755/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018
Úrskurður
Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 755/2018 í máli ÚNU 18030003.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 6. mars 2018, kærði A, blaðamaður, synjun velferðarráðuneytisins á beiðni um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra til að meta hæfni umsækjenda um embætti landlæknis.Með tölvupósti, dags. 2. mars. 2018, óskaði B, blaðamaður, eftir því við velferðarráðuneytið að sér yrðu sendar niðurstöður hæfnisnefndar um umsækjendur um stöðu landlæknis. Í beiðninni vísaði hann til þess að komið hefði fram í tilkynningu frá ráðuneytinu að tveir umsækjendur hefðu verið metnir hæfastir, þeirra á meðal Alma Möller. Óskaði B eftir því að fá upplýsingar um hver hinn umsækjandinn væri. A tók við málinu af B og ýtti á eftir viðbrögðum ráðuneytisins í símtali við aðstoðarmann heilbrigðisráðherra þann 5. mars.
Beiðninni var svarað með tölvupósti, dags. 5. mars 2018. Þar vísaði ráðuneytið til fyrri samskipta og benti því næst á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé skylt að veita almenningi upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur sé liðinn. Velferðarráðuneytið hafi birt upplýsingar þessa efnis í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins þann 8. janúar 2018 um nöfn og starfsheiti þeirra sex sem sóttu um embætti landlæknis. Hins vegar taki réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssamband að öðru leyti. Meðal gagna í slíkum málum séu umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur, eins og nánar sé rakið í skýringum við ákvæði 7. gr. upplýsingalaga í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 140/2012. Því sé velferðarráðuneytinu hvorki unnt að verða við beiðni kæranda um aðgang að niðurstöðu hæfnisnefndar um umsækjendur um embætti landlæknis né veita upplýsingar um hvaða umsækjanda hæfnisnefndin hafi metið jafnhæfan umsækjandanum sem ákveðið var að skipa í embættið.
Eins og áður segir kærði kærandi framangreinda synjun velferðarráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með bréfi, dags. 6. mars 2018. Í kærunni eru samskipti blaðamannanna við ráðuneytið stuttlega rakin og meðal annars tekið fram að upphaflega hafi B fengið jákvæð viðbrögð við beiðninni sem svo hafi verið hafnað.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 9. mars 2018, var kæran kynnt velferðarráðuneytinu og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana.Í umsögn velferðarráðuneytisins, dags. 13. mars. 2018, segir m.a. að í athugasemdum við 6. gr. frumvarps til upplýsingalaga nr. 140/2012 sé fjallað um tilteknar undantekningar frá rétti almennings til aðgangs að gögnum. Þá segir að í ljósi athugasemda við 4. tölul. 4. gr. sem fylgdu með frumvarpi því sem varð að eldri upplýsingalögum og athugasemda við 7. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga telji ráðuneytið að því sé hvorki heimilt að veita aðgang að niðurstöðum hæfnisnefndar sem mat umsækjendur um embætti landlæknis né upplýsingar um það hvernig þeir röðuðust samkvæmt mati nefndarinnar.
Fram kemur að velferðarráðuneytið hafi oft fengið óskir frá umsækjendum um embætti eða störf sem auglýst eru á þess vegum, um að nöfn þeirra verði ekki birt, þrátt fyrir að ákvæði upplýsingalaga um birtingu séu skýr hvað þetta varði. Meðal annars í því ljósi telji ráðuneytið að það kunni að vera viðkvæmt af hálfu umsækjenda um embætti eða störf ef birtar séu opinberlega upplýsingar um það hvernig þeir raðast innbyrðis eftir hæfni samkvæmt mati hæfnisnefndar. Það hafi komið til tals að veita upplýsingarnar að því gefnu að viðkomandi gæfi samþykki sitt. Hins vegar hafi verið horfið frá því þar sem upplýsingarnar feli óhjákvæmilega í sér ákveðnar upplýsingar um mat hæfnisnefndarinnar á hinum umsækjendunum fjórum.
Auk þess kemur fram að við mat á því hvort orðið sé við beiðnum fjölmiðla eða almennings um aðgang að gögnum byggi ráðuneytið jafnan nálgun sína á því hvort heimilt sé að veita umbeðin gögn. Vinnureglan sé sú að veita aðgang að gögnum ef það sé heimilt, þótt það sé ekki endilega skylt samkvæmt lögum. Í umsögninni kemur fram að velferðarráðuneytið telji mikilvægt að fá úr því skorið hvaða gögnum því sé heimilt að veita aðgang að í málum sem þessum, hvort sem niðurstaða úrskurðarnefndarinnar feli í sér staðfestingu á ákvörðun ráðuneytisins í þessu máli eða felli hana úr gildi að hluta eða öllu leyti.
Umsögn velferðarráðuneytisins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. mars 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.
Niðurstaða
Í máli þessu reynir á rétt almennings til aðgangs að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra þar sem lagt er mat á hæfni umsækjenda um embætti landlæknis, skv. 2. gr. laga nr. 41/2007 um embætti landlæknis, sbr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Álitsgerðin var undirrituð 15. febrúar 2018 og skipaði ráðherra Ölmu Dagbjörtu Möller í embættið þann 1. apríl 2018. Embætti landlæknis og velferðarráðuneytið heyra bæði undir upplýsingalög, sbr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.Í tilefni af því sem segir í kæru, að upphaflega hafi verið tekið vel í beiðni starfsbróður kæranda um umrædda álitsgerð, tekur úrskurðarnefndin fram að af gögnum málsins verði ráðið að ekki hafi verið tekin ákvörðun í málinu fyrr en með tölvupóstinum 5. mars 2018. Úrskurðarnefndin gengur þannig út frá því að kæranda hafi ekki verið birt ákvörðun í málinu, sbr. 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga og 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fyrr en með því bréfi.
Í 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir, að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfi hjá aðilum sem falli undir lögin taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum greinargerðar þeirri er fylgdi frumvarpi því er varð að gildandi upplýsingalögum segir m.a. um 1. mgr. 7. gr.:
Með ákvæði 1. mgr. umræddrar frumvarpsgreinar er í fyrsta lagi lagt til að áfram verði fylgt þeirri stefnu [...] að öll gögn máls um ráðningu, skipun eða setningu í opinbert starf verði undanþegin aðgangi almennings. Meðal gagna í slíkum málum eru umsóknir, einkunnir, meðmæli og umsagnir um umsækjendur [...]
Í 2. mgr. 7. gr. laganna eru gerðar nokkrar undantekningar á framangreindri takmörkun á upplýsingarétti og m.a. kveðið á um að veita skuli upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn. Í máli þessu liggur fyrir að velferðarráðuneytið hefur þegar veitt þær upplýsingar.
Engum vafa er undirorpið að álitsgerð hæfnisnefndar heilbrigðisráðherra frá 15. febrúar 2018 fellur undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, enda felur álitsgerðin í sér umsögn um umsækjendur. Telst hún því undanþegin upplýsingarétti almennings. Verður synjun velferðarráðuneytisins á beiðni kæranda því staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun velferðarráðuneytisins um synjun á beiðni kæranda, A, um aðgang að álitsgerð nefndar heilbrigðisráðherra til að meta hæfni umsækjenda um embætti landlæknis, dags. 15. febrúar 2008, er staðfest.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson