A-545/2014. Úrskurður frá 24. júlí 2014
Úrskurður
Hinn 24. júlí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-545/2014 í máli ÚNU14010002.
Kæra
Með tölvubréfi, dags. 8. janúar 2014, kærði A, blaðamaður á Fréttablaðinu, synjun Isavia ohf., dags. 8. janúar 2014, um aðgang að samningi við Mýflug hf. um leigu á húsi til farþegaafgreiðslu, sem hefur fastanúmerið 2223-7353 og er í eigu ríkissjóðs. Með kærunni fylgdi afrit af umræddri synjun. Þar segir m.a.:
„Vísað er til tölvupósts frá þér þar sem óskað er eftir afriti leigusamnings vegna farþegaafgreiðslu í eigu ríkissjóðs í umsjón Isavia á Mývatni. Ekki kemur fram í beiðninni á hvaða grunni óskað er eftir þessum gögnum.
Með hliðsjón af ákvæðum upplýsingalaga veita lögin ekki aðgang að öðrum gögnum í vörslu Isavia en þeim sem orðið hafa til eftir gildistöku laganna 28. des. 2012 sbr. ákv. 3. mgr. 35. gr. laganna. Hins vegar undanskilja lögin aðgang að gögnum er varða fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja. Ekki er því hægt að verða við beiðni þinni um aðgang að þessum gögnum.“
Málsmeðferð
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi Isavia ohf. bréf, dags. 19. mars 2014, og gaf félaginu kost á athugasemdum við framangreinda kæru. Í svarbréfi félagsins, dags. 21. febrúar 2014, segir m.a.:
„Isavia ohf. er hlutafélag í eigu ríkisins sem fellur undir 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Eins og fram kom í svarinu til […] taka lögin ekki gildi gagnvart félaginu fyrr en 6 mánuðum eftir gildistöku laganna sem var 1. janúar 2013, sbr. ákv. 1. mgr. 35. gr. laganna. […] Þá taka þau ekki til annarra gagna en þeirra sem urðu til eftir gildistöku laganna sbr. 3. mgr. 35. gr.
Félagið er ekki stjórnvald og tekur ekki stjórnvaldsákvarðanir á þessu sviði þannig að undanþáguákvæði síðari málsliðar 3. mgr. 35. gr. á ekki við.
Samningur sem […] óskar eftir aðgangi að er frá 15. september árið 2000 (sbr. forsíða samningsins) og fellur því ekki undir gögn sem lögin veita aðgang að. Samningurinn er ótímabundinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti og er meðfylgjandi. Þegar og af þessari ástæðu var aðgangi að þessum gögnum hafnað.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda bréf, dags. 25. mars 2014, og gaf honum kost á að koma að athugasemdum við framangreint bréf Isavia ohf. Hann svaraði með tölvubréfi, dags. 19. maí 2014, og áréttaði ósk sína um að fá aðgang að öllum bókunum Isavia varðandi samning um afnot af byggingunni og hugsanlega endurnýjun þess samnings.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila frekar en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að samningi um útleigu á fasteign ríkisins, sem hefur fastanúmerið 2223-7353, og er fyrir farþegaafgreiðslu á Mývatni.
Með gildistöku upplýsingalaga nr. 140/2012, hinn 1. janúar 2013, var gildissvið upplýsingalaga víkkað. Eldri lög tóku almennt aðeins til starfsemi stjórnvalda, og ekki til einkaréttarlegra lögaðila, hvort sem þeir voru í eigu hins opinbera eða ekki, en hin nýju lög taka til allrar starfsemi á vegum einkaréttarlegra lögaðila sem eru í eigu hins opinbera að 51% hluta eða meira, sbr. 2. mgr. 2. gr. Það á m.a. við um Isavia ohf. og því taka ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 til þess.
Upplýsingalög gilda um öll gögn sem undir þau falla, án tillits til þess hvenær þau urðu til eða hvenær þau hafa borist þeim aðilum sem undir þau falla, sbr. 2. mgr. 35. gr. Þó segir í 3. mgr. sömu greinar að þau gildi aðeins um þau gögn í vörslu lögaðila sem hafi orðið til eftir gildistöku laganna, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. Fyrir liggur að það gagn sem mál þetta lýtur að, þ.e. samingur Isavia ohf. við Mýflug hf. um leigu á fasteign með fastanúmerið 2223-7353, varð til fyrir gildistöku nýrra upplýsingalaga eða árið 2009. Fellur ágreiningur um aðgang að samningnum því utan valdssviðs úrskurðarnefndar um upplýsingamál, eins og það er afmarkað í 20. gr. laganna, og verður kærunni vísað frá nefndinni.
Úrskurðarorð
Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A dags. dags. 8. janúar 2014, á hendur Isavia ohf. vegna synjunar á beiðni um aðgang að samningi við Mýflug hf., þ.e. um leigu á húsnæði til farþegaafgreiðslu.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson