Hoppa yfir valmynd

598/2015. Úrskurður frá 1. október 2015

Úrskurður

Hinn 1. október 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 598/2015 í máli ÚNU 14100018.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 1. október 2014 kvartaði A yfir afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um upplýsingar. Í kæru segir að kærandi hafi óskað eftir fundargerð fundar bæjarstjórnar þann 11. september 2014 og ráðningarsamningi bæjarstjórnar við meindýraeyði bæjarins. Hvorugu erindinu hafi verið svarað. Þann 22. október 2014 barst úrskurðarnefndinni annað erindi frá kæranda þar sem kvartað var yfir því að Vestmannaeyjabær hefði ekki svarað beiðni um ráðningarsamning bæjarins við meindýraeyði.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi dags. 28. október 2014 og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn bæjarins dags. 18. nóvember 2014 segir að erindi kæranda hafi verið svarað þann 14. nóvember 2014. Umsögninni fylgdi afrit af bréfi bæjarins til kæranda, þar sem fram kemur að fundargerðir bæjarstjórnar séu aðgengilegar á vefnum http://www.vestmannaeyjar.is . Ekki er vikið að samningi bæjarins við meindýraeyði.

Úrskurðarnefndin kynnti kæranda umsögnina með bréfi dags. 8. desember 2014, en bréfið var endursent vegna breyttrar búsetu kæranda. Eftir að upplýsingar bárust um nýtt aðsetur hans var umsögnin send að nýju með bréfi dags. 24. mars 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 20. apríl 2015. Þar segir meðal annars að kærandi óski eftir því að úrskurðað verði hvort skylt sé að afhenda umbeðnar upplýsingar útprentaðar í stað þess að vísað sé á vef bæjarins.

Þann 1. júlí 2015 barst úrskurðarnefndinni afrit af gagnabeiðni kæranda til Vestmannaeyjabæjar, dags. 16. júlí 2015, þar sem óskað var aðgangs að samningi bæjarins við meindýraeyði. Jafnframt var óskað eftir síðustu fundargerð bæjarráðs. Málið fékk málsnúmerið ÚNU 15070001 í málaskrá úrskurðarnefndarinnar. Þann 20. júlí 2015 barst úrskurðarnefndinni afrit af svarbréfi bæjarins til kæranda. Þar kemur fram að starfandi verkefnastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs sinni meindýravörnum þegar óskað er eftir. Jafnframt fylgdi afrit af síðustu fundargerð bæjarráðs. Með bréfi dags. 24. júlí 2015 var kæranda tilkynnt að ekki væru efni til að halda áfram meðferð máls nr. ÚNU 15070001 þar sem gagnabeiðni kæranda, dags. 16. júlí 2015, hefði verið afgreidd af hálfu Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða

Eins og rakið er að framan laut kæra kæranda upphaflega að því að Vestmannaeyjabær hefði dregið óhóflega að svara beiðni kæranda um aðgang að samningi bæjarins við meindýraeyði og fundargerð bæjarstjórnar dags. 11. september 2014. Af bréfi Vestmannaeyjabæjar, dags. 20. júlí 2015, verður ráðið að enginn sérstakur samningur liggi fyrir um meindýravarnir hjá bænum.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tilteknu formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Verður því ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefndinni að því leyti sem hún varðar beiðni hans um aðgang að samningi Vestmannaeyjabæjar við meindýraeyði.

Eftir stendur hins vegar að leysa úr kröfu kæranda um að Vestmannaeyjabæ sé skylt að afhenda fundargerð bæjarstjórnar dags. 11. september 2014 á pappírsformi, í stað þess að vísa á vef bæjarins. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki aðgang að tölvu.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. segir svo að þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í máli þessu kemur því til álita hvort 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. leiði til þess að aðili hafi val um form umbeðinna gagna þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, t.d. á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar. Í 2. mgr. 19. gr. laganna segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar eru aðgengilegar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að upplýsingalögum segir að ákvæðið þarfnist ekki sérstakrar skýringar. Séu gögn til að mynda þegar aðgengileg almenningi á tilgreindri vefsíðu beri að láta þeim sem óskar upplýsinga í té nægilega skýra vefslóð til að hann geti með tiltölulega einföldum hætti og án vafa nálgast upplýsingarnar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði ekki túlkaður á þá leið að ákvæðið leggi þá skyldu á stjórnvöld að afhenda gögn á því formi sem aðili óskar eftir þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Vestmannaeyjabæ var því rétt að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að fundargerð bæjarstjórnar með því að vísa á vef bæjarins, þar sem unnt er með einföldum hætti að nálgast hana. Taka ber fram að kærandi kann að eiga rétt á aðstoð við að nálgast slík gögn á grundvelli annarra laga, til að mynda laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Verður samkvæmt framangreindu ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 1. október 2014, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta