A-547/2014. Úrskurður frá 24. júlí 2014
Úrskurður
Hinn 24. júlí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-547/2014 í máli ÚNU 13100005.
Kæra og málsmeðferð
Með bréfi dags. 25. október 2013 kærði A., f.h. Brit Insurance Limited, Great Lakes Reinsurance (UK) Plc., Chubb Insurance Company of Europe SE, Aspen Insurance UK Limited og fleiri erlendra vátryggjenda („kærendur“), ákvörðun Fjármálaeftirlitsins („FME“) dags. 25. september 2013, um að synja kærendum um aðgang að gögnum í þremur liðum.
Upphafleg gagnabeiðni kærenda, dags. 22. júní 2012, var í átta liðum og byggðist á 3. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996. FME synjaði um aðgang að umbeðnum gögnum með bréfi dags. 6. júlí 2012 á þeim grundvelli að beiðnin varðaði ekki tiltekið mál í skilningi eldri upplýsingalaga, heldur tiltekinn banka. Beiðnin væri því of almenn til að hægt væri að taka hana til efnislegrar afgreiðslu án nánari afmörkunar. Kærendur kærðu ákvörðun FME til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem vísaði átta töluliðum beiðninnar til nýrrar afgreiðslu stofnunarinnar með úrskurði A-491/2013 þann 16. ágúst 2013. Að því loknu tók FME ákvörðun um að synja kærendum um aðgang að liðum beiðninnar nr. 4, 5, 7 og 8 að nýju, þann 25. september 2013. Kæra kærenda lýtur að liðum nr. 4, 5 og 8, líkt og hér greinir:
4. Skýrsla FME um lánaáhættur Kaupþings banka hf. frá janúar 2008.
5. Skýrslur um stórar áhættur sem Kaupþing banki hf. sendi til FME á árunum 2007 og 2008.
8. Skjalið „Liquidity Risk - template - 18 months - SEPT all currencies SENT.xls“, dags. 31. ágúst 2008.
Kæran var send FME þann 28. október 2013 til umsagnar og óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að. Umsögn FME barst svo með bréfi dags. 26. nóvember 2013 og gögnin þann 3. desember 2013. Með bréfi dags. 20. desember 2013 var umsögn FME kynnt kærendum og þeim veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust svo með bréfi dags. 28. janúar 2014. Þann 12. júní 2014 sendu kærendur erindi í tilefni af dómi Hæstaréttar í máli nr. 281/2014 frá 23. maí 2014.
Málsástæður aðila
Síðari synjun FME dags. 25. september 2013 byggðist á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 og 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Kærendur byggja á því í kæru sinni að hvers konar takmarkanir á aðgangi almennings að upplýsingum verði að skýra þröngt. FME sé ekki undanþegið upplýsingalöggjöf og of víðtæk túlkun á framangreindum lagaákvæðum vinni gegn tilgangi og markmiði upplýsinga- og stjórnsýslulaga. Kærendur taka fram að upplýsingarnar sem beiðnin sneri að hafa verið gerðar opinberar beint eða óbeint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þagnarskylda gildi því ekki um þær óháð því hvort hún hafi á einhverjum tímapunkti hvílt á upplýsingunum eða bankanum. Þá benda kærendur á að Kaupþing sé undir stjórn skilanefndar og hafi enga fjárhagslega eða viðskiptalega hagsmuni af því að umrædd gögn eða upplýsingar fari leynt.
Kærendur telja gagnabeiðnina nauðsynlega til að taka til varna í máli nr. E-3162/2011, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Því þurfi að hafa hliðsjón af ákvæði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, sem verði ekki skilið á annan hátt en að þagnarskylda FME eigi ekki við um upplýsingar um eftirlitsskyldan aðila í slitameðferð. Þá megi afmá upplýsingar um einstaka viðskiptamenn án þess að synjað sé um aðgang að stærri hluta gagnanna samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002.
Loks telja kærendur að taka verði tillit til þess að FME sé eftirlitsstjórnvald sem hafi með höndum lögbundið eftirlit. Reglulega hafi komið fram alvarleg gagnrýni á eftirlitsstofnanir og skilvirkni þeirra. Því sé mikilvægt að almenningur geti veitt slíkum stofnunum aðhald, enda sé starfsemi þeirra ætlað að vera almenningi til hagsbóta.
Í umsögn FME er í upphafi vísað til synjunar stofnunarinnar, dags. 25. september 2013, og þeirra röksemda sem þar koma fram. Um liði nr. 4 og 8 í upplýsingabeiðni kærenda tekur FME fram að skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 séu ekki uppfyllt í málinu. Ákvæði 1. mgr. 13. gr. teljist sérstakt þagnarskylduákvæði sem sé víðtækara, þ.e. gangi lengra, en þær takmarkanir sem kveðið er á um í 9. gr. upplýsingalaga. Ákvæði 5. mgr. 13. gr. sé undantekning frá hinni sérstöku þagnarskyldu og beri því að skýra þröngt. Að auki sé ákvæðið heimildarákvæði og varði eingöngu upplýsingar sem séu þagnarskyldar samkvæmt 1. mgr., en ekki öðrum ákvæðum á borð við 58. gr. laga nr. 161/2002.
Varðandi skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, að eftirlitsskyldur aðili sé gjaldþrota eða þvinguð slit fari fram, tekur FME fram að Kaupþing banki hf. hafi verið tekinn til slita að kröfu skilanefndar og slitastjórnar bankans. Kaupþing banki hf. teljist því ekki í þvinguðum slitum. Auk þess sé félagið enn í slitameðferð og hafi enn ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Bankinn teljist þar af leiðandi ekki gjaldþrota í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998.
Varðandi það skilyrði 5. mgr. 13. gr., að upplýst sé um þagnarskyld atriði við rekstur einkamáls, áréttar FME að um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt. Að mati FME heimili undanþágan einungis þeim sem þagnarskylda samkvæmt 1. mgr. gildir um, að upplýsa fyrir dómi um atriði sem háð séu þagnarskyldu. Ekki sé hægt að skýra ákvæðið svo rúmt að það taki til almennra upplýsingabeiðna sem beint er til FME, jafnvel þótt sá sem lagði beiðnina fram sé aðili að einkamáli fyrir dómi. Gagnaöflun í einkamálum fyrir dómi fari fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og geti aðili að slíku máli skorað á gagnaðila að leggja fram gögn. Ákveðin réttaráhrif fylgi því að ekki sé orðið við slíkri áskorun.
Fallist úrskurðarnefndin ekki á sjónarmið FME um skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 tekur stofnunin fram að slitum bankans sé ekki lokið og umbeðin gögn hafi því að geyma mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni félagsins sem enn eru virkir.
FME fjallar sérstaklega um lið 5 í gagnabeiðni kærenda í umsögn sinni. Stofnunin bendir á að synjun um aðgang að tilteknum skýrslum um stórar áhættur hafi verið byggð á 58. gr. laga nr. 161/2002 og 9. gr. upplýsingalaga. Kærendur hafi bent á að í mörgum tilvikum séu viðskiptavinir sem tilgreindir eru í skýrslunum ekki lengur til og því séu ekki lengur hagsmunir til staðar til að vernda. FME hafnar þessu og bendir á að engin tímatakmörk séu á þagnarskyldu samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Verulega væri vegið að einkahagsmunum viðskiptamanna og rétti þeirra til persónuverndar ef ákvæðið yrði túlkað á þann veg að þagnarskyldan gildi eingöngu á meðan aðili er í viðskiptum við fjármálafyrirtæki.
FME bendir á að rannsóknarnefnd Alþingis var skipuð á grundvelli laga nr. 142/2008. Samkvæmt lögunum hafði nefndin víðtækan rétt til upplýsinga frá einstaklingum, lögaðilum og stofnunum, þar á meðal FME. Á nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar hvíldi þagnarskylda um þær upplýsingar sem henni bárust og leynt eiga að fara. Hlutverk nefndarinnar hafi ekki verið að afhenda eða svipta hulunni af einstökum upplýsingum og gögnum sem henni voru afhentar við rannsóknina, heldur að skrifa skýrslu þar sem niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á samandregnu formi.
Í athugasemdum kærenda við umsögn FME kemur fram að skýringu stofnunarinnar á 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 sé hafnað. Lesa verði ákvæðið ásamt XII. kafla laga nr. 161/2002 í heild, og sé þá ljóst að Kaupþing sé gjaldþrota í skilningi ákvæðisins. Þá telja kærendur að úrræði til gagnaöflunar samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 takmarki ekki heimildir samkvæmt upplýsingalögum eða undanþáguákvæði laga nr. 87/1998.
Niðurstaða
1.
Mál þetta varðar beiðni kærenda um gögn um útlánaáhættu Kaupþings banka hf., sem eru í vörslum FME á grundvelli eftirlitsheimilda stofnunarinnar. Í 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, með síðari breytingum, segir orðrétt:
„Stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Sama gildir um lögmenn, endurskoðendur, tryggingastærðfræðinga og sérfræðinga sem starfa fyrir eða á vegum Fjármálaeftirlitsins. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi og er óheimilt að nýta í atvinnuskyni upplýsingar sem bundnar eru þagnarskyldu.“
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar í fyrri úrskurðum að ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 teljist sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þá hefur orðasambandið „óviðkomandi aðilum“ verið skýrt með þeim hætti að átt sé við aðila sem ekki er gert ráð fyrir í lögum að FME miðli upplýsingum til. Ljóst er að kærendur teljast til óviðkomandi aðila í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, en hins vegar er deilt um hvort ákvæði 5. mgr. 13. gr. laganna á við í málinu.
Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 er heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir annars um samkvæmt 1. mgr., þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram. Þagnarskyldan gildi þó um upplýsingar sem varða þriðja aðila sem á hlut að björgunaraðgerðum vegna eftirlitsskylds aðila. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að leggja til grundvallar að Kaupþing banki hf. sé gjaldþrota í skilningi ákvæðisins. Í þessu samhengi getur engu breytt sú staðreynd að upphafleg krafa um slitameðferð hafi stafað frá skilanefnd og slitastjórn bankans, líkt og haldið er fram af hálfu FME. Sama gildir um fullyrðingar stofnunarinnar er lúta að því að bankinn hafi ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum. Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 er ekki gerður slíkur áskilnaður, enda verða bú fjármálafyrirtækja ekki tekin til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002.
Með ákvörðun FME dags. 9. október 2008 tók stofnunin yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf. og vék félagsstjórn hans frá störfum. Um leið voru öll málefni bankans sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og var ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila bankans. Verður að líta svo á að upp frá því hafi Kaupþing banki hf. verið í aðstöðu sem leggja má að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans, og bankinn gjaldþrota í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998.
Það er skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 að upplýst sé um atriði, sem þagnarskylda 1. mgr. gildir um, við rekstur einkamála. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður að skýra þennan áskilnað svo að átt sé við gagnaöflun sem fram fer fyrir dómi innan ramma laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beiðni um afhendingu gagna, sem beint er til stjórnvalds á grundvelli ákvæða upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum, verður ekki jafnað til reksturs einkamáls í þessum skilningi. Ákvæði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 ber að skýra með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga, og getur í þessu samhengi engu breytt þó kærendur hyggist leggja gögnin fyrir dóm í einkamálum sem þeir eru aðilar að. Öndverð skýring myndi leiða til þess að réttarvernd 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 væri fyrir borð borin, þar sem almenningi væri í lófa lagið að krefjast aðgangs að gögnum sem þagnarskylda ákvæðisins ríkir um í þeim yfirlýsta tilgangi að leggja þau fyrir dóm í einkamáli. Samkvæmt framansögðu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að eins og á stendur þurfi að meta hvort umbeðin gögn séu háð þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998, án tillits til þeirrar heimildar sem 5. mgr. ákvæðisins mælir fyrir um.
Þá hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál einnig lagt til grundvallar að ákvæði 1. og 2. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 teljist sérákvæði laga um þagnarskyldu í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þagnarskylda samkvæmt ákvæðinu færist yfir á FME vegna upplýsinga sem það hefur tekið við.
2.
Liður nr. 4 í upphaflegri gagnabeiðni kærenda tekur til skýrslu FME um útlánaáhættu hjá Kaupþingi banka hf. frá janúarmánuði 2008. Skýrslan er 54 tölusettar blaðsíður á lengd. FME hefur þegar veitt kærendum aðgang að forsíðu skýrslunnar, hluta inngangskafla hennar og efnisyfirliti sem greinir hér á eftir:
1.0 Inngangur
2.0 Helstu niðurstöður
2.1 Niðurstöður mats Fjármálaeftirlitsins á útlánaáhættu
3.0 Útlánaáhætta
3.1 Reglur um útlánaáhættu og áhættustýringaraðferðir
3.1.1 Stjórn
3.1.2 Lánanefndir
3.1.3 Útlánaheimildir
3.2 Flokkun útlána
3.2.1 Sundurliðun eftir atvinnugreinum
3.2.2 Sundurliðun eftir tegundum
3.2.3 Sundurliðun eftir löndum
3.2.4 Sundurliðun eftir einstökum félögum í samstæðu KB
3.2.5 Sundurliðun eftir viðskiptavinum
3.2.6 Yfirlit yfir íbúðalán
3.3 Útlánaáhætta tengd verðbréfum
3.4 Afleiðusamningar tengdir útlánum
3.4.1 Mótaðilaáhætta afleiðusamninga
3.4.2 Útlánaígildi framvirkra samninga um hlutabréf
3.5 Áhættumælingaraðferðir
3.5.1 Tapsáhætta
3.5.2 Samþjöppunaráhætta
3.5.3 Upplýsingar frá starfsmönnum bankans
3.6 Stórar áhættur
3.6.1 Yfirlit yfir stórar áhættur
3.6.2 Mat á tengslum og meðhöndlun tengdra aðila
3.7 Lán til venslaðra aðila
3.8 Vanskil
3.9 Vaxtafryst útlán og fullnustueignir
3.10 Afskriftaframlög og mat á afskriftaþörf
3.11 Annað
3.11.1 Lán til starfsmanna
Líkt og fram kemur í inngangi skýrslunnar er hún liður í úttekt FME á útlánum sex stærstu fjármálafyrirtækja landsins, sem hófst í júní 2007. Athugun stofnunarinnar beindist að útlánaáhættu bankans með það að markmiði að veita FME góða yfirsýn yfir útlánasafn hans, meta gæði útlána og leggja mat á áhættustýringu og innra eftirlit bankans.
Skýrslan hefst á samantekt um útlánareglur bankans og flokkun útlána. Að því búnu er farið ítarlega yfir lánveitingar til fjölmargra viðskiptamanna bankans, stöðu þeirra, tengingu innbyrðis og vanskil. Þessar upplýsingar eru síðan notaðar við mat á áhættu bankans á lánveitingum í samræmi við markmið og aðferðir athugunarinnar. Þá hefur skýrslan að geyma upplýsingar um einkamálefni starfsmanna bankans. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar falli undir hin sérstöku þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002, 13. gr. laga nr. 87/1998 og 9. gr. upplýsingalaga, sem gerð var grein fyrir að framan.
Kærendur halda því fram að með umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu nefndarinnar, sem virðist að einhverju leyti byggð á umbeðnum gögnum, hafi þeir hagsmunir sem búa að baki þagnarskyldu FME á grundvelli framangreindra lagaákvæða fallið niður. Í þessu sambandi varðar mestu að rannsóknarnefnd Alþingis starfaði á grundvelli laga nr. 142/2008, en samkvæmt lögunum hafði nefndin ríkar rannsóknarheimildir. Skylt var að veita nefndinni aðgang að gögnum sem háð voru þagnarskyldu en af 3. mgr. 4. gr. laganna leiðir að þagnarskyldan færðist yfir til nefndarinnar og starfsmanna hennar. Sú staðreynd að rannsóknarnefnd Alþingis hafi stuðst við tiltekið gagn í störfum sínum, sem er háð sérstakri þagnarskyldu, leiðir þar með ekki til þess að þagnarskyldan falli niður gagnvart öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum nefndarinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2014.
Samkvæmt framangreindu var FME rétt að synja kærendum um aðgang að skýrslu um útlánaáhættu Kaupþings banka hf., umfram þá hluta hennar sem kærendur hafa þegar fengið aðgang að. Framangreind sjónarmið eiga við um svo stóran hluta skýrslunnar að ekki kemur til greina að aðgangur verði veittur að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
3.
Liður 5 í gagnabeiðni kærenda tekur til skýrslna um stórar áhættur sem Kaupþing banki hf. sendi til FME á árunum 2007 og 2008 á grundvelli reglna nr. 216/2007 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum (áður reglur nr. 531/2003). Um er að ræða tólf skýrslur sem miða við ársfjórðungslegar uppgjörsdagsetningar bankans á tímabilinu. Í hvert sinn skilaði bankinn tveimur skýrslum, einni fyrir móðurfélagið og annarri fyrir samstæðuna, og skiptist hvor skýrsla í tvo hluta. Fram kemur í umsögn FME að bankinn hafi ekki skilað skýrslum fyrir uppgjörsdagsetningarnar 30. september 2008 og 31. desember 2008, þar sem FME hafði þá tekið yfir vald hluthafafundar bankans.Skýrslurnar eru á stöðluðu töflureiknisformi. Fyrri hluti hverrar skýrslu inniheldur sundurliðaðar upplýsingar um tiltekna viðskiptamenn bankans þar sem greint er frá heildarskuldbindingum þeirra, afskriftaframlagi og vaxtafrystingu, handveði bankans í bankainnstæðum og kröfum eftir lánstíma og tegund veðs. Loks eru framangreindar upplýsingar dregnar saman í reitinn „Áhættuskuldbindingar nettó“, ásamt hlutfalli áhættuskuldbindinga af eigin fé. Síðari hluti hverrar skýrslu hefur að geyma fjölmargar úttektir þar sem áhættuskuldbindingar bankans vegna hvers viðskiptamanns eru tilgreindar ásamt ítarlegum upplýsingum um heildarskuldbindingar, ábyrgðir og vanskil. Loks er að finna athugasemdir bankans með einstökum skýrslum, þar sem þess er óskað að FME taki tillit til ákveðinna sjónarmiða við mat á þeim. Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslnanna og athugasemdanna falli undir hin sérstöku þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002, 13. gr. laga nr. 87/1998 og 9. gr. upplýsingalaga.
Kærendur hafa borið því við að hægt sé að afmá nöfn einstakra viðskiptavina og veita aðgang að þeim tölulegu samantektum sem eftir standa, án þess að fari í bága við þá sérstöku þagnarskyldu sem 58. gr. laga nr. 161/2002 kveður á um. Kærendur telja sömu niðurstöðu leiða af þeirri staðreynd að sumir þeirra viðskiptavina sem tilgreindir eru í skýrslunum eru ekki lengur starfandi. Að mati nefndarinnar er kærendum ekki hald í þessum málsástæðum af þeim sökum að eftir sem áður er um að ræða upplýsingar sem eru háðar sérstakri þagnarskyldu samkvæmt 13. gr. laga nr. 87/1998. Þá verður ekki lesið úr orðalagi 58. gr. laga nr. 161/2002 að þagnarskylda samkvæmt ákvæðinu sé bundin því skilyrði að viðskiptavinir fjármálafyrirtækis séu enn starfandi undir sömu merkjum og þegar upplýsingarnar urðu til. Af framangreindu leiðir að ekki eru skilyrði til að veita aðgang að umbeðnum skýrslum að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin tekur fram að þær upplýsingar sem undanþegnar eru upplýsingarétti eru svo stór og veigamikill hluti þeirra gagna sem beiðnin lýtur að að ekki sé tilefni til að veita aðgang að hluta þeirra, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál er því sú að ákvörðun FME, að synja kærendum um aðgang að skýrslum um stórar áhættur sem Kaupþing banki hf. sendi til stofnunarinnar á árunum 2007 til 2008, verður staðfest.
4.
Loks kemur til skoðunar liður 8 í gagnabeiðni kærenda, skjalið „Liquidity Risk - template - 18 months - SEPT all currencies SENT.xls“, dags. 31. ágúst 2008. Skjalið er tvær blaðsíður, á töflureiknisformi og á ensku. Um er að ræða svokallað „liquidity report“, eða yfirlit um lausafjárstöðu Kaupþings banka hf. miðað við tilgreinda dagsetningu, ásamt mati á þróun stöðunnar næstu 18 mánuði þar á eftir.Tölulegar upplýsingar um lausafjárstöðu fjármálafyrirtækis á tilteknum tímapunkti teljast án nokkurs vafa til viðkvæmra upplýsinga um viðskipti og rekstur þess. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur skjalið því að geyma upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 og 9. gr. upplýsingalaga. Kærendur hafa ekki fært fram röksemdir sem leiða til þess að þagnarskyldunni verði aflétt, með vísan til þess rökstuðnings sem fram kemur um liði 4 og 5 í gagnabeiðni kærenda að framan. Því er staðfest synjun FME á að veita kærendum aðgang að skjalinu „Liquidity Risk - template - 18 months - SEPT all currencies SENT.xls“, dags. 31. ágúst 2008.
Úrskurðarorð
Staðfest er synjun Fjármálaeftirlitsins um aðgang kærenda að skýrslu stofnunarinnar um lánaáhættur Kaupþings banka hf. frá janúar 2008, skýrslum um stórar áhættur sem Kaupþing banki hf. sendi til stofnunarinnar á árunum 2007 og 2008 og skjalinu „Liquidity Risk - template - 18 months - SEPT all currencies SENT.xls“, dags. 31. ágúst 2008.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson