Hoppa yfir valmynd

779/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019

Úrskurður

Hinn 5. apríl 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 779/2019 í máli ÚNU 18050022.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. maí 2018, kærði A synjun Vegagerðarinnar, dags. 3. maí 2018, á beiðni um aðgang að glærum sem tilgreindur starfsmaður Vegagerðarinnar sýndi í tengslum við erindi sem hann hélt á erlendri ráðstefnu. Synjun Vegagerðarinnar var byggð á því að glærurnar væru vinnugögn starfsmannsins.

Í kæru segir m.a. að Vegagerðin hafi afhent kæranda ráðstefnugrein sem starfsmaðurinn ritaði í tengslum við ráðstefnuna en að honum hafi verið synjað um aðgang að glærum sem starfsmaðurinn sýndi í tengslum við erindi hans á ráðstefnunni. Þá segir að þar sem glærurnar hafi verið birtar opinberlega á ráðstefnunni geti þær ekki talist vinnugögn. Einnig er vísað til þess að í ársreikningum einkafyrirtækis starfsmannsins komi ekki fram bókfærður kostnaður vegna ráðstefnuþátttöku og af því verði ekki annað ráðið en að Vegagerðin hafi kostað starfsmanninn á ráðstefnuna. Þar sem þátttaka hans á ráðstefnunni hafi verið kostuð af almannafé hljóti þeir sem á því hafi áhuga að eiga rétt á því að sjá það sem á borð var borið fyrir ráðstefnuþátttakendur.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 11. júní 2018, var kæran kynnt Vegagerðinni og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 26. júní 2018, kemur m.a. fram að starfsmaðurinn hafi ekki komið fram á ráðstefnunni sem fulltrúi og starfsmaður Vegagerðarinnar. Vegagerðin líti svo á að þátttaka viðkomandi starfsmanns á ráðstefnunni hafi verið hluti af sí- og endurmenntun hans. Ekki hafi verið um að ræða erlent samstarf sem starfsmanninum hafi verið skylt að taka þátt í á vegum Vegagerðarinnar eða almennan hluta af daglegu starfi hans, heldur fagráðstefnu sem starfsmaður hafi sjálfur tekið ákvörðun um að sækja sem lið í endurmenntun sinni, með samþykki Vegagerðarinnar. Vegagerðin telur engu skipta hvort starfsmaður hafi fengið heimild til að sinna endurmenntun í vinnutíma eða eftir atvikum fengið framlag vegna útlagðs kostnaðar, s.s. vegna ferðakostnaðar, ráðstefnu- eða námskeiðsgjalda. Með vísan til þessa telur Vegagerðin að glærurnar séu eign starfsmannsins en ekki Vegagerðarinnar og falli því ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laganna. Í umsögninni kemur einnig fram að Vegagerðin hafi óskað eftir afstöðu starfsmannsins til afhendingar gagnanna. Starfsmaðurinn telji gögnin vera persónulega eign sína og heimili ekki afhendingu þeirra. Með umsögninni fylgdu umbeðnar glærur.

Umsögn Vegagerðarinnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 4. júlí 2018, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Athugasemdir kæranda bárust 9. júlí 2018. Þar segir m.a. að það að halda erindi á ráðstefnu geti tæplega talist vera sí- eða endurmenntun, heldur sé þar verið að miðla þekkingu til annarra og fyrirlesarinn því í raun fremur í hlutverki kennara en nemanda. Kærandi telji ástæðuna fyrir því að starfsmaðurinn vilji ekki veita sér aðgang að glærunum vera þá að þar séu notuð gögn sem í raun séu vinna kæranda. Kærandi hafi því mikla hagsmuni af því að geta kynnt sér glærurnar.

Með tölvupósti, dags. 14. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir nánari skýringum Vegagerðarinnar vegna umbeðinna gagna í málinu, þar á meðal hvort gögnin væru vistuð í málaskrá stofnunarinnar eða hvort viðkomandi starfsmaður hefði einn haft umráð þeirra. Í svari Vegagerðarinnar, dags. 19. mars 2019, kom fram að glærurnar hefðu ekki verið vistaðar í málaskrá stofnunarinnar. Eftir að beiðni kæranda um afhendingu þeirra kom fram óskaði Vegagerðin eftir því við starfsmanninn að fá þær til skoðunar. Starfsmaðurinn sendi glærurnar með tölvupósti og óskaði eftir því að þær yrðu ekki afhentar kæranda.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að synjun Vegagerðarinnar á beiðni kæranda um glærur sem starfsmaður stofnunarinnar sýndi í tengslum við erindi sem hann hélt á erlendri ráðstefnu. Synjun Vegagerðarinnar er byggð á því að glærurnar séu eign starfsmannsins og falli því ekki undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. gr. laganna.

Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna er vísað til skýringa við ákvæði 1. gr. greinargerða með frumvarpi því sem varð að eldri upplýsingalögum, nr. 50/1996. Þar er rakið að lögin taki til þeirrar starfsemi sem heyri undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Fram kemur að af þessu leiði að gildissvið laganna sé afmarkað við starfsemi þeirra sem fari með stjórnsýslu og teljist til framkvæmdarvaldshafa samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Ekki skipti í grundvallaratriðum máli hvers eðlis sú starfsemi sé sem fram fari á vegum þessara aðila, heldur sé við afmörkun á gildissviði laganna fyrst og fremst litið til þess hvort viðkomandi aðili teljist samkvæmt formlegri stöðu sinni í stjórnkerfinu vera opinbert stjórnvald.

Ekki er vafi á því að Vegagerðin telst vera stjórnvald í skilningi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Eins og ákvæðið er orðað verður þó að gera þá kröfu til þess að gagn í vörslum stjórnvalda sé í einhverjum tengslum við þá starfsemi sem fer fram á vegum stjórnvaldsins. Er þá til þess að líta að starfsfólk kann að geyma á starfsstað ýmis gögn sem ekki tengjast starfi þeirra. Vegagerðin staðhæfir að erindi starfsmannsins á ráðstefnunni hafi ekki verið haldið á þeirra vegum heldur starfsmannsins sjálfs og þá sem hluti af sí- og endurmenntun hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu Vegagerðarinnar. Í því samhengi skal bent á skýringar Vegagerðarinnar til úrskurðarnefndarinnar um að umbeðin gögn hafi ekki verið vistuð í málaskrá stofnunarinnar heldur hafi þær aðeins verið í fórum viðkomandi starfsmanns.

Samkvæmt þessu verður að líta svo á að upplýsingalög taki ekki til þeirra glæra sem starfsmaðurinn sýndi í tengslum við erindið á ráðstefnunni enda hafi þátttaka hans á ráðstefnunni ekki verið á vegum Vegagerðarinnar. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 30. maí 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta