Hoppa yfir valmynd

599/2015. Úrskurður frá 1. október 2015

Úrskurður

Hinn 1. október 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 599/2015 í máli ÚNU 15080007.

Kæra og málsatvik

Með erindi sem barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann 7. ágúst 2015 kærði A afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á beiðni um nöfn umsækjenda um starf fulltrúa á bæjarskrifstofu. Kæra málsins er ein handskrifuð blaðsíða. Á efri hluta síðunnar virðist vera að finna upphaflega gagnabeiðni, sem er dagsett 20. júlí 2015, stíluð á bæjarráð Vestmannaeyja og undirrituð af kæranda. Á neðri hluta síðunnar hefur svo verið rituð önnur dagsetning, 31. júlí 2015, og því næst póstfang úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þá segir að „ofangreindu erindi“ hafi í engu verið svarað. Kærandi krefst þess að Vestmannaeyjabær verði úrskurðaður til að taka afstöðu til erindisins.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með bréfi dags. 11. ágúst 2015. Var því beint til bæjarins að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eins fljótt og við verði komið og eigi síðar en þann 25. ágúst 2015. Í svari bæjarins, dags. 20. ágúst 2015, segir að kæran sé rituð á blað sem virðist vera fyrirspurn til bæjarráðs Vestmannaeyja sem aldrei hafi borist. Það hljóti að teljast óeðlilegt að kæra sé rituð á blað sem kærandi telji sig hafa sent bænum.

Með bréfi dags. 30. ágúst 2015 var kæranda kynnt afstaða Vestmannaeyjabæjar. Þar sem bærinn hefði ekki fengið beiðnina til meðferðar væri synjun stjórnvalds á aðgangi að gögnum ekki til að dreifa. Því væru ekki skilyrði til frekari málsmeðferðar af hálfu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Kærandi mótmælti afstöðu úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags. 2. september 2015. Þar segir meðal annars að engar sannanir séu lagðar fram þess efnis að umrætt bréf hafi ekki borist.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefndina. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þá leiðir af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að til nefndarinnar er einnig heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni um upplýsingar samkvæmt upplýsingalögum. Af kæru er ljóst að kærandi telur að Vestmannaeyjabær hafi dregið óhæfilega að afgreiða beiðni hans um nöfn umsækjenda um starf fulltrúa á bæjarskrifstofu. Af hálfu Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar komið fram að bærinn hafi ekki móttekið beiðnina. Í ljósi þess að kæran er rituð á sama handskrifaða blað og kærandi kveður vera upphaflega gagnabeiðni er vandséð að Vestmannaeyjabær hafi haft beiðnina undir höndum og átt þess kost að taka afstöðu til hennar. Þegar af þessari ástæðu getur ekki verið um óhæfilegan drátt á meðferð málsins að ræða í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Verður því ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 31. júlí 2015, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Símon Sigvaldason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta