548/2014. Úrskurður frá 13. ágúst 2014
Úrskurður
Hinn 13. ágúst 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð, nr. 548/2014, í máli ÚNU 14080002.
Málsatvik
Með bréfi, dags. 6. ágúst 2014, krafðist H, f.h. K, þess fyrir hönd sveitarfélagsins Ölfuss að réttaráhrifum úrskurðar nr. 541/2014, sem kveðinn var upp 24. júlí 2014, í máli ÚNU 14040010, yrði frestað. Því til rökstuðnings segir m.a.:
„Réttur til að bera fram kröfu um frestun réttaráhrifa gildir í sjö daga frá birtingu úrskurðar. Með vísan til birtingarreglu stjórnsýsluréttar, sem felur í sér að ákvörðun í máli sé aðeins bindandi þegar hún er komin til aðila máls, er byggt á því að fresturinn hafi fyrst byrjað að líða þegar úrskurðurinn barst nefndnum hæstaréttarlögmanni í hendur […] Líkt og að ofan greinir barst úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingarmál nr. 541/2014 nefndum hæstaréttarlögmanni er hann kom aftur til starfa eftir sumarleyfi hinn 5. ágúst sl. Hófst þá sjö daga frestur skv. 24. gr. upplýsingalaga, sem skal teljast frá og með 6. ágúst, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. […] Samkvæmt 24. gr. upplýsingalaga er frestun réttaráhrifa bundin því skilyrði að úrskurðarnefnd um upplýsingamál telji sérstaka ástæðu til þess að réttaráhrifum verði frestað. Umbjóðandi LEX telur ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt í málinu. Í því sambandi er bent á að verði réttaráhrifum úrskurðarins ekki frestað og kæranda afhent gögn samkvæmt úrskurðarorðum þá er réttur LEX til þess að bera málið undir dómstóla gerður þýðingarlaus, enda hafa þá gögnin og upplýsingar samkvæmt þeim komist til vitundar kæranda og tilgangur fyrirhugaðrar málsóknar umbjóðanda LEX fyrir borð borinn. Er umbjóðanda LEX því nauðsynlegt að fá réttaráhrifum úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frestað.“
Niðurstaða
Í 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagt fyrir stjórnvald eða annan aðila að veita aðgang að gögnum geti hún, að kröfu viðkomandi, ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún sérstaka ástæðu til. Skuli krafa þess efnis berast úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki síðar en sjö dögum frá birtingu úrskurðar.
Í athugasemdum við framangreint ákvæði, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir m.a.:
„Í 1. mgr. 24. gr. er lagt til að lögbundin verði heimild fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál til þess að fresta réttaráhrifum úrskurðar þegar nefndin hefur úrskurðað að aðgang skuli veita að upplýsingum. Sá sem úrskurður beinist gegn getur þá gert kröfu þess efnis með það fyrir augum að bera ágreiningsefnið undir dómstóla. Líta ber á þetta heimildarákvæði sem undantekningu sem aðeins verði beitt þegar sérstaklega stendur á. Sambærilegt ákvæði er nú í 18. gr. upplýsingalaga. Þó er lagt til að frestur til að bera fram kröfu um frestun réttaráhrifa lengist úr þremur dögum, eins og nú er kveðið á um, í sjö daga. Fresturinn er þá áfram mjög skammur, en gefur samt nauðsynlegt svigrúm fyrir viðeigandi aðila til að taka afstöðu til viðbragða. Brugðið hefur við, til að mynda þegar úrskurðir eru birtir í lok viku, að stjórnvöld hafi í reynd ekki haft nægan tíma til að bregðast við á grundvelli þessa ákvæðis.“
Í 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum. Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður.“
Krafa sú sem hér er til úrskurðar lýtur að úrskurði sem kveðinn var upp fimtudaginn 24. júlí 2014 og var póstlagður föstudaginn 25. júlí. Verður við það að miða að sá sjö daga frestur, sem mælt er fyrir um í 24. gr. upplýsingalaga, hafi runnið út hinn 2. ágúst 2014. Reki lögmaður mál fyrir úrskurðarnefndinni verður við það að miða að upphaf frestsins hefjist þegar úrskurður berst á starfsstöð hans en ekki þegar póstsendingin er opnuð fari þau tímamörk ekki saman. Í upplýsingalögum nr. 140/2012 er ekki gert ráð fyrir að svokölluð lögmæt forföll, sbr. t.d. ákvæði um meðferð einkamála þar að lútandi, kunni að lengja þennan frest. Það að lögmaður þess aðila sem úrskurður beinist gegn hafi verið í sumarleyfi þegar úrskurður var birtur getur því að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál ekki framlengt umræddan frest.
Krafa sú sem hér er til úrskurðar barst ekki fyrr en hinn 6. ágúst 2014 og verður að gera ráð fyrir að þá hafi a.m.k. 10 dagar verið liðnir frá birtingu. Eru þegar af þeirri ástæðu ekki efni til frekari umfjöllunar um frestunarkröfuna og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kröfu H., f.h. K., fyrir hönd sveitarfélagsins Ölfuss um að frestað verði réttaráhrifum úrskurðar nr. 541/2014, frá 24. júlí 2014, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson