B-474/2013. Úrskurður frá 25. júní 2013
ÚRSKURÐUR
Hinn 25. júní 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. B-474/2013 í máli ÚNU 13020001.
Málsatvik
Þann 31. janúar 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. A-474/2013 í tilefni af kæru [A] á þeirri ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 8. júní 2012, að synja beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum „vegna lánasamninga sem bærinn gerði fyrir hönd bæjarbúa við Depfa banka“.
Í úrskurðarorði úrskurðar nr. A-474/2012 segir svo: „Hafnarfjarðarbæ ber að afhenda kæranda afrit af lánssamningi, dags. 15. desember 2011, milli Hafnarfjarðarbæjar og FMS Wertmanagement, með eftirtöldum útstrikunum:
1) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir skilgreiningu á „Margin“ á bls. 6.
2) Afmá skal prósentuhlutfall vaxta undir liðnum „Repayment Instalment“ í ákvæði 6.1. á bls. 16.
3) Afmá skal prósentuhlutfall sem fram kemur í ákvæði 7.3.5. á bls. 17.
4) Afmá skal prósentuhlutfall dráttarvaxta sem fram kemur í ákvæði 9.3.1.
Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðar þessa er vísað frá úrskurðarnefndinni að svo stöddu“.
Með bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 7. febrúar 2013, krafðist [B], þess fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar, að nefndin frestaði réttaráhrifum úrskurðar nr. A-474/2013.
Í erindinu segir að ekki sé gætt innbyrðis samræmis í forsendum nefndarinnar og niðurstöðum. Til þess verði að ætlast að nefndin mæli fyrir um útstrikun allra þeirra atriða sem hún, í forsendum sínum, lýsir að trúnaði skuli háð og ekki veittur aðgangur að. Í úrskurðinum komi fram að nefndin telji svo gilda um dráttarvaxtaálag á fót samningsvaxta. Það gæti því innra ósamræmis þegar mælt sé fyrir um útstrikun eða úrfellingu þess á einum stað en ekki hvar sem slíkar upplýsingar komi fram í skjalinu. Í þessu samhengi er vísað í ákvæði gr. 9.3.2.2. samningsins.
Þá kemur fram að ekki sé rétt hermt í úrskurðinum að kveðið sé á um vexti eða prósentuhlutfall vaxta í gr. 6.1. Þar sé greint frá hlutföllum ársfjórðungslegra höfuðstólsafborgana sem úrskurðarnefndin hafi mælt fyrir um að skyldu afmáð í fyrri úrskurði og því virðist vera um mistök að ræða.
Að lokum kemur fram að fyrst að úrskurðarnefndin hafi orðið við þeirri beiðni að leita álits lánveitenda um kæruefnið hefði verið rétt, og í samræmi við málsmeðferðarreglur, að kynna öðrum málsaðilum þá afstöðu áður en það málið var tekið til úrskurðar. Í þessu samhengi er vísað til 10. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsmeðferð
Með bréfum, dags. 8. febrúar, voru kæranda og lögmanni FMS Wertmanagement kynnt fram komin krafa lögmanns Hafnarfjarðarbæjar og þeim veittur frestur til að gera athugasemdir við kröfuna.
Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti, dags. 1. mars 2013. Lýsti kærandi þar þeirri ósk sinni að bærinn færi að niðurstöðu nefndarinnar og virti úrskurð hennar. Þá benti hann á að Hafnarfjarðarbær hafi beðið um frestun réttaráhrifa áður en úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp og því greinilegt að bærinn hafi ætlað sér að óska eftir frestun þrátt fyrir að niðurstaða lægi ekki fyrir.
Engar athugasemdir bárust frá lögmanni FMS Wertmanagement.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritaði kæranda, lögmanni Hafnarfjarðarbæjar og lögmanni FMS Wertmanagement bréf, dags. 15. apríl 2013, þar sem fram kom að til athugunar væri hjá nefndinni hvort að taka ætti ákvörðun um afturköllun, sbr. 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til 13. gr. sömu laga var veittur frestur til 1. maí 2013 til að gera athugasemdir áður en ákvörðun yrði tekin.
Einungis bárust athugasemdir frá kæranda. Athugasemdir hans bárust með tölvupósti, dags. 17. apríl 2013. Kærandi lýsti þeirra afstöðu sinni að kvörtun Hafnarfjarðarbæjar ætti ekki rétt á sér. Þá lýsti hann yfir óánægju með seinagang málsins. Einnig lýsti hann óánægju með að hafa enn ekki fengið afrit af lánasamningunum þrátt fyrir að hafa sent ítrekun á bæinn og sent úrskurðarnefndinni ítrekað tölvupósta og óskað eftir skýringum á töfum vegna beiðni bæjarins um frestun réttaráhrifa.
Niðurstaða
1.
Ný upplýsingalög nr. 140/2012 tóku gildi 28. desember 2012. Með þeim féllu úr gildi að stærstum hluta ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 1. mgr. 35. gr. hinna nýju laga. Þegar Hafnarfjarðarbær tók hina kærðu ákvörðun voru enn í gildi eldri upplýsingalög nr. 50/1996 og ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar var byggð á efnisákvæðum þeirra.
Meðferð úrskurðarnefndarinnar á málinu lýtur hins vegar, frá og með gildistöku hinna nýju laga, þeim reglum um form og hlutverk úrskurðarnefndarinnar sem þar koma fram. Kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frestun á réttaráhrifum úrskurðarins ber því að afgreiða á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi, þ.e. með vísan til 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
2.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið kröfur lögmanns Hafnarfjarðarbæjar í máli þessu. Einnig hefur nefndin yfirfarið rök annarra málsaðila og þau gögn sem málið lýtur að. Nefndin telur að í málinu liggi fyrir nægar upplýsingar til þess að hún geti tekið afstöðu til þess hvort niðurstaða hennar í máli nr. A-474/2013 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og lagaskilyrði standi til að fella úrskurðinn úr gildi.
Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald að eigin frumkvæði afturkallað ákvörðun sína, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila, sbr. 1. tölul. ákvæðisins eða ef ákvörðun er ógildanleg, sbr. 2. tölulið þess.
Þótt úrskurður sé haldinn verulegum annmarka er ekki sjálfgefið að hann teljist ógildanlegur. Kemur í því sambandi til skoðunar hversu alvarlegur annmarkinn er, réttmætar væntingar málsaðila og hvort um ívilnandi eða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun er að ræða.
Fyrir liggur að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingmál nr. A-474/2013 segir að í samningsákvæði nr. 6.1 séu upplýsingar um prósentuhlutfall vaxta, sem afmá skuli. Þar er hins vegar ekki slíkar upplýsingar að finna heldur upplýsingar um hlutföll ársfjórðungslegra höfuðstólsafborgana (sem skv. fyrri úrskurði nefndarinnar nr. A-438/2012, um skilmálaskjal vegna sömu viðskipta, skyldi afmá). Í öðru lagi liggur fyrir að samkvæmt úrskurðinum eigi trúnaður að ríkja um upplýsingar um dráttarvaxtaálag á fót samningsvaxta og afmá skuli þær úr samningsákvæði nr. 9.3.1. Hins vegar koma umræddar upplýsingar einnig fram víðar, sbr. samningsákvæði nr. 9.3.2.2.
Í ljósi þessa telur nefndin að með framkvæmd úrskurðar nr. A-474/2013 yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem ekki má afhenda á grundvelli 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 5. gr. sömu laga. Í síðari málslið 5. gr. upplýsingalaga segir berum orðum að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum „er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila“. Með framkvæmd úrskurðarins yrði gengið gegn þessu ákvæði. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því óhjákvæmilegt að fella úr gildi umræddan úrskurð á grundvelli 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þar sem úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-474/2013 er felldur úr gildi eru ekki efni til þess að nefndin taki afstöðu til kröfu um að frestað verði réttaráhrifum hans.
Með því að fella úrskurðinn úr gildi í heild sinni ber úrskurðarnefndinni að kveða upp nýjan úrskurð og taka nýja ákvörðun vegna kæru [A] frá 9. júní 2012, á synjun Hafnarfjarðarbæjar um að afhenda honum gögn. Sú ákvörðun verður tekin svo fljótt sem unnt er að undangenginni málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð
Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-474/2013, kveðinn upp. 31. janúar 2013, í máli máli ÚNU 13020001, er felldur úr gildi.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson