641/2016. Úrskurður frá 29. ágúst 2016
Úrskurður
Hinn 29. ágúst 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 641/2016 í máli ÚNU 15110009.
Kæra og málsatvik
Með erindi dags. 23. nóvember 2015 kærði A afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum um ömmu hans. Í kæru segir að þann 5. október 2015 hafi kærandi farið þess á leit að ráðuneytið veitti aðgang að gögnum er varða hennar hinstu ósk um jarðsetningu eða bálför. Kærandi kveðst hafa fengið takmörkuð gögn frá Útfararstofu Kirkjugarðanna um málið. Þar sé að finna afrit af svari frá ráðuneytinu við umsókn foreldra kæranda um dreifingu ösku ömmu kæranda við […]. Kærandi segist hafa miklar efasemdir um að nokkur gögn séu til um þessa ósk. Hann segir andlega heilsu ömmu sinnar ekki hafa verið góða hin síðari ár og að líklegra sé að hún hafi viljað vera jarðsett hjá eiginmanni sínum.
Í ákvörðun innanríkisráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2015, er vísað til 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Óskað hafi verið afstöðu foreldra kæranda með bréfi dags. 19. október 2015 en svör hafi ekki borist. Að mati ráðuneytisins sé umsókn um dreifingu ösku upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari og heyri þar af leiðandi undir 9. gr. laga nr. 140/2012. Beiðni kæranda sé þar af leiðandi hafnað.
Kærandi fellst ekki á þær röksemdir innanríkisráðuneytisins að um einkamál sé að ræða. Þar sem ættartengslin séu sterk geti kærandi ekki talist til almennings. Í þessu samhengi vísar kærandi til laga um veitingu dvalarleyfis. Þar séu ömmur og afar flokkuð sem ættmenni en ekki almenningur.
Málsmeðferð
Með bréfi dags. 3. desember 2015 var innanríkisráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að í trúnaði. Í umsögn ráðuneytisins, dags. 6. janúar 2016, segir að það telji umsókn um öskudreifingu vera einkamálefni einstaklings, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, og heyri þar af leiðandi undir 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Jafnvel þótt kærandi sé ættmenni þeirra sem stóðu að beiðni um öskudreifingu geti hann ekki talist vera aðili máls í skilningi upplýsingalaga. Þar sem ekki hafi borist samþykki frá þeim sem stóðu að málinu hafi ráðuneytið ekki talið forsendur til að veita aðgang að gögnum málsins.
Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að gögnum um bálför ömmu sinnar. Innanríkisráðuneytið hefur afgreitt beiðnina á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem kveður á um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda og byggðist synjun ráðuneytisins á aðgangi kæranda á 9. gr. laganna. Kærandi hefur meðal annars borið því við að hann geti ekki talist til almennings í skilningi ákvæðanna en af hálfu ráðuneytisins hefur komið fram að hann geti ekki talist aðili máls „í skilningi upplýsingalaga“.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur tilefni til að árétta að enda þótt kærandi sé ekki aðili þess stjórnsýslumáls er um ræðir, og eigi því ekki rétt á aðgangi að gögnum þess á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, getur réttur hans til aðgangs ákvarðast af 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar segir í 1. mgr. að skylt sé, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Eins og leiða má af athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 og framkvæmd ákvæðisins í úrskurðum úrskurðarnefndarinnar, nær það ekki eingöngu til upplýsinga um aðila sjálfan, heldur dugir til að þær varði hann sérstaklega og verulega umfram aðra. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sé lögerfingi hinnar látnu og geti því haft lögvarða hagsmuni af skiptum dánarbús hennar. Enn fremur segir í 3. mgr. 2. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 að þegar ekki sé vitað um vilja látins manns sem sjálfráða var ákveði eftirlifandi maki og niðjar hins látna hvort lík skuli greftrað eða brennt. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir að fyrst beri að leita eftir afstöðu eftirlifandi maka (sambúðaraðila) og niðja (kjörniðja). Séu þau á einu máli skuli fara eftir afstöðu þeirra ef ekki skal greftra lík. Þar sem fyrir liggur að kærandi er niðji hinnar látnu, og löggjöfin gerir sérstaklega ráð fyrir aðkomu hans að þeirri ákvörðun sem gagnabeiðni hans snýr að, þykir mega leggja til grundvallar að gögnin varði kæranda sérstaklega og verulega umfram aðra. Réttur hans til aðgangs að þeim ákvarðast því af 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Þá kemur til álita hvort innanríkisráðuneytinu hafi verið heimilt að takmarka rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum með vísan til einkahagsmuna, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en ákvæðið er skylt 9. gr. laganna sem ráðuneytið byggði synjun sína á. Þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.
Innanríkisráðuneytið hefur vísað til þess að umsókn um dreifingu ösku hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings og ekki hafi borist samþykki umsækjenda, þ.e. foreldra kæranda. Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að yfirlýsing þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta sé ekki ein og sér nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar. Sama gildir um skort á svörum við áskorun um að láta í ljós afstöðu til aðgangs kæranda. Þá segir einnig í athugasemdunum að aðila verði ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verði að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.
Eins og mál þetta er vaxið er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hagsmunir kæranda af aðgangi að gögnum um umsókn um dreifingu ösku ömmu sinnar vegi þyngra en hagsmunir umsækjenda af því að þeim verði haldið leyndum. Hér skiptir og máli að af hálfu umsækjenda hefur aðgangi kæranda ekki verið mótmælt. Verður því fallist á rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Innanríkisráðuneytinu ber að veita kæranda, A, aðgang að gögnum um dreifingu ösku B, er lést þann […].
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson