Hoppa yfir valmynd

659/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016

Úrskurður

Hinn 30. nóvember 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 659/2016 í máli ÚNU 15060001.  

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 3. júní 2015 kærði A, blaðamaður, meðferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um aðgang að gögnum. Í beiðni kæranda, dags. 19. maí 2015, var farið fram á aðgang að öllum samskiptum og gögnum sem urðu til í tilefni af fyrri upplýsingabeiðni kæranda, sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 611/2016 frá 7. mars sl. Nánar tiltekið óskaði kærandi eftir: 

  • Öllum umræðum (e. discussion) um beiðnina, dags. 11. nóvember 2014, sem var ítrekuð dagana 12., 13., 14. og 16. nóvember og í síma þann 17. nóvember.

  • Öllum samskiptum sem tengjast beiðninni, hvort sem er með tölvupósti eða öðrum leiðum, og af hálfu allra starfsmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

  • Öllum samskiptum sem tengjast beiðninni á milli lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og annarra aðila, þ.m.t. forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og FBI.

  • Öllum samskiptum sem tengjast kæru kæranda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 2. desember 2014, bæði innanhússsamskiptum lögreglunnar og á milli nefndarmanna, starfsmanna nefndarinnar eða forsætisráðuneytisins annars vegar og lögreglunnar hins vegar.

  • Öllum samskiptum þar sem kærandi eða vinnustaður hans, [...], eru til umfjöllunar í tengslum við beiðnina eða kæruna. 

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi óskað eftir staðfestingu á móttöku beiðninnar þann 21. maí 2015 og barst staðfesting samdægurs. Þann 1. júní minnti kærandi á afgreiðslu beiðninnar og vísaði málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þann 3. júní 2015 eins og áður segir. Í kæru er vísað til 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kæranda hafi hvorki verið tilkynnt um ástæður tafa né hvenær ákvörðunar sé að vænta. Eins og á standi verði að líta á afgreiðslu lögreglunnar sem synjun beiðninnar.  

Málsmeðferð

Kæran var kynnt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu með bréfi dags. 4. júní 2015 og beint til hennar að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðni kæranda eigi síðar en þann 18. júní 2015. Óskaðist ákvörðunin birt kæranda og nefndinni eigi síðar en kl. 16:00 þann dag. Erindi nefndarinnar var ítrekað þann 12. ágúst, 15. september og 20. október 2015. Nefndinni bárust staðfestingar á móttöku erindanna. Ritari nefndarinnar hringdi til lögreglunnar þann 4. nóvember 2015 og kom fram af hálfu starfsmanns lögreglunnar að málið væri í farvegi og svar bærist fljótlega. Þann 25. ágúst 2016 veitti úrskurðarnefnd um upplýsingamál lokafrest til afgreiðslu beiðninnar til 2. september 2016.  

Með bréfi dags. 31. ágúst 2016 barst nefndinni bréf frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem átti eftir efni sínu við um fyrri beiðni kæranda. Þann 1. september 2016 vakti ritari úrskurðarnefndarinnar athygli á efni síðari beiðni kæranda, sem enn væri óafgreidd. Sama dag barst úrskurðarnefndinni afrit af tölvupósti lögreglunnar til kæranda þar sem fram kom að engin gögn væru fyrirliggjandi hjá lögreglunni samkvæmt beiðninni nema beiðnin sjálf. Loks bárust einnig samdægurs athugasemdir kæranda við afgreiðslu beiðninnar. Að mati kæranda getur það ekki staðist að engin gögn séu til um meðferð fyrri beiðni hans hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Til dæmis komi fram af hálfu tveggja starfsmanna lögreglunnar þann 19. nóvember 2014 að erindi kæranda verði áframsent viðeigandi starfsmanni. Að minnsta kosti hljóti að vera til gögn um þessi samskipti, nema starfsmennirnir hafi einfaldlega sagt ósatt um meðferð beiðninnar. Kærandi telur að unnt sé að finna gögn undir beiðninni með einfaldri leit í tölvupósti þeirra starfsmanna lögreglunnar sem komu að málinu, til dæmis með orðunum [...].

Meðferð máls þessa hefur tafist óhæfilega. Ástæður tafanna má rekja til anna í störfum nefndarinnar, dráttar af hálfu lögreglunnar við að svara erindum úrskurðarnefndarinnar og loks dróst af hálfu kæranda að veita nefndinni nauðsynlegar skýringar á kæruefninu. 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um aðgang að gögnum sem urðu til við afgreiðslu fyrri gagnabeiðni kæranda. Ákvörðun um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 er stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar kærandi bar fram fyrri beiðni sína um aðgang að gögnum stofnaðist mál í skilningi stjórnsýslulaga og nýtur kærandi aðildar að málinu og upplýsingaréttar samkvæmt 15. gr. laganna.  

Samkvæmt framangreindu laut beiðni kæranda einvörðungu að gögnum sem urðu til í tilefni af gagnabeiðni hans til stjórnvalda en ekki að þeim gögnum sem fyrir voru í vörslum lögreglunnar og fyrri beiðni hans tók til. Kæran sem mál þetta lýtur að varðar því gögn úr fyrra stjórnsýslumáli kæranda, þar sem tekin var ákvörðun um réttindi hans og skyldur. Með síðari beiðni kæranda stofnaðist nýtt stjórnsýslumál sem leysa þurfti úr á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga.  

Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að þau gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Í 14. gr. þeirra er efnisregla um aðgang aðila að upplýsingum um sig sjálfan. Samkvæmt henni er skylt, sé þess óskað, að veita honum aðgang að fyrirliggjandi gögnum hafi þau að geyma upplýsingar um hann sjálfan, en það hefur verið talið geta átt við þótt þær séu ekki beinlínis um hann, heldur varði hann óbeint og snerti hagsmuni hans. Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir að þessi réttur takmarkist af gildissviði stjórnsýslulaga, sem eigi við þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þar segir m.a.: 

Meginreglan um upplýsingarétt, sem fram kemur í 5. gr. frumvarpsins, gildir án þess að sá sem í hlut á þurfi að sýna fram á nokkur tengsl við málið sem upplýsinga er óskað um. Slík tengsl geta þó verið fyrir hendi og gæti hlutaðeigandi þá í mörgum tilvikum byggt rétt sinn til að fá aðgang að upplýsingum á upplýsingarétti aðila máls samkvæmt stjórnsýslulögum. Sá réttur er hins vegar takmarkaður af gildissviði stjórnsýslulaga því að þau ná aðeins til þess þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, t.d. við ráðningar starfsmanna hjá hinu opinbera. Í öðrum tilvikum en þeim sem falla undir stjórnsýslulögin kunna einstaklingar og lögaðilar að eiga réttmæta hagsmuni umfram aðra af því að fá upplýsingar, sem varða þá sérstaklega, t.d. um mál þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið eða verður nokkru sinni tekin.

Af framangreindu leiðir að 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á ekki við um þann sem nýtur réttar samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi var sem fyrr segir aðili að því stjórnsýslumáli sem beiðni hans lýtur að og nýtur hann því þess réttar. Þegar af þeirri ástæðu getur hann ekki borið ágreiningsmál þetta undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Verður því að vísa kæru hans frá nefndinni.  

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kæru A, dags. 3. júní 2015, vegna afgreiðslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á beiðni um aðgang að gögnum. 

  

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta