541/2014. Úrskurður frá 8. október 2014
Úrskurður
Hinn 8. október 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 541/2014 í máli ÚNU 14060004.I.
Efni máls
1.
Forsaga máls þessa er sú að þann 28. desember 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð nr. A-469/2012 í máli ÚNU 12100003 vegna kæru [A] yfir þeirri ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að synja henni um aðgang að skýrslu sem ber heitið: „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011.“ Í úrskurðarorðinu segir: „Beiðni [A], dags. 15. september 2012, er vísað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.“ Hinn 4. janúar 2013 synjaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu beiðninni á ný.
Synjun lögreglustjórans var kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hinn 16. janúar 2013 (mál ÚNU 13010005) og lauk meðferð þess máls með úrskurði nr. A-489/2013, dags. 3. júlí 2013. Í honum var synjun lögreglustjórans staðfest, en þó þannig að veita skyldi aðgang að köflum sem heita „Gagnrýni. Viðhorf annarra, s.s. fjölmiðla“ og að tiltekinni umfjöllun um kæranda.
Kærandi kvartaði yfir þessum úrskurði til umboðsmanns Alþingis. Með bréfi, dags. 8. apríl 2013, gerði nefndin umboðsmanni grein fyrir því að hún væri reiðubúin til að endurupptaka málið, bærist henni ósk þess efnis frá kæranda. Hinn 23. júní 2013 barst slík ósk (mál ÚNU 14060004) og hefur úrskurður þessi að geyma nýja niðurstöðu um skyldu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að afhenda umrædda skýrslu.
2.
Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu var, með bréfi dags. 25. júní 2014, gefinn kostur á að koma að rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Í svari sínu, dags. 8. júlí 2014, vísar hann til þess sem hann sagði í tölvupósti sínum til kæranda, hinn 4. janúar 2013, en sá póstur hljóðar svo:
„Með tölvupósti 16. september sl. senduð þér embættinu beiðni í tölvupósti um afhendingu á samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011. Umræddri beiðni var hafnað 17. september sl. með vísan til þess að þar sem um væri að ræða samantekt sem unnin var upp úr skráningum í málaskrá lögreglu væri ekki unnt að senda yður umrædda samantekt.
Hinn 16. október sl. kærðuð þér framangreinda synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Með úrskurði 28. desember sl. var beiðni yðar vísað til embættisins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.
Samkvæmt framangreindum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál er það niðurstaða nefndarinnar að ákvæði 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, þar sem segir að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn, eigi ekki við í máli þessu þar sem framangreind samantekt sé ekki gagn í tilteknu máli, þó svo að hún geymi upplýsingar um verklag lögreglunnar og upplýsingar úr fjölda mála sem augljóst er að hafi verið til rannsóknar eða annarrar meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi eftir atvikum, sem sakamál.
Þá kemst nefndin einnig að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið heimilt að synja yður um aðgang að umræddri samantekt einvörðungu á þeim grundvelli að þar væri að finna upplýsingar sem falli undir reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu, í ljósi þess að upplýsingalög geti falið í sér lagaheimild til miðlunar persónuupplýsinga ef skylt sé að láta af hendi gögn á grundvelli þeirra laga. Taka þurfi afstöðu til þess hvort lagaheimild til afhendingar umbeðins gagns sé að finna í upplýsingalögum og þá eftir atvikum hvort synjun á aðgangi að því yrði byggð á ákvæðum þeirra laga.
Samkvæmt framansögðu var það niðurstaða nefndinnar að embættið hefði ekki afgreitt beiðni yðar á réttum lagagrundvelli. Var beiðni yðar því vísað á ný til meðferðar embættisins.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál er beiðni yðar um afhendingu samantektar á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011 tekin á ný til meðferðar og afgreiðslu á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996.
Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að samantektin sem hér um ræðir sé rúmar 270 bls. að lengd og þar sé í upphafi fjallað almennt um tilurð hennar og skipulag lögreglunnar vegna mótmæla eða óeirða. Meginhluti samantektinnar fjalli hins vegar sérstaklega um afmörkuð mótmæli eða skipulag og aðgerðir vegna þeirra. Þar sé iðulega vikið að einstökum persónum, lögreglumönnum eða þeim sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af og eftir atvikum er einnig fjallað um það hvort tilteknir einstaklingar voru teknir höndum, ákærðir eða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi.
Í ljósi þessa efnis samantektarinnar og þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem þar er að finna um fjölda einstaklinga er beiðni yðar hafnað með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fram kemur í lögskýringargögnum að engum vafa sé undirorpið að undir þetta ákvæði falli þær persónuupplýsingar sem taldar eru upp í tilgreindu ákvæði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, þar á á meðal upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.
Þá er beiðninni jafnframt hafnað með vísan til 1. tl. 6. gr. upplýsingalaga, með hliðsjón af því að þar er að finna upplýsingar um skipulag löggæslu í tengslum við mótmæli og óeirðir. Þá er einnig til þess að líta að framangreind samantekt fellur undir 3. tl. 4. gr. upplýsingalaga enda er hér um að ræða vinnuskjal sem eingöngu var ritað til eigin afnota innan embættisins og hefur það ekki farið til annarra stjórnvalda. Umrædd samantekt er því einnig undanþegin upplýsingarétti með hliðsjón af þessu ákvæði upplýsinga.
Með hliðsjón af öllu framansögðu er beiðni yðar um aðgang að samantekinni synjað. Heimilt er að bera synjun þessa undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga, sbr. 14. og 16. gr. upplýsingalaga.“
Hinn 7. febrúar 2013 barst nefndinni ákvörðun lögreglustjórans, með hliðsjón af nýjum upplýsingalögum, sem tóku gildi sama dag og úrskurðarnefndin kvað upp fyrri úrskurð sinn í málinu, þ.e. úrskurð A-469/2012. Þar segir m.a.:
„Í ljósi þessa efnis samantektarinnar og þeirra viðkvæmu persónuupplýsinga sem þar er að finna um fjölda einstaklinga er beiðni yðar hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fram kemur í lögskýringargögnum með fyrri upplýsingalögum, en ákvæðið er óbreytt í nýjum lögum, að engum vafa sé undirorpið að undir þetta ákvæði falli þær persónuupplýsingar sem taldar eru upp í tilgreindu ákvæði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Sama kemur fram í frumvarpi að gildandi lögum í umfjöllun um þessa grein. Þá er beiðninni jafnframt hafnað með vísan til 1. tl. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, með hliðsjón af því að þar er að finna upplýsingar um skipulag löggæslu í tengslum við mótmæli og óeirðir. Þá er einnig til þess að líta að framangreind samantekt fellur undir 5. tl. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. laganna, enda er hér um að ræða vinnugagn sem eingöngu var ritað til eigin afnota innan embættisins og hefur það ekki farið til annarra stjórnvalda. Umrædd samantekt er því einnig undanþegin upplýsingarétti með hliðsjón af þessu ákvæði upplýsingalaga.“
Með bréfi, dags. 15. ágúst 2014, var kæranda gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir í ljósi svars lögreglustjóra, dags. 8. júlí 2014. Engar athugasemdir bárust.
Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
II.
Niðurstaða
1.
Mál þetta varðar skýrslu sem heitir „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“. Hún er rúmar 270 blaðsíður að lengd. Í fyrstu tveimur köflum hennar, aftur að blaðsíðu 10, er fjallað almennt um tilurð hennar og skipulag löggæslu vegna mótmæla eða óeirða. Frá og með blaðsíðu 10 og aftur að blaðsíðu 270 er fjallað sérstaklega um afmörkuð mótmæli og skipulag og aðgerðir vegna þeirra. Þar er að finna persónuupplýsingar um þá lögreglumenn sem voru við störf hverju sinni, um borgara sem voru á vettvangi mótmæla og lögregla hafði í sumum tilvikum afskipti af og um fleiri einstaklinga.
Umfjöllun um einstök mótmæli er misjöfn að efni og umfangi en er þó í flestum tilvikum stutt og vel afmörkuð. Fram kemur hvaða lögreglumenn voru við störf, með vísun til upphafsstafa í nöfnum þeirra og lögreglunúmers. Þá er lýst skipulagi lögregluaðgerða, tímalengd þeirra og atvikum, metið hvernig til tókst, vitnað í ummæli nokkurra lögreglumanna sem tóku þátt og gerð grein fyrir gagnrýni og viðhorfum annarra, s.s. fjölmiðla. Umfjöllun um hver mótmæli er skipt upp í skýrt afmarkaða undirkafla sem heita: „Lögreglumenn við störf“, „Skipulag“, „Tímalengd aðgerða“, „Atvikalýsing“, „Hvernig til tókst“, „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“ og „Gagnrýni. Viðhorf annarra, s.s. fjölmiðla“. Í þeim síðastnefndu eru teknar upp orðréttar tilvitnanir í umfjöllun fjölmiðla um einstök mótmæli.
Með skýrslunni fylgja þrjú fylgiskjöl. Hið fyrsta er einskonar greiningarlykill þar sem lögreglunúmer eru tengd við nöfn lögreglumanna, starfsheiti og vinnustaði. Fylgiskjal nr. II hefur að geyma tölfræðiupplýsingar. Fylgiskjal nr. III er bréf [...] til dómstjórans við Héraðsdóm Reykjavíkur.
2.
Samkvæmt 1. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er markmið þeirra að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, sbr. 1. tölul. ákvæðisins, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, sbr. 2. tölul., aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum, sbr. 3. tölul. og traust almennings á stjórnsýslunni, sbr. 5. tölul. Til samræmis segir í 1. mgr. 5. gr. laganna að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál og tilteknum fyrirliggjandi gögnum.
Þessi skylda sætir þeim takmörkunum sem greinir í 6. – 10. gr. laganna. Af 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að hafi aðeins hluti skjals að geyma upplýsingar sem falli undir þær takmarkanir skuli ábyrgðaraðili athuga hvort veita megi aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum að baki þessu ákvæði, í lögskýringargögnum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012, kemur fram að í ákvæðinu felist að veita eigi aðgang að hluta gagns sé hægt, með tiltölulega einföldum hætti, að skilja þær upplýsingar sem falla undir undantekningar, frá þeim upplýsingum sem veita skuli aðgang að. Þar skipti máli hversu víða þær upplýsingar, sem ekki sé skylt að veita aðgang að, komi fram og hversu stór hluti gagnsins verði þá ekki afhentur. Almennt megi miða við að ef þær upplýsingar sem halda megi eftir komi fram í meira en helmingi skjals þurfi ekki að veita aðgang að öðrum hlutum þess. (Alþt., 141. lþ., þskj. 223).
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umrædda skýrslu með tilliti til þessa. Í henni er fjallað sérstaklega og með aðgreindum hætti um hver einstök mótmæli. Í umfjöllun um sum þeirra eru engar persónuupplýsingar, í skilningi 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, og reynir þá ekki á takmörkunarreglu 9. gr. upplýsingalaga. Í umfjöllun um önnur koma ýmsar persónuupplýsingar fram, s.s. um nöfn einstaklinga sem tóku þátt í mótmælum. Þær eru þó ekki víða og auðvelt er að aftengja umfjöllun persónuauðkennum, s.s. nafni og kennitölu, og gera hana ópersónugreinanlega.
Að framangreindu virtu er það niðurstaða nefndarinnar að unnt sé að veita aðgang að skýrslunni með takmörkunum í samræmi við 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
3.
Framangreind skylda sætir sem áður segir takmörkun samkvæmt 6. – 10. gr. laganna. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu byggir synjun sína í fyrsta lagi á þeirri takmörkun sem fram kemur í 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., þ.e. að umrædd skýrsla sé vinnugagn, í öðru lagi á 9. gr. um takmarkanir vegna einkahagsmuna og í þriðja lagi á 10. gr. um takmarkanir vegna almannahagsmuna.
3.1.
Í 8. gr. upplýsingalaga lagnna er útskýrt hvaða gögn teljist til vinnugagna. Þar segir í 1. mgr.:
„Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Nú eru gögn afhent öðrum og teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.“
Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði verður gagn aðeins talið vinnugagn hafi það verið ritað eða útbúið við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Á þessu skilyrði er hnykkt í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012. Þar segir m.a.:
„Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins.“
Hvorki verður af umræddri skýrslu, né af öðrum gögnum máls þessa, ráðið að henni hafi verið ætlað að undirbúa ákvörðun eða aðrar lyktir máls innan lögreglunnar. Þegar af þeirri ástæðu fellst úrskurðarnefndin ekki á skýrslan teljist vinnugagn. Af því leiðir að ástæðulaust er að úrskurðarnefndin taki afstöðu til annarra skilyrða sem rakin eru hér að framan og fram koma í umræddu ákvæði upplýsingalaga og greinargerðinni er fylgdi frumvarpi til þeirra. Það er því niðurstaða nefndarinnar að synjun um aðgang kæranda að skýrslunni geti ekki byggst á 5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.
3.2.
Lögreglustjórinn hefur í öðru lagi vísað til 10. gr. upplýsingalaga. Í 1. tölul. hennar segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum, þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist þess, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál. Þá er í 5. tölul. ákvæði um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera sem yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.
Í athugasemdum að baki 1. tölulið 10. gr., í lögskýringargögnum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012, kemur m.a. fram að undir það geti fallið upplýsingar um skipulag löggæslu, en í öllum köflum skýrslunnar eru undirkaflar þar að lútandi.
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skiptir máli að um alllöngu liðna atburði er að ræða, og ekki um að ræða upplýsingar um skipulag eða fyrirhugaðar ráðstafanir sem geti orðið þýðingarlausar, eða ekki skilað tilætluðum árangri, verði þær á almanna vitorði. Verður ekki séð að takmörkun aðgangs að þessum köflum sé nauðsynleg til að vernda mikilvæga almannahagsmuni, innra og ytra öryggi ríkisins, hún sé nauðsynleg til að vernda mjög þýðingarmikla hagsmuni eða hindra að upplýsingar þeim tengdar berist út því það geti haft afdrifaríkar afleiðingar. Það er því niðurstaða nefndarinnar að synjun aðgangs verði ekki byggð á 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
3.3.
Lögreglustjórinn hefur í þriðja lagi vísað til 9. gr. upplýsingalaga um takmörkun á skyldu til að afhenda gögn vegna einkahagsmuna. Af henni leiðir að sú skylda, sem mælt er fyrir um í 5. gr., nær ekki til upplýsinga um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki hlutaðeigandi.
Þetta á í fyrsta lagi við um persónuupplýsingar sem eru viðkvæmar, samkvæmt lögum um persónuvernd, eins og fram kemur í athugasemdum við 9. gr., í því frumvarpi sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012. Samkvæmt b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga á það við um upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Það getur átt við um upplýsingar í skýrslunni um þá sem lögregla hafði afskipti af við einstök mótmæli og voru eftir atvikum teknir höndum, ákærðir eða dæmdir fyrir refsiverða háttsemi. Þá leiðir af c-lið 8. tölul. 2. gr. að þetta á við um upplýsingar sem varða heilsuhagi, en það getur t.d. átt við um upplýsingar um líkamstjón sem lögreglumenn og aðrir urðu fyrir við einstakar mótmælaaðgerðir. Þá er í a-lið getið upplýsinga um stjórnmálaskoðanir, svo og um trúar- eða aðrar lífsskoðanir. Upplýsingar um það að maður hafi tekið þátt í mótmælum á almannafæri gætu fallið hér undir, en það ræðst af tilviksbundnu mati. Við það mat skiptir t.d máli hvort vakað hafi fyrir viðkomandi að vekja athygli á sér og gera upplýsingar um sig/skoðanir sínar opinberar.
Takmarkanir samkvæmt 9. gr. geta einnig náð til annarra persónuupplýsinga en þeirra sem falla undir 8. tölul. 2. gr. laga. 77/2000, ef sanngjarnt er og eðlilegt að þær fari leynt. Þessi takmörkun fellur almennt saman við reglur um þagnarskyldu og myndi vart verða talin eiga við um upplýsingar sem eru almennt þekktar, hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum eða eru aðgengilegar í opinberum skrám. Utan þagnarskyldu geta því fallið upplýsingar í skýrslunni um einstaklinga sem koma við sögu starfa sinna vegna, s.s. embættismenn, dómara og þingmenn, og jafnvel um borgara sem voru á vettvangi mótmæla, en eru almennt þekktar. Ávallt ber þó að gæta sérstakrar varúðar við meðferð upplýsinga um börn og ólögráða. Þá getur verið sanngjarnt og eðlilegt að upplýsingar um líðan og skoðanir lögreglumanna – sem koma fram í undirköflunum „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“ – lúti aðgangstakmörkun, enda má ekki ætla að þeir hafi, þegar þeir létu þær í ljós, mátt vænta þess að þær yrðu gerðar opinberar.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni skýrslunnar í ljósi framangreinds, og 9. og 5. gr. upplýsingalaga, og er það niðurstaða hennar að veita beri kæranda aðgang að skýrslunni en með takmörkunum í ljósi framangreindra sjónarmiða. Verða þær taldar upp í úrskurðarorði. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hluta skýrslunnar sem kærandi hefur þegar fengið í hendur, á grundvelli úrskurðar nr. A-489/2013, dags. 3. júlí 2013, og ekki til upplýsinga sem varða kæranda sjálfan. Þeim á hann rétt til aðgangs að samkvæmt 14. gr. laganna.
Úrskurðarorð
Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu er skylt að veita kæranda aðgang að skýrslunni „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“ þó með eftirfarandi hætti:
Á bls. 18 skal afmá úr 3. mgr. bæði nafn/númer lögreglumanns sem slasaðist þegar hann fékk stein í andlitið og nafn gerandans.
Á bls. 19 skal afmá úr 6. mgr. bæði nafn geranda, sem var handtekinn, og lögreglumanns.
Úr neðstu málsgrein á bls. 32 skal afmá nafn þess sem fór á þak þinghússins.
Af bls. 27 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Á bls. 33 skal afmá úr 3. mgr. nafn og kennitölu þess sem kærður var.
Af bls. 33-34 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Af bls. 40 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Afmá skal nöfn einstaklinga af bls. 41.
Af bls. 42 skal afmá númer lögreglumanns.
Afmá skal nafn einstaklings úr neðstu línu á bls. 43.
Af bls. 43 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“Afmá skal nöfn einstaklinga af bls. 45.
Afmá skal 2. mgr. af bls. 46.
Af bls. 54-skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Afmá skal nöfn einstaklinga úr næstefstu línu á bls. 58.
Afmá skal nöfn einstaklinga og kennitölur af bls. 60
Afmá skal nafn varðstjóra af bls. 61
Af bls. 61-62 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Af bls. 66 skal afmá nöfn, kennitölur og heimilisföng einstaklinga sem voru handteknir.
Af bls. 67 skal afmá nafn einstaklings úr kafla sem heitir „Atvikalýsing“.
Af bls. 72 skal afmá nafn og kennitölu einstaklings úr lokalínum kaflans „Atvikalýsing“.
Afmá skal nafn, kennitölu og heimilisfang einstaklings úr tveimur neðstu línunum á bls 73 og efstu línu á bls. 74.
Á bls. 75 skal afmá einstaklings úr þriðju neðstu línu kaflans „Atvikalýsing“.
Á bls. 78 skal afmá númer lögreglumanns sem slasaðist.
Afmá skal nöfn og kennitölur handtekinna einstaklinga úr neðstu línu á bls. 78 og efstu línu á bls. 79.
Af bls. 79-82 skal afmá nöfn og númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Af bls. 83 skal afmá nafn lögreglumanns.
Afmá skal nafn úr neðstu málsgrein á bls. 83.
Afmá skal nafn barns úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 85.
Afmá skal nöfn og kennitölur gerenda úr næstefstu málsgrein á bls. 92.
Afmá skal nafn og símanúmer einstaklings úr þriðju- og fimmtuefstu línu í kaflanum.
Á bls. 94 skal afmá símanúmer úr fimmtu neðstu línu. „Atvikalýsing“ á bls. 94.
Afmá skal 3. mgr. (upptaln. handtekinna) af bls. 101.
Á bls. 103 skal afmá númer lögreglumanna sem meiddust.
Afmá skal nafn geranda úr 2. mgr. á bls. 104.
Af bls. 104-105, 110 og 112 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Afmá skal nafn og stöðuheiti mótmælanda úr 2. línu 3.. mgr. á bls. 118.
Á bls. 120 og 121 skal afmá númer lögreglumanna sem meiddust.
Af bls. 121-123 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Á bls. 127 skal afmá símanúmer starfsmanna fyrirtækis.
Af bls. 130 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Á bls. 135 skal afmá nafn og kennitölu einstaklings úr 1. og 4. línu í 2. mgr. í kaflanum „Atvikalýsing“.
Afmá skal nöfn og kennitölur einstaklinga úr 2. mgr. á bls. 136.
Afmá skal nöfn einstaklinga úr neðstu málsgrein á bls. 141.
Úr 2. málsgrein á bls. 142 og af bls. 143 skal afmá nöfn, símanúmer og kennitölur.
Af bls. 145 skal afmá 2. mgr. (upptaln. á þeim sem voru handteknir) og eyða nöfnum og kennitölur úr næstneðstu málsgrein.
Af bls. 145 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Afmá skal nafn og kennitölu einstaklings úr næstneðstu línu á bls. 152.
Af bls.. 152. skal afmá kennitölu úr næstneðtu línu.
Afmá skal persónuauðkenni (nöfn, kennitölur, heimilisföng) úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 155 – 156, m.a. númer bifreiða.
Afmá skal neðstu málsgr. á bls. 161 og þá efstu á bls 162 (upptaln. handtekinna).
Afmá skal nöfn úr 2. mgr. í kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 163.
Á bls. 164 skal afmá númer lögreglumanna sem meiddust og nöfn og kennitölur þeirra sem voru handteknir.
Af bls. 165 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“
Afmá skal nöfn úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 169.
Afmá skal nöfn handtekinna úr 2 málsgr. kaflans „Atvikalýsing“ á bls. 170.
Af bls. 171 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Afmá skal nöfn, heimilisföng, kennitölur af bls. 172.
Afmá skal nöfn, heimilisföng, kennitölur af bls. 174.
Afmá skal nafn, heimilisfang, kennitölu handtekins manns af bls. 178.
Afmá skal nöfn, heimilisföng, kennitölur handtekinna úr efstu mgr. á bls. 180.
Af bls. 183 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Af bls. 186 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Afmá skal nafn, heimilisfang og kennitölur manns úr 2. mgr kaflans „Atvikalýsing“ á bls. 189.
Afmá skal kennitölur úr efstu málsgrein á bls. 190.
Afmá skal nafn, kennitölur og heimilisföng handtekinna úr 2. mgr. í kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 197.
Afmá skal nöfn og kennitölur barns og handtekinna manna úr 1. og 2. mgr. í kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 200.
Afmá skal nafn, kennitölu og heimilisfang handtekins manns úr efstu línu næstefstu málsgreinar á bls. 202.
Úr næstefstu málsgr. á bls 206 skal afmá upplýsingar um að maður hafi verið handtekinn.
Afmá næstefstu málsgrein á bls. 208 og afmá nafn einstaklings úr kaflanum „Skipulag“ neðar á síðunni.
Afmá nafn einstaklings úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 209.
Afmá nafn og kennitölu handtekins einstaklings úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 212.
Afmá nafn handtekins einstaklings úr efstu línu á bls. 214.
Afmá nafn, kennitölu og heimilisfang handtekins einstaklings úr kaflanum „Atvikalýsing“ á bls. 219.
Af bls.. 219 skal afmá nafn og kennitölu úr neðstu línum næstneðstu málsgreinar.
Afmá nafn handtekins einstaklings úr efstu línu á bls. 221.
Á bls. 233 skal afmá númer lögreglumanna sem meiddust.
Af bls. 234 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Á bls. 244, neðst, skal afmá nafn og starfsheiti manns sem var handtekinn.
Af bls. 244 skal afmá númer lögreglumanna úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Af bls. 246 skal afmá kennitölu, nafn og heimilisfang úr kaflanum Atviklaýsing.
Af bls. 253-254 skal afmá númer lögreglumanns úr kaflanum: „Ummæli frá nokkrum lögreglumönnum sem tóku þátt“.
Afmá skal kennitölur gerenda á bls. 259.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson