800/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019
Úrskurður
Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 800/2019 í máli ÚNU 19020005.Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 11. febrúar 2019, kærði A afgreiðslu Grindavíkurbæjar á beiðni hans um upplýsingar um það hvers vegna hvorki stöðuleyfis- né fasteignagjöld væru lögð á tiltekin stakstæð hús á lóð Lambhúskots í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík. Í kæru kemur fram að Grindavíkurbær hafi svarað fyrirspurnum kæranda en að svörin hafi verið ófullnægjandi.Kærandi óskaði upphaflega eftir framangreindum upplýsingum 22. nóvember 2018. Vegna tafa á afgreiðslu beiðni kæranda leitaði hann til úrskurðarnefndar með erindi, dags. 21. desember 2018. Í umsögn Grindavíkurbæjar til nefndarinnar, dags. 14. janúar 2019, kom fram að fyrirspurn kæranda hafði verið svarað 10. desember 2018. Var mál kæranda í kjölfarið fellt niður hjá úrskurðarnefnd, á þeim grundvelli að umbeðnar upplýsingar hefðu verið afhentar kæranda.
Í kæru er vísað til þess að svör Grindavíkurbæjar frá 14. janúar 2019 byggist á ósönnum fullyrðingum, fölsuðum tilvitnunum auk rökleysu og svörum sem séu fyrirspurn kæranda óviðkomandi. Kærandi ítrekar svo ósk sína um að Grindavíkurbær svari efnislega framangreindri fyrirspurn sinni frá 22. nóvember 2018.
Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 13. febrúar 2019, var kæran kynnt Grindavíkurbæ og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Kærða var veittur framlengdur frestur til 7. mars 2019 til þess að skila umsögn um kæruna. Í umsögn Grindavíkurbæjar, dags. 4. mars 2019, kemur fram að öll gögn málsins sýni að fyrirspurn kæranda frá 22. nóvember 2018 hafi verið svarað á skýran hátt. Þá kemur fram að ákveðin atriði úr tölvupósti til kæranda, dags. 10. desember 2018, hafi verið leiðrétt með síðari tölvupósti, dags. 4. janúar 2019. Bent er á að ásakanir á hendur starfsfólki sveitarfélagsins heyri ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Því er hafnað að bæjarstjóri hafi falsað tilvitnun, enda hafi aðeins verið um að ræða orðalagsbreytingu á áður sendum tölvupósti.Umsögn Grindavíkurbæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. mars 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Kærandi skilaði ekki athugasemdum vegna umsagnarinnar.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Grindavíkurbæjar á beiðni um upplýsingar varðandi stöðuleyfis- og fasteignagjöld, nánar tiltekið útskýringu á því hvers vegna slík gjöld hafi ekki verið lögð á stakstæð hús sem standa á lóð Lambhúsakots í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.Af gögnum málsins er ljóst að fyrirspurn kæranda var svarað af hálfu Grindavíkurbæjar 10. desember 2018. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu í umsögn bæjarins frá 14. janúar 2019 sendi kærandi í framhaldi af því aðra fyrirspurn til bæjarins í tíu liðum, sem var svarað 4. janúar 2019.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Hvergi í gögnum málsins kemur fram að kæranda hafi verið synjað um aðgang að upplýsingum eða gögnum. Rétt er að taka fram að það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort sveitarfélag standi með réttum hætti að álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Vísast í því sambandi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og eftir atvikum umboðsmanns Alþingis.
Af þessu leiðir að ekki liggur fyrir synjun á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og verður því ekki hjá því komist að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð:
Kæru A, dags. 11. febrúar 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson