Hoppa yfir valmynd

769/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018

Úrskurður

Hinn 7. desember 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 769/2018 í máli ÚNU 18060008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 12. júní 2018, kærði A, blaðamaður Stundarinnar, ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra lögaðila sem tekið hafa leiguíbúðalán hjá stofnuninni.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi gert tilraunir til að fá upplýsingar frá Íbúðalánasjóði um það hvaða aðilar hafi tekið svokölluð leiguíbúðalán. Um ríkisstofnun sé að ræða sem veiti lánin í félagslegum eða samfélagslegum tilgangi, til að fjölga valmöguleikum á leigumarkaði. Horfa þurfi til þessa eðlis lánanna þegar tekin sé afstaða til þess hvort veita eigi upplýsingar um lántakendur. Ekki sé beðið um upplýsingar um einstaklinga. Almenningur eigi rétt á að vita hvaða lögaðilum Íbúðalánasjóður hafi lánað til að athuga hvort um misnotkun sé að ræða. Bent er á að nú þegar sé búið að greiða upp umtalsvert magn lánanna sem hafi því verið veitt til skamms tíma í raun en ekki langs tíma.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 5. júní 2018, er að finna svör við spurningum sem settar voru fram í beiðni kæranda. Hins vegar kemur fram að veittar séu almennar upplýsingar en ekki þær ítarlegu upplýsingar um nöfn lögaðila sem óskað hafi verið eftir. Það sé vegna þess að Íbúðalánasjóði sé hugsanlega ekki heimilt að veita ítarlegri upplýsingar um einstaka viðskiptamenn eða starfsmenn. Í báðum tilfellum sé hins vegar verið að skoða hvort hægt sé að veita þessar upplýsingar, enda telji sjóðurinn að það væri jákvætt skref að gera það.

Kærandi bendir á að það séu í raun opinberar upplýsingar hverjir séu lántakendur, þar sem Íbúðalánasjóður taki veð á 1. veðrétti í eignunum sem keyptar eru. Þannig sé um að ræða opinberar, þinglýstar upplýsingar sem Íbúðalánasjóður geti hjálpað fjölmiðli að fjalla um með því að gefa upp nöfnin á lögaðilum sem um ræðir. Kærandi óski því ekki eftir upplýsingum sem séu háðar bankaleynd á borð við bankalán til fyrirtækja.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 13. júní 2018, var kæran kynnt Íbúðalánasjóði og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún beinist að.

Í umsögn Íbúðalánasjóðs, dags. 27. júní 2018, segir að beiðni kæranda hafi verið synjað þar sem sjóðurinn teldi sér óheimilt að veita umbeðnar upplýsingar með vísan til 8. gr. f. í lögum um húsnæðismál nr. 44/1998. Það hafi verið metið svo að beiðnin lyti að upplýsingum um viðskiptamálefni viðkomandi félaga og félagasamtaka og því sé sjóðnum beinlínis óheimilt að miðla þeim nema til kæmi lagaskylda til að veita þær. Um sé að ræða sérákvæði um þagnarskyldu sem nái til upplýsinga er varða viðskiptamálefni lántaka sjóðsins. Ákvæðið byggi á og sé samhljóða 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 en úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ítrekað lagt til grundvallar í úrskurðum sínum að það sé sérákvæði laga um þagnarskyldu í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Vísar sjóðurinn til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 682/2017 í þessu sambandi. Þá hafi einnig verið litið til niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í dómi réttarins frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014. Loks telur Íbúðalánasjóður að hafa beri í huga að 9. gr. upplýsingalaga takmarkar almennt upplýsingarétt almennings þegar um sé að ræða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni aðila. Umsögninni fylgdi afrit af umbeðnum upplýsingum, þ.e. yfirliti um lögaðila sem gera verður ráð fyrir að teljist til lántaka leiguíbúðalána.

Með bréfi, dags. 4. júlí 2018, var kæranda kynnt umsögn Íbúðalánasjóðs og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust ekki.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum um lögaðila sem tekið hafa svokölluð leiguíbúðalán hjá Íbúðalánasjóði. Ákvörðun sjóðsins um synjun beiðni kæranda byggði annars vegar á því að umbeðnar upplýsingar væru undirorpnar sérstakri þagnarskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. f. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, en hins vegar á því að 9. gr. upplýsingalaga eigi við um þær.

Í fyrrnefnda ákvæðinu segir að stjórnarmenn Íbúðalánasjóðs, forstjóri, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu sjóðsins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni lántakenda sjóðsins, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Ákvæðinu var bætt við lög um húsnæðismál með lögum nr. 84/2012 og er efnislega samhljóða 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að sé sérstakt ákvæði um þagnarskyldu en ekki almennt, sbr. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir „efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga“, eins og segir í skýringum við 4. gr. frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum.

Að framansögðu verður lagt til grundvallar að 1. mgr. 8. gr. f. laga um húsnæðismál nr. 44/1998 feli í sér sérstaka þagnarskyldu að því er varðar upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni lántakenda sjóðsins. Upplýsingar um að tiltekinn lögaðili hafi tekið lán teljast tvímælalaust til viðskiptamálefna hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að jafnvel þótt umbeðnar upplýsingar varði í þessu tilviki ekki viðskiptahagsmuni sem telja verður sanngjarnt og eðlilegt að fari leynt, með hliðsjón af hagsmunum almennings af því að fá upplýsingar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs, þ.e. ráðstöfun opinberra hagsmuna, gerir 1. mgr. 8. gr. f. laga um húsnæðismál ekki ráð fyrir að slíkt mat fari fram við ákvörðun á því hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að þeim. Nægjanlegt er að upplýsingar varði viðskiptahagsmuni lántakenda Íbúðalánasjóðs til að þær falli undir orðalag ákvæðisins. Þar sem réttur almennings til aðgangs að umbeðnum upplýsingum er skýrlega takmarkaður með sérstöku þagnarskylduákvæði er úrskurðarnefnd um upplýsingamál nauðugur einn sá kostur að staðfesta hina kærðu ákvörðun um synjun beiðni kæranda.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun beiðni kæranda, A blaðamanns, um aðgang að upplýsingum um nöfn þeirra lögaðila sem tekið hafa leiguíbúðalán hjá stofnuninni.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta