615/2016. Úrskurður frá 7. mars 2016
Úrskurður
Hinn 7. mars 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 615/2016 í máli ÚNU 15020006.
Kæra og málsatvik
Með erindi A, er barst þann 17. febrúar 2015, var kærð synjun embættis landlæknis á beiðni um upplýsingar.
Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi með erindi dags. 14. febrúar 2014 eftir svörum við spurningum í 9 tölusettum liðum. Landlæknir svaraði þann 22. október 2014. Kærandi taldi svarið ekki fullnægjandi og ítrekaði fyrri beiðni sína með bréfi dags. 22. október 2014, auk þess að senda frekari spurningar. Þeirri fyrirspurn var svarað af hálfu embættis landlæknis með bréfi dags. 5. nóvember 2014. Í kjölfarið sendi kærandi kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem kærð var afgreiðsla landlæknis á eftirfarandi spurningum:
Spurning 2: „Hversu mörg atvik skráðu umræddar stofnanir/aðilar á tímabilinu 2009-2013 í heild?“
Spurning 6: „Hversu margar kvartanir bárust Embætti landlæknis á tímabilinu 2009-2013 í heild vegna stofnana/aðila sem veita fíknimeðferð/afvötnun samkvæmt 12. gr. laga um Embætti landlæknis eða sambærilegum ákvæðum eldri laga?“
Spurning 9: „Hvernig háttar Embætti landlæknis gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun?“
Málsmeðferð
Kæran var send landlækni þann 18. febrúar 2015 og veittur frestur til þess að koma á framfæri umsögn um kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum í samræmi við 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Embætti landlæknis svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dagsettu 24. apríl 2015. Þar segir orðrétt:
„Embætti landlæknis tekur saman árlega yfirlit yfir fjölda atvika í heilbrigðisþjónustu og birtir þær fyrir Landspítala og síðan allar aðrar stofnanir saman. Ekki eru teknar saman tölur og birtar fyrir minni stofnanir því að þá er um að ræða tiltölulega fá atvik. Ef embættið ætti að sinna beiðni A um atvik fyrir stofnanir sem sinna fíknimeðferð þyrfti að vinna þær sérstaklega og upplýsingalög nr. 140/2012, 5. gr., kveða á um að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. gr.“
Með bréfi, dagsettu 28. apríl 2015, var kæranda sent afrit af umsögn Embættis landlæknis og gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina frekari athugasemdum vegna kærunnar, í ljósi umsagnarinnar, til 12. maí 2015. Athugasemdir kæranda bárust þann 11. maí 2015. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins.
Embætti landlæknis svaraði síðara erindi kæranda með bréfi dagsettu 5. nóvember 2014. Kæra barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál 17. febrúar 2015. Kæran barst því að liðnum kærufresti 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Í svari landlæknis til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna líkt og áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærunni því af þessum sökum ekki vísað frá úrskurðarnefndinni þótt kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni 12. febrúar 2014.
2.
Kærandi hefur í fyrsta lagi óskað eftir upplýsingum um hversu mörg atvik nánar tilgreindar stofnanir/aðilar skráðu á tímabilinu 2009-2013 í heild og í öðru lagi hversu margar kvartanir bárust embætti landlæknis á sama tímabili. Í svari landlæknis frá 25. febrúar 2014 sagði: „Þar sem um tiltölulega fá atvik er að ræða á minni stofnunum og einstökum deildum er ekki mögulegt að gefa upplýsingar um tölur atvika eftir mismunandi stofnunum eða mismunandi deildum Landspítala.“ Í umsögn landlæknis segir auk þess að „[e]f embættið ætti að sinna beiðni [kæranda] [...] þyrfti að vinna þær sérstaklega“. Um þetta vísar landlæknir til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr.
Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Embætti landlæknis hefur borið því við að þau gögn sem kærandi óskaði eftir liggi ekki fyrir. Úrskurðarnefndin hefur ekki ástæðu til að draga þá staðhæfingu í efa. Með vísan til þessa liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
3.
Auk framangreindra spurninga óskaði kærandi upplýsinga um það hvernig landlæknisembættið háttaði gæðaeftirliti sínu með stofnunum/aðilum sem veita fíknimeðferð/afvötnun. Í svari landlæknis frá 25. febrúar 2014 er þeirri spurningu svarað með því að vísa til fyrirliggjandi upplýsinga á heimasíðu embættisins. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. er heimilt að afgreiða beiðni um aðgang að gögnum með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi án þess að gögnin séu afhent. Kæranda var því ekki synjað um aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Með vísan til alls framangreinds ber að vísa kæru málsins frá úrskurðarnefndinni í heild sinni.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 17. febrúar 2015, á hendur embætti landlæknis.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson