607/2016. Úrskurður frá 18. janúar 2016
Úrskurður
Hinn 18. janúar 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 607/2016 í máli ÚNU 14100010.
Kæra og málsatvik
Með erindi dags 30. október 2014 kærði A synjun Landspítala háskólasjúkrahúss (LSH) á beiðni um aðgang að upplýsingum um starfsmenn LSH sem höfðu aðgang að og lásu sjúkraskýrslur B heitins, eiginmanns kæranda, dagana 28. september til 13. október 2011.
Beiðni kæranda um aðgang var lögð fram með bréfi dags. 15. maí 2014. Þann 19. júní 2014 var beiðninni synjað með vísan til þess að upplýsingarnar fælu ekki í sér eiginlegar sjúkraskrárupplýsingar í skilningi laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Jafnframt félli beiðnin utan upplýsingalaga þar sem sérstaklega væri kveðið á um aðgang að sjúkraskrám og tengdum upplýsingum í lögum um sjúkraskrár.
Málsmeðferð
Kæra kæranda var send LSH þann 26. nóvember 2014 og óskað eftir umsögn ásamt afritum af gögnum málsins. Þann 17. desember 2014 barst umsögn LSH þar sem fram komu sjónarmið spítalans um að aðgangur að upplýsingunum ætti ekki undir upplýsingalög. Kæranda var send umsögn LSH dags. 23. desember 2014 og boðið að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna málsins. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 9. janúar 2015.
Niðurstaða
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur til meðferðar synjanir á beiðnum um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2011 sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Samkvæmt gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna takmarka sértæk þagnarskylduákvæði laga rétt til aðgangs samkvæmt lögunum. Í 12. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 kemur fram að aðgangur að sjúkraskrám sé óheimill nema samkvæmt ákvæðum laganna eða annarra laga. Jafnframt er sérstaklega kveðið á um það í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga að um aðgang sjúklings að sjúkraskrá fari eftir lögum um sjúkraskrár. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur þetta leiða til þess að synjun á aðgangi að slíkum gögnum verði ekki borin undir úrskurðarnefndina. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur að leysa úr því hvort upplýsingar um þá starfsmenn sem hafa aðgang að og opna sjúkraskýrslur sjúklinga teljist til sjúkraskrár þeirra.
Í 4. tl. 1. mgr. 3. gr. gildandi laga um sjúkraskrár nr. 55/2009 er hugtakið sjúkraskrárupplýsingar skilgreint sem „Lýsing eða túlkun í rituðu máli, myndir, þ.m.t. röntgentmyndir, línurit og mynd- og hljóðupptökur sem innihalda upplýsingar er varða heilsufar sjúklings og meðferð hans hjá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun og aðrar nauðsynlegar persónuupplýsingar.“ Í 5. tl. ákvæðisins er hugtakið sjúkraskrá skilgreint sem safn sjúkraskrárupplýsinga.
Í úrskurði nr. A-155/2002 frá 8. nóvember 2002 hafði úrskurðarnefndin til skoðunar aðgang að sjúkraskrá og sjúkraskrárupplýsingum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að almennt orðuð og rúm skilgreining á hugtakinu sjúkraskrá leiddi til þess að skýra yrði hugtakið rúmt. Skilgreining sjúkraskrárhugtaksins í lögum nr. 55/2009 er áþekk skilgreiningu hugtaksins í reglugerð nr. 227/1991, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál byggði niðurstöðu úrskurðar nr. A-155/2002 á. Af greinargerð er fylgdi frumvarpi að lögunum verður ekki dregin sú ályktun að ætlunin hafi verið að breyta skýringu á hugtakinu frá því sem gilti í tíð eldri laga um sjúkraskrár nr. 74/1997. Að teknu tilliti til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að þau gögn sem kærandi óskar eftir aðgangi að teljist til sjúkraskrár B heitins. Um rétt kæranda til aðgangs að þeim fer því samkvæmt lögum um sjúkraskrár, sbr. nú lög nr. 55/2009. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á aðgangi að gögnunum samkvæmt þeim lögum. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kæru A á synjun Landspítala háskólasjúkrahúss um aðgang að upplýsingum um hvaða starfsmenn hafi haft aðgang að og lesið sjúkraskrár B á nánar tilteknu tímabili er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson