Hoppa yfir valmynd

654/2016. Úrskurður frá 31. október 2016

Úrskurður

Hinn 31. október 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 654/2016 í máli ÚNU 16010011.  

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi er barst 25. janúar 2016 kærði A afgreiðslu Háskóla Íslands á beiðni um aðgang að gögnum. Með upphaflegri gagnabeiðni, dags. 18. janúar 2016, fór kærandi fram á gögn tiltekinna námskeiða við skólann. Eftir að kæra í málinu var kynnt Háskóla Íslands með bréfi, dags. 1. febrúar 2016, bera gögn málsins með sér að kæranda hafi verið veittur aðgangur að umbeðnum gögnum til skoðunar í eina viku. Með erindi, dags. 25. febrúar 2016, beiddist kærandi þess að málsmeðferð yrði haldið áfram þar sem hann óskaði eftir bindandi úrskurði um rétt sinn til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum. Líta verður svo á að kæruefnið lúti að því að kærandi telji Háskóla Íslands óheimilt að takmarka aðgang að umbeðnum gögnum í tiltekinn tíma, eða eina viku.  

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tilkynnti Háskóla Íslands að meðferð málsins yrði haldið áfram með erindi dags. 6. mars 2016 og veitti skólanum kost á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Í umsögn skólans, dags. 11. mars 2016, segir að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga sé heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Einföld lögskýring leiði til þess að engin heimild sé til að bera samþykki fyrir beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefndina, enda krefjist engir hagsmunir sem lögin verndi slíkrar niðurstöðu. Auk þess verði að draga í efa að það standist lögmætisreglu íslensks stjórnsýsluréttar að úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurði í málum þar sem fullur aðgangur hefur verið veittur að gögnum.  

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum námskeiða við Háskóla Íslands. Af gögnum málsins verður að draga þá ályktun að enginn ágreiningur sé uppi um efnislegan rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum, enda hefur komið fram af hálfu Háskólans að kærandi hafi þegar fengið „fullan aðgang“ að þeim. Einskorðast kæruefnið því við það álitamál hvort skólanum hafi verið heimilt að takmarka aðgang kæranda þannig að hann stæði í eina viku, en að þeim tíma loknum hefði kærandi ekki aðgang að umbeðnum gögnum. 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 4. mgr. laga nr. 161/2006, skyldu stjórnvöld taka ákvörðun um hvort gögn, sem heimilt var að veita aðgang að, skyldu sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit. Eftir því sem við varð komið var stjórnvöldum þó skylt samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, ef þess var óskað, að láta í té ljósrit eða afrit af gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau voru varðveitt á. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til laganna sagði að ákvæði 1. mgr. bæri að skoða með hliðsjón af 2. mgr. Þá segir í athugasemdum við 4. gr. frumvarps til laga nr. 161/2006, að þeim fyrirvara sé haldið með orðunum „eftir því sem við verður komið“ að ekki séu í vegi sérstakar hindranir við að veita afrit eða ljósrit af gögnum. Þannig geti skjöl t.d. verið þannig útlits að ógerlegt sé að ljósrita þau. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skýrði framangreind ákvæði á þann hátt í gildistíð laga nr. 50/1996 að ef engar slíkar hindranir ættu við bæri kærða að verða við beiðni um að fá afhent afrit af umbeðnum gögnum, sbr. t.d. úrskurð nr. A-299/2009 og A-371/2011. 

Í 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um afhendingu gagna og gjaldtöku. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að eftir því sem við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi. Upplýsingalög nr. 140/2012 hafa samkvæmt framangreindu ekki að geyma reglu um að stjórnvald taki ákvörðun um hvort veita skuli afrit eða gögn sýnd, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. A-527/2014. Þá er ekki að finna vísbendingar í lögskýringargögnum um að ætlun löggjafans hafi verið að þrengja þá reglu sem gilti í tíð eldri upplýsingalaga, að sérstakar hindranir þurfi til að stjórnvald geti látið duga að sýna gagn í stað þess að afhenda afrit. Samkvæmt framangreindu ber Háskóla Íslands að verða við beiðni kæranda um að fá afhent afrit af þeim gögnum sem hann hefur óskað aðgangs að án takmarkana. 

Úrskurðarorð:

Háskóla Íslands ber að afhenda kæranda, A, afrit af gögnum eftirfarandi námskeiða við skólann: 

  • LÖG107F Íslenskur skattaréttur – almennur hluti (kennt á haustmisseri 2015)

  • LÖG131F Íslenskur skattaréttur – sérstakur hluti (kennt á haustmisseri 2015)

  • LÖG 103F Félagaréttur I (kennt á haustmisseri 2015)

 

Þorgeir Ingi Njálsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta