Hoppa yfir valmynd

693/2017. Úrskurður frá 27. júlí 2017

Úrskurður

Hinn 27. júlí 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 693/2017 í máli ÚNU 16110006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. nóvember 2016, kærði A hdl. ákvörðun velferðarráðuneytisins, dags. 21. október 2016, um að synja Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (S.Á.Á.) um aðgang að gögnum.

Með beiðni kæranda, dags. 5. september 2016, var farið fram á aðgang að öllum minnisblöðum og gögnum í vörslum velferðarráðuneytisins sem varða kæranda og farið hafa á milli ráðuneytisins annars vegar og Sjúkratrygginga Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins hins vegar frá gildistöku laga nr. 112/2008. Þann 19. september 2016 upplýsti ráðuneytið kæranda um að ekki væri hægt að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál og gaf kæranda kost á að afmarka beiðnina nánar með vísan til 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með bréfi, dags. 26. september 2016, voru umbeðin gögn nánar tilgreind og óskaði kærandi aðgangs að:

  1. Öllum bréfum, minnisblöðum eða tölvupóstum sem bárust ráðuneytinu/heilbrigðisráðherra/velferðarráðherra á tímabilinu 20. október 2008 til og með 1. september 2016 og varða þjónustusamninga sem gerðir hafa verið milli Sjúkratrygginga Íslands og S.Á.Á.

  2. Öllum bréfum, minnisblöðum eða tölvupóstum sem bárust ráðuneytinu/heilbrigðisráðherra/velferðarráðherra frá Sjúkratryggingum Íslands á tímabilinu 20. október 2008 til 1. september 2016 og varða þjónustu S.Á.Á.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. október 2016, segir að í september 2015 hafi kærandi höfðað mál á hendur ríkinu vegna meintra vanefnda á samningi aðila um áfengis- og vímuefnameðferð fyrir sjúkratryggða einstaklinga. Aðgangi að gögnum sem liggi fyrir í tengslum við dómsmálið sé hafnað með vísan til 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Önnur umbeðin gögn fylgdu ákvörðuninni.

Í kæru kemur fram að beiðnin taki ekki til samskipta við sérfróða aðila sem ráðuneytið kunni að hafa leitað til í tilefni af málsókn kæranda. Synjun um að veita upplýsingar um aðra þætti málsins verði hins vegar ekki studd við ákvæði 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 19. nóvember 2016, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að í trúnaði. Umsögnin barst þann 12. desember 2016. Þar segir að kæranda hafi verið synjað um gögn um samskipti ríkisstofnana við embætti ríkislögmanns í tengslum við málaferlin. Ríkislögmaður fari með vörn einkamála sem höfðuð séu á hendur ríkinu samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 51/1985. Túlka beri ákvæði 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga þannig að tryggja eigi að hið opinbera standi ekki höllum fæti í dómsmálum vegna laganna. Þá komi fram í ritinu Upplýsingalögin. Kennslurit eftir Pál Hreinsson að ráðherra geti leitað ráða hjá ríkislögmanni við athugun á því hvort dómsmál verði höfðað án þess að almenningi verði veittur aðgangur að bréfaskiptunum. Ákvæðið taki einnig til bréfaskipta ríkislögmanns við önnur stjórnvöld.

Umsögn velferðarráðuneytisins var kynnt kæranda þann 14. desember 2016 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í umsögn kæranda, dags. 27. desember 2016, kemur fram að sé lýsing ráðuneytisins á umbeðnum gögnum rétt, geri kærandi ekki athugasemdir við synjun um aðgang að þeim. Kærandi óski hins vegar eftir því að ráðuneytið leggi til skrá yfir öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir samkvæmt hinni upprunalegu beiðni, til að hægt sé að sjá hvaða gögn kærandi fái ekki aðgang að.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum í vörslum velferðarráðuneytisins sem varða þjónustusamninga á milli kæranda og Sjúkratrygginga Íslands. Kærandi hefur fengið aðgang að umbeðnum gögnum ef frá eru talin samskipti opinberra aðila við ríkislögmann í tilefni af málshöfðun kæranda á hendur íslenska ríkinu. Um er að ræða eftirfarandi gögn:

  1. Bréf ríkislögmanns til velferðarráðuneytis, dags. 7. október 2015, ásamt fylgiskjölum

  2. Bréf Sjúkratrygginga Íslands til ríkislögmanns, dags. 4. nóvember 2015, ásamt fylgiskjölum

  3. Tölvupóstsamskipti starfsmanns ríkislögmanns og starfsmanna velferðarráðuneytisins, dags. 23. nóvember 2015, samtals þrír tölvupóstar

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir gögnin og tekur fram að samskiptin varða öll framangreinda málshöfðun með einum eða öðrum hætti. Ekki er að finna önnur efnisatriði í þeim en í athugasemdum við ákvæði 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 í frumvarpi til laganna segir að því verði aðeins beitt um gögn sem verða til eða er aflað gagngert í þessu skyni. Því verður að leggja til grundvallar að velferðarráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að samskiptum þess og Sjúkratrygginga Íslands við ríkislögmann í tilefni af málshöfðun kæranda á hendur íslenska ríkinu á grundvelli 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Framangreint getur ekki átt við um öll fylgiskjöl bréfanna. Um flest fylgiskjölin gildir að þau stafa annað hvort frá kæranda eða hann er meðal viðtakanda þeirra. Úrskurðarnefndin tekur sérstaklega fram að ekki er hægt að ráða af efni eða framsetningu fylgiskjalanna hvert sé efni bréfaskipta ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands við ríkislögmann. Verður því kæranda heimilaður aðgangur að fylgiskjölunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Velferðarráðuneytinu ber að veita kæranda, Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (S.Á.Á.), aðgang að eftirfarandi gögnum:

  • Fylgiskjölum með bréfi ríkislögmanns til velferðarráðuneytis, dags. 7. október 2015 (Stefna og framlögð skjöl í máli S.Á.Á. gegn íslenska ríkinu)

  • Fylgiskjölum I, III, VI, VII, X og XI með bréfi Sjúkratrygginga Íslands til ríkislögmanns, dags. 4. nóvember 2015.

Hin kærða ákvörðun er að öðru leyti staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta