A-517/2014. Úrskurður frá 28. janúar 2014
Úrskurður
Hinn 28. janúar 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-517/2014 í máli ÚNU13120002.
Krafa
Með tölvubréfi, dags. 2. október 2013, sendi A, f.h. TM Software Origo ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kröfu um frestun réttaráhrifa úrskurðar nr. A-497/2013, dags. 23. september 2013. Í bréfi lögmannsins segir m.a. orðrétt:
„1. Beiðni
Hér með er lögð fram beiðni þess efnis að ÚNU fresti réttaráhrifum úrskurðar nr. A-497/2013 þar til ákvörðun dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur liggur fyrir um beiðni embættis Landlæknis um flýtimeðferð máls til ógildingar á úrskurðinum og til niðurstöðu þess máls ef fallist verður á flýtimeðferð þess. Verði ekki fallist á framangreinda kröfu er þess óskað að ÚNU afturkalli ákvörðun sína að eigin frumkvæði á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga enda er umrædd ákvörðun ógildanleg, afturköllun er ekki til tjóns fyrir aðila og endurupptaki mál ÚNU 13040005.“
Í bréfinu er því næst gerðar ýmsar athugasemdir við úrskurð nefndarinnar nr. A-497/2013. Gerðar eru athugasemdir við að úrskurðarnefndin hafi við meðferð sína á málinu ekki leitað sérstaklega eftir sjónarmiðum TM Software og því haldið fram að niðurstaða nefndarinnar í málinu sé til þess fallin að valda fyrirtækinu tjóni. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37199 og þeirra lagasjónarmiða sem fram koma í niðurstöðukafla hér á eftir, þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem fram kemur í bréfi lögmannsins.
Niðurstaða
Af hálfu TM Software Origo ehf. er þess krafist að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fresti réttaráhrifum fyrri úrskurðar nefndarinnar nr. A-497/2013, dags. 23. september 2013. Fallist nefndin ekki á það er þess krafist að hún afturkalli ákvörðun sína að eigin frumkvæði á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og endurupptaki málið.
Í 1. mgr. 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagt fyrir stjórnvald eða annan aðila að veita aðgang að gögnum geti hún, að kröfu viðkomandi, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að hún hefur þegar úrskurðað um kröfu landlæknis um að hún fresti réttaráhrifum þessa úrskurðar. Úrskurður hennar í því máli er nr. A-509/2013, dags. 20. nóvember 2013. Við meðferð málsins fór nefndin yfir öll gögn þess en taldi ekkert nýtt hafa komið fram er sýndi að fyrir hendi væru lagaskilyrði til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðarins. Þá sá hún ekki ástæðu til þess að afturkalla úrskurðinn að eigin frumkvæði enda benti ekkert til þess að hann væri haldinn slíkum annmörkum að hann væri ógildanlegur að lögum. Var því úrskurðað þannig að kröfu landlæknis um frestun réttaráhrifa var hafnað.
Í athugasemdum við 24. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því sem varð að lögunum segir m.a.: „Í 1. mgr. 24. gr. er lagt til að lögbundin verði heimild fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar þegar nefndin hefur úrskurðað að aðgang skuli veita að upplýsingum. Sá sem úrskurður beinist gegn getur þá gert kröfu þess efnis með það fyrir augum að bera ágreiningsefnið undir dómstóla. Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á. Sambærilegt ákvæði er nú í 18. gr. upplýsingalaga“
Í umræddu ákvæði 1. mgr. 18. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 sagði m.a. að úrskurðarnefnd um upplýsingamál gæti, að kröfu stjórnvalds, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar teldi hún sérstaka ástæðu til þess. Samkvæmt 24. gr. núgildandi laga getur hún gert það að kröfu „viðkomandi“ enda getur skylda til að afhenda gögn samkvæmt lögunum nú fallið á einkaréttarlegan aðila. Það er þó afdráttarlaust samkvæmt ákvæðinu að einvörðungu sá sem úrskurðarorð beinist að getur gert kröfu um frestun réttaráhrifa.
Úrskurðarorð umrædds úrskurðar, þ.e. úrskurðar nr. A-497, beinast að embætti landlæknis og ekki TM Software Origo ehf. Eru þegar af þeirri ástæðu ekki lagaskilyrði til þess að fjalla efnislega um kröfu félagsins um frestun réttaráhrifa og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Ákvæði um endurupptöku máls er í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun, og hún verið tilkynnt, eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Almennt er í stjórnsýslurétti litið svo á að til að geta talist vera aðili máls þurfi viðkomandi að eiga einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn í því. Það ræðst þó af því hvaða svið stjórnsýslunnar um er að ræða. Upplýsingalög nr. 140/2012 byggja á því sjónarmiði að sá sem upplýsingar varðar teljist ekki aðili máls, eins og m.a. kemur skýrt fram í athugasemdum við ákvæði 9. gr. í því frumvarpi sem varð að þeim lögum. Verður því ekki séð að skilyrði séu til endurupptöku máls ÚNU 13040005 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Eins og rakið er hér að framan gerði lögmaður TM Software einnig þá kröfu að úrskurðarnefnd um upplýsingamál afturkallaði úrskurð sinn að eigin frumkvæði á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tekið skal fram að nefndin fékk í hendur bréf frá lögmanni TM Software hinn 17. janúar 2014, þar sem gefnar eru viðbótarskýringar af hálfu fyrirtækisins. Þær varða atriði í kaupsamningnum sem fyrirtækið telur vera atvinnuleyndarmál sitt, samkeppnismál og einstök efnisatriði kaupsamningsins. Nefndin hefur farið rækilega yfir þetta bréf og sér ekki tilefni til þess að afturkalla úrskurð sinni að eigin frumkvæði, enda bendir ekkert til þess að mati nefndarinnar að úrskurðurinn sé haldinn svo verulegum annmarka að hann sé ógildanlegur að lögum.
Úrskurðarorð
Kröfu TM Software Origo ehf., um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar A-497/2013, frá 23. september 2013, er vísað frá.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson