Hoppa yfir valmynd

670/2017. Úrskurður frá 30. janúar 2017

Úrskurður

Hinn 30. janúar 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 670/2017 í máli ÚNU 16090010.  

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. september 2016, kærði A afgreiðslu forsætisráðuneytisins, dags. 16. september 2016, á beiðni kæranda um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lét taka saman fyrir ríkisstjórnina.  

Í synjun ráðuneytisins kemur fram að gögn ríkisstjórnar og gögn er varða öryggi ríkisins séu undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012, sbr. 1. tölul. 6. gr. og 1. tölul. 10. gr. laganna. Gögn er varða síma og tölvuöryggismál stjórnvalda falli m.a. þar undir.   

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. september 2016, var forsætisráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Í umsögn forsætisráðuneytisins dags. 17. október 2016 var ítrekað að gögn sem tekin eru saman fyrir fundi ríkisstjórnar séu undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. tölul. 6. gr. uppl., óháð efni þeirra. Að auki var bent á að stjórnvöld séu ekki skyldug til að taka afstöðu til aukins aðgangs sbr. 11. gr. upplýsingalaga þegar um slík gögn er að ræða.  

Með bréfi, dags. 21. október 2016, var kæranda kynnt umsögn og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann telur þá túlkun ráðuneytisins, að „gögn ríkisstjórnar“ séu undanþegin upplýsingarétti án tillits til efnis þeirra, ranga. Þetta gildi aðeins um gögn sem séu sérstaklega tekin saman fyrir ríkisráðsfundi, ríkisstjórnarfundi eða ráðherrafundi. Kærandi telur að hvergi komi fram að umrædd samantekt hafi verið gerð fyrir þá fundi sem taldir eru upp í 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Kærandi telur túlkun ráðuneytisins á því að „gögn ríkisstjórnarinnar“ falli þar undir vera óeðlilega víða og í andstöðu við upplýsingalög. Auk þess sé ekki fyllilega ljóst hvað felist í hugtakinu. 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda að samantekt í vörslum forsætisráðuneytisins á grundvelli upplýsingaréttar almennings sem fjallað er um í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Aðgangur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga lýtur takmörkunum sem meðal annars er kveðið á um í 1. tölulið 6. gr. laganna, en forsætisráðuneytið synjaði beiðni kæranda á þeim grundvelli. Samkvæmt því ákvæði tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.  

Í athugasemdum með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir um 1. tölul. 6. gr. að undanþágan gildi um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri, hvort heldur sem það sé á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Í skýringum forsætisráðuneytisins kemur fram að hið umbeðna gagn hafi verið tekið saman fyrir slíkan fund og hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til að draga þær í efa. Með vísan til þessa verður staðfest ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni kæranda um aðgang að samantektinni. Að fenginni þessari niðurstöðu er óþarft að leysa úr því hvort heimilt hafi verið að synja beiðni kæranda á grundvelli 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun forsætisráðuneytis, dags. 16. september 2016, um að synja beiðni kæranda um aðgang að samantekt um síma og tölvur sem fyrrverandi forsætisráðherra lét gera.  

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta