A-538/2014. Úrskurður frá 24. júní 2014
Úrskurður
Hinn 24. júní 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 538/2014 í málum ÚNU nr. 14030006, 14030008 og 14030009.
Kæruefni og málsatvik
Með þremur erindum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 17. og 18. mars 2014, kærði A afgreiðslu Háskóla Íslands á beiðnum hans um aðgang að gögnum.
Í fyrsta erindinu (mál ÚNU 14030006) segir: „Kæri hér með höfnun um gögn skv. meðfylgjandi. Beiðni um gögn snýr að umsækjendum um starf en ekki starfsmönnum. Sjöunda greinin á því ekki við. Þetta er fyrri tölvupósturinn af tveimur.“ Í öðru erindinu (mál ÚNU 14030008) segir: „Rektor Háskóla Íslands verður ekki við beiðni minni um gögn. Ég verð því að leita til ykkar.“ Í þriðja erindinu (mál ÚNU 14030009) segir einnig: „Rektor Háskóla Íslands verður ekki við beiðni minni um gögn. Ég verð því að leita til ykkar.“
Málsmeðferð
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda bréf, dags. 25. mars 2014, í öllum málunum. Í þeim er spurt hvort kærandi hafi verið meðal umsækjenda um viðkomandi störf. Síðan segir: „Ef svo er, lýtur upplýsingabeiðni yðar stjórnsýslulögum nr. 37/1993, og synjun um afhendingu gagna sætir þá ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar.“
Kærandi svaraði með tölvupósti, dags. 27. mars 2014. Þar segir m.a.: „Undirritaður var umsækjandi í öllum þessum tilfellum.“
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Mál þetta varðar aðgang kæranda að gögnum varðandi ráðningar í tiltekin störf hjá Háskóla Íslands.
Þegar aðili stjórnsýslumáls óskar aðgangs að gögnum, sem varða ákvarðanir stjórnvalds um rétt eða skyldu í máli hans, reynir á 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í upphafi 1. mgr. að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varði.
Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Í 14. gr. þeirra er efnisregla um aðgang aðila að upplýsingum um sig sjálfan. Samkvæmt henni er skylt, sé þess óskað, að veita honum aðgang að fyrirliggjandi gögnum hafi þau að geyma upplýsingar um hann sjálfan, en það hefur verið talið geta átt við þótt þær séu ekki beinlínis um hann, heldur varði hann óbeint og snerti hagsmuni hans. Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir að þessi réttur takmarkist af gildissviði stjórnsýslulaga, sem eigi við þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, t.d. við ráðningar starfsmanna. Þar segir m.a.:
„Meginreglan um upplýsingarétt, sem fram kemur í 5. gr. frumvarpsins, gildir án þess að sá sem í hlut á þurfi að sýna fram á nokkur tengsl við málið sem upplýsinga er óskað um. Slík tengsl geta þó verið fyrir hendi og gæti hlutaðeigandi þá í mörgum tilvikum byggt rétt sinn til að fá aðgang að upplýsingum á upplýsingarétti aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum. Sá réttur er hins vegar takmarkaður af gildissviði stjórnsýslulaga því að þau ná aðeins til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, t.d. við ráðningar starfsmanna hjá hinu opinbera. Í öðrum tilvikum en þeim sem falla undir stjórnsýslulögin kunna einstaklingar og lögaðilar að eiga réttmæta hagsmuni umfram aðra af því að fá upplýsingar, sem varða þá sérstaklega, t.d. um mál þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið eða verður nokkru sinni tekin.“
Af framangreindu leiðir að 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á ekki við um þann sem nýtur réttar samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi var í öllum tilvikum í hópi umsækjenda og nýtur því þess réttar. Þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki borið ágreiningsmál þetta undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því að vísa kærum hans frá nefndinni.
Úrskurðarorð
Vísað er frá kærum A, dags. 17. og 18. mars 2014, vegna afgreiðslu Háskóla Íslands á beiðnum um afhendingu gagna.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson