A-493/2013. Úrskurður frá 16. ágúst 2013
Úrskurður
Hinn 16. ágúst 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-493/2013 í máli nr. ÚNU 13030006.
Kæruefni og málsatvik
Þann 14. mars 2013 kærði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál afgreiðslu landlæknis 28. febrúar sama ár á beiðni hennar 7. janúar sama ár um aðgang að tilteknum gögnum.
Í beiðni kæranda til landlæknis var óskað eftir „rafrænum afritum af öllum gögnum sem varða gæðaúttekt þá sem staðið hefur yfir á lyfjagagnagrunni embættis landlæknis frá því í ágúst 2011“. Í beiðninni var því nánar lýst við hvaða gögn væri átt. Tekið var fram að beiðnin næði til „allra gagna í málaskrá og tölvupóstum“ og að þar með væru talin vinnuskjöl sem hefðu farið „á milli stofnana og annarra vinnuskjala sem farið hafa út fyrir húsið“. Beiðnin tæki einnig til „fundargerða af þeim fundum sem haldnir hafa verið um málið“ og „lýsingar á verkferlum við gæðaeftirlit, bæði þeim sem voru í gildi fyrir ágúst 2011 og þeim sem í gildi eru nú“. Þá tæki beiðnin til „alls þess sem kann að varða gæðamál lyfjagagnagrunnsins og vistuð eru undir „Lyfjagagnagrunnur“ í málaskrá sama hvaða leitaraðferð er notuð í málaskrárleitinni, sem og þess sem vistað kann að vera annars staðar undir Lyfjamálum og varða umrædd gæðamál.“
Þann 11. febrúar 2013 svaraði landlæknir beiðni kæranda með tölvupósti. Þar kemur fram að í málaskrá embættisins hefðu fundist mál sem bæru heitin „Gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni“, „Gæðavandamál í lyfjagagnagrunni“ og „Lyfjagagnagrunnur, verkaskipting eftirlits- og heilbrigðisupplýsingasviðs“. Nánar var lýst hvaða skjöl væru að finna í málunum. Í bréfinu er þess óskað, með vísan til 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, að kærandi setti beiðni sína fram með skýrari hætti.
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi með tölvupósti 11. febrúar 2013 bent landlækni á hvar í tölvum embættisins mætti finna þau gögn sem hún óskaði eftir aðgangi að.
Með bréfi 28. febrúar tók landlæknir ákvörðun í máli kæranda. Í bréfinu kemur fram að þegar umrædd gæðaúttekt, sem beiðni kæranda laut að, hafi verið unnin hafi kærandi verið starfsmaður landlæknis og unnið með gögn úr lyfjagagnagrunni embættisins við lyfjaeftirlit þess. Tímabundinni ráðningu kæranda hafi lokið [...]. Í ákvörðun landlæknis kemur fram að við vinnslu á beiðni kæranda hafi verið tekið mið af upplýsingalögum og skriflegum verklagsreglum embættisins um skráningu í málaskrá. Rakið er að í verklagsreglum embættisins um skráningu í málaskrá sé m.a. kveðið á um skyldu allra starfsmanna til þess að skrá í málaskrá skjöl er varða þau mál sem séu til úrlausnar hjá embættinu. Þar komi einnig fram að starfsmenn geti geymt vinnugögn vegna mála á sameiginlegum svæðum í tölvukerfi án þess að þau séu færð í málaskrá. Það sé síðan starfsmanna sjálfra að meta hvaða skjöl séu mikilvæg í tilteknum málum og beri þar með að vísa í málaskrá embættisins.
Þá segir að með hliðsjón af beiðni kæranda, verklagsreglum embættisins og í samræmi við upplýsingalög hafi embættið tekið ákvörðun um að afhenda kæranda gögn sem vistuð hafi verið í málaskrá. Lýst er hvernig umrædd gögn hafi verið skráð í málaskrá landlæknis. Fram kemur að gögn í máli embættisins „Gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni“ sem ákveðið hafi verið að afhenda kæranda séu bréf til Lyfjagreiðslunefndar vegna leiðréttinga á DDD skilgreiningum og vinnuskjal sem sent hafi verið Sjúkratryggingum Íslands vegna sama efnis. Aftur á móti verði kæranda ekki afhentur tölvupóstur vegna málsins til starfsmanns sem hafi verið skráður á málið, enda flokkist pósturinn sem vinnuskjal.
Þá segir að einungis óformlegir minnispunktar séu í máli embættisins „Gæðavandamál í lyfjagagnagrunni“. Í tilefni af nánari útskýringum kæranda í tölvupósti 11. febrúar 2013 hafi fundist gagn sem tilheyra hafi átt málinu. Um sé að ræða óformlega minnispunkta sem hafi verið rangt skráðir í kerfið. Í bréfinu er fundið að því hvernig kærandi muni hafa skráð umrætt gagn í málaskrá landlæknis.
Þá kemur fram að í máli „Eftirlit með ávísun lyfja“ sé að finna eftirfarandi gögn: Fundargerð af fundi 15. september 2011, handrituð fundargerð sem hafi verið skönnuð inn af fundarritara, listi yfir þá sem voru á fundinum og minnisblað til tiltekins skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu. Af bréfinu má ráða að umrædd gögn hafi verið afhent kæranda.
Í bréfi landlæknis er síðan rakið að kærandi hafi í tölvupósti til embættisins lýst vinnugögnum sem beiðnin beindist að og væru vistuð á ýmsum gagnadrifum embættisins. Í bréfi landlæknis kemur fram að gögnin hafi ekki verið skráð í rafræna málaskrá. Augljóslega sé um að ræða vinnugögn þar sem þau hafi ekki endað í viðeigandi málum í skjalavörslukerfi embættisins í samræmi við verklagsreglur. Umrædd gögn verði því ekki afhent.
Þá segir að fundist hafi gögn sem skráð hafi verið í málið „Umsókn um sérfræðileyfi“. Um sé að ræða 242 tölvupósta sem vistaðir hafi verið af kæranda þann 27. desember 2012 á nokkrum mínútum. Í bréfi landlæknis segir: „Þessir tölvupóstar voru vistaðir á síðasta starfsdegi þínum áður en þú lést af störfum við embættið. Fljótt á litið virðast tölvupóstarnir sem dagsettir eru á tímabilinu frá 29.82011-14.12.2011 innihalda vinnugögn út af málefnum lyfjagagnagrunns og/eða lyfjaeftirlits og ekki tengjast því máli (Umsókn um sérfræðileyfi) sem þeir eru tengdir við í málaskráningarkerfinu. Hér er því augljóslega um ranga en umfangsmikla skráningu þína að ræða töluvert eftir að samskiptin áttu sér stað og sem málsaðilar hafa ekki verið upplýstir um. Því eru þessir tölvupóstar skilgreindir sem vinnugögn og verða því ekki afhentir.“
Með kæru 14. mars 2013 kærði kærandi ákvörðun landlæknis til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kemur þar fram að kærandi kæri þá niðurstöðu landlæknis að gögn sem unnið hafi verið með og farið hafi á milli stofnana sem aðkomu hafa að lyfjagagnagrunni vegna gæðaúttektar á lyfjagagnarunni skuli ekki hafa verið afhent kæranda. Einnig sé kærð sú ákvörðun landlæknis að afhenda kæranda ekki fundargerðir og lýsingar á verkferlum við gæðaeftirlitlit.
Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun landlæknis skuli ekki hafa verið fjallað um beiðni kæranda að því leyti sem hún laut að lýsingu á því hvernig staðið hefði verið að gæðaeftirliti með gögnum í lyfjagagnagrunni fyrir ágúst 2011 sem og lýsing á því hvernig staðið væri að því gæðaeftirliti nú. Vísar kærandi til þess að hún hafi beðið um þessi gögn í beiðni sinni 7. janúar 2013 sem og tölvuskeyti 11. febrúar sama ár. Þá veki það undrun kæranda að engar fundargerðir fylgi gögnunum sem landlæknir hafi veitt aðgang að, þrátt fyrir að landlæknir hafi getið um a.m.k. eina fundargerð.
Kærandi gerir einnig athugasemdir við umfjöllun landlæknis um það hvernig hún hafi sjálf hagað skráningum í málaskrá embættisins. Þá telur kærandi að gögn verði ekki undanþegin rétti hennar til aðgangs að gögnum á grundvelli upplýsingalaga vegna þess eins að þau hafi ekki verið skráð í málaskrárkerfi embættis landlæknis.
Loks segir í kærunni að þær verklýsingar við villuleit sem landlæknir segi vanta séu til í excel-skrá sem hafi farið „á milli“ í netskeytum.
Málsmeðferð
Eftir að kæran barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritaði nefndin landlækni bréf, dags. 15. maí 2013 þar sem þess var óskað að embættið veitti umsögn um kæruna. Kærandi sendi starfsmanni úrskurðarnefndarinnar bréf 16. maí 2013 þar sem nánar var útskýrt hvaða gögn það væru sem kærandi hefði farið fram á að fá og landlæknir ekki veitt aðgang að. Í fyrsta lagi væri um að ræða „gögn sem vistuð voru á drifi embættisins án þess að þau væru sett inn í málaskrá“. Um væri að ræða tölvupóstsamskipti milli stofnana sem sýsluðu með lyfjatölfræði og væru vistuð á tilteknu drifi í tölvukerfi landlæknis undir heitinu „Lyfjamál“. Nánar tiltekið væru gögnin í „undirmöppu um gæðavandamál“. Í öðru lagi hefði kærandi óskað eftir að fá afhentar lýsingar á hvernig fylgst væri með gæðum gagna í lyfjagagnagrunni áður en villur hefðu fundist í honum og einnig hvernig fylgst væri með gæðunum nú, ef slíkar lýsingar væru til. Ef umrædd gögn væru ekki til væri óskað eftir skýrum svörum þar um. Í þriðja lagi óskaði kærandi eftir aðgangi að fundargerð frá fundi heilbrigðisupplýsingasviðs og sviðs eftirlits og gæða og jafnframt aðrar fundargerðir varðandi þessi villumál, meðal annars með fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands og annarra stofnana. Hefðu fundargerðir ekki verið skráðar væri óskað eftir skýringum þar um.
Landlæknir gerði athugasemdir við kæruna 20. júní 2013. Þar kemur fram að landlæknir telji kæranda hafa fengið afhent öll gögn sem varði gæðaúttekt á lyfjagagnagruni, utan sérstaklega skilgreindra vinnugagna embættisins í málinu. Landlæknir telji beiðni kæranda hafa verið yfirgripsmikla og vítt skilgreinda. Þegar beiðni hafi verið tekin til skoðunar hjá embættinu hafi fyrsta vandamál þess verið að skilgreina verkefnið „gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni“ sem hafi farið af stað í ágúst 2011. Kærandi hafi borið ábyrgð á framkvæmd úttektarinnar en henni hafi ekki lokið á starfstíma hennar. „Lokaskjöl“ séu ekki fyrirliggjandi í málinu. Á meðan kærandi starfaði að verkefninu hafi það ekki verið formlega skilgreint af henni með skjalfestri verkefnisáætlun. Því séu verkþættir þess og framvinda nokkuð óljós af þeim gögnum sem fyrir hendi séu. Tiltekin gögn hafi verið afhent kæranda eftir leit í málaskrá embættisins en ekki hafi verið fallist á beiðni kæranda um afhendingu tölvupósta sem hafi verið vistaðir á „tilteknu gagnadrifi embættisins“. Líti embætti svo á að um sé að ræða vinnugögn sem ekki verði afhent þar sem tölvupóstarnir hafi ekki verið „skráðir í viðeigandi málum í málaskrá stofnunarinnar“. Vegna beiðni kæranda um aðgang að fundargerðum er vörðuðu gæðaúttektina hafi einungis ein fundagerð fundist í þeim tveimur málum í málaskrá embættisins sem falli undir beiðnina. Sú fundargerð hafi verið afhent kæranda.
Að því leyti sem beiðni kæranda lúti að upplýsingum verkferla við eftirlit með gæðum gagna í lyfjagagnagrunni séu slíkir verkferlar ekki til en séu í mótun.
Að lokum er tekið fram að landlæknir telji sig hafa svarað beiðni kæranda eins vel og unnt sé. Beiðni hennar hafi verið vítt skilgreind og snerti verkefni sem ekki hafi verið „skjalað með formlegum hætti“, þ.e. með verkefnislýsingu með skilgreiningu verkefnis, verkþætti, tímaáætlun, framvindu o.s.frv. Farið hafi verið „rækilega yfir málaskrá og allt fundið til sem mögulega snerti þessa gæðaúttekt og þar var vistað“. Þau gögn hafi nú þegar verið afhent.
Með bréfi 21. júní 2013 veitti úrskurðarnefnd upplýsingamála kæranda tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn landlæknis. Kærandi gerði athugasemdir 27. sama mánaðar við afstöðu landlæknis. Kærandi telur þau gögn sem landlæknir hafi lagt fram sýni að gögn sem kæranda hafi verið neitað um aðgang að hafi verið send frá landlækni til annarra stjórnvalda og verði því ekki undanþegin upplýsingarétti með vísan til þess að um sé að ræða vinnuskjöl.
Kærandi fellst á að gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni landlæknis sé ekki lokið. Aftur á móti sé þeim verkþáttum sem kærandi hafi tekið að sér og vörðuðu „villur í skilgreiningum á DDD“ lokið um miðjan mars 2012 með afhendingu excel-skrár með öllum leiðréttingum sem gera þurfti og heimildum við hverja og eina um rétt „DDD“. Kærandi hafi afhent excel-skrá í tölvupósti til sviðsstjóra heilbrigðisupplýsingasviðs og þess verkefnisstjóra á heilbrigðisupplýsingasviði sem bar ábyrgð á lyfjagagnagrunninum. Þetta hafi kærandi gert annað hvort 15. eða 16. mars 2012. Þá hafi kærandi afhent sama starfsmanni landlæknis minnisblað um umræddar villur. Kærandi hafi ekki vistað umrætt minnisblað í málaskrá enda hafi hún búist við því að sá starfsmaður sem tók við minnisblaðinu myndi meta hvað yrði skráð í málaskrá og hvað ekki. Kærandi hafi nú þegar fengið umrætt minnisblað frá lyfjagreiðslunefnd 18. mars 2013. Kærandi kveður minnisblaðið vera vistað á gagnadrifi landlæknis sem kærandi hafi bent á.
Kærandi rekur í athugasemdum sínum ýmis atriði varðandi umrætt verkefni og bendir á ýmis atriði um þátttöku hennar í því. Þá hafnar hún því að vinnulag hennar hafi verið aðfinnsluvert eins og haldið sé fram af hálfu landlæknis.
Kærandi bendir á að landlæknir telji sig einungis geta fundið eina fundargerð vegna gæðaúttektarinnar þrátt fyrir að hann hafi afhent kæranda tvær fundargerðir. Þá gefi gögn málsins til kynna að mun fleiri fundir hafi verið haldnir.
Niðurstaða
1.Kærandi hefur farið fram á að landlæknir afhendi sér gögn er varða gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni embættisins. Kærandi telur ákvörðun landlæknis þar að lútandi ranga. Í fyrsta lagi hafi kæranda ekki verið veittur aðgangur að gögnum sem voru vistuð á tilteknum stað í tölvum embættisins en ekki í málaskrárkerfi þess. Í öðru lagi hafi ekki verið afhentar lýsingar á því hvernig fylgst hafi verið með gæðum gagna í umræddum lyfjagagnagrunni. Í þriðja lagi hafi ekki verið veittur aðgangur að fundargerðum sem varði umrædda gæðaúttekt. Þá verður í fjórða lagi að skilja kæruna sem svo að kærð sé sú afstaða landlæknis að synja um aðgang að tölvupóstum sem finnist í málaskrá embættisins og kærandi telur að falli undir beiðni hennar.
Í beiðni kæranda er vísað almennt til upplýsingalaga nr. 140/2012 en hin umbeðnu gögn tilheyra máli eða málum sem kærandi vann að er hún var starfsmaður landlæknis. Kærandi er ýmist höfundur eða viðtakandi gagnanna. Kærandi hefur hvorki reist beiðni sína á 14. gr. upplýsingalaga né vikið að því að upplýsingar þær sem fram komi í hinum umbeðnu gögnum séu um hana sjálfa. Með vísan til beiðni kæranda til landlæknis, kæru hennar til úrskurðarnefndarinnar og efni gagnanna verður leyst úr máli þessu á þeim grundvelli að beiðni kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum sé reist á 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum en ekki 14. gr. um rétt aðila til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan.
2.
Í tilefni af beiðni landlæknis um að kærandi afmarkaði beiðni sína frekar benti kærandi á gögn sem henni var kunnugt um að væru vistuð rafrænt á tilteknum svæðum eða gagnadrifum í tölvum embættisins. Í ákvörðun landlæknis 28. febrúar 2013 kemur fram að umrædd gögn teldust vinnugögn þar sem „þau hafi ekki endað í viðeigandi málum í skjalavörslukerfi embættisins í samræmi við verklagsreglur.“ Var kæranda synjað um aðgang að gögnunum með vísan til þessa. Í umsögn sinni til úrskurðarnefndarinnar ítrekaði landlæknir þessa afstöðu sína. Umrædd gögn hafa ekki verið látin úrskurðarnefndinni í té við meðferð málsins.
Þá var kæranda synjað um aðgang að 242 tölvupóstum sem skráðir voru í óskylt mál í málaskrárkerfi landlæknis. Í umsögn landlæknis til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að tölvupóstarnir virðist tengdir málefnum lyfjagagnagrunnsins þótt þeir hafi verið skráðir í mál sem varðar „umsókn um sérfræðileyfi“. Í ákvörðun landlæknis vegna beiðni kæranda segir eftirfarandi um skráningu tölvupóstanna í málaskrárkerfi embættisins: „Hér er því augljóslega um ranga en umfangsmikla skráningu þína að ræða töluvert eftir að samskiptin áttu sér stað og sem málsaðilar hafa ekki verið upplýstir um. Því eru þessir tölvupóstar skilgreindir sem vinnugögn og verða því ekki afhentir.“ Umræddir tölvupóstar hafa verið afhentir úrskurðarnefndinni í trúnaði.
Samkvæmt 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna sbr. 8. gr. laganna. Í síðarnefnda lagaákvæðinu er því nánar lýst hvaða gögn teljist til vinnugagna. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. eru vinnugögn þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. laganna hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Hafi gögn verið afhent öðrum teljast þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Í 2. mgr. 8. gr. segir síðan:
„Til vinnugagna teljast einnig eftirtalin gögn, enda fullnægi þau að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.:- gögn sem berast milli stjórnvalda þegar eitt stjórnvald sinnir ritarastörfum eða sambærilegum störfum fyrir annað
- gögn sem unnin eru af nefndum eða starfshópum sem stjórnvöld hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki,
- gögn sem send eru milli aðila skv. 2. tölul. og annarra stjórnvalda þegar starfsmenn þeirra eiga þar sæti.“
Loks segir í 3. mgr. 8. gr. laganna:
„Þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. ber að afhenda vinnugögn ef:
- þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls
- þar koma fram upplýsingar sem stjórnvaldi er skylt að skrá skv. 1. mgr. 27. gr.,
- þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram,
- þar kemur fram lýsing á vinnureglum eða stjórnsýsluframkvæmd á viðkomandi sviði.“
Af 8. gr. upplýsingalaga leiðir að við mat á því hvort gagn teljist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. laganna skuli einkum litið til þess í hvaða skyni gagnið var útbúið og hvers efnis það er. Þá skiptir máli hvort gagn hafi verið afhent öðrum en þeim sem starfa innan stjórnvalds, eða þeim aðila sem bundinn er af upplýsingalögum, og hvort um hafi verið að ræða afhendingu sem kveðið er sérstaklega á um í 2. mgr. 8. gr. laganna. Þrátt fyrir þetta ber að afhenda vinnugögn sem fjallað er um í 3. mgr. lagagreinarinnar.
Af umræddum ákvæðum upplýsingalaga leiðir að stjórnvöld hafa ekki frjálst val um það hvort gögn teljist vinnugögn sem undanþegin eru upplýsingarétti almennings, enda telst gagn ekki vinnugagn nema skilyrði 8. gr. laganna séu uppfyllt. Stjórnvald getur því ekki synjað um aðgang að gagni af þeirri ástæðu einni að það sjálft telji gagn vera vinnugagn, án tillits til ákvæða upplýsingalaga, og hafi skráð það sem slíkt í málaskrárkerfi þess eða látið vera að skrá gagn sérstaklega í slíkt kerfi af sömu ástæðu. Engu máli skiptir í því samhengi þótt sá sem óskar eftir aðgangi hafi mögulega sjálfur starfað hjá viðkomandi stjórnvaldi og skráð hin umbeðnu gögn í kerfi þess, enda hvílir sú skylda á stjórnvöldum sjálfum að fylgja ákvæðum upplýsingalaga. Þá hefur það enga þýðingu við mat á því hvort gagn teljist vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga að það hafi verið flokkað ranglega í málaskrá stjórnvalds.
Með vísan til þessa var ákvörðun landlæknis um að synja kæranda um aðgang að gögnum á tilteknum svæðum eða gagnadrifum í tölvum landlæknis ekki reist á réttum lagagrundvelli. Hið sama á við um synjun landlæknis á beiðni kæranda um aðgang að 242 tölvupóstum sem varða mál það sem beiðni kæranda laut að en tilheyrðu öðru máli í málaskrá embættisins.
Landlæknir hefur látið úrskurðarnefndinni í té hluta umræddra 242 tölvupósta sem embættið telur að falli undir beiðni kæranda. Af þeim má ráða að starfsfólk embættisins hafi um nokkra hríð átt í samskiptum við starfsmenn annarra stjórnvalda um gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni, en svo virðist sem málefni gagnagrunnsins varði einnig umrædd stjórnvöld. Ekki liggur fyrir á hvaða grundvelli samstarf þessara stjórnvalda fór fram og úrskurðarnefndinni er ekki í öllum tilvikum ljóst hvort samskiptin eigi sér stað milli starfsmanna sama stjórnvalds eða tveggja eða fleiri mismunandi stjórnvalda. Nokkrir tölvupóstanna hafa að geyma efni sem mögulega telst vera einkamálefni eins eða fleiri einstaklinga sem tóku þátt í framkvæmd málsins. Einnig er í tölvupóstunum að finna ófullkomin drög að skjölum sem virðast hafa þróast meðan málið var í vinnslu. Má í þessu samhengi til dæmis nefna að tölvupóstarnir virðast hafa að geyma hluta af umræddum lyfjagagnagrunni, þótt úrskurðarnefndinni sé ekki að fullu ljóst hvort að svo sé. Loks skal þess getið að svo virðist sem að í umræddum tölvupóstum sé að finna fundargerðir sem kunna að falla undir beiðni kæranda en ekki er ljóst hvort um sé að ræða drög eða endanlegar fundargerðir.
Þá skal það áréttað að úrskurðarnefndin hefur ekki fengið í hendur öll þau gögn sem kæranda var synjað um aðgang að en á það einkum við um gögn sem kærandi leiðbeindi landlækni um að mætti finna á tilteknum svæðum í tölvum landlæknis.
Af þessum sökum hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að leggja mat á hvort landlækni sé skylt að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu gögnum, en af framangreindum ástæðum telur úrskurðarnefndin ekki unnt að útiloka að réttur kæranda kunni að vera takmörkunum háður. Eins og hér hefur verið rakið virðist sem af hálfu landlæknis hafi ekki farið fram mat á efni þeirra gagna sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að. Verður því ekki hjá því komist að fella ákvörðun landlæknis úr gildi og leggja fyrir hann að taka málið til nýrrar meðferðar.
3.Með ákvörðun landlæknis 28. febrúar 2013 var kæranda meðal annars synjað um aðgang að tölvupósti sem skráður var í málaskrá embættisins og mun tilheyra máli með heitið „Gæðaúttekt á lyfjagagnagrunni“. Í ákvörðun landlæknis er umræddum tölvupósti lýst sem svo að hann sé „til starfsmanns vegna málsins“. Þá segir í ákvörðuninni að tölvupósturinn „flokkast sem vinnuskjal og er ekki afhent“.
Landlæknir hefur ekki látið úrskurðarnefndinni í té umræddan tölvupóst. Ákvörðun landlæknis og umsögn hans til úrskurðarnefndarinnar hafa ekki að geyma rökstuðning fyrir því mati að umræddur tölvupóstur teljist vinnugagn. Með vísan til þess sem fram kemur í kafla 2 hér að framan verður ákvörðun landlæknis felld úr gildi og lagt fyrir landlækni að taka málið að þessu leyti til nýrrar meðferðar.
4.Kærandi óskaði eftir að landlæknir afhenti henni lýsingar á verkferlum við gæðaeftirlit með lyfjagagnagrunni embættisins. Í ákvörðun landlæknis og umsögn hans til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að slíkir verkferlar eða lýsingar á þeim hafi aldrei verið til. Í ljósi þess að umbeðin gögn eru ekki til hjá embætti landlæknis verður beiðni kæranda að þessu leyti vísað frá landlækni.
5.Í ákvörðun landlæknis var ekki tekin afstaða til þess hvort veita bæri kæranda aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt lögum sbr. 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Var ákvörðun landlæknis að þessu leyti ekki í samræmi við 2. mgr. 11. gr. laganna.
Úrskurðarorð
Vísað er frá landlækni beiðni kæranda um aðgang að lýsingum á verkferlum við gæðaeftirlit með lyfjagagnagrunni landlæknis. Að öðru leyti er ákvörðun landlæknis felld úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til nýrrar meðferðar.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir