Hoppa yfir valmynd

578/2015. Úrskurður frá 15. maí 2015

Úrskurður

Hinn 15. maí 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 578/2015 í máli ÚNU 14100002.  

Kæra og málsatvik

Með erindi 3. október 2014 kærði Drífa ehf. afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni fyrrnefnda félagsins um aðgang að gögnum varðandi samkeppni þess síðarnefnda vegna verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008 er Isavia ohf. meðal annars ætlað að annast uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsrar vörur á flugvallarsvæðinu. Gögn málsins benda til þess að með umræddri samkeppni hafi það verið ætlun Isavia ohf. að bjóða út leigu á aðstöðu fyrir verslunar- og veitingarekstur í húsnæði flugstöðvarinnar og að fyrirtækið hafi komið fram sem væntanlegur leigusali. Samskipti um ferlið fóru öll fram á ensku en Isavia ofh. kynnti það undir nafninu „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“.  

Hefðbundið er að nota orðin „útboð“ og „forval“ þegar verkkaupi eða kaupandi leitar skriflegra tilboða frá væntanlegum seljendum verks, vöru eða þjónustu. Framangreint ferli Isavia ohf. miðaði á hinn bóginn að því að fyrirtækið kæmi sjálft fram sem leigusali. Í ljósi þessa mun úrskurðarnefndin fjalla um umrætt ferli sem „samkeppni“ og að framlög þeirra sem tóku þátt hafi verið „tillögur“.  

Af gögnum málsins verður ráðið að 19. mars 2014 hafi Isavia ohf. efnt til samkeppninnar og að hún hafi skipst í tvö stig. Á fyrra stiginu, sem nefndist „Request for Qualification“, skyldi kannað hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem Isavia ohf. gerði til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu kröfur fyrirtækisins var svo boðið að taka þátt í seinna stigi samkeppninnar, sem nefndist „Request for Proposal“, og skila inn annars vegar tæknilegri og hins vegar fjárhagslegri tillögu. Átti fjárhagslegi hlutinn einungis að koma til skoðunar ef tæknilegi hlutinn yrði metinn fullnægjandi. Kærandi mun hafa skilað inn tvíþættum tillögum og komist í gegnum fyrra stig samkeppninnar. Tæknilegur hluti tillögu kæranda var metinn fullnægjandi og kom fjárhagslegur hluti hennar til skoðunar.  

Með bréfi 21. ágúst 2014 tilkynnti Isavia ohf. kæranda að fyrirtækið hefði gengið til samninga við annan þátttakanda í samkeppninni. Með bréfi 26. ágúst 2014 óskaði kærandi eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi. Þann 5. september 2014 sendi Isavia ohf. kæranda útfyllt einkunnablöð vegna tillögu hans sjálfs. Á blöðunum komu fram einkunnir á bilinu frá einum upp í tíu vegna mismunandi matsþátta. Einkunnirnar voru ekki rökstuddar á einkunnablöðunum. Þá fékk kærandi upplýsingar um það hvar tillaga hans féll í röð þátttakenda sem tóku þátt í sömu flokkum samkeppninnar og hann sjálfur. Á hinn bóginn voru honum hvorki kynnt nöfn þessara þátttakenda né hvaða einkunnir þeir fengu í samkeppninni.   

Kærandi ritaði Isavia ohf. bréf 10. september 2014. Þar er bent á að Isavia ohf. hafi ekki veitt allar þær upplýsingar sem kærandi hefði óskað eftir. Í þessu ljósi var óskað eftir að Isavia ohf. léti kæranda í fyrsta lagi í té ítarlegan rökstuðning fyrir því hvernig mat á tillögum fór fram og hvernig stig til þeirra hefðu verið ákvörðuð með hliðsjón af valforsendum. Væri þannig óskað eftir upplýsingum um það hvernig valforsendur hefðu verið nánar útfærðar og hvað hefði legið til grundvallar mati á þeim. Óskað væri eftir að skýrt yrði hvernig gefin hefðu verið stig fyrir forsendur á borð við það hvernig vörur mættu þörfum viðskiptavina og gæðakröfum og hvort verðlagning væri nægjanlega góð, eða með hvaða hætti þær hefðu annars verið metnar. Í öðru lagi var óskað staðfestingar á þeim skilningi kæranda á veittum upplýsingum að tillaga hans hefði ávallt verið í neðsta sæti í öllum flokkum, fyrir utan tæknilegt mat í tilteknum flokki þar sem tilboð kæranda virtist hafa verið í þriðja sæti af fimm tilögum. Í þriðja lagi var óskað upplýsinga um hvort einkunnagjöf hefði verið sú sama fyrir öll tilboð. Í þessu samhengi var spurt hvort „Product, brand, concept“ hefðu verið metin til sama stigafjölda óháð því hvort um væri að ræða verslun og vörur með útivistarföt, minjagripi eða blöndu af þessu tvennu. Í fjórða lagi var ítrekuð ósk um að upplýst yrði hvaða bjóðendur og tilboð fengu hæstu einkunnir og hefðu verið valin til samningsgerðar. Í fimmta lagi var óskað eftir að upplýst yrði um stigafjölda annarra tilboða og rökstuðningi fyrir einkunnagjöf, sundurliðað eftir valforsendum með sama hætti og óskað hefði verið vegna tillögu kæranda. Í sjötta lagi var ítrekuð beiðni um að rökstutt yrði sérstaklega hvers vegna þeir þátttakendur sem hefðu verið valdir hefðu hlotið hærri einkunnir en kærandi og að slíkur rökstuðningur yrði sundurliðaður eftir valforsendum. Í sjöunda lagi var þess óskað að Isavia ohf. upplýsti hvaða lög og reglur fyrirtækið teldi að giltu um samkeppnina.   

Beiðni kæranda var hafnað með bréfi 16. september 2014. Þar kom fram að farið væri með þær upplýsingar sem fram komu í samkeppninni sem trúnaðargögn. Myndi Isavia ohf. ekki afhenda þátttakendum önnur gögn en þegar hefðu verið afhent. Eins og fram kæmi í forvalsgögnum hefðu tillögur sem sendar voru inn allar verið metnar með sama hætti og val þátttakenda til samningaviðræðna byggt á einkunnagjöf í hverjum flokki fyrir sig þannig að þeir sem hefðu hlotið hæstu einkunn hefði verið boðið að ganga til samninga.  

Í kæru kemur fram að kærandi krefjist aðgangs að tilteknum upplýsingum og gögnum. Í fyrsta lagi „öllum gögnum og upplýsingum sem varða mat tilboða í útboði Isavia um verslunar- og veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nefnt „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“. Í öðru lagi „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki þeim forsendum sem mat tilboða fór eftir“. Væri „þannig óskað eftir upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim“. Með þessu væri „t.d., en ekki eingöngu, óskað eftir upplýsingum um það hvað matshópur hafði til hliðsjónar og leiðbeiningar við mat á þeim forsendum að vörur stæðust þarfir viðskiptavina og gæðakröfur (e. customers needs and standard of quality) og að verðlagning væri nægjanlega góð (e. good enough) o.s.frv.“ Í þriðja lagi kom fram að óskað væri eftir „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki mati á“ tillögu kæranda. Væri þannig óskað eftir „upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim stigafjölda“ sem kærandi fékk. Í fjórða lagi væri óskað eftir „upplýsingum um stigafjölda annarra tilboða í útboðinu, sundurliðað eftir valforsendum, og rökstuðningi fyrir einkunnagjöf þeirra“. Í fimmta lagi upplýsinga „um það hvers vegna bjóðendur, sem valdir voru til samningsgerðar, og tilboð þeirra hlutu fleiri stig“ en kærandi og tillaga hans, „sundurliðað eftir valforsendum“. Væri í þessu samhengi „óskað eftir upplýsingum um það hvað var talið betra í tilboðum, sem voru valin, en í tilboðum“ kæranda. Þá væri einnig óskað eftir að upplýsingarnar yrðu „sundurliðaðar eftir valforsendum, í hverjum flokki fyrir sig“. Í sjötta lagi var óskað eftir „[u]pplýsingum um það hvort einkunnagjöf hefði verið sú sama fyrir öll tilboð, þ.e. hvort einstakar valforsendur voru metnar til sama stigafjölda óháð því hvers konar verslun eða vörur var að ræða hverju sinni“.

Í kæru kemur fram að kærandi telji ljóst að upplýsingalög gildi um starfsemi Isavia ohf. sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, enda taki fyrirtækið á móti beiðnum á grundvelli upplýsingalaga á heimasíðu sinni. Þá telur kærandi að hann hafi óskað eftir aðgangi að gögnum tiltekins máls, sbr. 5. gr. upplýsingalaga, þ.e. tilteknu útboðsferli Isavia ohf. Beiðni kæranda hafi verið sett fram með skýrum hætti í samræmi við 15. gr. laganna. Réttur til aðgangs taki til allra gagna tiltekins máls, óháð því hvort máli sé lokið eða ekki og óháð því hvort gagnið liggi aðeins fyrir í drögum eða í endanlegri mynd. Þessi réttur sé lögbundinn og verði ekki takmarkaður nema á grundvelli undanþáguákvæða 6.-10. gr. laganna. Umrædd gögn séu fyrirliggjandi í skilningi upplýsingalaga.  

Kærandi telur að ekkert af undanþáguákvæðum 6.-10. gr. laganna eigi við um þau gögn sem kærandi hafi óskað eftir aðgangi að, enda byggi synjun Isavia ohf. ekki á því að gögnin séu undanþegin upplýsingarétti með vísan til þessara ákvæða. Þá geti Isavia ohf. ekki samið sig undan upplýsingaskyldu sinni með því að heita þeim trúnaði sem afhenda stofnuninni gögn sem síðar er óskað aðgangs að. Vísar kærandi í þessu samhengi til úrskurða úrskurðarnefndarinnar í málum nr. A-299/2009 og A-278/2008.  

Loks vísar kærandi til þess að hinar umbeðnu upplýsingar varði ráðstöfun opinberra gæða. Upplýsingarnar séu forsenda þess að kæranda sé gert fært að átta sig á því hvernig staðið var að mati tilboða í samkeppninni og þar með fullvissað sig um að jafnræði allra þátttakenda hafi verið virt. Úrskurðarnefndin hafi margsinnis staðfest að réttur til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinberra hagsmuna og gæða sé ríkur og að skýra verði allar takmarkanir á rétti til slíkra upplýsinga þröngt  eins og t.d. komi fram í úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-224/2006.  

Málsmeðferð

Með bréfi 7. október 2014 var Isavia ohf. gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Þá var þess einnig óskað að úrskurðarnefndinni yrði í trúnaði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.  

Í svari fyrirtækisins 17. október 2014 er bent á að í bréfum kæranda til Isavia ohf. sé hvergi óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum í vörslu félagsins. Óskað hafi verið eftir „upplýsingum" um stöðu mála“, „rökstuðningi“, „skýringum“ og „sundurliðun“. Flestar spurningar kæranda lúti að því að afla skýringa við því hvað hafi legið að baki þeim stigum sem tillögu kæranda voru gefin í mati valnefndar samkeppninnar og hvernig aðrir þátttakendur voru metnir í samanburði. Sé kærandi að krefjast þess að Isavia ohf. rökstyðji niðurstöðuna. 

Af þessum sökum sé það fjarri sanni að óskað hafi verið eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum í vörslum félagsins og hvað þá að slíkri ósk hafi verið synjað. Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga beri að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. laganna. Ekki sé skylt samkvæmt lögunum að útbúa ný skjöl. Samkvæmt 15. gr. laganna skuli sá sem fari fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Heimilt sé samkvæmt 20. gr. að bera synjun um aðgang samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Af þessu leiði að ekki sé hægt í kæru til úrskurðarnefndarinnar að setja fram beiðni um aðgang að gögnum sem ekki hafi áður verið beint að þeim aðila sem óskað er eftir að afhendi gögnin.  

Í kæru séu settar fram í kröfugerð óskir um aðgang að gögnum sem ekki hafi verið settar fram áður. Nægi þar að nefna fyrsta lið kröfugerðarinnar þar sem krafist sé aðgangs að „öllum gögnum og upplýsingum sem varða mat tilboða“ í forvalinu. Þessari beiðni hafi ekki verið áður beint að Isavia og því ekki hægt að kæra meinta synjun til úrskurðarnefndarinnar.

Isavia ohf. hafi leitast við að svara spurningum kæranda og hafi komið til móts við ósk um upplýsingar með því að afhenda félaginu, umfram lagaskyldu, annars vegar sérstaklega tiltekið skjal sem sýni einkunnir sem tilboðum þess voru gefnar og stöðu þess miðað við aðra þátttakendur (í hvaða sæti tilboðin höfnuðu) og hins vegar vinnugögn (matsblöð) þar sem fram komu sundurliðað einkunnir einstakra valnefndarmanna fyrir tæknileg tilboð (Technical Proposal) félagsins. Þessu til viðbótar hafi Isavia ohf. átt fund með fulltrúum kæranda þar sem leitast hafi verið við að svara spurningum hans og skýra enn frekar þau sjónarmið sem lágu að baki mati á tilboðunum. Engar óskir um aðgang að tilgreindum fyrirliggjandi gögnum hafi komið fram og því hafi engum slíkum óskum verið synjað. Um þetta vísist til bréfasamskipta milli kæranda og Isavia ohf. 

Þá er áréttað að kærandi eigi engan tiltekinn rétt á rökstuðningi vegna ákvarðana Isavia ohf., enda fyrirtækið ekki stjórnvald og ekki um stjórnvaldsákvarðanir að ræða. Að auki ættu kærumál vegna slíks, ef grundvöllur væri fyrir þeim, ekki undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

Að öllu framangreindu virtu sé það því krafa Isavia ohf. að úrskurðarnefnd um upplýsingamál vísi málinu frá þar sem það falli utan verksviðs hennar. Komist úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að taka beri kæruna til efnislegrar skoðunar áskilji félagið sér rétt til að koma að frekari umsögn og gögnum. 

Kærandi gerði athugasemdir við umsögn Isavia ohf. með bréfi 10. nóvember 2014. Þar er því mótmælt að Isavia ohf. hyggist aðeins fjalla um hluta málsins og áskilji sér rétt til að fjalla um efnishlið þess síðar.  Kærandi krefst þess aðallega að úrskurðarnefndin beini því til Isavia ohf. að senda nefndinni sem allra fyrst athugasemdir um allar hliðar málsins, þ.e. einnig efnisatriði. Í framhaldinu verði svo úrskurðað um málið í heild sinni, eftir atvikum að fengnum athugasemdum kæranda við umsögn Isavia ohf. um efnisatriði. Til vara krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin hafni frávísunarkröfu Isavia ohf. Að því frágengnu krefst kærandi þess að ákvörðun Isavia ohf. um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum verði felld úr gildi og lagt fyrir fyrirtækið að afgreiða beiðni hans með lögmætum hætti. 

Varðandi gildissvið upplýsingalaga kemur fram í athugasemdum kæranda að Isavia ohf. sé opinbert hlutafélag sem komið hafi verið á fót með lögum nr. 76/2008. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skuli allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og sala þess og ráðstöfun sé óheimil. Fjármálaráðherra fari með hlut ríkisins í félaginu, en innanríkisráðherra beri ábyrgð á faglegri stefnumótun þess í samvinnu við stjórn. Isavia ohf. hafi lögákveðinn tilgang, en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 76/2008 sé hann að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og annarrar starfsemi sem sé í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og sem nauðsynlegt sé að sé innan haftasvæðis flugverndar. Telur kærandi ljóst að Isavia ohf. sjái um alla stjórnsýslu í rekstri Keflavíkurflugvallar. Félaginu hafi verið komið á fót með lögum, starfsemi þess sé lögmælt og félagið hafi með höndum framkvæmdarvald á flugvallarsvæðinu. Kærandi telji því einsýnt að beiðni um aðgang að upplýsingum hjá Isavia ohf. eigi undir upplýsingalögin með vísan til 1. og 2. mgr. 2. gr. þeirra. Þá sé jafnframt ljóst að samkvæmt 3. gr. laganna taki þau til einkaaðila, hvort sem þeir séu í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hafi með lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið sé á um í lögum að stjórnvald skuli sinna. Kærandi telji því einsýnt að málið eigi undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál með vísan til 20. gr. laganna. Þetta hafi nefndin meðal annars staðfest með úrskurðum nr. A-535/2014 og A-545/2014. 

Þá beri Isavia ohf. fyrir sig að kærandi hafi ekki óskað eftir aðgangi að fyrirliggjandi gögnum í vörslu félagsins, heldur aðeins „upplýsingum, rökstuðningi, skýringum og sundurliðun“. Virðist fyrirtækið byggja á því að ákvæði 5. og 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði skýrð með því móti að félaginu sé aðeins skylt að verða við gagnabeiðni þar sem þau skjöl sem óskað er aðgangs að séu tilgreind nákvæmlega. Sú skýring sé ekki rétt, enda ómögulegt fyrir kæranda að vita nákvæmlega hvaða skjöl varnaraðili hefur undir höndum. Markmið upplýsingalaga náist ekki ef borgarar þurfi að þekkja nákvæmlega þær upplýsingar sem þeir óski aðgangs að. Samkvæmt 15. gr. upplýsingalaga sé nægjanlegt að tilgreina efni þess máls sem gögn tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að sá sem gagnabeiðni beinist að geti afmarkað þau við tiltekin gögn eða tiltekið mál án verulegrar fyrirhafnar. Í upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 26. ágúst 2014, séu efnisatriði málsins rakin ítarlega og þær hliðar þess sem umbeðin gögn varði tilteknar sérstaklega. Ekki skipti máli í því samhengi þótt rætt sé um upplýsingar, skýringar, rökstuðning eða sundurliðanir, allt að einu hafi Isavia ohf. borið að yfirfara gagnabeiðnina, afmarka hana við þau gögn sem til séu í fórum þess og að því búnu taka rökstudda afstöðu til aðgangs kæranda að þeim. Isavia ohf. verði að bera hallann af því að sú vinna hafi ekki farið fram með fullnægjandi hætti, og beri því að fallast á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum. 

Í þessu samhengi áréttar kærandi að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga megi vísa beiðni frá ef ekki sé talið mögulegt að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Isavia ohf. hafi ekki borið þessa reglu fyrir sig við meðferð málsins heldur hafi beiðninni verið synjað með vísan til þess að trúnaður ríkti um gögnin, sbr. bréf félagsins dags. 2. október 2014. Því sé ljóst að félagið geti ekki borið fyrir sig á þessu stigi að upphafleg gagnabeiðni kæranda hafi ekki fullnægt tilgreiningarreglu 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Að því sögðu sé rétt að árétta að beiðni kæranda sé engu að síður vel afmörkuð og skýr. Isavia ohf. megi vera alveg ljóst hvaða gögnum sé óskað eftir og hvaða mál þau varði. Beiðnin lúti öll að mati tilboða sem bárust í útboði Isavia ohf. nefnt „Commercial Opportunities at Keflavik Airport". Þá sé jafnframt ljóst að Isavia ohf. hafi borið að afhenda kæranda lista yfir mál sem ætla megi að beiðni hans gæti beinst að. Enginn slíkur listi hafi verið afhentur kæranda áður en beiðninni var synjað. Ekki verði heldur séð að Isavia ohf. hafi tekið fullnægjandi afstöðu til nánari afmörkunar beiðninnar, sem kærandi hafi sett fram í bréfi sínu dags. 10. september 2014. Um þetta vísar kærandi meðal annars til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. A-551/2014 þar sem meðal annars sé fundið að slíku verklagi. Kærandi telur í alla staði ljóst að telji nefndin málið ekki í þeim farvegi að hægt sé að taka efnislega afstöðu til kærunnar, sé ófullnægjandi afgreiðslu Isavia ohf. um að kenna. Því leyfi kærandi sér að setja fram þá varakröfu að ákvörðun Isavia ohf. um að synja honum um aðgang að umbeðnum gögnum verði felld úr gildi og málinu vísað aftur til félagsins til lögmætrar efnismeðferðar. 

Loks víkur kærandi að því að Isavia ohf. telji að í kæru séu settar fram óskir um aðgang að gögnum sem fyrirtækinu hafi ekki borist áður. Kærandi telur að til sanns vegar megi færa að orðalag einstakra liða sé ekki nákvæmlega það sama í upphaflegri gagnabeiðni kæranda annars vegar og í kæru hins vegar. Það merki hins vegar ekki að efnislegt inntak þeirra hafi breyst. Í því tilviki sem Isavia ohf. nefni sé til að mynda bent á að í gagnabeiðni kæranda var óskað eftir „ítarlegum rökstuðningi fyrir því hvernig mat á tilboðum fór fram“, „upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar“ og „að skýrt verði hvernig gefin voru stig fyrir tilteknar forsendur útboðsins eða hvernig þær voru metnar með öðrum hætti“. Kærandi telur ljóst að efnislegt inntak gagnabeiðni sinnar sé það sama og í kröfum hans um aðgang að upplýsingum og gögnum eins og þær séu settar fram í kæru. Isavia ohf. hafi ekki rökstutt þessa málsástæðu sína frekar en með framangreindu dæmi og verði að bera hallann af því. Með vísan til framangreinds fer kærandi fram á að málið fái sem fyrst efnismeðferð hjá úrskurðarnefndinni.  

Úrskurðarnefndin ritaði Isavia ohf. bréf 18. mars 2015. Þar kom fram að nefndin teldi ástæðu til að leita skýringa eða afstöðu Isavia ohf. vegna tiltekinna atriða. Þess var í fyrsta lagi óskað að Isavia ohf. upplýsti hvort á vegum fyrirtækins hefði verið útbúið gagn eða gögn sem vörpuðu ljósi á þær einkunnir sem einstakar tillögur fengu í ferlinu. Óskaði nefndin í þessu samhengi sérstaklega eftir því að upplýst yrði hvort í skjalasafni fyrirtækisins væri að finna gagn eða gögn þar sem fram kæmu þau sjónarmið sem réðu því að tilteknar tillögur fengu þær einkunnir sem raunin varð.  

Í öðru lagi var þess óskað óskað að Isavia ohf. upplýsti hvaða sjónarmið lágu að baki ákvörðun fyrirtækisins um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um það hverjir hefðu verið valdir til samningsgerðar í kjölfar þeirrar samkeppni er málið lyti að og á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert. Þá var þess óskað að nefndinni yrðu látnar hinar umbeðnu upplýsingar í té sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Væri það afstaða Isavia ohf. að hagsmunir umræddra þátttakenda í ferlinu réttlættu að kæranda hefði verið synjað um aðgang að upplýsingunum var þess óskað að upplýst yrði hvort Isavia ohf. hefði aflað afstöðu þeirra til beiðni kæranda að þessu leyti.  

Í þriðja lagi var þess óskað að Isavia ohf. upplýsti hvaða sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun fyrirtækisins um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um fjölda stiga sem aðrar tillögur fengu í samkeppninni og á hvaða lagagrundvelli það hafi verið gert. Þá var þess óskað að nefndinni yrðu látnar hinar umbeðnu upplýsingar í té sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Væri það afstaða Isavia ohf. að hagsmunir annarra þátttakenda í ferlinu réttlæti að kæranda hafi verið synjað um aðgang að upplýsingunum var þess óskað að upplýst yrði hvort Isavia ohf. hefði aflað afstöðu þeirra til beiðni kæranda að þessu leyti.  

Isavia ohf. var veittur frestur til tiltekins dags til að bregðast við erindi úrskurðarnefndarinnar. Loks tók nefndin fram að teldi Isavia ohf. ástæðu til að bregðast frekar við kærunni efnislega skyldi það gert innan sama frests.  

Isavia ohf. brást við fyrirspurnum úrskurðarnefndarinnar með bréfi 24. mars 2015. Þar var upplýst að engin gögn væru til í skjalasafni félagsins þar sem fram kæmu þau efnislegu sjónarmið sem réðu því að tilteknar tillögur eða tilboð fengu þær einkunnir sem raunin varð umfram þau gögn sem þegar hefðu verið afhent. Mat tilboða hefði farið þannig fram að fimm manna valnefnd hefði fengið tillögur þátttakenda í hendur. Tilboðum hefði verið skilað í tvennu lagi, annars vegar tæknilegu tilboði og hins vegar fjárhagslegu tilboði. Ákveðna lágmarkseinkunn hefði þurft fyrir tæknilega tilboðið til þess að fjárhagslega tilboðið yrði opnað, að öðrum kosti hafi það verið endursent óopnað. Valnefndin hefði metið tæknilegu tilboðin þannig að hver valnefndarmaður hefði farið yfir þau sjálfstætt og gefið þeim einkunnir, sbr. matsblöð vegna tillögu kæranda sem hefðu verið afhent. Einkunnir valnefndarmanna hefðu svo verið vegnar saman og endanleg einkunn fyrir hvern þátt fengin með því að taka meðaltal einkunna valnefndarmannanna fimm. Við mat sitt hefðu valnefndarmenn byggt á þeim sjónarmiðum og forsendum sem skýrt komi fram í forvalsgögnum. Fjárhagslegu tilboðin hefðu verið metin á svipaðan hátt en þó þannig að nefndin hefði farið sameiginlega yfir gögnin en hver valnefndarmaður síðan gefið sína einkunn. Engin gögn hefðu verið tekin saman um hvað að baki mati hvers valnefndarmanns bjó. Valnefndarmenn hafi mögulega skrifað einhverja minnispunkta. Isavia ohf. sé ekki sérstaklega kunnugt um það og séu slík gögn til séu þau ekki í eigu eða vörslu félagsins. 

Þá var vikið að fyrirspurn nefndarinnar um það hvaða sjónarmið hafi legið til grundvallar því að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um hverjir hefðu verið valdir til samningagerðar og hversu mörg stig þeir hlutu. Það væri afstaða Isavia ohf. að upplýsingar sem lytu að öðrum þátttakendum og tilboðum þeirra teldust til mikilvægra einkamálefna þeirra, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og að félaginu væri beinlínis óheimilt að afhenda þær. Sömu sjónarmið ættu við ef þetta væri metið á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. ummæli í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012. Hagsmunir þeirra aðila af því að trúnaður ríkti um tilboð þeirra væru ríkari en hagsmunir kæranda af að fá þau gögn afhent. 

Við mat á hagsmunum yrði einnig að leggja mat á hagsmuni kæranda af því að fá gögnin afhent. Í því samhengi skipti miklu máli um hvers konar ferli var að ræða. Isavia ohf. vildi því ítreka að ekki hefði verið um að ræða útboð á grundvelli laga um opinber innkaup enda hefði ekki verið um að ræða kaup á vöru, verki eða þjónustu heldur ráðstöfun leiguhúsnæðis fyrir rekstur. Þessi skilningur hefði verið staðfestur af kærunefnd útboðsmála í máli A-14/2014. Þau sjónarmið sem átt gætu við um upplýsingarétt vegna opinberra útboða ættu því ekki við í þessu tilfelli. Þá teldi Isavia ohf. að líta yrði til þess að félagið sjálft hefði hagsmuni af því að geta haldið forval sem þetta þar sem gætt væri trúnaðar um þátttakendur og þeirra gögn eins og gengi og gerðist á þeim samkeppnismarkaði sem félagið starfaði. Að öðrum kosti mætti leiða líkur að því að færri aðilar hefðu séð sér fært að taka þátt í forvalinu sem hefði getað leitt til verri niðurstöðu fyrir félagið og komið í veg fyrir að það gæti sinnt hlutverki sínu á sem hagkvæmastan hátt. Í þessu samhengi væri rétt að vísa til ummæla í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012 þar sem skýrt kæmi fram að í þeirri breytingu að fella opinber hlutafélög undir upplýsingalögin fælist ekki sjálfkrafa að allar upplýsingar þeirra aðila skyldu gerðar aðgengilegar. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því markmiði upplýsingalaga að tryggja gegnsæi stjórnsýslu oggegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna væri það niðurstaða Isavia ohf. að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að gögnum með þeim upplýsingum sem um ræðir væru ekki slíkir að réttlætt geti að gengið væri á hagsmuni annarra, þ.e. annarra þátttakenda í forvalinu og Isavia ohf. af því að þau séu ekki afhent. Þetta væru nánar tiltekið þau sjónarmið sem hefðu legið því til grundvallar að kæranda var synjað um aðgang að upplýsingum um hverjir hefðu verið valdir til samningsgerðar og hvaða einkunnir þeir hlutu. Rétt væri þó að taka fram að legið hefði fyrir í nokkurn tíma hvaða aðilar þetta væru auk þess sem það hefði legið fyrir og verið upplýst að þeim sem hlutu hæstu einkunnir í hverjum flokki í forvalinu var boðið að ganga til samninga við félagið. Þar sem samningum væri lokið væri ekki lengur þörf fyrir trúnað um það hverja samið var við og fylgdi listi yfir þá í fylgiskjali með svari þessu. Afstaða Isavia ohf. væri að öðru leyti óbreytt hvað þetta varðaði. 

Loks var vikið að fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar er laut að þeim sjónarmiðum sem lágu að baki ákvörðun Isavia ohf. um að synja kæranda um aðgang að upplýsingum um stigafjölda annarra tillagna. Í svari Isavia ohf. kemur fram að trúnaður um gögn sé mikilvægur þáttur í þeirri samkeppni er málið varðaði. Tilboðum hefði verið skipt niður í flokka og tilboðí hverjum flokki hafi ekki verið mörg. Sem dæmi var nefnt að einungis þrír aðilar gerðu tilboð í flokknum „Outerwear (SR-6)“. Það væri því mat Isavia að með því að gefa upp einkunnir annarra tilboða, jafnvel þó nafn viðkomandi fyrirtækis væri haldið leyndu, væri verið að gefa fjárhags- og viðskiptaupplýsingar sem auðvelt væri að rekja fyrir þá sem þekktu til. Það væri því mat félagsins að það væri beinlínis óheimilt að afhenda slík gögn, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, auk þess sem það væri í bága við þann trúnað sem heitið var í forvalinu. Ekki hefði verið leitað eftir afstöðu annarra þátttakenda til afhendingar gagnanna. 

Niðurstaða

Í beiðni kæranda frá 10. september 2014 var þess óskað að Isavia ohf. léti kæranda í fyrsta lagi í té ítarlegan rökstuðning fyrir því hvernig mat á tillögum fór fram og hvernig stig til þeirra hefðu verið ákvörðuð með hliðsjón af valforsendum eins og nánar var útskýrt í beiðninni. Í öðru lagi var óskað staðfestingar á þeim skilningi kæranda á veittum upplýsingum að tillaga hans hefði ávallt verið raðað í neðsta sæti í öllum flokkum, fyrir utan tæknilegt mat í tilteknum flokki þar sem tilboð kæranda virtist hafa verið í þriðja sæti af fimm tilögum. Í þriðja lagi var óskað upplýsinga um hvort einkunnagjöf hefði verið sú sama fyrir öll tilboð eins og nánar var útskýrt í beiðninni. Í fjórða lagi var þess óskað að upplýst yrði hvaða bjóðendur og tilboð fengu hæstu einkunnir og hefðu verið valin til samningsgerðar. Í fimmta lagi stigafjölda annarra tilboða og rökstuðningi fyrir einkunnagjöf, sundurliðað eftir mismunandi valforsendum. Í sjötta lagi var þess óskað að rökstutt yrði sérstaklega hvers vegna þeir þátttakendur sem hefðu verið valdir hefðu hlotið hærri einkunnir en kærandi og að slíkur rökstuðningur yrði sundurliðaður eftir valforsendum. Í sjöunda lagi var þess óskað að Isavia ohf. upplýsti hvaða lög og reglur fyrirtækið teldi að giltu um samkeppnina.  

Af hálfu kæranda er vísað til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til stuðnings beiðni hans um aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum en í þeirri lagagrein er fjallað um upplýsingarétt almennings. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Er þessi skýring meðal annars reist á ummælum í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem fram kemur að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en að til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-307/2009, A-377/2011, A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013, 532/2014, 541/2014 og 570/2015. Að öðru leyti, þ.e. eftir það tímamark, fari um upplýsingarétt bjóðanda skv. 5. gr. upplýsingalaga.

Samkeppni sú sem mál þetta lýtur að var ekki hefðbundið útboð, enda leitaði Isavia ohf. ekki skriflegra tilboða í verk, vöru eða þjónustu sem fyrirtækið ætlaði sér að kaupa heldur kom það sjálft fram sem leigusali. Engu að síður leiða þau rök sem að framan er lýst til þess að kærandi, sem þátttakanda í umræddri samkeppni, njóti réttar samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga til aðgangs að gögnum eins og þátttakendur í hefðbundnum útboðum. 

Í kæru kemur fram að kærandi krefjist aðgangs að tilteknum upplýsingum og gögnum en kröfur hans eru að nokkru leyti frábrugðnar beiðni hans til Isavia ohf. 10. september 2014 sem var synjað með hinni kærðu ákvörðun. Í kæru krefst kærandi þess í fyrsta lagi að sér verði veittur aðgangur að „öllum gögnum og upplýsingum sem varða mat tilboða í útboði Isavia um verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nefnt „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að efnislegt inntak þessarar kröfu kæranda hafi komið fram í beiðni hans 10. september sl. að því leyti sem í beiðninni var óskað eftir „ítarlegum rökstuðningi fyrir því hvernig mat á tilboðum fór fram“, „upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar“ og að „skýrt verði hvernig gefin voru stig fyrir tilteknar forsendur eða hvernig þær voru metnar með öðrum hætti“, eins og haldið er fram af hálfu kæranda. Að mati nefndarinnar varðar umrædd krafa tiltekin gögn sem ekki var vikið að í beiðni kæranda til Isavia ohf. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Isavia ohf. hefur ekki synjað kæranda um aðgang að þeim gögnum sem fram koma í fyrsta kröfulið hans fyrir úrskurðarnefndinni og verður kröfunni því vísað frá.  

Þá krafðist kærandi þess fyrir úrskurðarnefndinni að sér yrðu afhentar allar upplýsingar „sem lágu að baki þeim forsendum sem mat tilboða fór eftir“, upplýsingar „um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim [...] t.d., en ekki eingöngu [...] um það hvað matshópur hafði til hliðsjónar og leiðbeiningar við mat á þeim forsendum að vörur stæðust þarfir viðskiptavina og gæðakröfur (e. customers needs and standard of quality) og að verðlagning væri nægjanlega góð (e.good enough) o.s.frv.“, „[ö]llum upplýsingum sem lágu að baki mati á“ tillögu kæranda [þ. á m.] upplýsingum um það hvernig valforsendur voru nánar útfærðar og hvað lá til grundvallar mati á þeim stigafjölda“ kæranda,  upplýsingum „um það hvers vegna bjóðendur, sem valdir voru til samningsgerðar, og tilboð þeirra hlutu fleiri stig“ en kærandi og tilboð hans „sundurliðað eftir valforsendum“, „upplýsingum um það hvað var talið betra í tilboðum, sem voru valin, en í tilboðum“ kæranda „sundurliðuðum eftir valforsendum [...] í hverjum flokki fyrir sig“ og „rökstuðningi fyrir einkunnagjöf“ annarra tillagna. Loks var óskað eftir „[u]pplýsingum um það hvort einkunnagjöf var sú sama fyrir öll tilboð, þ.e. hvort einstakar valforsendur voru metnar til sama stigafjölda óháð því hvers konar verslun eða vörur var að ræða hverju sinni. 

Eins og að framan greinir óskaði úrskurðarnefndin þess undir meðferð málsins að Isavia ohf. upplýsti hvort á vegum fyrirtækisins hefði verið útbúið gagn eða gögn sem vörpuðu ljósi á þær einkunnir sem einstakar tillögur fengu í ferlinu. Óskaði nefndin í þessu samhengi sérstaklega eftir því að upplýst yrði hvort í skjalasafni fyrirtækisins væri að finna gagn eða gögn þar sem fram kæmu þau sjónarmið sem réðu því að tilteknar tillögur fengu þær einkunnir sem raunin varð. Í svari Isavia ohf. 24. mars 2015 kemur fram að slík gögn hafi ekki verið útbúin. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefndin ljóst að beiðni kæranda og kæra hans til nefndarinnar beindist að þessu leyti ekki að fyrirliggjandi gögnum í skilningi 14. gr. upplýsingalaga en stjórnvöldum eða lögaðilum sem falla undir lögin er ekki skylt að útbúa ný gögn. Isavia ohf. var því rétt að bregðast við beiðni kæranda að þessu leyti með því að vísa henni frá. Með vísan til þessa verður þessum hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í beiðni kæranda til Isavia ohf. 10. september 2014 var eins og að framan greinir óskað eftir að upplýst yrði hvaða bjóðendur og tilboð fengu hæstu einkunnir og hefðu verið valin til samningsgerðar. Með hinni kærðu ákvörðun var beiðninni synjað. Þann 24. mars 2015 upplýsti Isavia ohf. úrskurðarnefndina um að fyrirtækið teldi ekki lengur ástæðu til að halda því leyndu hvaða þátttakendur hefðu verið valdir til samningsgerðar. Á hinn bóginn hefur kærandi ekki fyrir úrskurðarnefndinni gert kröfu um að synjun Isavia ohf. verði að þessu leyti felld úr gildi og að honum verði veittur aðgangur að umræddum upplýsingum. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur því ekki að fjalla um þennan hluta synjunar Isavia ohf. 

Fyrir úrskurðarnefndinni gerir kærandi þá kröfu að honum verði veittar upplýsingar um stigafjölda annarra tilboða í útboðinu og að þær verði sundurliðaðar eftir valforsendum. Af hálfu Isavia ohf. hefur verið vísað til þess að þátttakendum í samkeppninni hafi verið heitið trúnaði. Þá má ráða að fyrirtækið telji að einkunnirnar varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuna umræddra þátttakenda. Af gögnum málsins, sem og gögnum annarra mála fyrir úrskurðarnefndinni er varða sömu samkeppni, má ráða að í vörslum Isavia ohf. sé til listi sem inniheldur yfirlit yfir einkunnir allra þátttakenda.  

Eins og að framan greinir á kærandi rétt til aðgangs að gögnum er varða umrædda samkeppni á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Því er ljóst að ekki skiptir máli  við úrlausn máls þessa að Isavia ohf.hafi heitið þátttakendum trúnaði. Fyrirtækið er bundið af ákvæðum upplýsingalaga og getur ekki vikið frá ákvæðum þeirra með yfirlýsingum sínum til þátttakenda.  

Í málinu reynir á hvort fjárhags- eða viðskiptahagsmunir annarra þátttakenda í samkeppninni standi gegn því að kæranda verði veittur aðgangur að umræddum gögnum. Í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga segir um 3. mgr. 14. gr. að þegar fram komi beiðni um aðgang að upplýsingum um einka-, fjárhags- eða viðskiptamálefni fleiri en eins aðila sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. laganna. 

Í athugasemdunum kemur einnig fram að geri lögaðilar samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti það haft mikið vægi að miklir hagsmunir standi til þess að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Að því leyti sem slíkar upplýsingar kunna að hafa áhrif á samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem semja við opinbera aðila um slíkar ráðstafanir eða taka þátt í útboðum vegna slíkra ráðstafana hefur úrskurðarnefndin miðað við að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. Vegna ábendinga Isavia ohf. þess efnis að samkeppnin er mál þetta lýtur að hafi ekki verið hefðbundið útboð skal það tekið fram að engu að síður var um að ræða ráðstöfun gæða sem teljast til opinberra hagsmuna. Í ljósi þessa hafði kærandi hagsmuni af því að fá aðgang að hinum umbeðnu gögnum til að geta borið sig saman við aðra þátttakendur í samkeppninni til þess að hann gæti áttað sig á því hvernig staðið var að mati Isavia ohf.     

Réttur aðila til upplýsinga um sig sjálfan, sem kveðið er á um í 14. gr. upplýsingalaga, er eðli máls samkvæmt ríkari en réttur almennings samkvæmt 5. gr., en inntak réttarins kann þó að ráðast af atvikum hverju sinni. Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Fram kemur í athugasemdum um 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að óheimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita upplýsingar um „atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“.  

Þá hefur verið við það miðað að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga skuli metið hvort um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna í fyrirliggjandi máli, að það sé til þess fallið að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að upplýsingunum. Við matið verði að líta til þess hverju sinni hversu mikið tjónið geti orðið og hvaða líkur séu á því að það muni hljótast, verði upplýsingarnar veittar.  

Kærandi hefur hagsmuni af því að fá upplýsingar um einkunnir þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í samkeppninni, til þess meðal annars að geta lagt mat á það hvernig framkvæmd hennar var háttað. Þá verða fyrirtæki sem leita eftir því að fá ráðstafað til sín opinberum gæðum að vera undir það búin að upplýsingalög gildi um slíkar úthlutunar eins og að framan er rakið. Einnig er eðlilegt að fyrirtæki á samkeppnismarkaði séu undir það búin að fá ekki hæstu einkunnir í samkeppnum sem þau taka þátt í og ólíklegt verður að telja að þau kunni að verða fyrir tjóni þótt upplýst verði hvaða einkunnir þau hljóta fyrir tillögur sínar. Verður Isavia ohf. því gert að að veita kæranda aðgang að einkunnum annarra þátttakenda í samkeppninni eins og nánar greinir í úrskurðarorðum. Rétt er að taka fram að eins og mál þetta liggur fyrir úrskurðarnefndinni hefur hún ekki talið sérstakt tilefni til þess að leita álits þeirra fyrirtækja, sem sóttu um að fá sömu aðstöðu leigða og kærandi, á því hvort þau væru mótfallin afhendingu þeirra gagna sem kæranda er veittur aðgangur að.  

Úrskurðarorð:

Isavia ohf. skal afhenda Drífu ehf. upplýsingar um einkunnir annarra þátttakenda í samkeppninni „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“. Að öðru leyti er kæru Drífu ehf. vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Þorgeir Ingi Njálsson

varaformaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta