A-511/2013. Úrskurður frá 13. desember 2013
Úrskurður
Hinn 13. desember 2013 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-511/2013 í máli ÚNU13090002.
Kæra og málsatvik
Með bréfi, dags. 30. ágúst 2013, kærði A afgreiðslu Ríkiskaupa á beiðni hans um gögn, dags. 11. júní s.á. Með fylgdu afrit af umræddri gagnabeiðni hans til Ríkiskaupa, dags. 11. júní 2013, og hins vegar svar Ríkiskaupa, dags. 24. júní s.á.
Í beiðninni frá 11. júní 2013 óskar kærandi eftir því við Ríkiskaup að fá eftirfarandi gögn afhent:
„1. Útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15036 útboð á próteintengdum bóluefnum gegn pneumókokkum (A-430/2012).
2. Rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, um kaup á bóluefni Neisvac C af Icepharma hf. (skv. þá úrskurði A-431/2012).
3. Tilboð Icepharma, dags. 13. júní 2006, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
4. Rammasamning nr. 2144, dags. 2. október, um kaup á tilgreindum bóluefnum af GlaxoSmithKline ehf. (skv. úrskurði A-431/2012).
5. Tilboð GlaxoSmithKline ehf., dags. 12. júní 2006, auðkennt GSK-1, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
6. Tilboð GlaxoSmithKline ehf., dags. 12. júní 2006, auðkennt GSK-2, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
7. Útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum á Íslandi (skv. úrskurði A-431/2012).
8. Útboðslýsingu vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 15054, útboð á bóluefni gegn HPV til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi (skv. úrskurði A-433/2012).
9. Rammasamning nr. 2870, dags. um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi (skv. úrskurði A-433/2012).“
Framangreind kæra er efnislega hin sama og kærandi sendi landlæknisembættinu á sínum tíma. Í kærunni kemur fram að kærandi telur að landlæknisembættið hafi ekki afhent öll þau gögn sem falli undir liði 2-6 og 9 í beiðni hans til embættisins, eins og nánar verður rakið i niðurstöðu.
Í svari Ríkiskaupa, dags. 24. júní s.á., segir orðrétt:
„Ríkiskaup hafa vegna beiðni yðar dags. 11. júní sl., sem barst Ríkiskaupum 12. júní, haft samband við Landlækni til að fá upplýsingar um afstöðu hans til beiðninnar. Samkvæmt upplýsingum Landlæknis hefur hann með bréfi dags. 22. ágúst 2012 veitt yður aðgang að gögnum í liðum 2-6 og 9 skv. úrskurðum úrskurðarnefndar upplýsingamála.
Meðfylgjandi eru upplýsingar sem óskað er eftir í liðum 1, 7 og 8 eða útboðslýsingar 15036, 14042 og 15054. Annað sem óskað er eftir hefur Landlæknir þegar sent eins og fram hefur komið.“
Málsmeðferð
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál óskaði eftir afstöðu Ríkiskaupa til kærunnar, með bréfi dags. 10. september 2013. Svar barst með bréfi, dags. 1. október sl. Í því segir m.a.:
„Kærandi, […] sendi Ríkiskaupum 11. júní 2013 beiðni um afhendingu gagna er vörðuðu viðskipti Landlæknis/sóttvarnarlæknis og fyrirtækja í kjölfar útboðs er Ríkiskaup önnuðust fyrir nokkrum árum síðan. Bréf kæranda barst Ríkiskaupum 12. júní 2013.Þann 24. júní 2013 afhenti undirrituð bréf til kæranda í móttöku Ríkiskaupa en það voru öll gögn sem voru aðgengileg í tölvukerfi Ríkiskaupa er vörðuðu málið (útboðslýsingar). Varðandi önnur gögn var vísað til þess að Landlæknir hafði þegar sent honum upplýsingarnar með bréfi 22. ágúst 2012 í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar að lútandi. Það þótti því óþarfa fyrirhöfn að fara að leita að gögnunum í geymslum stofnunarinnar.[…] Kom [kærandi] síðan 9. ágúst sl. og sótti svarbréf Ríkiskaupa. […]
Ríkiskaup tóku skv. framansögðu mjög jákvætt í beiðni kæranda um gögn og dráttur á afhendingu svarbréfs getur skrifast að hluta til á kæranda (beiðni barst 12. júní, svarbréf er dags. 24. júní og afhent 9. ágúst). Ríkiskaup sendu kæranda umbeðin gögn (útboðslýsingar) en umbeðin tilboð og samningar milli Landlæknis og einkafyrirtækja fylgdu ekki með bréfinu þar sem Landlæknir upplýsti að hann var þegar búinn að afhenda kæranda gögnin skv. úrskurði þar um. Ríkiskaup telja því óþarft að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði um afhendingu þessara gagna að nýju.“
Með bréfi, dags. 3. október 2013, var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um framangreint svar Ríkiskaupa. Það gerði hann með bréfi, dags. 8. október s.á. Áður en nefndinni barst umrætt svarbréf bárust henni hins vegar frekari gögn frá Ríkiskaupum, þ. á m. svarbréf forstjóra stofnunarinnar til kæranda, dags. 4. október. Í því segir m.a.:
„Það er vinnuregla hjá Ríkiskaupum, þegar óskað er eftir aðgangi að gögnum, að hafa samband við eiganda gagnanna sem í þessu tilfelli er Landlæknir. […] yfirlögfræðingur var því eingöngu að fara eftir venjubundinni framkvæmd er hún kannaði hjá Landlækni hvort hann hefði afhent gögnin eins og tilvitnaður úrskurður kvað á um. Um er að ræða tvær ríkisstofnanir sem unnu að þessu útboði í sameiningu og því er það eðlilegt. Ríkiskaup voru að vinna fyrir Landlækni að þessu útboði.
Það kom í ljós að Landlæknir hafði þegar afhent þér umbeðin gögn. Ef vantað hefur blaðsíður í gögnin, þá er ljóst að Ríkiskaup hafa ekki betri eintök en Landlæknir sjálfur. Þ.e.a.s. ef þessi gögn eru á annað borð til hjá Ríkiskaupum.
Starfsmaður í afgreiðslu sem hringdi í þig og lét þig vita að svarbréf frá lögfræðisviði hefði fyrir misgáning ekki farið með póstinum vissi ekki um innihald bréfsins, enda er ekki venjan að hringja fyrst í aðila og tilkynna um niðurstöðu vegna erinda sem berast stofnuninni. Heilmikil vinna fer í það hjá ríkisstofnunum að leita að gögnum vegna beiðna um upplýsingar skv. upplýsingalögum. Það er því ekki æskilegt að sama beiðnin sé til afgreiðslu hjá tveimur stofnunum. Ef þú ert óánægður með afgreiðslu Landlæknis á erindi þínu er þér bent á að kvarta að nýju við úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna þess og fara fram á að Landlæknir afhendi öll gögn, ef eitthvað hefur á vantað.“
Eins og áður segir svaraði kærandi síðan framangreindu bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 3. október sl., með bréfi, dags. 8. október sl. Í því bréfi hans segir m.a.:
„Undirritaður vill geta þess hér aftur, að hann hafi óskað eftir þessum gögnum frá Ríkiskaupum þar sem það vantaði inn í gögnin frá Embætti landlæknis (sjá bréf frá undirrituðum dags. þann 30. ágúst sl.) Hvað um það Ríkiskaup hefur með þessum hætti aftur synjað undirrituðum um þessi gögn, og það er ekkert sem bendir til þess núna í dag (8. okt.) eftir að málið er komið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að Ríkiskaup ætli eða sé á því að bjóðast til þess að afhenda þessi umbeðnu gögn sem vantar upp á, og því sé um synjun að ræða. Nú og það þrátt fyrir að menn viti að undirritaður sé ennþá að reyna að fá þessi gögn. Undirritaður vill geta þess hér að hann hafði samband við lögfræðing og var bent á, að það sé ekkert að því að óska eftir gögnum frá Ríkiskaupum, en þar sem Ríkiskaup synjar þér svona um þessi gögn og vill ekki afhenda gögnin, ættirðu að kæra Ríkiskaup til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og bara fá úrskurð. Því er hér með óskað eftir úrskurði með fá þessi gögn frá Ríkiskaupum.“
Óskað var afstöðu Ríkiskaupa til framangreinds, með bréfi dags. 23. október sl., og barst svar með bréfi dags. 7. nóvember. Í því segir:
„Ríkiskaup skilja kvörtunarbréf [A] þannig að hann telji Ríkiskaup hafa haft einhvers konar ólögmætt samráð við Landlækni eftir að beiðni hans um gögn barst Ríkiskaupum. Staðreyndin er sú að Ríkiskaup unnu að þessu útboði fyrir Landlækni og því ekkert eðlilegra en að haft væri samband við hann vegna erindis [A]. Það er mat Ríkiskaupa að [A] hefði átt að kvarta við úrskurðarnefnd um upplýsingamál ef hann taldi afgreiðslu Landlæknis á málinu ekki vera sem skyldi. Kvartar hann yfir því að eitthvað hafi vantað í gögnin sem hann fékk afhent hjá Landlækni. Í öðru lagi kvartar [A] yfir því að undirrituð hafi ekki haft samband við sig áður en svarbréf til hans var sent, dags. 24. júní sl. [A] virðist þannig misskilja inntak andmælaréttar á þann veg að áður en svarbréf vegna erinda eru send beri fyrst að hringja í þann sem sendi erindið og ræða málin við hann.
Staðreyndin er sú að Ríkiskaup hafa ekki ítarlegri gögn um þessi útboð en Landlæknir. Þar sem Landlæknir er kaupandi í þessum tilfellum (sá aðili sem býður út), og Ríkiskaup eru honum aðeins til aðstoðar varðandi útboðstæknilega þætti, þá telja Ríkiskaup heppilegast ef [A] klárar þetta mál gagnvart Landlækni án frekari aðkomu Ríkiskaupa. Ríkiskaup höfnuðu ekki erindi [A]. Aðeins var vísað til þess að erindi hans hefði þegar verið afgreitt af hálfu Landlæknis. Það hlýtur að vera eðlileg krafa, svo að tíma og vinnu Ríkisstofnana sé ekki sóað að óþörfu, að slíkar beiðnir séu ekki til afgreiðslu hjá fleiri en einni Ríkisstofnun í einu.“
Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun á beiðni um gögn, sem kærandi setti fram í bréfi til Ríkiskaupa, dags. 11. júní. Óumdeilt er að beiðnin varðar gögn sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur þegar úrskurðað um að vera skuli almenningi aðgengileg, sbr. úrskurði hennar nr. A-430/2012, A-431/2012 og A-433/2012. Umræddir úrskurðir beindust að Landlæknisembættinu sem í kjölfarið afhendi kæranda gögn. Kærandi telur hins vegar að einhverjir misbrestir hafi orðið á afhendingu landlæknis á gögnunum og hefur því snúið sér til Ríkiskaupa sem einnig hafa gögnin undir höndum. Synjun Ríkiskaupa byggir á því að þar sem kærandi hafi þegar fengið úrskurð í hendur um skyldu embættis Landlæknis til þess að afhenda gögnin sé rétt að hann snúi sér til þess embættis í stað þess að óska eftir sömu gögnum hjá Ríkisendurskoðun.
Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið en að Ríkiskaup telji kæranda eiga rétt á að fá umbeðin gögn afhent, með vísan til fyrrnefndra úrskurða úrskurðarnefndarinnar, en að honum sé hins vegar rétt að súa sér með ósk þar að lútandi til annars stjórnvalds, þ.e. Landlæknis.
Beiðni kæranda um aðgang að gögnum er reist á 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um rétt almennings til aðgangs að gögnum, sbr. 3. gr. áðurgildandi upplýsingalaga nr. 50/1996. Í 16. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um það hvert beiðni skuli beint. Í fyrri málslið 1. mgr. segir að þegar farið sé fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka eigi eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skuli beiðni beint til þess sem hafi eða muni taka ákvörðun í málinu. Í seinni málslið segir svo: „Annars skal beiðni beint til þess aðila sem hefur gögnin í vörslu sinni“.
Mál þetta lýtur að afhendingu gagna er vörðuðu útboð og samningsgerð er fram fór skv. lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Fyrri málsl. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á því ekki við um gögnin. Eins og rakið er hér að framan skal beiðni þá beint til þess aðila sem hefur gögnin í vörslu sinni. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál lítur svo á að þegar fleiri en eitt stjórnvald hefur gögn í vörslu sinni sé aðila í sjálfsvald sett til hvaða stjórnvalds hann beini ósk sinni um aðgang að gögnum, enda eigi fyrri málsliður 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga ekki við.
Í því tilfelli sem hér um ræðir hefur kærandi þegar fengið úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að landlæknisembættinu sé skylt að afhenda umrædd gögn. Þeir úrskurðir eru aðfararhæfir skv. 3. mgr. 23. gr. upplýsingalaga. Það kann að vera nærtækast fyrir kæranda að nýta sér fullnustuúrræði upplýsingalaga, telji hann að Landlæknir hafi ekki með fullnægjandi hætti brugðist við úrskurðunum. Þau úrræði firra kæranda þó ekki þeim rétti að óska eftir sömu gögnum hjá öðru stjórnvaldi sem hefur þau í vörslu sinni. Úrskurðarnefndin bendir í þessu sambandi á að ekki sé útilokað að aðili hafi hagsmuni af því að óska eftir sömu gögnum hjá tveimur stjórnvöldum með það fyrir augum að ganga úr skugga um að þau séu eins hjá báðum stjórnvöldum. Að því er varðar sjónarmið varðandi óþarfa kostnað og fyrirhöfn stjórnvalda í þessu sambandi bendir úrskurðarnefndin jafnframt á að sérstaklega er brugðist við slíkum sjónarmiðum í 18. gr. upplýsingalaga er fjallar um afhendingu gagna og gjaldtöku.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Ríkiskaupum beri að afhenda kæranda þau gögn sem talin eru upp í liðum 2.-6 og 9 í beiðni kæranda, dags. 11. júní 2013, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð
Kærða, Ríkiskaupum, ber að afhenda kæranda eftirfarandi gögn:
1. Rammasamning nr. 2143, dags. 25. september 2009, um kaup á bóluefni Neisvac C af Icepharma hf. (skv. þá úrskurði A-431/2012).
2. Tilboð Icepharma, dags. 13. júní 2006, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
3. Rammasamning nr. 2144, dags. 2. október, um kaup á tilgreindum bóluefnum af GlaxoSmithKline ehf. (skv. úrskurði A-431/2012).
4. Tilboð GlaxoSmithKline ehf., dags. 12. júní 2006, auðkennt GSK-1, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
5. Tilboð GlaxoSmithKline ehf., dags. 12. júní 2006, auðkennt GSK-2, vegna útboðs Ríkiskaupa nr. 14042 um kaup á bóluefni í almennum bólusetningum hér á landi (skv. úrskurði A-431/2012).
6. Rammasamning nr. 2870, dags. um kaup á bóluefni gegn HPV sýkingum til notkunar í almennum bólusetningum á Íslandi (skv. úrskurði A-433/2012).“
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson