Hoppa yfir valmynd

A-467/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012.

ÚRSKURÐUR
 

Hinn 28. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-467/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Þann 7. júní 2012 kærði [A] hdl., f.h. [B] ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu stjórnvalda á beiðni hans, dags. 28. febrúar, þar sem óskað var eftir upplýsingum um nýtt fyrirkomulag á byrjunaruppboðum hjá sýslumannsembættunum.

 

Af gögnum málsins verður ráðið að upphafleg beiðni kæranda, dags. 28. febrúar, hafi beinst að innanríkisráðuneytinu. Í henni var gerð sú krafa að ráðuneytið veitti honum allar nauðsynlegar upplýsingar um nýtt fyrirkomulag á netauglýsingum byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættum. Með bréfi, dags. 3. maí 2012, tilkynnti innanríkisráðuneytið kæranda að umbeðin gögn lægju ekki fyrir hjá ráðuneytinu og að erindi kæranda hefði verið framsent til sýslumannsins í Bolungarvík.

 

Í kæru er tilgreint að embætti sýslumannsins í Bolungarvík hafi ekki svarað hinu framsenda erindi. Telur kærandi að í þessu felist óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er í kærunni gerð sú krafa að „innanríkisráðuneytið, sýslumannsembættið í Bolungarvík, Fasteignaskrá og/eða hvert það annað embætti sem hefur átt aðkomu að breyttu fyrirkomulagi á auglýsingum á byrjunaruppboðum hjá sýslumannsembættum, veiti kæranda allar upplýsingar um nýtt fyrirkomulag á netauglýsingum byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættunum“.

 

Í kærunni segir ennfremur að þær upplýsingar sem kærandi geri kröfu um séu nánar tiltekið:

1. Aðgangur að veflausn sýslumanna, sem heldur utan um byrjunaruppboð sýslumannsembætta, skráningu þeirra og auglýsingu.

2. Aðgangur að núverandi og fyrirhuguðum verkferlum við skráningu eigna, sem fara eiga á byrjunaruppboð.

3. Afrit af samskiptum á milli sýslumannsembætta, ráðuneyta og annarra stofnana um [C]  verkefnið og núverandi fyrirkomulag veflausnar sýslumannsembætta um auglýsingar á byrjunaruppboðum og afrit af öllum ákvörðunum stjórnvalda sem teknar hafa verið í því sambandi.

4. Aðgangur að öllum vinnuskjölum og upplýsingum hins opinbera um veflausn sýslumannsembætta, einkum:

a) um það hvaða þjónusta eigi að vera í boði fyrir sýslumenn og fagaðila,

b) hvernig uppfærslur á veflausninni eigi að fara fram, í samræmi við þarfir og við lög og reglugerðir,

c) hvort að til standi að gera áskriftarkerfi fyrir notendur,

d) hvernig uppsetning á upplýsingakerfi veflausnarinnar sé, þ.e. kerfi um meðhöndlun upplýsinga og flokkunarkerfi og

e) hvernig uppsetning og fyrirkomulag sé á upplýsingum sýslumannsembætta sem flokkast í gagnagrunn sýslumannsembætta.

 

Í kæru málsins er aðdraganda þess lýst svo að á árinu 2010 hafi dómsmálaráðuneytið og Fasteignaskrá haft samskipti við kæranda (félagið var þá nefnt [C]), um hönnun og gerð á veflausn (þ.e. tölvuforriti notuðu í gegnum vefsíðu á Internetinu), tengdri uppboðsmálum á fasta- og lausafjármunum, hjá sýslumannsembættum landsins. Í tengslum við þá beiðni hafi kærandi hafið vinnu fyrir ráðuneytið við gerð á slíkri lausn og útbúið verkferla, hönnun á skjámyndum og uppsetningu á umbeðinni veflausn.

 

Fulltrúar kæranda hafi átt fundi með fulltrúa dómsmálaráðuneytisins til að kynna hugmyndir að veflausn sinni og síðan fulltrúa Fasteignaskrár til að ræða tæknilegar útfærslur á veflausninni. Forsvarsmenn kæranda hafi haldið kynningu á veflausn sinni, sem nefndist [C], fyrir fulltrúum sýslumannsembætta, forsætisráðuneytisins, Fasteignaskrár og dómsmálaráðuneytisins. Í kjölfarið hafi farið fram frekari vinna og þróun á umræddri veflausn um auglýsingar á uppboðum sýslumanna. Kærandi hafi ítrekað haft samband við ráðuneytið í lok árs 2010 og byrjun árs 2011 varðandi verkefnið, greiðslur fyrir unnin verk og meðferð trúnaðargagna kæranda sem fulltrúum hins opinbera höfðu verið látin í té, en engin svör hafi borist. Það hafi svo verið á fundi með fulltrúum innanríkisráðuneytisins þann 28. júlí 2011 að ráðuneytisstjóra hafi verið gert ljóst að semja þyrfti um greiðslur til kæranda fyrir þá vinnu sem hann innt hafi verið af hendi fyrir ráðuneytið og að ráðuneytinu hafi ekki verið heimilt að hagnýta sér trúnaðargögn eða hugverk kæranda með nokkrum hætti. Engin niðurstaða hafi orðið af fundinum og engin formleg viðbrögð komið frá ráðuneytinu.

 

Í september 2011 hafi kærandi orðið var við það að sýslumannsembættið í Bolungarvík hafi sent frá sér tilkynningu, þar sem tilkynnt hafi verið um birtingu á netinu á auglýsingu sýslumanna um uppboð, þar sem veflausn kæranda hafi verið lýst í meginatriðum og því fjárhagslega hagræði sem fælist í þessari framkvæmd. Kærandi hafi svo orðið var við tilkynningu sýslumannsins í Bolungarvík, dags. 14. október 2011, um að auglýsingar á byrjun uppboða skyldu fara fram á netinu á vef sýslumanna www.naudungarsolur.is. Í kærunni kemur fram að kærandi telji einsýnt að innanríkisráðuneytið, tölvustarfsmenn Fasteignamats og Þjóðskrár, og eins sýslumannsembættin, hafi hagnýtt sér kynningarefni, upplýsingar og tölvulausnir kæranda við kynningu á [C] og skrifað veflausn sem sé með sama hætti og [C], í heild eða að hluta. Bendir kærandi ennfremur á, að teknu tilliti til þess að öll samskipti hans í tengslum við [C] veflausnina hafi verið við dómsmálaráðuneytið og Fasteignaskrá (nú innanríkisráðuneytið), að ótrúverðugt sé að ráðuneytið búi ekki yfir neinum upplýsingum eða gögnum um mál þetta.

 

Málsmeðferð

Kæran var send innanríkisráðuneytinu og sýslumanninum í Bolungarvík með bréfum úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2012.

 

Í bréfi til sýslumannsins í Bolungarvík var sérstaklega tekið fram að samkvæmt 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 bæri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða mætti ákvörðun um það hvort það yrði við beiðni um aðgang að gögnum. Ennfremur skyldi skýra þeim sem færi fram á aðgang að gögnum frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar væri að vænta, hefði beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar.

 

Með bréfi dags. 25. júní svaraði sýslumaðurinn í Bolungarvík erindi úrskurðarnefndarinnar. Með bréfinu fylgdu neðantalin gögn, en embættið sendi afrit bréfsins og afrit gagna jafnframt til kæranda.

 

1.      Samningur dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsins í Bolungarvík, dags. 8. janúar 2008.

2.      Bréf sýslumannsins í Bolungarvík til innanríkisráðuneytisins, dags. 5. ágúst 2009.

3.      Útprentun auglýsingar úr Morgunblaðinu laugardaginn 7. nóvember 2009.

4.      Bréf innanríkisráðuneytisins til Sýslumannafélags Íslands, dags. 12. maí 2011, með afriti til sýslumannsins í Bolungarvík.

5.      Drög að verklags- og viðmiðunarreglum fyrir starfsmenn sýslumannsembætta við auglýsingar uppboða á vef sýslumanna, ásamt útprentun tölvupósts til allra sýslumanna, dags. 25. ágúst 2011, en þau voru send með sem viðhengi.

6.      Leiðbeiningar [D] fyrir starfsmenn embættisins við innsetningu á texta auglýsinga um uppboð.

 

Í umsögn sýslumannsins segir orðrétt:

 

„Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki verður séð að embættið hafi nein þau gögn undir höndum sem skipt geta máli í þessu sambandi. Á hinn bóginn telst rétt að leitast við að greina í sem stystu máli frá aðdraganda þess að farið var að birta auglýsingar um uppboð sem sýslumenn halda á vef sýslumanna og hvernig að því er staðið, enda átti embættið (undirritaður) að því nokkurt frumkvæði sem umsjónarmaður vefs sýslumanna eins og nánar verður rakið.“

 

Í umsögn sýslumannsins er svo rakinn aðdragandi þess að embættið hafi tekið að sér að hafa umsjón með vef sýslumanna á slóðinni www.syslumenn.is. Þá kemur fram að embættið hafi séð nauðsyn til að skapa vettvang á netinu þar sem flestir gætu með góðu móti nálgast og þannig séð auglýsingar um uppboð sem til stæði að halda. Í þessu ljósi og einnig í ljósi mikils kostnaðar við auglýsingar uppboða í dagblöðum og héraðsfréttablöðum, ekki síst auglýsinga um byrjun uppboða á fasteignum, sem stöðugt hafi farið fjölgandi, hafi þótt rétt að leitast við að koma á nýju fyrirkomulagi. Því hafi embættið sent dómsmálaráðuneytinu bréf, dags. 5. ágúst 2009, þar sem þessar hugmyndir hafi verið kynntar.

 

Af hálfu embættisins hafi verið gerð tilraun með birtingu auglýsinga í Morgunblaðinu, um byrjun uppboðs á nokkrum fasteignum sem dagsettar voru 6. nóvember 2009 og birtar daginn eftir.

 
Þessi birtingarmáti hafi ekki sætt athugasemdum frá öðrum en dómsmálaráðuneytinu sem hafi talið rétt að viðhafa ítrustu varúð. Nokkur tími hafi liðið áður en önnur tilraun hafi verið gerð með þennan birtingarmáta þar sem rétt hafi þótt að kanna sem best hvort ekki teldist öruggt að hann stæðist lög. Hafi m.a. verið leitað til réttarfarsnefndar og Persónuverndar. Þar sem ekki hafi komið fram neinar vísbendingar um annað en að þessi birtingarmáti væri í hvívetna í samræmi við lög, hafi af hálfu stjórnar Sýslumannafélags Íslands verið mjög hvatt til að sýslumenn almennt hæfu að nýta sér þennan birtingarmáta, og eins innanríkisráðuneytið, til að stuðla að því að hann mætti ná fram að ganga sem fyrst. Nokkur embætti hafi í kjölfarið farið að birta auglýsingar sínar á vef sýslumanna, jafnhliða auglýsingum í dagblöðum. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. maí 2011, hafi loks verið ákveðið að þessi birtingarmáti skyldi tekinn upp sem meginregla frá og með 1. september það ár og um leið hafi verið hætt að auglýsa byrjun uppboða í dagblöðum. Hafi embætti sýslumannsins í Bolungarvík verið falið að annast að koma hinum nýja birtingarmáta í kring og að gefa út verklagsreglur í tengslum við hann. Með lögum um breytingu á lögum um nauðungarsölu o.fl., sem samþykkt hafi verið á Alþingi 19. júní 2012, hafi þessi birtingarmáti auglýsinga verið í lög leiddur.

 

Í umsögninni er svo farið yfir ferli auglýsinga um nauðungarsölur og birtingu þeirra á vef sýslumanna.

 

Um þær upplýsingar sem kærandi óskar eftir í kæru kemur eftirfarandi orðrétt fram í umsögn embættisins:  

 

„1. Aðgangur að veflausn sýslumanna, sem heldur utan um byrjunaruppboð sýslumannsembætta, skráningu þeirra og auglýsingu. 

Svar: Af hálfu embættisins eru engar athugasemdir gerðar við að krefjandi fái aðgang að tölvukerfi embættisins eða tölvum  annars embættis sem eru  nær krefjanda ef óskað verður og það samþykkt af viðkomandi sýslumanni eða aðgang þeim tölvukerfum [D] þar sem þessar upplýsingar eða veflausn kann að vera að finna svo fremi að [D] samþykki það fyrir sitt leyti. Eins og áður segir er ekki um ýkja margbrotið kerfi eða fyrirkomulag að ræða.

 

2. Aðgangur að núverandi og fyrirhuguðum verkferlum við skráningu eigna, sem fara eiga á byrjunaruppboð. 

Svar:  Sjá svar við númer 1 og því sem nefnt er hér að framan.

 

3. Afrit af samskiptum á milli sýslumannsembætta, ráðuneyta og annarra stofnana um [C] verkefnið og núverandi fyrirkomulag veflausnar sýslumannsembætta um auglýsingar á byrjunaruppboðum og afrit af öllum ákvörðunum stjórnvalda sem teknar hafa verið í því sambandi. 

Svar: Embættið hefur ekki undir höndum gögn sem tengjast fyrri lið spurningarinnar og önnur gögn hafa þegar verið talin upp og fylgja bréfi þessu.

 

4. Aðgangur að öllum vinnuskjölum og upplýsingum hins opinbera um veflausn sýslumannsembætta, einkum:

a. Um það hvaða þjónusta á að vera í boði fyrir sýslumenn og fagaðila,

Svar: sjá svar við lið 3.

b. hvernig uppfærslur á veflausninni eiga að fara fram, í samræmi við þarfir og við lög og reglugerðir,

Svar: Ekkert hefur verið ákveðið í þessu sambandi svo undirrituðum sé kunnugt en eftir því sem best er vitað eru uppi hugmyndir um gerð nýs forrits fyrir uppboðsmál, sem væntanlega verður unnið af starfsmönnum Þjóðskrár Íslands.

c.  hvort til standi að gera áskriftarkerfi fyrir notendur,

Svar:  Nei, ekki svo vitað sé.

d.  hvernig uppsetning er á upplýsingakerfi veflausnarinnar, þ.e. kerfi um meðhöndlun upplýsinga og flokkunarkerfi og  

Svar: Sjá svar við lið 1

e. hvernig uppsetning og fyrirkomulag er á upplýsingum sýslumannsembætta sem flokkast í gagnagrunn sýslumannsembætta.

Svar: Sjá umfjöllun framar í þessum kafla.“   

 

Þá kemur fram að samskipti embættisins og fulltrúa eða starfsmanna fyrirtækisins [B]  ehf. hafi engin verið. Hafi embættinu verið ókunnugt um þá fundi sem hafi farið fram og nefndir hafi verið, og ekki séð þau gögn sem þar hafi verið kynnt fyrr en í ágúst 2011 að embættið hafi haft af því fréttir að [B] teldi á hlut sinn gengið.

 

Svar innanríkisráðuneytisins í tilefni af ofangreindu barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 27. júní. Þar kom fram að ráðuneytið hafi enga stjórnvaldsákvörðun tekið í málinu, þ.e. hvorki orðið við eða synjað beiðni um aðgang að gögnum. Í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ráðuneytið framsent erindið til sýslumannsins í Bolungarvík til þóknanlegrar meðferðar.

 

Með bréfi dags. 26. júní var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar til 10. júlí. Fresturinn var síðar framlengdur til 24. ágúst. Með bréfi sem barst 23. ágúst kom kærandi á framfæri eftirfarandi athugasemdum sínum.

 

Segir þar að það sé afstaða kæranda að svör innanríkisráðuneytisins og sýslumannsins í Bolungarvík teljist ófullnægjandi.

 

Varðandi afstöðu sýslumannsins í Bolungarvík til beiðni kæranda um aðgang að gögnum segir svo orðrétt: „Sýslumaðurinn í Bolungarvík gerir engar athugasemdir við það að kærandi fái aðgang að tölvukerfi embættisins eða tölvum annarra sýslumannsembætta, ef viðkomandi sýslumannsembætti samþykki það og veflausn [D], ef að [D] ehf. samþykkir það fyrir sitt leyti. Þannig fellst sýslumaðurinn í Bolungarvík á að verða við kröfum kæranda skv. liðum 1, 2. og 4.d., hvað varðar þau gögn eða veflausn sem hann hefur í sínum fórum. Kærandi óskar eftir því að slíkur aðgangur verði veittur kæranda svo fljótt sem verða má, auk þess sem að kæranda verði veittur aðgangur að fyrri útgáfum af umræddri veflausn, til að sjá hvaða breytingar hafa verið gerðar á henni sl. ár.

 

[...]

 

Hvað varðar svör við kröfu kæranda um upplýsingar skv. liðum 3., 4.a., 4.b. og 4.c., þá kveðst sýslumaðurinn í Bolungarvík ekki hafa slíkar upplýsingar í sínum fórum. Kærandi telur víst að slíkar upplýsingar og gögn, séu geymd hjá viðkomandi sýslumannsembætti og öðrum embættum. Samskipti kæranda við hlutaðeigandi opinbera aðila, sem sannanlega hljóta að vera skjöluð og geymd í skjalageymslum viðkomandi embætta og kærandi krefst þess að fá aðgang að. Framlögð gögn með kæru kæranda til ÚuU, sanna tilvist umbeðinna gagna og upplýsinga og ekkert í gögnum málsins styður meinta aðkomu umrædds sýslumannsembættisins í Bolungarvík.“

 

Segir svo að kærandi telji yfirgnæfandi líkur á að innanríkisráðuneytið (áður dómsmálaráðuneytið), Fasteignaskrá, forsætisráðuneytið, fulltrúar sýslumannsembætta o.fl. opinberir aðilar, hafi í vörslum sínum gögn og upplýsingar í málinu er tengist kæruefni málsins. Kærandi gerir þær kröfur að úrskurðarnefndin beiti valdheimildum sínum og afli gagna og upplýsinga um kæruefnið frá öllum ofangreindum embættum. Líkur séu á því að embættin leyni gögnum og ættu valdheimildir nefndarinnar, sem og aðferðir við umrædda upplýsingaöflun að taka mið af því.

 

Úrskurðarnefndinni barst á ný bréf frá kæranda, dags. 18. október. Þar fer hann fram á að nefndin staðfesti formlega hvort innanríkisráðuneytinu hafi verið gefinn kostur á að bregðast við athugasemdum kæranda, dags. 23. ágúst, og hvort því hafi verið veittur frestur til andsvara í því sambandi. Í bréfinu kemur fram að kærandi telji það ranga frásögn ráðuneytisins að engin samskiptasaga sé fyrirliggjandi um málið hjá ráðuneytinu og er í því sambandi vísað til gagna sem fylgdu með kæru málsins. Þá segir í bréfinu að kærandi telji það vera skýrt hlutverk úrskurðarnefndarinnar að aðstoða við öflun upplýsinga samkvæmt kæru til nefndarinnar, enda sé rökstuddur grunur um að upplýsingarnar séu fyrirliggjandi. Það sé skilningur kæranda að úrskurðarnefndin eigi að beita sér í því að veittur sé aðgangur að umbeðnum upplýsingum. Fram kemur að kærandi geri þær kröfur að úrskurðarnefndin beiti valdheimildum sínum m.t.t. málshraðareglu stjórnsýsluréttar og afli sem fyrst upplýsinga um kæruefnið frá tilteknum embættum samkvæmt netfangalista sem fram komi í bréfinu. Segir að líkur séu á því að embættin leyni gögnum og að valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eigi að taka mið af því.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál til innanríkisráðuneytisins, dags. 29. október 2012, var óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess sem fram kom í bréfi kæranda, dags. 18. október. Með tölvupósti nefndarinnar til lögmanns kæranda, dags. 29. október, var jafnframt áréttað að aðeins væri hægt að beina málum til nefndarinnar þar sem synjað hafi verið um aðgang að gögnum, sbr. 14. gr. upplýsingalaga. Þannig yrði að liggja fyrir beiðni til stjórnvalds um gögn svo unnt væri að kæra, hvort sem um væri að ræða synjun eða drátt á svörum. Í tölvupósti kæranda til nefndarinnar, dags. 30. október, segir að kæra málsins snúi að innanríkisráðuneytinu og langvarandi drætti á svörum frá ráðuneytinu.

 

Svarbréf innanríkisráðuneytisins við ofangreindu erindi úrskurðarnefndar um upplýsingamál er dags. 31. október. Þar ítrekar ráðuneytið að það hafi ekki umbeðnar upplýsingar undir höndum enda hafi undirbúningur og vinnsla hins nýja fyrirkomulags við auglýsingar á nauðungarsölum verið á hendi sýslumannsins í Bolungarvík sem jafnframt hafi verið ábyrgðaraðili og umsjónarmaður vefs sýslumanna. Vísaði ráðuneytið jafnframt til greinargerðar sýslumannsins í Bolungarvík, dags. 25. júní. Úrskurðarnefndinni barst á ný bréf frá innanríkisráðuneytinu, dags. 19. nóvember, þar sem segir að vegna erindis kæranda, dags. 18. október, sé tekið fram að því hafi ekki verið haldið fram af ráðuneytinu að engin samskiptasaga sé fyrir hendi á milli þess og kæranda. Ráðuneytinu hafi hins vegar ekki borist nein beiðni frá kæranda um aðgang að samskiptum hans sjálfs við ráðuneytið enda megi gera ráð fyrir því að kærandi hafi þau sjálfur undir höndum. Eðli málsins samkvæmt hafi ráðuneytið þar af leiðandi ekki synjað slíkri beiðni. Kærandi hafi að mati ráðuneytisins aðeins óskað eftir upplýsingum um tæknilega útfærslu á fyrirkomulagi netauglýsinga byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættum. Eins og áður hafi komið fram hafi undirbúningur og vinnsla hins nýja fyrirkomulags við auglýsingar á nauðungarsölum verið á hendi sýslumannsins í Bolungarvík sem jafnframt sé ábyrgðaraðili og umsjónarmaður vefs sýslumanna. Hafi ráðuneytið enga aðkomu haft að ákvörðun um tæknilega útfærslu kerfisins né hafi það upplýsingar þar að lútandi undir höndum. Hafi beiðni kæranda, dags. 28. febrúar 2012, því réttilega verið framsend embætti sýslumannsins í Bolungarvík til afgreiðslu.

 

Með bréfi, dags. 20. nóvember, var kærandi upplýstur um framkomin bréf innanríkisráðuneytisins og veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna þeirra.

 

Með tölvupósti, dags. 5. desember, bárust athugasemdir kæranda. Segir þar að kærandi mótmæli því að beiðni hans um aðgang að gögnum, dags. 28. febrúar 2012, hafi verið afmörkuð með þeim hætti sem haldið sé fram af hálfu ráðuneytisins. Kærandi hafi óskað eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum um hið nýja fyrirkomulag á netauglýsingum byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættum, en ekki aðeins upplýsingum um tæknilega útfærslu. Ráðuneytið neiti að hafa undir höndum gögn um samskiptasögu sína við aðra aðila/embætti vegna kæruefnis málsins en þau gögn sem er kæran lúti að séu samskipti ráðuneytisins við Fasteignaskrá, Fasteignamat ríkisins, Þjóðskrá,  kæranda, sýslumanninn í Bolungarvík og stærstu sýslumannsembætti landsins, sér í lagi embættin í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi sem m.a. hafi setið samráðsfund ráðuneytisins um málið í júní 2010. Þessi gögn hljóti að vera í skjalasafni ráðneytisins.

 

Í umræddum tölvupósti kæranda er tekið fram að kæra málsins lúti einvörðungu að innanríkisráðuneytinu.  Með tölvupósti frá kæranda, dags. 18. desember 2012, er áréttað að hann haldi jafnframt fast við kæru á hendur sýslumanninum í Bolungarvík.

 

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 

Niðurstaða

1.

Í kæru málsins krafðist kærandi þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skipaði svo fyrir að innanríkisráðuneytið, sýslumannsembættið í Bolungarvík, Fasteignaskrá og/eða hvert það annað embætti sem hefði átt aðkomu að breyttu fyrirkomulagi á auglýsingum á byrjunaruppboðum hjá sýslumannsembættum, veitti honum allar upplýsingar um nýtt fyrirkomulag á netauglýsingum byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættunum.

 

Eins og rakið hefur verið hér að framan, og fram kemur í tölvupóstum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. og 18. desember 2012, hefur kærandi afmarkað kæruna svo að svo að hún beinist að innanríkisráðuneytinu annars vegar og embætti sýslumannsins í Bolungarvík hins vegar, en ekki öðrum stjórnvöldum sem tilgreind eru í upphaflegri kæru málsins.

 

2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 segir m.a.: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Réttur til aðgangs að gögnum tekur þannig til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr.  og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 161/2006. Af áskilnaði um að beiðni um aðgang varði tiltekið mál leiðir að lögin veita ekki rétt til að krefjast aðgangs að upplýsingum sem einvörðungu er að finna í skrám eða gagnagrunnum stjórnvalda, en ekki í fyrirliggjandi gögnum í tilgreindum málum.

 

Samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera undir úrskurðarnefndina synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum eða afrit þeirra samkvæmt lögunum. Eðli málsins samkvæmt verður synjun stjórnvalds ekki kærð nema fyrir liggi beiðni sem synjað hefur verið um eða sem ekki hefur verið svarað innan eðlilegra tímamarka, sbr. 11. gr. upplýsingalaga og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

3.

Innanríkisráðuneytið hefur í bréfi til sýslumannsins í Bolungarvík, dags. 3. maí, þegar beiðni kæranda um aðgang að gögnum var framsend, upplýst að það hafi ekki fyrirliggjandi þau gögn eða upplýsingar sem óskað er aðgangs að í beiðni, dags. 28. febrúar 2012. Í bréfi ráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 27. júní, 31. október og 19. nóvember, er ítrekuð sú afstaða ráðuneytisins að það hafi ekki fyrirliggjandi þau gögn sem kæra málsins beinist að. Af skýringum ráðuneytisins í málinu verður ekki annað ráðið en þessi afstaða byggist á því að beiðni kæranda lúti einvörðungu að upplýsingum um tæknilega útfærslu á fyrirkomulagi netauglýsinga byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættum.

 

Af þessu tilefni bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að upphafleg beiðni kæranda um aðgang að gögnum laut að því að ráðuneytið afhenti honum allar nauðsynlegar upplýsingar um nýtt fyrirkomulag á netauglýsingum byrjunaruppboða hjá sýslumannsembættum. Af þessu er ljóst að beiðni kæranda lýtur að fleiri þáttum málsins en aðeins því hvað var ákveðið um tæknilega útfærslu á netauglýsingum vegna uppboða. Jafnframt verður að telja augljóst af aðdraganda beiðninnar og öðrum gögnum málsins að hún lýtur m.a. að því að fá afhent gögn um samskipti milli ráðuneytisins og kæranda um gerð veflausnar um uppboðskerfi, og um samskipti ráðuneytisins við aðrar stofnanir af því tilefni og í tengslum við það málefni sem um ræðir, m.a. um það af hverju ákveðið var að byggja ekki á þeirri veflausn sem kærandi segir að hann hafi verið byrjaður að hanna í þágu stjórnvalda.

 

Með vísan til framangreinds var afgreiðsla ráðuneytisins á beiðni kæranda, dags. 28. febrúar, ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996. Ber því að vísa beiðni kæranda frá 28. febrúar 2012 til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu ráðuneytisins á grundvelli upplýsingalaga.

 

4.

Sýslumaðurinn í Bolungarvík svaraði erindi úrskurðarnefndar um upplýsingamál í tilefni af þeirri kæru sem hér er til meðferðar með bréfi, dags. 25. júní 2012. Afrit þess bréfs og afrit gagna sendi hann jafnframt til kæranda. Ber að líta svo á að embættið hafi með þessu, fyrir sitt leyti, afgreitt beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Eins og leiðir af því sem áður hefur verið rakið, leiðir þetta ekki til þess að innanríkisráðuneytinu hafi ekki borið að svara erindi kæranda að því leyti sem það laut að gögnum sem það hefur eða kann að hafa undir höndum.

 

Eins og einnig hefur verið rakið hér að framan, kemur í kæru málsins fram nánari tilgreining á þeim gögnum sem kærandi óskar aðgangs að heldur en fram kom í upphaflegri beiðni hans dags. 28. febrúar 2012. Af svörum sýslumannsins í Bolungarvík er ljóst að hann hefur svarað erindi kæranda með hliðsjón af þessari nánari tilgreiningu.

 

Í fyrsta tölulið í afmörkun þeirra gagna sem kærandi óskar aðgangs að, sbr. kæru hans dags. 7. júní 2012, er óskað eftir aðgangi að veflausn sýslumanna, sem heldur utan um byrjunaruppboð sýslumannsembætta, skráningu þeirra og auglýsingu. Ekki er ágreiningur við sýslumanninn í Bolungarvík um aðgang að þessum gögnum sem hefur í umsögn, dags. 25. júní, tekið fram að engar athugasemdir séu gerðar við það að kærandi fái aðgang að tölvukerfi embættisins. Þar af leiðir að í þessu máli er synjun stjórnvaldsins á aðgangi að gögnum ekki til að dreifa. Ber því að vísa þessum hluta kæru málsins frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Í öðrum tölulið í afmörkun gagna, sbr. framangreint, óskar kærandi eftir aðgangi að núverandi og fyrirhuguðum verkferlum við skráningu eigna sem fara eigi á byrjunaruppboð. Í umsögn sýslumannsins, dags. 25. júní, kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við að kærandi fái aðgang að tölvukerfi embættisins. Umsögninni fylgdi einnig afrit af drögum að verklags- og viðmiðunarreglum fyrir starfsmenn sýslumannsembætta við auglýsingar uppboða á vef sýslumanna, ásamt tengdum gögnum. Sýslumaðurinn í Bolungarvík hefur því orðið við beiðni kæranda að því leyti sem gögn sem undir hana falla eru fyrirliggjandi hjá embættinu. Ber því að vísa þessum hluta af kæru málsins frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Í þriðja tölulið í afmörkun gagna, sbr. framangreint, óskar kærandi eftir afriti af samskiptum milli sýslumannsembætta, ráðuneyta og annarra stofnana um [C] verkefnið og núverandi fyrirkomulag veflausnarinnar, auk afrits af öllum ákvörðunum stjórnvalda sem teknar hafa verið í því sambandi. Í svari sýslumannsins (umsögn) kemur annars vegar fram að embættið hafi ekki undir höndum gögn sem tengist fyrri lið spurningarinnar, þ.e. um afrit af samskiptum varðandi [C] verkefnið. Um síðari lið spurningarinnar vísar sýslumaðurinn til þess að þau gögn sem um ræði fylgi umsögninni í afriti, eða hafi þegar verið upp talin í svörum við spurningum eitt eða  tvö. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að draga þessa fullyrðingu sýslumannsins í efa. Með vísan til þessa verður að telja að sýslumaðurinn í Bolungarvík hafi þegar orðið við þessum þætti í beiðni kæranda og afhent þau gögn málsins sem eru fyrirliggjandi hjá  embættinu. Ber því að vísa þessum hluta af kæru málsins frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Fjórði töluliðurinn í afmörkun gagna skiptist í fimm stafliði. Fer kærandi þar fram á aðgang að öllum vinnuskjölum og upplýsingum hins opinbera um veflausn sýslumannsembætta, en þó einkum (a) um það hvaða þjónusta eigi að vera í boði fyrir sýslumenn og fagaðila, (b) hvernig uppfærslur á veflausninni eigi að fara fram, (c) hvort til standi að hafa áskriftarkerfi fyrir notendur, (d) hvernig uppsetning sé á upplýsingakerfi veflausnarinnar og svo (e) hvernig uppsetning og fyrirkomulag sé á upplýsingum sýslumannsembætta sem flokkist í gagnagrunn sýslumannsembætta.

 

Öllum þessum stafliðum svarar sýslumaðurinn í Bolungarvík í umsögn sinni í tilefni af kæru málsins, annaðhvort með tilvísun til fyrri svara eða með almennum útskýringum.

 

Í tilefni af síðastgreindum tölulið í kæru málsins, þ.e. tölul. 4, sem skiptist í stafliði (a) til (e) tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að þessi liður kærunnar virðist annars vegar lúta að því að veittur sé aðgangur að vinnuskjölum eða öðrum fyrirliggjandi gögnum sem falli undir töluliðinn, en hins vegar að veittar séu almennar upplýsingar eða skýringar um hin tilgreindu atriði. Með vísan til þess sem fram er komið í tölul. 2 í þessum kafla úrskurðarins ber að vísa frá þeim hluta kærunnar sem lýtur almennt að því að fá frá kærða upplýsingar sem ekki eru fyrirliggjandi í gögnum tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 5071996. Hvað varðar aðgang að vinnuskjölum þar sem tilgreindar upplýsingar koma fram verður svar sýslumannsins í Bolungarvík ekki skilið öðru vísi en svo, að þau gögn sem fallið geti undir þennan lið kærunnar og séu fyrirliggjandi hjá embættinu, hafi þegar verið afhent kæranda. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að rengja þá fullyrðingu embættisins. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á aðgangi að fyrirliggjandi gögnum. Ber því einnig að vísa þessum þætti kærunnar frá úrskurðarnefndinni.

 

5.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að afgreiðsla innanríkisráðuneytisins á beiðni kæranda, dags. 28. febrúar, hafi ekki verið í samræmi við ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996. Er beiðni kæranda því vísað til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu ráðuneytisins á grundvelli upplýsingalaga. Tekið skal fram að telji kærandi að ný afgreiðsla ráðuneytisins á beiðni hans sé ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga getur hann kært hina nýju ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt almennum reglum upplýsingalaga.

 

Það er jafnframt niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Sýslumaðurinn í Bolungarvík hafi þegar afhent kæranda þau gögn sem falla undir beiðni hans og fyrirliggjandi eru hjá embættinu. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun þess stjórnvalds á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kæru málsins á hendur Sýslumanninum í Bolungarvík er því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

Innanríkisráðuneytinu ber að taka fyrir á ný til lögmætrar afgreiðslu beiðni kæranda, [B] ehf., dags. 28. febrúar 2012, um aðgang að gögnum.

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru [B] ehf. frá 7. júní 2012 á hendur Sýslumanninum í Bolungarvík.

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                                                                  Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta