bankans og send þeim aðilum sem eru á útsendingarlista frétta, en sú útsending átti sér stað kl. 11:00 þann daginn. Af þeirri ástæðu er ljóst að í tilkynningu bankans um málið fólust engar nýjar upplýsingar sem höfðu ekki þegar verið gerðar opinberar.
Þrátt fyrir ofangreint getur Seðlabanki Íslands komið til móts við [B] hf., og upplýst um það, að á útsendingarlista frétta eru 541 tölvupóstfang, án frekari upplýsinga, sem skiptist þannig að tæplega 78% þeirra eru með .is endingu en rúmlega 22% eru með annars konar endingu.
Niðurlag
Seðlabanka Íslands er ekki kleift að verða við kröfu [B] hf. um afhendingu upplýsinga um RSS-efnisveitu þá sem vefnotendur geta nýtt sér í gegnum vef bankans. Að sama skapi getur bankinn ekki orðið við beiðni nefndarinnar um afhendingu upplýsinganna í trúnaði. Þá telur Seðlabanki Íslands að hafna beri kröfu [B] hf. um að bankanum verði gert að veita félaginu upplýsingar um útsendingarlista frétta, þar eð slíkar upplýsingar eru háðar þagnarskyldu.“
Með bréfi, dags. 22. ágúst, var kæranda kynnt umsögn Seðlabanka Íslands. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar til 7. september. Engar athugasemdir bárust.
Varamaður Trausta Fannars Valssonar, Símon Sigvaldason, tók sæti hans í nefndinni við meðferð og úrskurð máls þessa.
Niðurstaða
1.
Eins og rakið hefur verið lýtur mál þetta að synjun Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um aðgang að listum yfir þá sem fengu senda frétt Seðlabankans um húsleit í húsakynnum [B] sem fram fór [...], annað hvort í gegnum sérstaka RSS-veitu Seðlabanka Íslands eða með tölvupósti.
2.
Í athugasemdum Seðlabanka Íslands kemur fram að ómögulegt sé að afhenda upplýsingar um móttakendur vefsendinga RSS-veitu bankans, þar sem þær liggi ekki fyrir hjá bankanum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér eiginleika RSS-efnisveita og fengið nánari skýringar hjá forstöðumanni upplýsingatækniþjónustu Seðlabanka Íslands. Af þeim upplýsingum er ljóst að efni frá RSS-efnisveitu er ekki sent með tölvupósti, áskrifendur þurfa ekki að gefa upp tilteknar upplýsingar og Seðlabanki Íslands safnar ekki persónugreinanlegum upplýsingum í tengslum við RSS-efnisveitu. Með vísan til þess hefur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að draga í efa þá staðhæfingu að ekki sé unnt að afhenda umrædd gögn.
Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að kæra synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, þ.e. fyrirliggjandi gögnum, undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Sama gildir um synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þau gögn sem kærandi hefur óskað eftir liggja ekki fyrir hjá Seðlabankanum. Ekki verður á grundvelli upplýsingalaga lagt á bankann að leita þessara upplýsinga hjá mögulegum netþjónustuveitendum í því skyni að taka þær saman til afhendingar til kæranda. Með vísan til þess ber að vísa frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál þeim hluta kæru málsins sem snýr að aðgangi að upplýsingum um móttakendur vefsendinga RSS-veitu bankans.
3.
Kærandi hefur óskað eftir útsendingarlista frétta hjá Seðlabanka Íslands. Af því tilefni hefur bankinn afhent nefndinni lista yfir 541 tölvupóstföng sem fellur að mati bankans undir beiðni kæranda.
Með 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er almenningi tryggður aðgangur að gögnum sem varða tiltekið mál sem er eða hefur verið til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. og 1. mgr. 10. gr. laganna. Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál verður meðal annars dregin sú ályktun að lögin feli ekki í sér rétt til að óska eftir aðgangi að gögnum í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili. Af sama áskilnaði leiðir að lögin veita heldur ekki rétt til að krefjast aðgangs að upplýsingum sem einvörðungu er að finna í skrám eða gagnagrunnum stjórnvalda, en ekki í fyrirliggjandi gögnum í tilgreindum málum.
Ósk kæranda lýtur að því að fá aðgang að upplýsingum sem safnað hefur verið af hálfu kærða með kerfisbundnum hætti, einvörðungu til útsendingar frétta en ekki til afgreiðslu eða meðferðar tiltekinna mála. Ekki verður séð að beiðni kæranda lúti að fyrirliggjandi gögnum sem unnin hafa verið upp úr þeirri skrá sem um ræðir og orðið hafa hluti sérstaks, tilgreinds máls. Telur úrskurðarnefndin því að beiðni kæranda feli í sér beiðni um aðgang að skrá en ekki að gögnum tilgreinds máls sem er eða hefur verið til vinnslu hjá kærða.
Eins og að framan segir er heimilt samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum, þ.e. gögnum tiltekins máls, eða synjun stjórnvalds um að veita ljósrit af skjölum eða afrit af öðrum gögnum. Þar sem beiðni kæranda lýtur að upplýsingum úr skrá fullnægir hún ekki þessu skilyrði. Synjun um aðgang að skrá verður ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Sérstök kæruheimild til nefndarinnar samkvæmt ákvæðum annarra laga er heldur ekki fyrir hendi í máli þessu. Kæru máls þessa að því er varðar synjun Seðlabanka Íslands á að afhenda kæranda afrit af útsendingarlista frétta verður því að vísa frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru [B], dags. 12. júlí 2012, á hendur Seðlabanka Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Friðgeir Björnsson
varaformaður
Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason