Hoppa yfir valmynd

627/2016. Úrskurður frá 7. júní 2016

Úrskurður

Hinn 7. júní 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 627/2016 í máli ÚNU 16050016.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi dags. 20. maí 2016 kærði A meðferð Landsbankans hf. á áskorun um framlagningu gagna, dags. 15. mars 2016, í einkamáli aðila nr. E-145/2016 fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Í kærunni kemur fram að kærandi telji sig eiga fullan rétt til þeirra skjala og gagna sem um ræðir, enda varði þau viðskipti aðila. Synjun bankans sé hins vegar órökstudd. Kærandi styður kröfu sína við ákvæði 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveður rökstuddan grun fyrir því að ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi verið brotin. Þá vísar kærandi til ákvæða siðasáttmála, siðareglna og reglna Landsbankans um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess. Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin enn fremur óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Landsbankanum hf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.

Niðurstaða

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. gr. taka lögin til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Það á við um Landsbankann hf.

Í 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir:

„Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.“

Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra birt auglýsingu um undanþágur lögaðila frá upplýsingalögum, sbr. auglýsingu nr. 600/2013. Landsbankinn hf. er meðal þeirra lögaðila sem þar eru nefndir. Upplýsingalög nr. 140/2012 taka því ekki til bankans. Undanþága 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er skýr og óskilyrt. Afstöðu Landsbankans til beiðni um gögn samkvæmt upplýsingalögum verður því ekki skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru A á hendur Landsbankanum hf. er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta