Hoppa yfir valmynd

782/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019

Úrskurður

Hinn 5. apríl 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 782/2019 í máli ÚNU 19040001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 31. mars 2019, kærði A synjun Héraðsdóms Reykjavíkur á beiðni hans um aðgang að upplýsingum, m.a. um fjölda þrotabúa sem tiltekinn lögmaður hefði fengið úthlutað á ákveðnu tímabili.

Með erindi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 8. janúar 2019, óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvaða þrotabú tiltekinn lögmaður hefði verið skipaður skiptastjóri í af hálfu dómstólsins síðastliðin tíu ár, hvenær lögmaðurinn hefði verið skipaður og upplýsingum um dagsetningar skiptaloka.

Með erindi, dags. 4. febrúar 2019, synjaði Héraðsdómur Reykjavíkur beiðni kæranda. Til stuðnings synjuninni var vísað til reglna dómstólasýslunnar um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólum, nr. 9/2018. Enn fremur var vísað til 9. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, um rétt til aðgangs að gögnum í gjaldþrotamálum. Í 1. mgr. greinarinnar kæmi fram að við héraðsdómstóla skyldu haldnar skrár um beiðnir og kröfur samkvæmt lögunum þar sem fram kæmu upplýsingar um afdrif þeirra, svo og um dómsmál sem væru rekin eftir ákvæðum laganna. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skyldi héraðsdómari veita þeim, sem þess krefðist og hann teldi hafa lögmætra hagsmuna að gæta upplýsingar úr skrám skv. 1. mgr. sömu greinar. Þar sem dómstóllinn teldi kæranda ekki hafa lögvarða hagsmuni af þeim upplýsingum sem hann óskaði eftir var beiðni hans um aðgang að gögnum hafnað.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar vísar kærandi til tölvupósts síns til dómstólsins, dags. 4. febrúar 2019, þar sem fram kemur m.a. að kærandi óski ekki eftir gögnum í gjaldþrotamálum, eins og fullyrt sé í svari dómstólsins, heldur upplýsingum um þau viðskipti sem beint hafi verið til nánar tilgreinds lögmanns með því að fela honum umsjón þrotabúa. Úthlutun þrotabús sé stjórnsýsluaðgerð sem almenningur hafi fyllsta rétt til að fá vitneskju um.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um fjölda þrotabúa sem tiltekinn lögmaður hefur fengið úthlutað á ákveðnu tímabili. Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum við greinina í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það leiði af orðalagi ákvæðisins að það sem ráði því hvort tiltekinn aðili falli undir ákvæðið sé formleg staða hans í stjórnkerfinu. Undir ákvæðið falli því einvörðungu þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljast til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Undir ákvæðið falli því ekki aðrir opinberir aðilar á borð við dómstóla. Með hliðsjón af þessu lítur úrskurðarnefndin svo á að gagnabeiðni kæranda til Héraðsdóms Reykjavíkur falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 31. mars 2019, vegna synjunar Héraðsdóms Reykjavíkur á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta