A-468/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012
ÚRSKURÐUR
Hinn 28. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-468/2012.
Kæruefni og málsatvik
Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 5. september 2012, kærði [A], hdl., f.h. [B] ehf., synjun kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa á beiðni um aðgang að tilgreindum gögnum í máli kærunefndarinnar nr. M-36/2011. Nánar tiltekið er kærð synjun á aðgangi að gögnum um samskipti kærunefndarinnar við sérfróðan aðila, samþykki ráðherra fyrir því að sérfræðingur yrði kvaddur til við afgreiðslu málsins og afrit álitsgerðar sérfræðingsins til nefndarinnar.
Samkvæmt gögnum málsins fór eigandi bifreiðar fram á álit kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa á réttarstöðu sinni gagnvart [B] hf. í mars 2011. Álit nefndarinnar af því tilefni í máli nr. M-36/2011 var gefið út 24. janúar 2012. Þann 9. mars sama ár fór kærandi, [B] hf., fram á aðgang að gögnum málsins sem hann hafði þá ekki fengið aðgang að. Byggðist beiðnin á ákvæði 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi kærunefndarinnar, dags. 7. ágúst 2012, var þessari beiðni synjað með vísan til þess að um vinnugögn væri að ræða. Kærandi ítrekaði þá beiðni sína með erindi, dags. 8. ágúst. Kærði, kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa, synjaði upplýsingabeiðninni á ný með bréfi, dags. 4. september. Það er sú synjun sem kærð er í máli þessu, sbr. ofangreinda kæru, dags. 5. september 2012.
Málsmeðferð
Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa var kynnt framkomin kæra með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 7. september 2012. Umsögn kærunefndarinnar barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 17. september. Þar er ítrekuð sú afstaða nefndarinnar, sem áður hafði komið fram í svörum hennar til kæranda, að þrátt fyrir að álit kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa séu ekki bindandi fyrir málsaðila og teljist þar með ekki til ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá komi fram í reglugerð nr. 766/2006 að um meðferð mála fyrir nefndinni skuli fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaganna, sé þar ekki kveðið á um annað. Þrátt fyrir að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki almennt um álit sem stjórnvöld gefi, eins og kærunefndin, þá leiði af þessu að um rétt til aðgangs að gögnum fyrir nefndinni fari eftir 15. gr. stjórnsýslulaganna. Vísar kærunefndin einnig til þess að samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 gildi upplýsingalög ekki um rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um rétt til aðgangs að gögnum á grundvelli þeirra laga séu því ekki kæranlegar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Sú staða sé fyrir hendi í máli þessu og beri því að vísa kæru málsins frá úrskurðarnefndinni.
Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa tekur einnig fram í skýringum sínum að nefndin hafi afhent kæranda öll önnur gögn málsins en vinnuskjöl, sem hún telji sér ekki skylt að afhenda honum. Sá misskilningur virðist hins vegar fyrir hendi, að kærandi hafi gefið sér að í málinu liggi fyrir skrifleg álitsgerð sérfróðs manns vegna máls kærunefndarinnar nr. M-36/2011, sem kærunefndin hafi síðan ranglega álitið vinnuskjal. Bendir nefndin á að álitsgerða frá sérfróðum aðilum sé að jafnaði aflað munnlega og því sé ekki neinum gögnum um slíkar álitsgerðir til að dreifa, umfram vinnugögn sem tekin séu saman af hálfu nefndarinnar. Þá áréttar kærunefndin að hún líti svo á að aðili máls eigi rétt á því samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kynna sér öll gögn málsins, með þeim takmörkunum sem greinir í 16. og 17. gr. þeirra sömu laga.
Athugasemdir kæranda við framangreinda umsögn kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi dags. 28. september 2011. Þar kemur fram að þrátt fyrir að óumdeilt sé að ákvæði stjórnsýslulaganna eigi við um málsmeðferð fyrir kærunefndinni þá geti kærandi ekki fallist á að upplýsingaréttur hans falli ekki undir upplýsingalög nr. 50/1996.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa starfar á grundvelli laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Í þessum lögum er m.a. mælt fyrir um að ráðherra skuli setja reglugerð um starfsemi nefndarinnar. Vísast hér m.a. til 4. mgr. 99. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. 1. gr. laga nr. 87/2006, með síðari breytingum, en þar segir svo: „Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um valdsvið og verkefni kærunefndar, málsmeðferðarreglur fyrir nefndinni og störf hennar að öðru leyti.“
Á grundvelli ákvæða í nefndum lögum, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 50/2000, með síðari breytingum, hefur ráðherra sett reglugerð nr. 766/2006 um starfsemi nefndarinnar. Í 10. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að stjórnsýslulög nr. 37/1993 skuli gilda um málsmeðferð fyrir kærunefndinni, að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í reglugerðinni sjálfri.
Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa gefur álit um réttarstöðu málsaðila á grundvelli framangreindra lagaákvæða. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gilda þau lög þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Stjórnsýslulögin gilda því almennt ekki þegar stjórnvöld kveða upp óbindandi álit, eins og við á í tilviki kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa. Á grundvelli sérstakra lagaheimilda, sbr. framangreint, hefur ráðherra hins vegar ákveðið að um málsmeðferð fyrir kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa skuli fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaganna. Af því leiðir, enda er ekki öðru vísi ákveðið í reglugerð nr. 766/2006, að um rétt málsaðila til aðgangs að gögnum fyrir nefndinni fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. 15. til 17. gr. þeirra laga.
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er kveðið á um að þau lög gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Í skýringum við ákvæði þetta í frumvarpi sem varð að upplýsingalögum er tekið fram að eðlilegt sé, til þess að taka af allan vafa, að upplýsingalög gildi ekki um slíkan aðgang.
Með vísan til þess að upplýsingaréttur málsaðila á grundvelli stjórnsýslulaga er ríkari en réttur til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga verður að telja að ráðherra hafi verið heimilt, á grundvelli áðurgreindra lagaheimilda, að kveða á um að réttur málsaðila til aðgangs að gögnum fyrir kærunefnd um lausafjár- og þjónustukaup færi eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Af því leiðir, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, að málsaðili getur ekki byggt rétt til aðgangs að gögnum máls á ákvæðum þeirra laga.
Í 14. gr. upplýsingalaga kemur fram að undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál er hægt að bera ágreining um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga. Undir úrskurðarnefndina verður hins vegar ekki borinn ágreiningur um aðgang að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af framangreindu leiðir að um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum hjá kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa fer eftir 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Slíkur ágreiningur verður ekki borinn undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Er því óhjákvæmilegt annað en að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð
Vísað er frá kæru [A] hdl, f.h. [B] ehf., dags. 5. september 2012, vegna synjunar kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa á afhendingu gagna.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson