Hoppa yfir valmynd

661/2016. Úrskurður frá 30. nóvember 2016

Úrskurður

Hinn 30. nóvember 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 661/2016 í máli ÚNU 16060010.  

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags 4. ágúst 2016, kærði A synjun Vestmanneyjabæjar á beiðni hans, dags. 22. janúar 2016, um að fá afhent afrit af ráðningarsamningi sveitarfélagsins og slökkviliðsstjóra. Synjun sveitarfélagsins er byggð á 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  

Með bréfi, dags. 15. ágúst, var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Úrskurðarnefndin óskaði jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té í trúnaði afrit af umbeðnum gögnum. Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, sem barst þann 25. október 2016, kom fram að bærinn geti ekki orðið við erindi kæranda vegna þess að viðkomandi starfsmaður hafi ekki veitt heimild til þess að gögnin yrðu gerð opinber. Sveitarfélagið tók fram að í samningnum sé að finna persónulegar upplýsingar, t.d. upplýsingar um bankareikninga, lífeyrissjóð o.s.frv. Þá kom fram að deilt sé um hvaða lög séu rétthærri, persónuverndarlög eða upplýsingalög.  

Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að ráðningarsamningi sveitarfélagsins við slökkviliðsstjóra. Sveitarfélagið byggir synjunina á 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir orðrétt: 

„Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.“ 

Í 2. mgr. 7. gr. er mælt fyrir um undanþágu frá þessu ákvæði. Þær eru eftirfarandi:

„Þegar aðrar takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt lögum þessum eiga ekki við er, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., skylt að veita upplýsingar um eftirtalin atriði sem varða opinbera starfsmenn:    

  1. nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf, þegar umsóknarfrestur er liðinn,   

  2. nöfn starfsmanna og starfssvið,   

  3. föst launakjör annarra starfsmanna en æðstu stjórnenda,  

  4. launakjör æðstu stjórnenda.“ 

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að með föstum launakjörum sé m.a. átt við ráðningarsamninga og aðrar ákvarðanir eða samninga sem kunna að liggja fyrir um föst laun starfsmanna. Undanþágur frá hinni almennu reglu, um að almenningur eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum í málum er varða umsóknir í starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti sbr. 1. mgr. 7. gr., byggjast á þeirri forsendu að þrátt fyrir að upplýsingar um starfssamband geti talist til einkamálefna starfsmanns, fela ýmsir samningar stjórnsýslunnar við starfsmenn sína í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna. Það er því mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að synjun á aðgangi kæranda að umbeðnum ráðningarsamningi verði ekki reist á 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti byggð á því að ráðningarsamningur slökkviliðsstjóra innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá sé uppi ágreiningur um gildissvið persónuverndarlaga gagnvart upplýsingalögum. Um síðarnefnda álitaefnið tekur nefndin fram að í 2. mgr. 44. gr. persónuverndarlaga nr. 77/2000 kemur fram að lögin takmarka ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.  

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir ráðningarsamning slökkviliðsstjóra Vestmannaeyjabæjar. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um stéttarfélagsaðild hans, aðild að lífeyrissjóði og bankaupplýsingar hans. Í 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í frumvarpi til laganna segir að engum vafa sé undirorpið að þar undir falli viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd nr. 77/2000. Hugtakið viðkvæmar persónuupplýsingar er skilgreint í 8. tölul. 2. gr. þeirra laga og þar eru meðal annars taldar upp upplýsingar um stéttarfélagsaðild. Þá verður að telja upplýsingar um bankaupplýsingar og lífeyrissjóð starfsmannsins til einka- og fjárhagsmálefna einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari. Með vísan til framangreinds ber að afmá slíkar upplýsingar úr hinum umbeðna samningi eins og nánar greinir í úrskurðarorði og  veita síðan kæranda aðgang að honum. 

Úrskurðarorð:

Vestmanneyjabæ ber að veita kæranda, A, aðgang að ráðningarsamningi sveitarfélagsins við slökkviliðsstjóra, dags. 10. mars 2016. Áður skal afmá úr samningnum upplýsingar um aðild að stéttarfélagi, aðild að lífeyrissjóði og bankaupplýsingar.  

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta