Hoppa yfir valmynd

765/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018

Úrskurður

Hinn 7. desember 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 765/2018 í máli ÚNU 18040001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. apríl 2018, kærði A synjun Þjóðskjalasafns Íslands á beiðni um afhendingu skýrslu vegna kvörtunar um einelti sem sálfræðistofan Líf og sál vann fyrir Þjóðskjalasafn Íslands árið 2014, án útstrikana.

Með tölvupósti til Þjóðskjalasafns Íslands, dags. 15. febrúar 2018, óskaði kærandi eftir að fá afhenta framangreinda skýrslu á þeim grundvelli að kærandi væri aðili málsins. Vísaði kærandi í því sambandi til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en einnig 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 18. gr. laga um persónuvernd nr. 77/2000.

Með bréfi, dags. 9. mars 2018, var kæranda tjáð að ákvörðun um afhendingu skýrslunnar hefði verið tekin á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ekki yrði hins vegar veittur aðgangur að afmörkuðum hlutum skýrslunnar með vísan til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem stofnunin liti svo á að hagsmunir annarra af því að slíkur aðgangur yrði ekki veittur vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim.

Beiðni um afhendingu var ítrekuð við Þjóðskjalasafn með bréfi, dags. 20. mars 2018. Kærandi gerði þar athugasemdir við útstrikanir sem voru í afhentu eintaki skýrslunnar og að ekki kæmi fram að þær hefðu að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Svar Þjóðskjalasafns barst með bréfi, dags. 3. apríl 2018. Þar var tekið fram að þar sem umbeðin skýrsla væri ekki gagn í máli sem lokið hefði verið með ákvörðun um rétt eða skyldu kæranda í öndverðu, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, heyrði afgreiðsla málsins ekki undir 15. gr. þeirra laga. Að öðru leyti ítrekaði Þjóðskjalasafn þau sjónarmið sem fram komu í fyrra bréfi stofnunarinnar til kæranda og tók fram að sá hluti skýrslunnar sem ekki var afhentur innihéldi upplýsingar um einkamálefni annarra, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. apríl 2018, var kæran kynnt Þjóðskjalasafni Íslands og stofnuninni veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Þjóðskjalasafns er atburðarás málsins innan stofnunarinnar rakin. Kærandi hóf þar störf árið 2012 og starfaði þar í tvö ár. Á meðan kærandi starfaði þar kvartaði hann undan einelti af hendi annars starfsmanns safnsins. Ákveðið var á grundvelli viðbragðsáætlunar stofnunarinnar við einelti og áreiti á vinnustað að fá fagaðila til að rannsaka hvort kvörtun kæranda ætti við rök að styðjast. Kærandi lét af störfum hjá stofnuninni á meðan rannsókninni stóð. Sálfræðistofan Líf og sál var fengin til að annast rannsóknina, sem gaf svo út skýrslu þar sem niðurstaðan var sú að ekki væri um einelti að ræða. Hins vegar var talið að eitt tilvik í frásögn kæranda teldist neikvæð og/eða niðurlægjandi framkoma af hálfu meints geranda.

Kæranda var boðið að koma í Þjóðskjalasafn til að kynna sér niðurstöður skýrslunnar. Þar kynnti stofnunin m.a. vinnubrögð við rannsóknina og skýrsluna sjálfa með almennum hætti. Kærandi var ósáttur við hina munnlegu kynningu og kvartaði við stéttarfélag sitt. Framkvæmdastjóri stéttarfélagsins kynnti sér málið og gerði ekki athugasemdir við kynningu safnsins.

Í umsögninni er fjallað um þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þeim útstrikunum sem finna mátti í eintaki skýrslunnar sem kæranda var afhent. Tilgangur útstrikana í einu tilviki var að fjarlægja persónuauðkenni annarra starfsmanna en kæranda, en óþarft þótti að afhenda skýrsluna með þeim upplýsingum, þar sem um viðkvæm gögn væri að ræða í almennum skilningi. Nokkrar útstrikanir voru gerðar þar sem texti innihélt viðkvæmar persónulegar upplýsingar um aðra einstaklinga en kæranda. Textinn var hvorki talinn innihalda upplýsingar um meint einelti né um framgang kæranda í starfi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 705/2017. Fáeinar útstrikanir vörðuðu tilmæli skýrsluhöfunda til stjórnenda varðandi starf þeirra til framtíðar og þótti rétt með vísan til framangreindra sjónarmiða að takmarka aðgang að slíkum upplýsingum.

Loks var tekið fram að umbeðin skýrsla varðaði viðkvæm persónuleg málefni kæranda og annarra starfsmanna stofnunarinnar, bæði núverandi og fyrrverandi starfsmanna. Stofnunin teldi að einkahagsmunir annarra af því að halda upplýsingum í útstrikuðum texta leyndum vægju þyngra en hagsmunir kæranda af afhendingu, enda varðaði textinn hvorki meint einelti né framgang kæranda í starfi. Til stuðnings niðurstöðu sinni vísaði Þjóðskjalasafn að lokum til fyrri úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál, þar sem reynt hefði á afhendingu skýrslna um rannsóknir sálfræðistofa á meintu einelti á vinnustöðum.

Með bréfi, dags. 15. maí 2018, var kæranda gefið færi á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Þjóðskjalasafns. Í bréfi frá kæranda, dags. 28. maí 2018, eru gerðar athugasemdir við nokkur atriði málavaxtalýsingar í umsögn Þjóðskjalasafns, þar á meðal að stofnunin hafi ekki ákveðið strax í upphafi að fylgja viðbragðsáætlun við einelti og áreiti á vinnustað heldur hafi kærandi þurft atbeina lögmanns sem Bandalag háskólamanna, BHM, útvegaði henni til að koma af stað rannsókn á kvörtun kæranda um einelti. Kærandi gerir einnig athugasemd við lýsingu Þjóðskjalasafns á kynningu niðurstaðna skýrslunnar o.fl.

Kærandi segist ekki sammála þeirri túlkun Þjóðskjalasafns að 15. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við um afhendingu umbeðinna gagna. Þó að málinu hafi ekki lokið með stjórnvaldsákvörðun gagnvart kæranda, hafi verið um stjórnsýslumál að ræða sem komið var af stað og kærandi var aðili að. Hvað hinar útstrikuðu upplýsingar varðar telur kærandi stofnunina ekki hafa útskýrt á hvaða hátt þær geti talist viðkvæmar persónuupplýsingar eða upplýsingar sem af öðrum ástæðum væri rétt að undanþiggja aðgangi. Kæranda þykir sérstaklega ólíklegt að tilmæli skýrsluhöfunda til stjórnenda Þjóðskjalasafns geti talist persónuupplýsingar, og telur sig hafa hagsmuni af því að vita hvað komi þar fram. Kærandi nefnir fleiri atriði sem honum þykja óviðunandi, t.a.m. að strikað hafi verið yfir nöfn fundarmanna á fundi sem kærandi sat sjálfur.

Með bréfum, dags. 23. október 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir afstöðu fimm einstaklinga sem getið er í skýrslunni til þess að kæranda verði veittur aðgangur að upplýsingum er varði viðkomandi. Fjórir þeirra svöruðu erindi úrskurðarnefndarinnar. Af þeim veittu tveir samþykki fyrir því að kærandi fengi aðgang að upplýsingum í skýrslunni er lúti að framburði þeirra. Hinir tveir lögðust gegn því að aðgangur yrði veittur. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að Þjóðskjalasafni hefði á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, verið rétt að kalla eftir afstöðu umræddra einstaklinga áður en það afgreiddi upplýsingabeiðni kæranda.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að skýrslu vegna kvörtunar um einelti sem sálfræðistofan Líf og sál vann fyrir Þjóðskjalasafn Íslands árið 2014, án útstrikana. Synjun Þjóðskjalasafns um aðgang að skýrslunni án útstrikana er byggð á 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Kærandi byggði beiðni sína um aðgang að skýrslunni til Þjóðskjalasafns á 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kærandi væri aðili þess máls sem skýrslan félli undir. Gagnabeiðni kæranda var hins vegar afgreidd á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga á þeim grundvelli að umbeðin skýrsla væri ekki gagn í máli sem lokið hefði verið með ákvörðun um rétt eða skyldu kæranda, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, og þar með heyrði afgreiðsla málsins ekki undir 15. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þegar metið er hvers konar ákvarðanir falli þar undir er m.a. horft til þess hvort ákvörðun sé beint út á við að borgurunum eða inn á við að starfsemi stjórnsýslunnar. Ákvarðanir um innri málefni stjórnsýslunnar teljast yfirleitt ekki til stjórnvaldsákvarðana. Þær geta talist það í vissum tilvikum, t.a.m. þegar teknar eru ákvarðanir sem beint er að opinberum starfsmönnum og varða mjög mikilvæg réttindi og skyldur þeirra. Ákvörðun Þjóðskjalasafns að láta sálfræðistofuna Líf og sál rannsaka kvörtun kæranda um meint einelti á vinnustað, og gögn sem urðu til í tengslum við þá ákvörðun líkt og skýrslan sem gefin var út í kjölfarið, telst ekki vera stjórnvaldsákvörðun og þar með getur kærandi ekki óskað aðgangs að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga. Heyrir málið því undir upplýsingalög og úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

2.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafi að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í 3. mgr. sömu greinar kemur þó fram að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafi jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.

Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki aðeins þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varði hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum A-21/1997, A-56/1998, A-106/2000, A-182/2004, A-283/2008, A-294/2009 og A-466/2012.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirrar skýrslu sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Í henni er fjallað um meint einelti í garð kæranda á vinnustað hans. Tilgangur skýrslunnar var að bregðast við ásökunum um að kærandi hefði verið lagður í einelti. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin ljóst að skýrslan geymi upplýsingar um kæranda í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Fer því um rétt hans til aðgangs að skýrslunni eftir ákvæðum III. kafla laganna. Kemur í því ljósi næst til skoðunar hvort ákvæði 3. mgr. 14. gr. geti takmarkað aðgang kæranda að henni.

3.

Þjóðskjalasafn styður synjun á beiðni kæranda um aðgang að skýrslunni án útstrikana við 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem stofnunin líti svo á að hagsmunir annarra af því að slíkur aðgangur verði ekki veittur vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim. Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum kemur fram að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. upplýsingalaga. Síðan segir orðrétt:

„Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingunum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á aðstæður í hverju máli fyrir sig.
Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hagsmuna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.“

4.

Skýrslan nefnist „Skýrsla vegna kvörtunar um einelti – Þjóðskjalasafn“. Hún er dagsett 4. júlí 2014 og er alls 30 blaðsíður að lengd að meðtalinni forsíðu og tveimur fylgiskjölum. Á forsíðu er tekið fram að skýrslan sé trúnaðarmál og að í henni sé að finna viðkvæmar persónurekjanlegar upplýsingar.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kæranda hefur verið afhent skýrslan, en strikað hefur verið yfir tiltekin atriði. Þeir hlutar skýrslunnar sem kærandi hefur ekki fengið aðgang að eru:

1. Frásögn meints geranda, bls. 11-16, að hluta.
2. Samantekt frásagna samstarfsfólks, bls. 17-19, að hluta.
3. Svör B, bls. 19-20, að hluta.
4. Samantekt máls, bls. 20-21, að hluta.
5. Niðurstöður, bls. 22-26, að hluta.
6. Tillögur, bls. 28, að hluta.

Í kaflanum „Frásögn meints geranda“ er farið yfir ýmis atvik tengd kæranda og samskiptum hans og meints geranda. Auk þess eru þar lýsingar á persónulegum upplifunum meints geranda. Í bréfi til úrskurðarnefndar lagðist hann gegn því að skýrslan yrði afhent kæranda án útstrikana. Var meðal annars vísað til 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, og þess að skýrt hefði komið fram í upphafi viðtals við Líf og sál að það sem fram færi í viðtalinu yrði ekki birt meintum þolanda né öðrum.

Tekið skal fram að þótt viðmælendum skýrsluhöfunda hafi verið heitið því að við þá yrði rætt í trúnaði getur það atriði þó ekki eitt út af fyrir sig staðið í vegi fyrir að aðrir fái aðgang að skýrslu samkvæmt upplýsingalögum. Við mat á því, hvort aðgangur skuli veittur að tilteknum upplýsingum, getur það hins vegar haft áhrif ef þær hafa verið gefnar í trúnaði og þá einkum þegar ætla má að loforð stjórnvalds um trúnað hafi haft áhrif á upplýsingagjöf og það hvernig þeir einstaklingar sem í hlut áttu völdu að tjá sig um þá þætti er þeir voru spurðir um, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-28/1997, A-443/2012 og A-458/2012.

Á nokkrum stöðum í frásögn meints geranda er að finna upplýsingar sem varða persónuleg málefni hans og verða að teljast viðkvæmar. Eins og atvikum er háttað í máli þessu er það mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir hans af því að ekki sé heimilaður aðgangur að umræddum hluta skýrslunnar vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að honum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið ber að afmá setningu í línu 3-4 í fyrstu heilu efnisgreininni á bls. 12 (línu 4-5 á blaðsíðunni), og þriðju efnisgrein á bls. 16 í heild sinni (línur 18-23 á blaðsíðunni).

Á bls. 12-13 er umfjöllun um starfshóp þar sem strikað hefur verið yfir nöfn tveggja þeirra er sátu í starfshópnum. Jafnframt kemur þar fram að kærandi hafi verið hluti af starfshópnum. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að ekki standa rök til þess að takmarka aðgang kæranda að nöfnum starfsmannanna, og skal honum því veittur aðgangur að þeim.

Í fyrri efnisgrein af tveimur á bls. 14 (línum 6-19 á blaðsíðunni) er fjallað um tvo nánar tilgreinda starfsmenn stofnunarinnar. Fyrir liggur að starfsmennirnir hafa veitt samþykki sitt fyrir því að kærandi fái aðgang að upplýsingum í skýrslunni sem þá varða. Hafi einstaklingar sem gögn varða lýst því yfir að þeir geri ekki athugasemd við að gögnin séu afhent þriðja aðila geta stjórnvöld almennt ekki synjað um aðgang að gögnunum með vísan til hagsmuna þessara einstaklinga. Því ber Þjóðskjalasafni að veita kæranda aðgang að þessum upplýsingum.

Síðari efnisgreinin á bls. 14, sem lýkur í efstu línu á bls. 15, felst að mestu leyti í frásögn meints geranda af samskiptum kæranda við aðra starfsmenn stofnunarinnar. Frásögnin felur í sér lýsingu á atvikum þar sem kærandi sjálfur var þátttakandi. Að mati úrskurðarnefndar er ekki ástæða til að takmarka aðgang kæranda að efnisgreininni. Hins vegar er í efnisgreininni fjallað stuttlega um tvo starfsmenn stofnunarinnar. Annar þeirra lagðist gegn því að kærandi fengi aðgang að upplýsingum er vörðuðu sig. Ekki barst svar frá hinum starfsmanninum við afstöðubréfi úrskurðarnefndar til hans og liggur því ekki fyrir samþykki hans fyrir að upplýsingar er hann varði verði veittar kæranda. Þar koma fram upplýsingar um persónuleg einkamálefni viðkomandi starfsmanna, og telur úrskurðarnefnd að hagsmunir þeirra af því að ekki sé heimilaður aðgangur að umræddum setningum vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Því skal afmá annars vegar setningu í annarri línu efnisgreinarinnar (línu 21 á blaðsíðunni) og hins vegar setningu í áttundu línu efnisgreinarinnar (línu 27 á blaðsíðunni).

Í fyrstu efnisgrein af þremur á bls. 15 og á einum stað í annarri efnisgrein á sömu blaðsíðu er aftur að finna umfjöllun um annan tveggja starfsmanna sem veitt hafa samþykki sitt fyrir því að kærandi fái aðgang að upplýsingum í skýrslunni hvað sig varði. Af þeirri ástæðu skal veita kæranda aðgang að þessum tveimur efnisgreinum í heild sinni. Í fyrstu efnisgrein á bls. 16 er aftur fjallað um sama starfsmann, nánar tiltekið í línum 9-13, og skal einnig veita kæranda aðgang að þeirri efnisgrein.

5.

Hvað varðar kafla skýrslunnar sem ber nafnið „Samantekt frásagna samstarfsfólks“ telur úrskurðarnefndin að 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga geti ekki komið í veg fyrir aðgang kæranda að þessum kafla skýrslunnar, en þar er almennt fjallað um það sem fram kom í viðtölum við ónafngreinda starfsmenn og einstök atvik ekki rakin. Þær upplýsingar sem fram koma í þessum köflum teljast að mati úrskurðarnefndar ekki varða einkahagsmuni þess sem þar er fjallað um með þeim hætti að þær skuli undanþegnar aðgangi kæranda, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Því skal kæranda veittur aðgangur að þessum kafla skýrslunnar án útstrikana. Sömu sjónarmið eiga við um kaflann sem ber heitið „Samantekt máls“, og skal því einnig veita kæranda aðgang að þeim kafla án útstrikana.

Í kafla skýrslunnar með svörum B, hefur verið strikað yfir efnisgrein á bls. 20. Það er mat úrskurðarnefndar að hagsmunir þess starfsmanns sem þar um ræðir af því að ekki sé heimilaður aðgangur að efnisgreininni vegi þyngra en hagsmunir kæranda að fá aðgang að honum, sbr. ákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Í þeim hluta skýrslunnar sem ber heitið „Niðurstöður“ eru efnisatriði málsins dregin saman og heimfærð upp á skilgreiningu á einelti. Í kaflanum er jafnframt að finna skáletraðar lýsingar á mati skýrsluhöfunda á hverju atriði fyrir sig. Kærandi hefur fengið aðgang að kaflanum að undanskildum nokkrum setningum á bls. 25, þar sem finna má mat skýrsluhöfunda á framgöngu meints geranda. Eins og atvikum þessa máls er háttað er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að réttur kæranda af því að fá aðgang að matinu vegi þyngra en hagsmunir meints geranda af því að leynd ríki um upplýsingarnar, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í þessu sambandi skal haft í huga að kærandi bar fram kvörtun yfir því að hann hefði sætt einelti og hefur hann því hagsmuni af því að vita hvernig niðurstaða í kvörtunarmálinu var fengin.

Upplýsingar í þeim kafla sem ber yfirskriftina „Tillögur“ og strikað hefur verið yfir teljast að mati úrskurðarnefndarinnar ekki varða svo viðkvæm einkamálefni þess sem þar er fjallað um að hagsmunir viðkomandi vegi þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi að upplýsingunum, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Verður því að heimila kæranda aðgang að þessum skýrsluhluta á grundvelli 1. mgr. 14. gr. laganna.

Samkvæmt öllu framansögðu er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú sem fram kemur í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Þjóðskjalasafni Íslands er skylt að veita kæranda, A, aðgang að eftirfarandi hlutum skýrslunnar „Skýrsla vegna kvörtunar um einelti – Þjóðskjalasafn“, dags. 4. júlí 2014 sem honum var synjað um:
1. Kaflanum „Frásögn meints geranda“, bls. 12-16. Þó er stofnuninni skylt að afmá eftirfarandi efnisgreinar og setningar í kaflanum eins og hér segir:
a. Afmá skal setningu í línu 3-4 í fyrstu heilu efnisgreininni á bls. 12.
b. Afmá skal annars vegar setningu í annarri línu síðari efnisgreinar á bls. 14 (línu 21 á blaðsíðunni, hefst á orðinu „Við“ og endar á orðinu „ánægður“) og hins vegar setningu í áttundu línu hennar (línu 27 á blaðsíðunni, hefst á orðinu „Unga“ og endar á orðinu „garð“).
c. Afmá skal þriðju efnisgrein á bls. 16 (línur 18-23 á blaðsíðunni).
2. Kaflanum „Samantekt frásagna samstarfsfólks“, bls. 17-19.
3. Kaflanum „Svör B“, bls. 19-20. Þó er stofnuninni skylt að afmá eftirfarandi efnisgrein eins og hér segir:
a. Afmá skal fyrstu efnisgrein á bls. 20 (línur 1-3 á blaðsíðunni).
4. Kaflanum „Samantekt máls“, bls. 20-21.
5. Kaflanum „Niðurstöður“, bls. 22-26.
6. Kaflanum „Tillögur“, bls. 28.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir   Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta