Hoppa yfir valmynd

608/2016. Úrskurður frá 18. janúar 2016

Úrskurður

Hinn 18. janúar 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 608/2016 í máli ÚNU 14100024.

Kæra og málsatvik

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst þann 20. október 2014 kæra A á synjun Landspítala-Háskólasjúkrahúss (LSH) um aðgang að kynningu sem flutt var á dánarmeinafundi (MM fundi) í nóvember 2011 um B heitinn.

Kærandi óskaði gagnanna fyrst með erindi dags. 7. janúar 2013. Með bréfi dags. 14. janúar 2013 greindi aðstoðarframkvæmdastjóri lækninga á LSH kæranda frá því að ekkert slíkt gagn lægi fyrir hjá spítalanum. Dánarmeinafundir væru haldnir með þeim hætti að læknir héldi stutta kynningu á tilfelli einstaklings, nafnlaust. Viðstaddir geti rætt tilfellið og hvað megi læra af því. Kynningarnar væru ekki formbundnar og oftast munnlegar. Hins vegar útbyggju sumir læknar glærur eða minnispunkta en spítalinn aflaði hvorki slíkra gagna sérstaklega né héldi utan um þá. Gagnið sem kærandi óskaði eftir væri ekki til hjá LSH.

Þann 18. febrúar 2014 sendi kærandi kæru til velferðarráðuneytisins í þremur liðum. Ráðuneytið tók tvo liði til skoðunar en vísaði kæru á synjun LSH um aðgang að kynningu af dánarmeinafundi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi dags. 15. október 2014. Kæran barst úrskurðarnefndinni þann 20. október 2014 eins og áður segir.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 3. desember 2014 sendi úrskurðarnefndin LSH kæruna til umsagnar. Umsögn spítalans barst þann 7. janúar 2015. Þar segir í upphafi að eins og fram komi í bréfum LSH til kæranda og velferðarráðuneytisins sé umbeðin kynning ekki vistuð á spítalanum. Upplýsingar úr kynningunni sé allar að finna annars staðar, þ.e. í sjúkraskrá viðkomandi sjúklings. Skilyrði þess að stjórnvaldi verði gert skylt að afhenda gögn á grundvelli upplýsingalaga sé að um fyrirliggjandi gögn sé að ræða. LSH telur að jafnvel þó umbeðin gögn væru geymd á spítalanum bæri honum ekki skylda til að afhenda þau. Þessi ályktun er studd við 9. gr. upplýsingalaga. Kynningar af því tagi sem kærandi óski eftir innihaldi viðkvæmar upplýsingar um heilsuhagi einstaklinga sem geti verið persónugreinanlegar þrátt fyrir að nafns eða kennitölu sé ekki getið.

Í umsögn LSH segir að á spítalanum séu haldnir svokallaðir MM (mortality and morbidity) fundir þar sem sjúkratilfelli séu rædd á opinskáan og hreinskilinn hátt án persónugreiningar. Fundina sitji aðeins læknar sem bundnir séu trúnaðar- og þagnarskyldu. Tilgangur fundanna sé að fara yfir stök sjúkratilfelli og skapa umræðu um þau, kynna ný eða sjaldgæf tilfelli sem ekki hafi komið fyrir áður eða sérstaklega flókin mál. Deildarlækni sé falið að sjá um kynningu, þ.e. fara yfir staðreyndir máls, sjúkdómsgreiningar og hvað hafi verið aðhafst. Viðkomandi deildarlæknir sæki upplýsingar í sjúkraskrá sjúklings og vinni kynningu út frá því sem þar kemur fram. Yfirleitt sé um munnlega kynningu að ræða en deildarlæknar ákveði sjálfir hvort þeir skrifi hjá sér minnispunkta, hafi glærukynningu eða annað slíkt. Engar fundargerðir séu færðar og engum gögnum dreift á fundunum. Fundirnir séu hluti af gæðakerfi spítalans og ætlaðir til að efla gæði, meðferðarúrræði og öryggi sjúklinga almennt. Gögnin séu unnin úr sjúkraskrá með heimild í 17. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009. Gögn sem unnin séu fyrir fundina teljist ekki hluti af sjúkraskrá sjúklings og geti því hvorki sjúklingar né aðrir farið fram á aðgang að þeim á grundvelli sjúkraskrárlaga.

Loks kemur fram að LSH telji undirbúningsgögn á borð við kynningar af MM fundum til vinnugagna í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Kynningarnar séu aðeins útbúnar til eigin nota, til að taka saman staðreyndir varðandi mál sem þegar sé að finna í öðrum gögnum spítalans og mögulegar hugrenningar deildarlæknis sem samdi kynninguna. Engin af undanþágum 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga eigi við um gögnin.

Kæranda var kynnt umsögn LSH með bréfi dags. 9. janúar og veitt tækifæri á að koma að frekari athugasemdum. Þær bárust þann 4. febrúar 2015. Þar segir í upphafi að þegar B heitinn hneig niður á heimili sínu eftir útskrift af skurðdeild [...] hafi kærandi ekki haft hugmynd um hvað hefði gerst. Enginn hafi útskýrt fyrir B eða kæranda hvaða sjúkdómi hann væri haldinn. Vinur B heitins, svæfingalæknir á spítalanum, hafi fyrst heyrt nafn sjúkdómsins nefnt á dánarmeinafundi í nóvember 2011. Þegar kærandi leitaði upplýsinga um sjúkdóminn í kjölfarið hafi komið í ljós að hann væri mjög hættulegur. Kærandi hafi viljað nálgast kynningu af fundinum vegna möguleika á því að hann hefði verið notaður til að hvítþvo skurðlækninn sem bar ábyrgð á meðferð B heitins. Deildarlæknir sem sá um kynninguna hafi sagt kæranda að eintak af henni væri vistað á heimasvæði deildarinnar. Kærandi hafi skrifað báðum yfirlæknum skurðdeilda, sem vísað hafi á vörslumann sjúkraskráa hjá LSH. Vörslumaðurinn hafi ítrekað neitað kæranda um kynninguna en þegar velferðarráðuneytið hafi beðið um eintak hafi spítalinn upplýst að hún væri ekki lengur til.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Nefndin getur því aðeins lagt úrskurð á mál að þau gögn, eða að minnsta kosti þær upplýsingar, sem óskað er eftir aðgangi að, séu í vörslum aðila sem falla undir lögin. Af hálfu LSH hefur komið fram að engin gögn séu í vörslu spítalans af MM fundi um meðferð B heitins sem haldinn var í nóvember 2011. Þetta kemur meðal annars fram í bréfi aðstoðarframkvæmdastjóra lækninga á spítalanum til kæranda dags. 14. janúar 2013. Kærandi vísar til þess að deildarlæknir sem sá um kynningu á fundinum hafi tjáð henni í síma að hann teldi kynninguna vistaða á heimasvæði skurðdeildar á spítalanum. Ekkert annað er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að efast um þá staðhæfingu LSH að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá spítalanum. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður því að leggja til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A á synjun Landspítala-Háskólasjúkrahúss um aðgang að kynningu frá dánarmeinarfundi í nóvember 2011 um B er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta