Hoppa yfir valmynd

A-477/2013. Úrskurður frá 12. apríl 2013

ÚRSKURÐUR


Hinn 12. apríl 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-477/2013.

Kæruefni og málsatvik
Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 12. febrúar 2013, kærði [A] afgreiðslu Barnaverndar Reykjavíkur á beiðni um aðgang að öllum gögnum er varða mál ólögráða dóttur hennar hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Í kærunni segir að ítrekað hafi verið óskað eftir aðgangi að öllum gögnum sem málið varða með litlum sem engum árangri.

Málsmeðferð

Barnavernd Reykjavíkur var kynnt framkomin kæra með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 13. febrúar 2013. Umsögn Barnaverndar Reykjavíkur barst úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 21. febrúar.

Í umsögninni kemur fram að kærandi sé aðili að málinu sem unnið hafi verið á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kærandi hafi því í samræmi við 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fengið fyrir hvern fund Barnaverndar Reykjavíkur aðgang að öllum gögnum sem málið varða og komu til álita við úrlausn þess fyrir nefndinni.

Þá segir jafnframt að kærandi hafi fengið aðgang að gögnum málsins með bréfum, dags. 3. júlí 2008, 22. febrúar 2011, 12. maí 2011 og 22. nóvember 2012. Síðan þá hafi engin afskipti verið af málefnum dóttur kæranda á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 og því séu engin ný gögn í málinu.

Barnavernd Reykjavíkur telur þannig að öll gögn málsins sem varða barnaverndarafskipti af dóttur ákæranda hafi verið afhent.

Kærði krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Teljist afgreiðsla Barnaverndar Reykjavíkur fela í sér synjun á aðgangi að upplýsingum gildi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barnarverndarlaga nr. 80/2002 um kæruleið. Heimilt sé að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kæra málsins lúti ekki að synjun stjórnvalds um aðgang að gögnum skv. upplýsingalögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, og skorti því kæruheimild.

Athugasemdir kæranda við framangreinda umsögn Barnaverndar Reykjavíkur bárust úrskurðarnefnd um upplýsingamál með tölvupósti dags. 12. mars 2013. Þar kemur fram að ekki standist að hún hafi fengið aðgang að öllum gögnum sem málið varði og komi til álita við úrlausn þess hjá nefndinni fyrir hvern fund. Aðeins hluti af gögnum málsins hafi verið aðgengilegur.
Kærandi bendir á að sér hafi ekki verið fært að tilgreina nákvæmlega hvaða gögn vanti þar sem ekki liggi fyrir yfirlit yfir þau gögn sem málið varði, samkvæmt uppýsingum frá starfsmanni Barnarverndar Reykjavíkur.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.  

Niðurstaða

Mál þetta varðar aðgang kæranda að öllum gögnum er varða mál dóttur hennar hjá Barnavernd Reykjavíkur. Af hálfu kærða er gerð krafa um frávísun málsins eða staðfestingu synjunar.

Barnavernd Reykjavíkur starfar á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í 38. gr. laganna kemur fram að um könnun barnaverndarmáls og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd gilda ákvæði stjórnsýslulaga með þeim frávikum sem greinir í lögunum.

Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er kveðið á um að þau lög gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Í skýringum við ákvæði þetta í frumvarpi sem varð að upplýsingalögum er tekið fram að eðlilegt sé, til þess að taka af allan vafa, að upplýsingalög gildi ekki um slíkan aðgang. Þegar aðili máls óskar aðgangs að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu í máli hans fer um aðgang að þeim samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaganna, en þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði. Kemur því fyrst til skoðunar hvort kærandi máls þessa njóti upplýsingaréttar sem aðili að stjórnsýslumáli þar sem hún er móðir ólögráða barns sem gögnin lúta að.
Í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að með foreldrum sé að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns. Þar sem kærandi er forráðamaður dóttur sinnar verður að líta svo á að hún hafi átt aðild að stjórnsýslumáli því sem gögn þau sem hér eru til skoðunar lúta að og fer því um aðgang hennar að þeim gögnum eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í 20. gr. upplýsingalaga kemur fram að undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sé hægt að bera ágreining um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga. Undir úrskurðarnefndina verður hins vegar ekki borinn ágreiningur um aðgang að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af framangreindu leiðir að um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum hjá Barnavernd Reykjavíkur fer eftir 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Slíkur ágreiningur verður ekki borinn undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.


Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [A], dags. 12. febrúar 2013, vegna afgreiðslu Barnaverndar Reykjavíkur á beiðni um afhendingu gagna.




Hafsteinn Þór Hauksson
formaður





                                                Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta