Hoppa yfir valmynd

631/2016. Úrskurður frá 29. júlí 2016

Úrskurður

Hinn 29. júlí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 631/2016 í máli nr. ÚNU 15040009.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 27. apríl 2015 kærðu A og B þá ákvörðun skóla C að synja þeim um aðgang að ódagsettu og nafnlausu bréfi foreldra barna í bekk sonar þeirra til skólans sem afhent var skólanum í nóvember 2014.

Kærendur fóru fram á aðgang að bréfinu með bréfi, dags. 19. janúar 2015, og tiltóku að þar sem bréfið varðaði son þeirra með beinum hætti ættu þau með vísan til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og til vara 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rétt á aðgangi að því.

Skóli C tók afstöðu til beiðni kærenda með bréfi, dags. 10. mars 2015, þar sem fram kemur að þeir sem rituðu bréfið féllust ekki á afhendingu þess þar sem bréfið væri ritað til skólans og ætti ekki erindi annað. Einhverjir foreldrar hefðu þó boðist til að hitta kærendur á fundi, þar sem kærendur gætu lesið bréfið og rætt um efni þess. Tiltekið var að ef kærendur vildu aðgang að bréfinu þyrftu þeir að fara með málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í kæru málsins kemur fram að kærendur telji bréfið varða þau og son þeirra með beinum hætti og hafi verið sent skólanum í kjölfar atviks sem tengist þeim og syni þeirra. Skólastjóri hafi upplýst þau um bréfið í nóvember 2014 en það hafi ekki verið afhent þar sem bréfritarar veittu ekki samþykki sitt fyrir afhendingu þess. Kærendur vísa til ákvæðis 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og taka fram að synjun skólans virðist byggja á 3. mgr. þess ákvæðis. Kærendur telja að bréfið innihaldi einvörðungu upplýsingar um þau og son þeirra og vísa þar að auki til þess að bréfið sé nafnlaust. Þá geti andstaða bréfritara ein og sér ekki verið nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar. Kærendur tiltaka að verði ekki fallist á afhendingu bréfsins á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 byggi þeir einnig á 5. gr. sömu laga.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 4. maí 2015 var skóla C kynnt kæran og veittur frestur til 18. sama mánaðar til að koma að umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn skóla C barst 15. maí 2015 ásamt afriti af umbeðnu gagni.

Í umsögn skóla C kemur fram að miklir erfiðleikar hafi verið í bekk sonar kærenda og bréfritara. Skólastýra skólans hafi í kjölfar símtala við foreldra í bekknum óskað eftir bréfinu sem mál þetta varðar svo unnt væri að taka á máli bekkjarins af festu. Fram kemur að bréfið hafi borist skólanum í nóvember 2014 og sé nafnlaust og óundirritað. Í kjölfar beiðni um afhendingu hafi tilteknir foreldrar gengist við því að hafa skrifað bréfið og væru þeir mótfallnir afhendingu þess til kærenda. Er það afstaða skólans að bréfið innihaldi viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni þeirra nemenda sem vísað er til í bréfinu og hafa orðið fyrir áreitni. Í bréfinu sé áhrifum hennar lýst og upplýsingar um líðan barnanna komi fram. Hvað líðan barnanna varðar sé meðal annars fjallað um upplifun og ótta þeirra í garð sonar kærenda. Þó að engin nöfn séu tilgreind í bréfinu viti allir þeir sem að málinu koma hverjir eigi í hlut. Tekið er fram að þar sem bréfið varði samskipti ungra barna sem þurfi leiðbeiningu og stuðning sé mikilvægt að trúnaður sé tryggður. Vísað er til ákvæðis 3. mgr. 14. gr. sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem heimildar til takmörkunar á aðgangi að bréfinu. Jafnframt er á það bent að skv. 2. mgr. 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 hvíli þagnarskylda á starfsfólki grunnskóla um hagi barna og foreldra þeirra sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls.   

Umsögn skóla C var kynnt kærendum og þeim veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 1. júní 2015. Þær bárust 30. maí 2015 og er þar ítrekuð sú afstaða kærenda að þeir eigi rétt á aðgangi að bréfinu á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Telja kærendur að um einkahagsmuni sonar þeirra sé að ræða sem vegi þyngra en hagsmunir ónafngreindra aðila í bréfi sem sé óundirritað.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni foreldra um aðgang að ódagsettu og nafnlausu bréfi annarra foreldra barna í bekk sonar þeirra í skóla C sem afhent var skólanum í nóvember 2014.

Kærendur telja bréfið varða einkahagsmuni þeirra og sonar þeirra og vísa til ákvæðis 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í ákvæðinu er tiltekið að skylt sé, ef þess er óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Réttur til aðgangs að slíkum gögnum er meðal annars takmarkaður af 3. mgr. 14. gr., en þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang. Í framkvæmd hefur ákvæði 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verið skýrt þannig að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingar varða hann sjálfan þannig að hann hafi einstaklega hagsmuni af því umfram aðra að fá aðgang að gögnunum. Foreldar geta til að mynda haft slíka hagsmuni þegar um er að ræða gögn sem innihalda upplýsingar um börn þeirra.

2.

Við meðferð málsins var úrskurðarnefnd um upplýsingamál afhent bréfið sem um ræðir. Það var ritað af foreldrum sem höfðu áhyggjur af málefnum í bekk barna þeirra og sonar kærenda. Í bréfinu eru frásagnir að því er virðist fjögurra barna af samskiptum sínum við son kærenda auk lýsinga á upplifun þeirra og í einhverjum tilvikum ótta gagnvart syni kærenda. Þrátt fyrir að um sé að ræða nafnlaust óundirritað bréf liggur fyrir hvaða foreldrar rituðu það. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur því að auðvelt sé að para saman lýsingu hvers barns fyrir sig og bréfritara og þar með komast að því hvaða barn á í hlut hverju sinni.

Fyrir liggur að höfundar bréfsins eru því mótfallnir að það sé afhent kærendum. Vegna þess hvernig skóli C leysti úr beiðni kærenda bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að ákvæði 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 felur í sér útfærslu á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og er stjórnvöldum til áminningar um að eðlilegt kunni að vera að leita afstöðu þess sem upplýsingar varðar, bæði af tilliti til viðkomandi aðila, en einnig í því skyni að upplýsa mál. Nefndin áréttar hins vegar að synjun um afhendingu gagna getur ekki ein og sér byggst á afstöðu þeirra aðila sem geta haft hagsmuni af afhendingu gagnanna þó að rétt geti verið og skylt að kanna afstöðu þeirra.

Sem fyrr sagði er heimilt samkvæmt 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að takmarka aðgang aðila að gögnum hafi þau jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Að mati úrskurðarnefndar varða þær upplýsingar sem fram koma í bréfinu nægjanlega ríka einkahagsmuni þeirra barna sem um ræðir til að heimilt sé að takmarka aðgang kærenda að bréfinu. Hagsmunir þeirra barna sem um ræðir af því að upplýsingar um líðan þeirra, tilfinningar og heilsu fari leynt eru ríkari en þeir hagsmunir sem kærendur kunna að hafa af afhendingu bréfsins. Skóla C var því heimilt að synja kærendum um aðgang að bréfinu með vísan til ákvæðis 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun skóla C um að synja kærendum A og B um aðgang að ódagsettu og nafnlausu bréfi foreldra barna í bekk sonar þeirra til skólans sem afhent var skólanum í nóvember 2014.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Friðgeir Björnsson                                                                                       Sigurveig Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta