786/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019
Úrskurður
Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 786/2019 í máli ÚNU 18070010.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 28. júlí 2018, kærði A synjun [sveitarfélagsins B] um aðgang að lögfræðiáliti sem lagt var fram á fundi bæjarráðs.Á fundi bæjarráðs [sveitarfélagsins], dags. 23. júlí 2018, var tekið fyrir bréf frá kæranda, þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið endurgreiddi kæranda ákveðna upphæð, sem dregin hafði verið af launum kæranda á nokkurra ára tímabili. Bæjarráð hafnaði kröfunni og tilkynnti kæranda um það með tölvupósti samdægurs. Kærandi óskaði sama dag eftir öllum gögnum sem legið hefðu til grundvallar ákvörðun bæjarráðs. Í tölvupósti frá [sveitarfélaginu], dags. 27. júlí 2018, kom fram að á fundi bæjarráðs hefði verið lagt fram bréf kæranda auk lögfræðiálits í tengslum við það. Lögfræðiálitið fæli í sér samskipti við lögfróða aðila, sem ekki væri skylt að afhenda. Var kæranda því synjað um aðgang að álitinu.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 30. júlí 2018, var kæran kynnt [sveitarfélaginu] og frestur veittur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Jafnframt var þess farið á leit að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.Í umsögn [sveitarfélagsins], dags. 14. ágúst 2018, kom fram að málið snerist um greiðslur fasteignagjalda og þjónustugjalda, t.d. leikskóla- og tónskólagjalda. Kærandi héldi því fram að um ofgreiðslu fasteignagjalda væri að ræða og því ætti hann verulega fjárhæð inni hjá bænum. Kröfu kæranda var hafnað af bæjarráði á þeim grundvelli að staða kæranda á viðskiptareikningi bæjarins vegna fasteignagjalda væri 0 krónur. Að auki hefði [sveitarfélagið] gefið eftir kröfur gagnvart kæranda vegna vaxta og innheimtukostnaðar. Kærandi væri í verulegum vanskilum með fasteignagjöld á nokkurra ára tímabili.
Í bréfi kæranda sem tekið var fyrir á fundi bæjarráðs hafði komið fram að ef ekki yrði orðið við kröfu kæranda um endurgreiðslu innan tíu daga yrði leitað til lögfræðistofu til innheimtu kröfunnar með auknum kostnaði fyrir sveitarfélagið. Af því tilefni leitaði [sveitarfélagið] álits hjá lögmanni sem veitt hefur bænum lögfræðilega ráðgjöf. Með vísan til 3. og 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 8. gr. sömu laga, teldi [sveitarfélagið] sér ekki skylt að afhenda kæranda tölvupóstssamskipti sveitarfélagsins við lögmanninn.
Með bréfi, dags. 19. ágúst 2018, var umsögn [sveitarfélagsins] kynnt kæranda og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi umsagnarinnar. Í athugasemdum kæranda, dags. 29. ágúst 2018, kom fram að kærandi hefði reiknað út að [sveitarfélagið] hefði oftekið af launum sínum. Þeir útreikningar hefðu verið afhentir sveitarfélaginu og hefðu ekki verið dregnir í efa.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að lögfræðiáliti sem varð til hjá [sveitarfélagi B] vegna kröfu kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda. Synjun [sveitarfélagsins] var byggð á 3. og 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 8. gr. sömu laga.Ákvörðun [sveitarfélagsins] að hafna kröfu kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra opinberra gjalda telst vera stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeirri ástæðu fer um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem tilheyra stjórnsýslumálinu, þ.m.t. lögfræðiálitinu sem deilt er um í þessu máli, eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varði.
Í 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi því utan gildissviðs upplýsingalaga og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð:
Kæru A, dags. 28. júlí 2018, vegna synjunar [sveitarfélagsins B] um aðgang að lögfræðiáliti sem lagt var fram á fundi bæjarráðs 23. júlí 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson