Hoppa yfir valmynd

714/2017. Úrskurður frá 13. desember 2017

Úrskurður

Hinn 13. desember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 714/2017 í máli ÚNU 17090008.

Krafa um endurupptöku, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 22. september 2017, óskaði A eftir endurupptöku máls nr. 16120004, sem lyktaði með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 696/2017 frá 27. júlí 2017. Beiðnin er byggð á 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í úrskurðinum komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að vísa bæri kæru kæranda frá á þeim grundvelli að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá Ríkisútvarpinu ohf. (hér eftir RÚV). Í beiðninni kemur fram að upplýsingalög nr. 140/2012 taki til RÚV. Á grundvelli laganna beri að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greini í 6.-10. gr. laganna. Í beiðninni segir einnig að ekki verði séð að neinar takmarkanir eigi við í málinu. Kærandi segir Ríkisútvarpið hafa hafnað beiðninni á þeirri forsendu að umbeðin gögn væru ekki til staðar, og jafnvel þó þau væru til staðar væri óheimilt að afhenda þau vegna samkomulags við Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna. Kærandi telur að aðili sem heyri undir upplýsingalög geti ekki komið sér undan lagaskyldu með samkomulagi við þriðja aðila. Ef fallist væri á slík rök séu þessi lagaákvæði marklaus, þar sem aðili gæti fengið aðgang að gögnum, fjallað um þau og skilað þeim svo til baka og komið sér þar með undan upplýsingalögum. Ákvörðun um að nýta gögn með þeim hætti sem RÚV gerði feli það í sér að þau eigi að vera fyrir hendi eftir umfjöllunina og aðgengileg aðilum máls.

Kærandi segir ljóst að RÚV hafi haft gögnin undir höndum þegar umfjöllunin fór fram. Þau hafi þá verið fyrirliggjandi og ekki hægt að bera fyrir sig að svo hafi ekki verið. Kærandi krefst þess því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjalli um málið að nýju og krefji RÚV um gögnin á grundvelli skýrra lagafyrirmæla. Þar sem niðurstaðan kunni að verða borin undir dómstóla sé mikilvægt að fram komi skýr afstaða nefndarinnar til þess hvort RÚV geti skotið sér undan lagaskyldu með háttsemi á borð við þá sem stofnunin viðhafði í málinu.

Niðurstaða

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo: 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Beiðni kæranda er fyrst og fremst byggð á því að RÚV hafi borið að varðveita gögnin sem hann beiddist aðgangs að og voru notuð til umfjöllunar í fréttaskýringaþætti sem félagið sýndi. RÚV geti ekki komið sér undan lagaskyldu með samkomulagi við þriðja aðila.  Við rannsókn málsins, sem kærandi óskar eftir að verði endurupptekið, fór úrskurðarnefndin þess á leit við RÚV þann 13. desember 2016 að félagið sendi henni umsögn um kæru kæranda ásamt afritum af umbeðnum gögnum, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í umsögn RÚV, dags. 20. janúar 2017, kom fram að félagið hefði umbeðin gögn hvorki undir höndum né forræði yfir þeim. Því gæti RÚV ekki orðið við beiðni kæranda. Í tilefni af þessum skýringum ritaði úrskurðarnefndin annað bréf, dags. 14. júní 2017, þar sem óskað var eftir því að RÚV upplýsti um það hvers vegna umbeðin gögn væru ekki í vörslum félagsins eða veitti að öðru leyti nánari skýringar á umsögninni.

Í svari RÚV, dags. 16. júní 2017, kom fram að félagið hefði fengið aðgang að gögnum hjá þriðja aðila við vinnslu umfjöllunarinnar. Gögnin sem slík væru hins vegar ekki og hefðu ekki verið í vörslum RÚV, hvorki rafrænt né á pappírsformi umfram það sem birt var í þættinum. Loks hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar samband við RÚV símleiðis þann 4. júlí 2017 og ræddi við skrifstofustjóra félagsins. Af svörum RÚV varð ekki ráðið að félagið hefði í vörslum sínum nokkur önnur gögn um kæranda en þau sem birtust í útsendingu Kastljóss, dags. 25. apríl 2016. Kærandi hefur ekki óskað eftir aðgangi að þættinum sjálfum heldur þeim gögnum sem umfjöllunin byggðist á. Að svo komnu máli taldi úrskurðarnefndin nægar forsendur fyrir því að slá því föstu í úrskurði sínum nr. 696/2017 að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi hjá RÚV.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að niðurstaða nefndarinnar byggði á þeirri forsendu að RÚV kvað umbeðin gögn ekki vera í vörslum sínum. Líkt og kemur fram í úrskurðinum er úrskurðarvald nefndarinnar afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er, sbr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn séu ekki til staðar geta þau ekki talist fyrirliggjandi í þessum skilningi og ber að vísa kæru frá að því marki sem hún lýtur að slíkum gögnum. Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort RÚV hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og vistun gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er ekkert fram komið um að úrskurður hennar nr. 696/2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að niðurstöður hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til framangreinds er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál um endurupptöku úrskurðar nefndarinnar nr. 696/2017 frá 27. júlí 2017.

Úrskurðarorð:

Beiðni A um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 696/2017 er hafnað.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta