651/2016. Úrskurður frá 20. september 2016
Úrskurður
Hinn 20. september 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 651/2016 í máli ÚNU 16010013.
Kæra og málsatvik
Með erindi dags. 27. janúar 2016 kærði A, blaðamaður, meðferð stjórnar listamannalauna á beiðni um aðgang að skýrslum starfslaunaþegans B. Upphaflegri gagnabeiðni kæranda, dags. 20. janúar, var synjað með tölvupósti þann 27. janúar. Þar segir að í skýrslunum komi fram upplýsingar sem varði einkahagsmuni og beiðninni sé því hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
Í kæru segir að samkvæmt 1. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009 veiti Alþingi árlega fé af fjárlögum til að launa listamenn í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu. Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 834/2009 sé gert ráð fyrir að um tiltekið listrænt verkefni sé að ræða sem umsækjanda um starfslaun beri að lýsa í hnitmiðaðri greinargerð um verkið. Þá beri starfslaunaþega að gefa skýrslu um þau störf sem hann hefur sótt um starfslaun fyrir, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2009 og 7. gr. reglugerðarinnar. Starfslaunaþega beri því að uppfylla tiltekin skilyrði og skyldur vegna starfslauna sem stjórn listamannalauna beri að hafa eftirlit með að séu uppfyllt. Kærandi segir að gögnin séu nauðsynleg til þess að almenningur og fjölmiðlar geti lagt betur mat á það hvort sú gagnrýni sem fram hefur komið eigi rétt á sér hvað varðar þennan tiltekna starfslaunaþega, launasjóðinn og skipulag listamannalauna almennt.
Í kæru segir að upplýsingarnar séu ekki einkamálefni í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Starfslaunum sé úthlutað á grundvelli umsóknar vegna tiltekins listræns verkefnis sem starfslaunaþega ber að starfa að og gera grein fyrir framgangi þess. Samkvæmt lögunum megi fella starfslaunin niður, starfi launþegi ekki að verkefninu. Með því að leggja fram umsókn um að hljóta starfslaun frá hinu opinbera vegna tiltekins listræns verkefnis, geti starfslaunaþegi ekki gert ráð fyrir því að gagnvart almenningi ríki fullkomin leynd yfir þeim verkefnum sem starfslaun eru veitt fyrir. Um sé að ræða opinbera styrkveitingu og almenningur og fjölmiðlar eigi rétt á að veita hinu opinbera aðhald varðandi það hvort fjármunum hins opinbera sé varið í samræmi við lög og reglur. Ef gögnin innihalda upplýsingar um einkamálefni telur kærandi að engu að síður beri að afhenda þau, þó þannig að upplýsingar um einkamálefni verði afmáðar.
Málsmeðferð
Með bréfi dags.1. febrúar 2016 var stjórn listamannalauna kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit þeirra gagna sem kæran lýtur að. Í umsögninni segir að stjórn listamannalauna líti svo á að hafna beri beiðni kæranda vegna þess að skýrslur starfslaunaþega séu trúnaðarmál sem ekki sé heimilt að afhenda þriðja aðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Skýrslurnar innihaldi hugmyndir að verkum í vinnslu og það geti skaðað framvindu þeirra ef þær verði gerðar opinberar. Þannig lúti trúnaðurinn bæði að einkamálum og fjárhagslegum hagsmunum, með opinberri birtingu geti fótunum verið kippt undan útgáfu með því að aðrir gætu nýtt sér hugmyndir eða spillt fyrir framgangi þeirra. Hér sé um verulega hagsmuni einstaklings að ræða sem hefur lífsviðurværi sitt af ritstörfum sem starfslaunasjóður styrki.
Stjórn listamannalauna bendir jafnframt á að þegar starfslaunaþegar skila inn skýrslum standi þeir í þeirri trú að um trúnaðargögn sé að ræða og þeir sem borið hafa ábyrgð á starfsemi sjóðsins og séð um umsýslu hans hafi haft sama skilning. Ekkert í lögum um listamannalaun eða reglugerð sjóðsins gefi styrkþegum til kynna að upplýsingar kunni að verða gerðar opinberar.
Með bréfi dags. 14. júlí 2016 ákvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál að leita álits viðkomandi starfslaunaþega á því að aðgangur að umbeðnum gögnum verði veittur, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í umsögn hans kemur fram að hann álíti skýrslur og umsóknir um starfslaun innihalda upplýsingar sem ekki eigi erindi til almennings. Upplýsingar um starfslaun, fjárhæð og tímalengd séu opinberar og aðgengilegar hverjum sem er.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt til aðgangs að skýrslum tiltekins starfslaunaþega í vörslum stjórnar listamannalauna vegna launasjóðs rithöfunda. Synjun stjórnarinnar var byggð á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en í ákvæðinu segir:
„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“
Sá einstaklingur sem í hlut á hefur lagst gegn afhendingu umbeðinna gagna. Synjun á beiðni kæranda fær því aðeinst staðist að fyrir liggi að upplýsingarnar sem þar koma fram varði einka- eða fjárhagsmálefni einstaklingsins sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í athugasemdum við ákvæði 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir að vega og meta þurfi umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verði að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni umbeðinna gagna. Öll innihalda þau umfjöllun um ráðstöfun opinberra hagsmuna í formi starfslauna rithöfundar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd litið til markmiða upplýsingalaga um aðhald að stjórnvöldum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna við skýringar á undantekningarákvæðum laganna. Í þessu samhengi tekur nefndin fram að ýmsar upplýsingar um starfslaun listamanna eru þegar aðgengilegar almenningi, þar á meðal hversu mörgum mánaðarlaunum hver listamaður fær úthlutað í hvert sinn. Þá eru einnig aðgengilegar upplýsingar um fjárhæð starfslauna og aðra tilhögun úthlutunar á vef stjórnar listamannalauna.
Hins vegar er það mat nefndarinnar að hinn ríki réttur almennings til aðgangs að gögnum er varða ráðstöfun opinberra hagsmuna verði almennt að víkja fyrir þeim hagsmunum listamanna að upplýsingar um verk í vinnslu og ófullkomin verk, hugmyndir að verkum, ferlum við sköpun listverka og afstöðu listamanna til verka sinna séu ekki á almannavitorði. Slíkar upplýsingar tengjast náið persónu viðkomandi listamanna og öðrum hagsmunum sem eru sérstaklega verndaðir með 71. gr. og 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá er að mati nefndarinnar einnig að finna upplýsingar um aðra einkahagsmuni starfslaunaþega í skýrslunum, svo sem lýsingar á ferðalögum og öðrum persónulegum upplifunum. Því er staðfest synjun stjórnar listamannalauna á þeim hluta umbeðinna gagna sem hafa að geyma slíkar upplýsingar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Á hinn bóginn verður kæranda heimilaður aðgangur að öðrum hlutum umbeðinna gagna á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. ákvæðisins, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Það athugast að frá árinu 2013 hefur eyðublað framvinduskýrslna verið því marki brennt að þar koma nær eingöngu fram upplýsingar sem lúta framangreindri takmörkun á upplýsingarétti almennings. Ef slíkar upplýsingar yrðu afmáðar úr skýrslunum er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda yrði ekki hald í aðgangi að því sem eftir stæði.
Úrskurðarorð:
Stjórn listamannalauna ber að afhenda kæranda, A, eftirfarandi gögn:
Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 1997, 1999 og 2002, dags. 12. desember 1997, 1. desember 1999, 11. og 12. nóvember 2002 (eyðublöð án fylgiskjala).
Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 2000, 2004, 2005, 2006, 2007 og 2008, dags. 14. desember 2000, 17. nóvember 2004, 15. nóvember 2005, 1. október 2006, 2. október 2007 og 2. október 2008 (eyðublöð), þó þannig að afmáðar verði upplýsingar sem fram koma í reitunum: „Upplýsingar um framgang verkefnis/verkefna á árinu.“
Skýrslum um störf starfslaunaþegans B árin 2011 og 2012, ódags., þó þannig að afmáðar verði upplýsingar sem fram koma í reitunum: „Hnitmiðuð greinargerð um verkefni sem vinna á að á starfslaunatímanum“, „Náms- og starfsferill umsækjanda, viðurkenningar og verðlaun“ og „Framvinduskýrsla“.
Að öðru leyti er hin kærða ákvörðun staðfest.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson