763/2018. Úrskurður frá 28. september 2018
Úrskurður
Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 763/2018 í máli ÚNU 18080006.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 22. ágúst 2018, kærði A synjun Háskóla Íslands á beiðni um aðgang að tilteknum upplýsingum í tengslum við umsókn hennar um starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.Atvik málsins eru þau að þann 1. mars 2018 var starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands auglýst laust til umsóknar. Kærandi var meðal umsækjenda um starfið. Með bréfi, dags. 29. júní 2018, var kæranda tilkynnt að B yrði boðið starfið. Með tölvupósti, dags. 17. júlí 2018, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðstöfun starfsins. Sá rökstuðningur barst kæranda með tölvupósti, dags. 8. ágúst 2018. Með tölvupósti, dags. 13. ágúst 2018, óskaði kærandi því næst eftir frekari gögnum, m.a. í tengslum við mat á umsókn kæranda í ráðningarferlinu. Með tölvupósti, dags. 21. ágúst 2018, var kæranda afhentur hluti þeirra gagna sem óskað hafði verið eftir. Að öðru leyti var beiðninni synjað þar sem um vinnuskjöl væri að ræða og næði réttur til aðgangs þar með ekki til þeirra, sbr. nánar tilgreind ákvæði upplýsingalaga og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að lokum var kæranda bent á að ákvörðun um synjun væri í þessu tilviki kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi óski eftir útprenti valnefndar af kennslukönnunum, gögnum sem kærandi sendi inn með umsókn sinni og upplýsingar um hvernig þau voru nýtt, auk annarra gagna sem notuð voru við lokaákvörðun um ráðningu í starfið.
Niðurstaða
Fyrir liggur í máli þessu að kærandi var meðal umsækjenda um starf lektors í heimspeki við sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Um aðgang hans að upplýsingum sem tengjast því stjórnsýslumáli fer því skv. 15.-19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir enn fremur að ákvarðanir um aðgang að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga verða ekki kærðar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál heldur ber að beita sérstakri kæruheimild í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. A-538/2014. Því fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og verður að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Úrskurðarorð:
Kæru A á hendur Háskóla Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Kjartan Bjarni Björgvinsson
varaformaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson