Hoppa yfir valmynd

691/2017. Úrskurður frá 6. júlí 2017

Úrskurður

Hinn 6. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 691/2017 í máli ÚNU 16120005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 28. desember 2016, kærði A, blaðamaður ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. nóvember 2016, um synjun beiðni kæranda um aðgang að gögnum um aðbúnað dýra sem haldin eru á tilteknu lögbýli.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sent beiðni til stofnunarinnar þann 29. nóvember 2016. Í hinni kærðu ákvörðun var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu að geyma upplýsingar um einka- eða fjárhagsmuni einstaklinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi kveðst ekki fara fram á gögn um einkamálefni einstaklinga, heldur sé leitast við að fá vitneskju um aðfinnslur dýralækna á aðbúnaði dýra sem sé hluti af atvinnurekstri bús. Í skattalögum sé gerður skýr greinarmunur á heimilum fólks á bújörðum og starfsemi á lögbýlinu. Þá sé landbúnaður og framleiðsla landbúnaðarafurða, svo sem sauðfjárframleiðsla, skilgreind sem atvinnugrein og lúti sömu lögmálum og aðrar greinar.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Matvælastofnun með bréfi, dags. 27. janúar 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 13. febrúar 2017, segir að beiðni kæranda hafi verið afmörkuð við gögn, eftirlitsskýrslur, bréf og önnur samskipti sem snúa að eftirliti starfsmanna stofnunarinnar með dýrahaldi á bænum. Matvælastofnun fari með eftirlit með aðbúnaði dýra á grundvelli laga nr. 55/2013, áður laga nr. 103/2002. Dýrunum sé haldið á lögheimili einstaklinga. Einn ábúandinn sé skráður fyrir dýrunum og eignir, fé, innlegg og annað skráð á kennitölu hans. Þessi einstaklingur sé umráðamaður dýranna og persónulega ábyrgur fyrir aðbúnaði þeirra.

Í umsögn Matvælastofnunar er fjallað almennt um sjónarmið varðandi aðgang að gögnum sem verða til vegna eftirlits með dýrahaldi hjá einstaklingum. Þá segir að við eftirlit stofnunarinnar geti komið í ljós frávik vegna krafna um aðbúnað, umhirðu og fóðrun dýra eins og þeim er lýst í lögum og reglugerðum. Í umbeðnum gögnum komi fram upplýsingar um það hvort einstaklingar hafi eða hafi ekki gerst sekir um brot á lögum og reglugerðum. Upplýsingarnar snúi einnig að ýmsum fjárhagslegum þáttum og margvíslegum persónulegum upplýsingum, svo sem um félagsleg vandamál. Oft geti afskipti stofnunarinnar skýrst af vandamálum vegna heilsubrests eða áfengis- og vímuefnanotkunar. Í greinargerð með 9. gr. upplýsingalaga segi að allar upplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu undanþegnar aðgangi almennings. Matvælastofnun hafi því metið það svo að gögn er innihaldi upplýsingar um hvernig einstaklingar halda dýr og samskipti stofnunarinnar vegna slíkra mála falli undir 9. gr. laga nr. 140/2012.

Matvælastofnun tekur fram að úrskurðarnefndin hafi kveðið á um að upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður eða ákærður fyrir refsiverðan verknað teljist tvímælalaust til viðkvæmra persónuupplýsinga og að óheimilt sé að veita almenningi upplýsingar um hvort tiltekin háttsemi hafi veitt stofnunum tilefni til að kæra mál eða vísa því til saksóknar. Umboðsmaður Alþingis hafi komist að sömu niðurstöðu í áliti sínu nr. 5142/2007. Vert sé að hafa í huga að með því að afhenda takmarkaðan hluta af skýrslum um dýrahald einstaklinga sé með óbeinum hætti verið að veita upplýsingar sem falli undir 9. gr. upplýsingalaga.

Með erindi, dags. 10. mars 2017, var kæranda sent afrit af umsögn Matvælastofnunar og veittur kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni blaðamanns um aðgang að gögnum í vörslum Matvælastofnunar um aðbúnað dýra á tilteknu lögbýli. Synjun stofnunarinnar á beiðni kæranda byggir á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en þar segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ 

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:  

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þau gögn sem Matvælastofnun taldi falla undir beiðni kæranda. Gögnin eru einkum eftirlitsskýrslur, gögn og önnur samskipti er snúa að eftirliti starfsmanna stofnunarinnar með dýrahaldi á tilteknu lögbýli á grundvelli laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Í tilvikum þar sem umráðamenn dýra gerast brotlegir við lögin hvílir ábyrgðin hjá þeim persónulega, þar með talin hugsanleg refsiábyrgð, sbr. 45. gr. laganna. Tekið er undir þau sjónarmið Matvælastofnunar að það leiði m.a. af framangreindu að einstakir starfsmenn fyrirtækja og eigendur lögbýla sem eru með dýrahald geti talist brotlegir í störfum sínum. Því er fallist á að um takmarkanir á rétti kæranda til aðgangs að gögnum fari samkvæmt 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.  

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að það sé engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar eru m.a. nefndar til sögunnar upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000. Brot gegn lögum um velferð dýra nr. 55/2013 geta varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári, sbr. 45. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að upplýsingar af þeim toga sem finna má í umbeðnum gögnum varða einkamálefni einstaklinga í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Við mat á því hvort sanngjarnt er og eðlilegt að upplýsingar af þessu tagi fari leynt á grundvelli ákvæðisins hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál haft hliðsjón af því að fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að upplýstri umræðu í samfélaginu, þar á meðal um málefni er varða dýrahald. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. 676/2017 frá 23. mars 2017 var til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að fjölmiðill ætti rétt til aðgangs að upplýsingum um mál sem Matvælastofnun hafði til meðferðar vegna meintra brota á lögum nr. 55/2013, þó þannig að afmáðar væru upplýsingar sem gæfu til kynna hverjir aðilar málsins fyrir stofnuninni væru. Í málinu sem hér er til meðferðar er hins vegar ljóst að kærandi hefur vitneskju um hverjir teljast aðilar þeirra mála sem Matvælastofnun hefur haft til meðferðar og umbeðin gögn tilheyra. Þegar vegnir eru saman hagsmunir aðila málsins af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni þeirra fari leynt á móti þeim almennu hagsmunum sem felast í því að fjölmiðlar fái aðgang að gögnum um aðbúnað dýra, þykja hinir fyrrgreindu vega þyngra eins og hér háttar til. Verður því ákvörðun Matvælastofnunar um synjun beiðni kæranda staðfest.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 30. nóvember 2016, um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum um aðbúnað dýra sem haldin eru á tilteknu lögbýli.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta