Hoppa yfir valmynd

565/2014. Úrskurður frá 17. desember 2014

Úrskurður

Hinn 17. desember 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 565/2014, í máli ÚNU 14100020.


Krafa um endurupptöku máls

Þann 28. október 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál krafa frá A um endurupptöku máls ÚNU 14070003 og endurskoðun úrskurðar 540/2014. Þar segir m.a.: 

„Krafist er endurupptöku máls ÚNU14070003 sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál afgreiddi þann 8. október 2014 með úrskurði nr. 540/2014, þar sem kæru í málinu var vísað frá nefndinni.

II. Málsatvik

Hinn 10. júní 2014 afhenti undirritaður fjármálaeftirlitinu (“FME”) beiðni um aðgang að nánar tilgreindum gögnum. Hinn 18. júní 2014 sendi FME undirrituðum bréf þar sem var tilkynnt að afgreiðsla á gagnabeiðninni myndi fyrirsjáanlega tefjast. Hinn 7. júlí 2014 þegar undirrituðum hafði ekki borist svar frá FME við framangreindri beiðni beindi undirritaður kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál dags. þann sama dag. Hinn 8. júlí eða degi síðar barst undirrituðum bréf frá FME sem hafði að geyma svar dags. 4. júlí við framangreindri gagnabeiðni þar sem henni var synjað í meginatriðum, en þó veitt ákveðin svör um að hin umbeðnu gögn hefðu ekki að geyma upplýsingar er varða undirritaðan. Hinn 22. júlí sendi úrskurðarnefndin undirrituðum afrit af bréfi til FME þar sem óskað var eftir afstöðu stofnunarinnar til kæru undirritaðs. Hinn 11. ágúst 2014 sendi nefndin undirrituðum bréf þar sem kom fram að nefndinni hefði borist afrit frá FME af framangreindu svari við gagnabeiðni undirritaðs, og jafnframt sagði þar að: “Ef þér fellið yður ekki við efni svarsins er þess óskað að þér gerið nefndinni grein fyrir því sérstaklega. Hafi það ekki verið gert fyrir 20. þ.m. má vænta þess að málið verði fellt niður.” Samkvæmt þessum fyrirmælum nefndarinnar beindi undirritaður erindi til nefndarinnar sem var móttekið í forsætisráðuneytinu hinn 20. ágúst þar sem undirritaður hélt kæru sinni til streitu og gerði ítarlega grein fyrir kröfum sínum. Hinn 25. ágúst sendi nefndin FME bréf þar sem óskað var eftir afstöðu stofnunarinnar til kæru undirritaðs. Hinn 8. september sendi nefndin undirrituðum bréf með afriti af erindi FME þar sem krafist var frávísunar málsins. Hinn 12. september 2014 sendi undirritaður nefndinni erindi þar sem kröfu um frávísun var hafnað og færð rök fyrir því að taka ætti kæruna til efnislegrar meðferðar. Hinn 8. október kvað nefndin upp úrskurð nr. 540/2014 um frávísun málsins, aðallega á þeim grundvelli að tilskilinn kærufrestur hefði verið liðinn þegar erindi undirritaðs dags. 20. ágúst 2014 barst nefndinni.

III. Málsástæður og lagarök

Niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál á þá leið að vísa málinu frá byggist á því að um tvær aðskildar kærur hafi verið að ræða, og er því haldið fram í úrskurðinum að sú síðari hafi borist hinn 20. ágúst eða rúmum sex vikum eftir að hin kærða ákvörðun hafi borist undirrituðum. Þetta er hins vegar rangt og hafnar undirritaður því alfarið að um tvær aðskildar kærur hafi verið að ræða. Hið rétta er að í erindi sínu dags. 11. ágúst 2014 gaf nefndin undirrituðum kost á því að koma frekari athugasemdum á framfæri ef undirritaður felldi sig ekki við efni svars FME, eigi síðar en 20. ágúst, sem undirritaður gerði á þeim degi. Þar var ekki um nýja kæru að ræða af hálfu undirritaðs, heldur var áréttað að hinni upphaflegu kæru dags. 7. júlí 2014 skyldi haldið til streitu.

Undirritaður vekur athygli á því að nefndin hefur ekki tekið neina efnislega afstöðu til þeirrar kæru þrátt fyrir að hún hafi verið komin fram innan þess kærufrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Undirritaður fær ekki séð á hvaða forsendum nefndinni gæti hafa verið heimilt að vísa þeirri löglega framkomnu kæru frá án efnislegrar meðferðar. Jafnvel þó að svo væri litið á að um tvær aðskildar kærur væri að ræða hefur hin upphaflega kæra þannig ekki hlotið neina efnislega meðferð af hálfu nefndarinnar. Hinsvegar mótmælir undirritaður því harðlega að um tvær aðskildar kærur sé að ræða, enda var hið síðara erindi dags. 20. ágúst ekki kæra heldur var um að ræða viðbótarathugasemdir vegna hinnar upphaflegu kæru dags. 7. júlí 2014, sem var komið á framfæri í samræmi við leiðbeiningar nefndarinnar hvað varðar tímafresti.

Undirritaður bendir á að enga heimild er að finna í lögum nr. 140/2012 til þess að slíta mál sem er til afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í tvennt, og líta á tvö mismundandi erindi vegna sama máls sem tvær aðskildar kærur. Undirritaður telur að þar sé um gerræðislega ákvarðanatöku að ræða sem byggist á röngum forsendum og sé engin heimild fyrir í þeim lögum sem eigi við um málið og afgreiðslu þess. Jafnframt ítrekar undirritaður að hann fylgdi til hlítar leiðbeiningum nefndarinnar um tímafresti vegna viðbótarathugasemda, en svo virðist sem nefndin hafi engu að síður byggt frávísun sína á því að undirritaður hafi fylgt þeim leiðbeiningum. Þannig voru það í raun leiðbeiningar nefndarinnar sjálfar sem hún kaus svo að byggja frávísun málsins á, en þetta er með öllu óásættanlegt og eru slík vinnubrögð ekki aðeins óvönduð heldur beinlínis ólögleg.Undirritaður telur að með frávísun málsins hafi úrskurðarnefnd um upplýsingamál gert afdrifarík mistök, og að sú ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik sem hafi valdið spjöllum á rétti undirritaðs til að fá úrlausn um kæru sína sem var löglega fram komin. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 30/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt, m.a. sbr. 1. tl. ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þetta á einmitt við um þau málsatvik sem hér hafa verið rakin, enda var afgreiðsla málsins byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Þær röngu upplýsingar voru nánar tiltekið þær að um tvær aðskildar kærur hafi verið að ræða, en það er ekki rétt heldur var aðeins um eina kæru að ræða, líkt og sjá má af því að málið hefur aðeins hlotið eitt málsnúmer hjá nefndinni, en ekki tvö.

IV. Áskorun

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gefst nú kostur á að bæta fyrir þau mistök sem gerð hafa verið og endurskoða hina ólögmætu afgreiðslu á kæru undirritaðs sem hér hefur verið rakin, með því að endurupptaka málið í samræmi við 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Undirritaður krefst þess að það verði gert, og að málið fái raunverulega afgreiðslu og efnislega úrlausn af hálfu nefndarinnar. Undirritaður vill trúa því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi fullan hug á að stunda vönduð vinnubrögð og skila af sér niðurstöðum í samræmi við lög sem um það gilda. Er hér með skorað á nefndina að standa undir þeim væntingum, ásamt lögboðnum skyldum sínum. Loks er þess óskað að nefndin geri undirrituðum grein fyrir afstöðu sinni til kröfu þessarar um endurupptöku, eigi síðar en þann 6. nóvember nk. eða innan níu daga, en það er jafn langur frestur og sá sem nefndin veitti undirrituðum með erindi sínu þann 1. ágúst 2014, til að gera nánari athugasemdir.“

Niðurstaða

Mál ÚNU 14070003 varðaði tvær kærur. Sú fyrri, sem dags. er 7. júlí 2014, laut að því að Fjármálaeftirlitið hefði ekki svarað beiðni kæranda um gögn. Við meðferð málsins hjá nefndinni kom í ljós að beiðninni hafði verið svarað, þ.e. með ákvörðun FME dags. 4. júlí 2014. Hún hafði þó ekki borist kæranda fyrr 8. júlí, þ.e. eftir að hann hafði lagt inn kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem fyrir lá að beiðni kæranda hafði verið svarað var kæru þar að lútandi vísað frá nefndinni. Sú seinni laut að efni ákvörðunarinnar, frá 4. júlí 2014, en þar sem kæran hafði ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti, þrátt fyrir að kæranda hefði verið leiðbeint um kærurétt til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, varð einnig að vísa henni frá.

Nánar tiltekið voru atvik þau að eftir að nefndinni hafði borist svar frá Fjármálaeftirlitinu, með bréfi dags. 6. ágúst 2014, þess efnis að upplýsingabeiðni kærenda hefði verið svarað, veitti nefndin honum, með bréfi dags. 11. ágúst, frest til 20. ágúst til að gera athugasemdir við efni svars FME. Var tekið fram að hefðu engin svör borist frá honum fyrir þann dag mætti vænta þess að málið yrði fellt niður. Þá var athygli hans vakin á því að hinn 24. júlí 2014 hefði verið kveðinn upp úrskurður um umrædd gögn, og hann mætti nálgast á vef nefndarinnar.

Eins og áður er rakið sendi úrskurðarnefnd um upplýsingmál kæranda bréf, dags. 11. ágúst 2014, þar sem honum var veitt færi á að koma sjónarmiðum í málinu á framfæri. Það voru mistök af hálfu nefndarinnar að taka ekki skýrt fram í bréfi sínu að ekki væri annað séð en að kærufrestur til nefndarinnar vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 4. júlí 2014, væri þegar runninn út. Þessi mistök virðast hafa valdið því að kærandi sendi nefndinni ítarlegt bréf með efnislegum sjónarmiðum sínum í málinu. Þessi misskilningur milli nefndarinnar og kæranda olli honum þó engum réttarspjöllum og getur ekki orðið til þess að víkja skýru ákvæði 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem kveður á um að kæra skuli borin skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.

Þá telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekkert vera fram komið í beiðni um endurupptöku máls ÚNU 14070003, og endurskoðun úrskurðar 540/2014, er styðji að hann hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða að á úrskurðinum séu verulegir annmarkar að lögum. Með vísan til þess verður að hafna beiðni kæranda um endurupptöku máls ÚNU 14070003 og endurskoðun úrskurðar 540/2014.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að lokum rétt að benda kæranda á að fyrir liggur úrskurður nefndarinnar um aðgang almennings að þeim gögnum sem hann hefur óskað eftir. Honum er heimilt að snúa sér á ný til Fjármálaeftirlitsins og setja fram nýja beiðni um aðgang að þeim. 

Úrskurðarorð

Beiðni A, dags. 28. október 2014, um endurupptöku máls ÚNU 14070003, og endurskoðun úrskurðar 540/2014, er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                 

Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta