Hoppa yfir valmynd

596/2015. Úrskurður frá 1. október 2015

Úrskurður

Hinn 1. október 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 596/2015 í málum ÚNU 14100015, ÚNU 15070011 og ÚNU 15080013.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi dags. 14. október 2014 kvartaði A yfir afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um samning bæjarins við Pennann Eymundsson um rekstur upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn. Fram kom að Vestmannaeyjabær hefði ekki svarað beiðninni. Kæran var kynnt kærða með bréfi dags. 28. október 2014 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn bæjarins dags. 18. nóvember 2014 sagði að erindi sama efnis hefði borist frá kæranda þann 29. júlí 2013 og því hefði verið svarað þann 6. ágúst 2013. Ekki væri talin ástæða til að svara að nýju. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda umsögnina með bréfi dags. 8. desember 2014, en bréfið var endursent vegna breyttrar búsetu kæranda. Eftir að upplýsingar bárust um nýtt aðsetur hans var umsögnin send að nýju með bréfi dags. 24. mars 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 14. apríl 2015. Þar kemur meðal annars fram að kærandi óski eftir því að úrskurðað verði hvort skylt sé að afhenda umbeðin gögn útprentuð á pappír.

Kærandi mun hafa sent Vestmanneyjabæ aðra gagnabeiðni þann 15. maí 2015. Afrit beiðninnar hefur ekki borist úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Með bréfi dags. 7. júlí 2015 afhenti bærinn kæranda afrit af samningi við Eymundsson vegna reksturs upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn sem ber með sér að gilda til 31. apríl 2012. Með bréfi dags. 7. ágúst 2015 tilkynnti úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæranda að nefndinni hefði borist afrit af svari bæjarins. Ekki væru því efni til að halda áfram meðferð málsins fyrir nefndinni. Með bréfum dags. 17. júlí og 13. ágúst 2015 kærði kærandi afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar að nýju. Kærandi telur samninginn sem Vestmanneyjabær afhenti ekki veita þær upplýsingar sem um var beðið. Samningurinn hafi gilt til 31. apríl 2012, en enn sé rekin upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn. Þar sem ekki sé samningslaust gerir kærandi þá kröfu að bærinn verði úrskurðaður til að veita aðgang að gildandi samningi. Þar að auki sé ekki að finna tölur í eldri samningnum sem upplýsa um kostnað bæjarins af framkvæmd hans.

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi dags. 24. ágúst 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Þá var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar kom fram að upplýsingaþjónusta við ferðamenn færi fram á grundvelli samningsins sem kærandi fékk afrit af. Í símtali ritara úrskurðarnefndarinnar við framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarins kom fram að upplýsingar um kostnað af framkvæmd samningsins hefðu hins vegar verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samningi Vestmannaeyjabæjar við Pennann Eymundsson um rekstur upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn í sveitarfélaginu. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur komið fram að samningur sem gilti til ársins 2012 hafi ekki verið endurnýjaður. Hins vegar hafi rekstur miðstöðvarinnar verið framkvæmdur áfram á grundvelli hans. Ekki er því stoð fyrir þeirri fullyrðingu kæranda að Vestmannaeyjabær hafi synjað honum um aðgang að gildandi samningi. Kröfum hans í þá veru verður því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Stendur þá eftir að skera úr rétti kæranda til aðgangs að þeim hlutum samningsins sem hafa að geyma upplýsingar um kostnað Vestmannaeyjabæjar af samningnum.

Samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna.

Vestmannaeyjabær hefur byggt synjun á aðgangi að þeim hluta umbeðins samnings sem hefur að geyma kostnaðarupplýsingar á 9. gr. upplýsingalaga, nánar tiltekið á því að í umræddum gögnum komi fram upplýsingar sem varði mikilvæg fjárhags- eða viðskiptamálefni Pennans Eymundsson. Í 9. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Af ákvæðum upplýsingalaga leiðir að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli, gera lögin ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt sé að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Ber ennfremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um sé að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geti samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja.

Í máli þessu ber því að leysa úr því hvort viðskiptahagsmunir sem fjallað er um í kostnaðarhluta umbeðins samnings standi í vegi fyrir afhendingu hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að umræddar upplýsingar varða með beinum hætti ráðstöfun opinberra hagsmuna. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 5. gr. laganna, geta hagsmunir almennings af því að fá aðgang að slíkum upplýsingunum rutt til hliðar viðskiptalegum hagsmunum viðsemjenda stjórnvalda og sveitarfélaga, enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi beinu tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar. Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið að upplýsingar um umsamið endurgjald hins opinbera til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Hefur í því sambandi einnig verið litið til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum.

Úrskurðarnefnd fellst ekki á að þær upplýsingar sem fram koma í umræddum samningi séu þess eðlis að 9. gr. upplýsingalaga geti komið í veg fyrir aðgang kæranda að þeim eða að þær séu til þess fallnar að valda umræddu fyrirtæki tjóni yrðu þær gerðar opinberar. Í því tilliti er bent á að upplýsingaréttur almennings er sérstaklega ríkur þegar um er að ræða gögn er varða ráðstöfun opinberra fjármuna. Í ljósi þessa hagsmunamats ber Vestmannaeyjabæ að afhenda kæranda afrit af samningnum í heild sinni, án útstrikana.

Úrskurðarorð:

Vestmannaeyjabæ er skylt að veita kæranda, A, aðgang að samningi bæjarins við Pennann Eymundsson um rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Vestmannaeyjum í heild sinni, án útstrikana.

Kæru kæranda er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta