735/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018
Úrskurður
Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 735/2018 í máli ÚNU 17090004.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 22. september 2017, kærði A ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, dags. 7. september 2017, um synjun beiðni hans um aðgang að skrá um horfna menn. Í kæru kemur fram að kærandi sýni því fullan skilning að vissar upplýsingar skuli fara leynt í samræmi við 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en beiðni hans lúti einungis að öðrum upplýsingum sem í skránni sé að finna. Kærandi óskar fyrst og fremst eftir að fá aðgang að nöfnum fólks í skránni, allt frá 1930 eða svo langt aftur sem hún nær, ásamt fæðingardögum og árum og loks tímasetningum þeirra atburða þegar fólkið hvarf. Þá tekur beiðni kæranda einnig til annarra upplýsinga úr skránni, sem ekki geti talist viðkvæmar persónuupplýsingar. Kærandi hafnar því að beiðni hans sé ekki nægilega afmörkuð, eins og fram kemur í ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, og telur jafnframt að embættið hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sem kveðið er á um í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 26. september 2017 var kæran kynnt embætti ríkislögreglustjóra og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði afhent afrit af þeim gögnum sem hún lýtur að í trúnaði. Í umsögn embættis ríkislögreglustjóra, dags. 11. október 2017, kemur fram að upplýsingar um horfna menn sé að finna í vörslum ríkislögreglustjóra á þremur stöðum. Í fyrsta lagi séu elstu gögnin úr ýmsum áttum og í pappírsformi í möppum á skjalasafni embættisins. Í öðru lagi sé notaður PlassData hugbúnaðargrunnur til að halda utan um skráningu týndra einstaklinga. Í hann séu færðar læknisfræðilegar og persónubundnar upplýsingar, upplýsingar um aðstandendur og aðrar upplýsingar sem lögreglan aflar við rannsóknir. Í þriðja lagi séu upplýsingar færðar í LÖKE-kerfi um málsmeðferð lögreglu og sönnunargögn þegar einstaklingur hverfur og sönnunargögn. PlassData-grunnurinn sé enn í vinnslu og tilgangur hans sé að bera kennsl á lík eða líkamshluta þegar þau finnast og séu hluti af lögreglurannsókn.
Þá segir í umsögninni að gögnin hafi að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og séu í mörgum tilvikum hluti af opnum lögreglurannsóknum, auk þess sem þar séu réttarmeinafræðilegar upplýsingar og sönnunargögn. Eðli málsins samkvæmt eigi þessar upplýsingar ekki erindi við almenning, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá sé óheimilt að miðla slíkum upplýsingum til annarra en þeirra sem getið sé um í reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu nr. 322/2001. Þá segir í umsögninni að embættið hafi enn sem komið er ekki heildstæða skrá um efnið. Mikil vinna sé því framundan að færa þessar upplýsingar inn í PlassData gagnagrunninn. Hjá embættinu sé hins vegar til ópersónugreinanleg tölfræði um mannshvörf sem sjálfsagt sé að afhenda en eftir því hafi ekki verið leitað.
Umsögn embættis ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með erindi, dags. 19. október 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust þann 22. október 2017. Þar kemur fram að beiðnin snúi ekki að viðkvæmum persónuupplýsingum og þá hafi kærandi hvorki óskað eftir því að fá afhentar upplýsingar úr LÖKE eða PlassData í heilu lagi né heilar möppur úr skjalasafni. Þær upplýsingar um horfna menn, sem kærandi óski eftir að fá afhentar, séu eftirfarandi:
- Fullt nafn.
- Fæðingardagur og ár.
- Fæðingarstaður (ef tilgreindur er).
- Tímasetning mannshvarfsins (dagur, mánuður og ár).
- Staðsetning (hvaðan maðurinn hvarf eða hvar síðast sást til hans).
Af hálfu kæranda kemur fram að þessar upplýsingar hafi í flestum eða öllum tilvikum þegar birst opinberlega í dagblöðum og geti af þeim sökum ekki átt að fara leynt. Þær séu hins vegar ekki aðgengilegar á einum stað nema hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum hjá embætti ríkislögreglustjóra um horfna menn á Íslandi. Ríkislögreglustjóri hefur vísað til þess að embættið hafi enn sem komið er ekki heildstæða skrá um þetta efni en upplýsingarnar liggi fyrir á þremur stöðum. Af ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga leiðir að almenningur á rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum í vörslum stjórnvalda. Gagn telst vera fyrirliggjandi ef það er til þegar beiðni um það kemur fram. Stjórnvöldum er hins vegar hvorki skylt að útbúa ný skjöl né taka saman tölulegar upplýsingar úr skjölum sínum á grundvelli ákvæðisins.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að beiðni kæranda sé ekki afmörkuð við tiltekin gögn eða tiltekið mál, en í 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga segir að vísa megi beiðni frá ef ekki er talið mögulegt að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Ekki er unnt að fallast á það með ríkislögreglustjóra að ákvæðið eigi við enda liggur fyrir að embættinu var unnt að afmarka beiðni kæranda við þrjár skrár í vörslum þess.
Hin kærða ákvörðun var jafnframt studd við það að umbeðin gögn hefðu að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, sem væri óheimilt að veita almenningi aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þá væri stór hluti gagnanna hluti af rannsóknum sakamála en upplýsingalög gilda ekki um slík mál samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekki ástæðu til að draga þessar fullyrðingar embættis ríkislögreglustjóra í efa, en ljóst má vera að hluti þeirra gagna sem kærandi óskar aðgangs að er undirorpinn þessum takmörkunum á upplýsingarétti almennings. Hins vegar er bent á að af gögnum málsins megi ráða að sömu sjónarmið eigi ekki við um alla hluta umbeðinna gagna. Þannig kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að umbeðin gögn „innihaldi“ viðkvæmar persónuupplýsingar og að „stór hluti“ tilheyri rannsóknum sakamála. Þá segir berum orðum í umsögn embættisins að til sé ópersónuleg tölfræði um mannshvörf sem sjálfsagt sé að afhenda en eftir því hafi ekki verið leitað. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að í beiðni kæranda um aðgang að gögnum er óskað eftir lista yfir mannshvörf en ekki er tekið fram að einungis sé óskað eftir persónugreinanlegum upplýsingum.
Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er aðilum sem falla undir gildissvið laganna skylt að veita aðgang að þeim hlutum umbeðinna gagna sem ekki eru háðir takmörkunum samkvæmt 6.-10. gr. laganna. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur ríkislögreglustjóri ekki tekið nægilega skýra afstöðu til þess hvaða upplýsingar um mannshvörf embættinu er fært að afhenda kæranda og hverjar ekki. Ljóst liggur fyrir að í vörslum embættisins eru gögn um efnið sem hvorki teljast til gagna sakamáls, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, né til upplýsinga um einkamálefni sem óheimilt er að veita aðgang að skv. 9. gr. laganna. Þá hefur embættið ekki gert grein fyrir því hvort því kunni að vera unnt að veita kæranda aðgang að upplýsingum úr gagnagrunnum sínum þannig að afmáðar séu slíkar upplýsingar á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál samræmdist meðferð ríkislögreglustjóra við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki ákvæði 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og hér stendur á verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðni kæranda til nýrrar og lögmætrar meðferðar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun embættis ríkislögreglustjóra, dags. 7. september 2017, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að gögnum um mannshvörf er felld úr gildi og lagt fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.
Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson