766/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018
Úrskurður
Hinn 7. desember 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 766/2018 í máli ÚNU 18040007.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 2. mars 2018, kærði A, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, synjun Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) á beiðni um upplýsingar um heildarkostnað stofnunarinnar af aðgerð á B árið 2011 þar sem græddur var í hann plastbarki.Með tölvupósti til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. janúar 2018, óskaði kærandi eftir upplýsingum um heildarkostnað Sjúkratrygginga Íslands af aðgerðinni samkvæmt fjárhagslegu samkomulagi stofnunarinnar og Karolinska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi frá árinu 2011. Með svari, dags. 17. janúar 2018, var kæranda tjáð að SÍ gæti ekki tjáð sig um einstök mál vegna persónuverndar. Hins vegar var honum bent á skýrslu rannsóknarnefndar um málið, sem skipuð var af rektor Háskóla Íslands og forstjóra Landspítala, en í skýrslunni væri að finna umfjöllun um aðkomu SÍ að málinu.
Kærandi svaraði Sjúkratryggingum Íslands með tölvupósti, dags. 30. janúar 2018. Þar kom fram að kærandi teldi svar stofnunarinnar ófullnægjandi þar sem ekki kæmi fram á hvaða lagagrundvelli það væri byggt. Vísaði kærandi í því sambandi til V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl. Því næst tók kærandi fram að með vísan til markmiða upplýsingalaga nr. 140/2012 væri ljóst að málið varðaði almannahagsmuni; það samrýmdist markmiði laganna að upplýsa almenning um kostnað sem fallið hefði til vegna læknismeðferðarinnar og upplýsingar um slíkt brytu ekki gegn persónuvernd þess sem þegið hefði meðferðina. Um væri að ræða kostnaðarupplýsingar á grundvelli fjárhagslegs samkomulags SÍ og Karolinska háskólasjúkrahússins, sem vörðuðu meðferð opinberra fjármuna. Með afhendingu upplýsinganna ætti ekki að vera hægt að rekja þá læknismeðferð sem sjúklingurinn hefði hlotið, heldur aðeins að sjá heildarkostnaðinn sem fallið hefði til.
Með svari SÍ, dags. 2. febrúar 2018, var fyrri afstaða stofnunarinnar ítrekuð. Tekið var fram að SÍ tæki þátt í kostnaði vegna læknismeðferðar sjúkratryggðra einstaklinga erlendis þegar ekki væri unnt að veita meðferð hér á landi. Upplýsingar um heilsuhagi einstaklinga væru viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. lög um persónuvernd, og teldi SÍ sér því ekki heimilt að veita upplýsingar um meðferðir sem einstakir sjúklingar hlytu eða kostnað vegna þeirra. Því næst var tekið fram að SÍ hefði ekki tekið þátt í kostnaði vegna sjálfrar plastbarkaígræðslunnar, en hefði hins vegar samþykkt að taka þátt í kostnaði vegna annarrar meðferðar sjúklingsins. Stofnunin teldi sér hvorki heimilt að veita upplýsingar um hvað fólst í þeirri meðferð né hver kostnaður vegna hennar hefði verið. Að lokum var tiltekið að SÍ hefði ekki greitt fyrir eftirmeðferð sjúklingsins á Landspítalanum.
Málsmeðferð
Með bréfi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 12. apríl 2018, var kæran kynnt SÍ og stofnuninni veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.Í umsögn SÍ, dags. 26. apríl 2018, er vísað til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 þar sem fram komi að upplýsingar um heilsuhagi einstaklinga teljist viðkvæmar persónuupplýsingar og sérstök skilyrði gildi um vinnslu slíkra upplýsinga. Það geti verið mjög viðkvæmt mál fyrir veikan einstakling að almenningur fái upplýsingar um veikindi hans eða kostnað ríkisins vegna þeirra. Að því búnu er vísað til þagnarskylduákvæðis 51. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008, en þar sé kveðið á um að starfsfólki SÍ sé skylt að gæta þagmælsku um atriði er það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli máls. Því næst er tekið fram að þótt í máli þessu sé aðeins óskað eftir kostnaðarupplýsingum tengist þær óhjákvæmilega þeirri meðferð sem umræddur einstaklingur fékk. Á reikningum sem borist hafi SÍ komi fram lýsingar á þeirri meðferð sem sjúklingur hafi fengið hverju sinni. Að öðru leyti eru í umsögninni ítrekuð sjónarmið sem sett voru fram í hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndinni var jafnframt afhentur einn reikningur sem stofnunin kvað falla undir beiðni kæranda.
Með bréfi, dags. 2. maí 2018, var kæranda veittur frestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar SÍ. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 11. maí 2018. Þar er áréttað að ekki sé óskað eftir upplýsingum um sundurliðaðan kostnað við tiltekna læknismeðferð heldur eingöngu um heildarkostnað SÍ vegna læknismeðferðarinnar. Af þeirri ástæðu hafni kærandi þeirri fullyrðingu að um sé að ræða viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar heldur einungis upplýsingar um meðferð opinbers fjár. Málið hafi mikið verið til umfjöllunar í innlendum og erlendum fjölmiðlum, m.a. vegna mistaka sem gerð hafi verið í málinu. Með því að upplýsa um heildarkostnað við læknismeðferð í málinu sé varpað ljósi á kostnað íslenska ríkisins vegna þeirra mistaka. Að lokum kemur fram í umsögninni að Viðskiptablaðið telji að SÍ sé í lófa lagið að búa þannig um hnútana að upplýsingar um heildarkostnað verði afhentar án þess að hægt verði að sjá fyrir hvað var greitt.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um heildarkostnað SÍ í tengslum við læknismeðferð nafngreinds einstaklings. Ákvörðun stofnunarinnar um synjun beiðni kæranda byggðist á því að kostnaðarupplýsingarnar tengist óhjákvæmilega þeirri læknismeðferð sem viðkomandi einstaklingur fékk; þær varði því heilsuhagi hans og teljist þannig viðkvæmar persónuupplýsingar, sem stofnuninni sé óheimilt að veita aðgang að. Synjunin er m.a. rökstudd með vísan til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 51. gr. laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Það athugast að hvorugur lagabálkurinn takmarkar upplýsingarétt almennings samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 90/2018 og 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, en eftir atvikum er litið til ákvæða þeirra við skýringu ákvæða upplýsingalaga.Meginreglan um rétt almennings til aðgangs að gögnum kemur fram í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í 9. gr. upplýsingalaga er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings vegna einkahagsmuna. Nánar tiltekið kemur fram í 1. málslið greinarinnar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:
„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“
Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:
„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“
Samkvæmt framangreindri tilvitnun er ljóst að upplýsingar um heilsuhagi manna falla undir takmörkunarákvæði 9. gr. upplýsingalaga, og er í því sambandi bent á að slíkar upplýsingar teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga skv. lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, sbr. 3. tölul. 3. gr. laganna.
Það er mat úrskurðarnefndar að upplýsingar um heildarkostnað vegna læknismeðferðar tiltekins einstaklings teljist án nokkurs vafa til upplýsinga um heilsuhagi hans og teljist jafnframt að öðru leyti til upplýsinga um viðkvæm einkamálefni hans sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Aðgangur óviðkomandi að slíkum upplýsingum hefði í för með sér að unnt væri að afla upplýsinga um veikindi tiltekinna einstaklinga og umfang þeirra, jafnvel þótt eingöngu væri veittur aðgangur að upplýsingum um heildarkostnað, líkt og kærandi hefur beiðst aðgangs að í máli þessu. Það hefur hvorki þýðingu fyrir þessa niðurstöðu að kostnaður ríkisins vegna læknismeðferðar feli í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna né að málið hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, enda telur úrskurðarnefndin sjónarmið sem mæla með leynd vega mun þyngra en hagsmunir kæranda af aðgangi. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að möguleikar kæranda sem starfsmanns fjölmiðils til að miðla upplýsingum um opinber málefni hafi ekki verið skertir um of með synjun beiðni hans. Er þar litið til þess að umbeðnar upplýsingar hafa takmarkað upplýsingagildi með hliðsjón af umfangsmiklum upplýsingum um málið sem birst hafa opinberlega.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að staðfesta beri ákvörðun SÍ um synjun á beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun beiðni A, blaðamanns, um aðgang að upplýsingum um heildarkostnað stofnunarinnar í tengslum við aðgerð á B árið 2011 þar sem græddur var í hann plastbarki.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson