A-469/2012. Úrskurður frá 28. desember 2012
ÚRSKURÐUR
Hinn 28. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-469/2012.
Kæruefni og málavextir
Með bréfi, dags. 16. október 2012, kærði [A] synjun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 16. september 2012, á beiðni um aðgang að „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011.“
Málsmeðferð
Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. október, var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu send kæra málsins til athugasemda. Með bréfi, dags. 29. október, bárust athugasemdir embættisins. Þar kemur fram að umrædd samantekt hafi verið unnin í þeim tilgangi að hafa á einum stað allar þær upplýsingar sem lögreglan hefði undir höndum varðandi mótmæli sem brutust út eftir bankahrunið haustið 2008. Gögnin séu fyrst og fremst unnin upp úr skráningum í málaskrá og dagbók lögreglu auk viðtala við einstaka lögreglumenn vegna tiltekinna aðgerða og aðkomu að þeim.
Í athugasemdum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er synjun á aðgangi að umbeðnu gagni rökstudd með vísan til 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, en þar segir að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Þessi regla eigi við í þessu tilviki en umbeðin samantekt geymi ítarlegar upplýsingar úr málaskrá, þar á meðal upplýsingar um afskipti lögreglunnar af nafngreindum einstaklingum, handtökur og kærur fyrir refsiverða háttsemi. Segir einnig í athugasemdunum að mælt sé fyrir um aðgang að gögnum hjá lögreglu í reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Þar komi fram að miklar takmarkanir séu á miðlun persónuupplýsinga úr skrám lögreglu en slíkum upplýsingum verði aðeins miðlað til stjórnvalda eða einkaaðila samkvæmt samþykki hins skráða, lagaheimild, heimild Persónuverndar eða ef miðlun upplýsinga er nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu. Ekkert af því eigi við í þessu tilviki og því sé beiðninni hafnað.
Umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var send kæranda til athugasemda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. nóvember. Með tölvupósti, dags. 9. nóvember, bárust athugasemdir kæranda en í þeim er því mótmælt að 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 eigi við í málinu, enda sé skýrt að ekki sé um að ræða rannsókn eða saksókn sakamáls. Þvert á móti sé um að ræða samantekt upplýsinga sem lögreglan hafi haft undir höndum varðandi mótmæli almennings á löngu tímabili. Slík samantekt geti ekki, eðli málsins samkvæmt, fallið undir málaskrá lögreglu, sbr. reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
1.
Sú skýrsla eða samantekt sem óskað er aðgangs að í umræddu máli er rúmar 270 blaðsíður að lengd. Í fyrstu tveimur köflum samantektarinnar, aftur að blaðsíðu 10, er fjallað almennt um tilurð samantektarinnar og skipulag lögreglunnar vegna mótmæla eða óeirða. Frá og með blaðsíðu 10 og aftur að blaðsíðu 270 er hins vegar fjallað sérstaklega um afmörkuð mótmæli og skipulag og aðgerðir vegna þeirra. Í þessum samantektum er iðulega vikið að einstökum persónum, lögreglumönnum eða þeim sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af og eftir atvikum er einnig fjallað um það hvort tilteknir einstaklingar voru teknir höndum, ákærðir eða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi.
2.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 gilda lögin ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur byggt á því í málinu, með vísan til þessa ákvæðis, að kærandi eigi ekki rétt á aðgangi að umbeðnu gagni samkvæmt upplýsingalögum.
Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að í tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga felst ekki að upplýsingalög taki ekki almennt til upplýsinga um starfsemi lögreglu og ákæruvalds. Þvert á móti gilda upplýsingalög um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, og þar á meðal stjórnsýslu á vegum lögreglunnar. Það er aðeins í þeim tilvikum þegar um er að ræða gögn sem tilheyra tilteknu máli sem er til rannsóknar eða saksóknar á grundvelli laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að ákvæði 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga leiða til þess að upplýsingalög eigi ekki við.
Umbeðin samantekt geymir upplýsingar um verklag lögreglunnar og upplýsingar úr fjölda mála sem augljóst er að hafa verið til rannsóknar eða annarrar meðferðar hjá lögreglu, og ákæruvaldi eftir atvikum, sem sakamál. Ekki verður hins vegar séð að samantektin sjálf sé gagn í tilteknu máli sem er eða hefur verið til meðferðar sem sakamál í framangreindum skilningi. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þá afstöðu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að ákvæði 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga leiði til þess að kærandi eigi ekki rétt á aðgangi að umbeðnu gagni á grundvelli þeirra laga.
3.
Í skýringum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í málinu hefur jafnframt verið vísað til þess að í málinu eigi við ákvæði reglugerðar nr. 322/2001, um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Samkvæmt þeirri reglugerð sé miðlun persónuupplýsinga til annarra aðeins heimil á grundvelli samþykkis hins skráða, lagaheimildar, heimildar Persónuverndar eða ef miðlun upplýsinganna væri nauðsynleg til að koma í veg fyrir alvarlega og aðsteðjandi hættu. Ekkert af þessum heimildum sé fyrir hendi í málinu og því óheimilt að afhenda samantektina til kæranda.
Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að upplýsingalög nr. 50/1996 geta falið í sér lagaheimild til miðlunar persónuupplýsinga, sbr. framangreint, ef skylt er að láta af hendi gögn á grundvelli þeirra laga. Minnt skal á að í 2. mgr. 44. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 segir að þau lög takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fellst því ekki á að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að umbeðnu gagni einvörðungu á þeim grundvelli að þar væri að finna upplýsingar sem falli undir nefnda reglugerð. Með vísan til þeirrar beiðni sem fyrir lá bar ennfremur að taka til þess afstöðu hvort lagaheimild til afhendingar umbeðins gagns væri að finna í upplýsingalögum nr. 50/1996, og þá eftir atvikum hvort synjun á aðgangi að því yrði byggð á ákvæðum þeirra laga.
4.
Með vísan til framangreinds verður ekki séð að Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi með ákvörðun sinni 16. september 2012, afgreitt beiðni kæranda á réttum lagagrundvelli. Úr þessu hefur ekki verið bætt í skýringum Lögreglustjórans til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í þessu ljósi, og með vísan til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur ekki fullyrt að í umbeðnu gagni sé ekki að finna upplýsingar sem eðlilegt og rétt sé að leynt fari með hliðsjón af einkahagsmunum eða almannahagsmunum, sbr. 5. og 6. gr. upplýsingalaga, er óhjákvæmilegt annað en að vísa málinu heim til nýrrar og lögmætrar afgreiðslu Lögreglustjórans í Reykjavík.
Úrskurðarorð
Beiðni [A], dags. 15. september 2012, er vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.
Trausti Fannar Valsson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson