Hoppa yfir valmynd

780/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019

Úrskurður

Hinn 5. apríl 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 780/2019 í máli ÚNU 18110015.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 24. september 2018, kærði A svar Vestmannaeyjabæjar um að tiltekin gögn sem hann hafði farið fram á aðgang að lægju ekki fyrir.

Með erindi til Vestmannaeyjabæjar, dags. 23. ágúst 2018, óskaði kærandi eftir nöfnum umsækjenda í ýmsar stöður hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. Með bréfi, dags. 17. september 2018, var kæranda tilkynnt að sveitarfélagið hefði ekki fengið upplýsingar um umsækjendur enn sem komið væri.

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að bæjarstjóri haldi á eina hlutabréfi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Auk þess sé stjórn félagsins pólitískt kjörin af bæjarstjórn. Það verði því að teljast ótrúverðugt og nánast ómögulegt að bæjarstjóri og bæjaryfirvöld viti ekki hvað sé að gerast í félaginu.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. nóvember 2018, var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 26. nóvember 2018, kom fram að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. væri opinbert hlutafélag með sjálfstæða stjórn og starfandi framkvæmdastjóra. Þrátt fyrir að bæjarstjóri væri handhafi eina hlutabréfsins í félaginu væri starfsemi þess á ábyrgð stjórnar og stjórnenda félagsins, líkt og hjá öðrum opinberum hlutafélögum. Almennt væri ákveðið sjálfstæði slíkra félaga veitt í formi stofnfundargerða og eigendastefna. Meðan félagið starfaði án framkvæmdastjóra hefði bæjarfélagið ákveðið að senda upplýsingar um starfsemi félagsins þegar óskað var eftir þeim, en eftir að framkvæmdastjóri var ráðinn hefði þeim sem spyrðust fyrir um starfsemi félagsins verið beint til félagsins sjálfs. Eðlilegt væri að sjálfstætt starfandi félög og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga svöruðu sjálfar til um upplýsingar sem vörðuðu starfsemi þeirra.

Hvað varðaði beiðni kæranda um nöfn umsækjenda um störf hjá félaginu hefði Vestmannaeyjabær ekki óskað eftir þeim upplýsingum við Vestmannaeyjaferjuna Herjólf ohf. og félagið hefði sömuleiðis ekki sent bæjarfélaginu upplýsingarnar. Umbeðnar upplýsingar væru því ekki til í skjalasafni Vestmannaeyjabæjar, og hefði kæranda verið bent á það í fyrri bréfaskiptum.

Með bréfi, dags. 27. nóvember 2018, var kæranda kynnt umsögn Vestmannaeyjabæjar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi umsagnarinnar. Í umsögn kæranda, dags. 3. desember 2018, kom fram að bæjarfélaginu bæri að áframsenda viðkomandi erindi sín til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Fór kærandi fram á að úrskurðarnefnd um upplýsingamál áframsendi upplýsingar í umsögn Vestmannaeyjabæjar til rétts stjórnvalds með það í huga hvort á kæranda væru brotin lög um opinber skjalasöfn.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að nöfnum umsækjenda um ýmis störf hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. Vestmannaeyjabær heldur því fram að umbeðnar upplýsingar liggi ekki fyrir hjá sveitarfélaginu.

Réttur til aðgangs að gögnum tekur til fyrirliggjandi gagna tiltekins máls, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Vestmannaeyjabæjar að umbeðnar upplýsingar um nöfn umsækjenda í ýmis störf hjá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi ohf. séu ekki í fórum sveitarfélagsins. Af því leiðir enn fremur að ekki liggur fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum að þessu leyti. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarnefndin beinir því til kæranda að sjálfsagt sé að hann leggi inn nýja beiðni um þær upplýsingar sem deilt er um í þessu máli til Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Úrskurðarnefndin beinir því jafnframt til Vestmannaeyjabæjar að í samræmi við leiðbeiningarskyldu þá sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli sveitarfélagið framsenda erindi á réttan stað svo fljótt sem unnt sé, berist því skriflegt erindi sem ekki snertir starfssvið þess.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 24. september 2018, á hendur Vestmannaeyjabæ.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta